Velferðarráð - Fundur nr. 346

Velferðarráð

Ár 2019, miðvikudaginn 23. janúar, var haldinn 346. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:05. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudottir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Sigtryggur Jónsson, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. janúar 2019, þar sem tilkynnt er um að Hjálmar Sveinsson taki sæti í velferðarráði í stað Magnúsar Más Guðmundssonar.

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum.

    Fulltrúar Samfylkingainnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna fagna tillögum átakshóps um bætta stöðu á húsnæðismarkaði. Meðal fjörutíu tillagna sem ætlað er að auka framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði. Í tillögunum felast m.a aukning stofnframlaga í almenna íbúðakerfið, aukið samstarf um frekari uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága og hröðun á lagningu Borgarlínu. Þá stendur til að einfalda regluverk, lækka byggingarkostnað og auka leiguvernd. Mikilvægt er að samstaða myndist um að koma tillgögunum í framkvæmd sem fyrst. 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þeirri samstöðu sem náðist við vinnslu þessarar skýrslu um framboð í húsnæðismálum. Í mörg horn er að líta og margt jákvætt er í gangi. Áhyggjur eru engu að síður af þeim sem eru fjárhagslega illa settir og hafa hvorki ráð á að kaupa húsnæði né leigja. Miðborgin er sem dæmi að taka á sig sérkennilega mynd. Eins og staðan er núna eru sum hverfi borgarinnar býsna einsleit. Miðborgin og nágrenni hennar er að verða hverfi sem einungis stendur ríkara fólki eða ríkum til boða. Eignir miðsvæðis standa ekki láglaunafólki lengur til boða hvað þá fátæku fólki. Túristar njóta vissulega góðs af því lífi sem ríkir í miðbænum. Margt úthverfafólk kemur kannski helst í bæinn á tyllidögum og margir í úthverfum sækja alla þjónustu í hverfið sitt eða næstu verslunarmiðstöð. Fátæku fólki hefur verið úthýst úr miðborginni að áliti margra og einhverjir velta því sannarlega fyrir sér hvernig mál eiga eftir að þróast á þessu svæði í framtíðinni. Leggja þarf allt kapp á að byggja í sem flestum hverfum ólíkar tegundir af húsnæði á ólíku verðbili, allt frá dýrum eignum til eigna sem eru seldar eða leigðar á „viðráðanlegu“ verði. Ef íbúðir á viðráðanlegu verði og ódýrari íbúðir eru staðsettar með dýrum og dýrari eignum spyrnum við fótum við frekari stéttaskiptingu.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur skýrt fram að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Umhverfis- og skipulagssvið hefur fylgt þessari stefnu. Þau skilyrði eru sett í deiliskipulagi nýrra hverfa að þar skuli vera ákveðið lágmark lítilla íbúða og ákveðið hlutfall meðalstórra íbúða. Ástæðan er sú að verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra. Í skilmálum nýrra hverfa eru ákvæði um að að lágmarki 25% íbúða á nýbyggingarsvæðum skuli vera leigu eða búseturéttaríbúðir. Einng má nefna áherslu borgarinnar á samstarf við húsnæðisfélög sem eru ekki hagnaðardrifin svo sem Búseta, húsnæðisfélög stúdenta og aldraðra og síðast en ekki síst samstarf borgarinnar við verklýðsfélögin ASÍ og BSRB um uppbyggingu 1000 íbúða til langtímaleigu víðs vegar um borgina á næstu árum. Auk þess hafa borgaryfirvöld takmarkað uppbyggingu hótela í Kvosinni og við Laugaveg verulega til að stemma stigu við hótelvæðingu miðborgarinnar.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er í bókun sinni undir þessum lið ekki að tala um félagslega blöndun, þ.e. að tala sérstaklega um dreifingu félagslegra íbúða í borginni. Hér er verið að leggja áherslu á að blanda saman húsnæði til kaupa eða leigu á ólíku verðbili til að m.a. spyrna fótum við frekari stéttaskiptingu í borginni.

    Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, tekur sæti á fundinum 
    undir þessum lið.

  3. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  4. Fram fer kynning á verkefninu Karlar í skúrum – Heilsu- og virkniverkefni fyrir karlmenn.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er flott verkefni, aðalatriði er að veita aðstöðuna og leggja áherslu á að þetta er fyrir alla karla sem hafa áhuga á að vinna að áhugamálum sínum, verkefnum eða list sinni með öðrum körlum í skúr af hvaða orsökum sem það eru án þess að það þurfi að draga það sérstaklega fram. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að karlarnir sjálfir ákveði sínar reglur fyrir sinn skúr þegar þeir hafa myndað félag í kringum hann. Sjálfbærni og sjálfstæði skiptir miklu máli fyrir einingar sem þessar.

    Hörður Sturluson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á uppbyggingu hjúkrunarheimilis og félagsmiðstöðvar á Sléttuvegi.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ánægjulegt er að sjá hve vel uppbygging hjúkrunarheimilis og félagsmiðstöðvar við Sléttuveg hefur gengið eftir að samningar náðust og fagna fulltrúar meirihlutans því að nú styttist óðum í að sú mikilvæga starfsemi geti hafist.

    Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, Sigurður Garðarsson, framkvæmdarstjóri Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins og Jón Grétar Magnússon, verkefnastjóri hjá Sjómannadagsráði höfuðborgarsvæðisins taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  6. Lagðar fram tillögur starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga velferðarráðs fyrir árið 2019. Trúnaðarmál.
    Samþykkt.

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að sjá styrkjaúthlutanir velferðarsviðs til málefna en ýmsar mikilvægar styrkumsóknir fengu þó ekki styrk eða fá hluta upphæðarinnar sem þau sóttu um. Sósíalistar hefðu viljað sjá fleiri styrkumsóknir samþykktar og minna þar á tillögu þess efnis um að Reykjavíkurborg vinni að því að koma útsvari á fjármagnstekjur og aðstöðugjöld á fyrirtæki til að fjármagna öll þau mikilvægu verkefni sem sveitarfélögin sinna. Þar gæti Reykjavíkurborg leitað til hinna sveitarfélaganna í landinu með það að markmiði að mynda samstöðu til að beita sér fyrir því að aðstöðugjald verði aftur lögð á fyrirtæki og að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Aðstöðugjöld voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna og þess má geta að ef 1,3% aðstöðugjald hefði verið lagt á veltu tíu stærstu fyrirtækjanna sem voru með höfuðstöðvar sínar í Reykjavík árið 2017 hefði borgarsjóður fengið um 9,7 milljarða (þessu er ætlað að gefa grófa mynd af stöðunni en þar þarf að skoða ýmsa þætti, í útsvari er t.d. jöfnunargjald til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sjálfsagt að reikna með einhverju slíku í aðstöðugjaldi, þannig að tekjur dreifist til fleiri sveitarfélaga). Fjármagnstekjur bera ekkert útsvar líkt og launatekjur. Mikilvægt er að fyrirtæki og fjármagnseigendur greiði í sameiginlegan sjóð okkar. 

    Heiða Björg Hilmisdóttir og Kolbrún Baldursdóttir víkja sæti undir þessum lið.

  7. Fram fer kynning á lögfræðiskrifstofu velferðarsviðs.

  8. Kynning á mannauðsþjónustu velferðarsviðs.
    Frestað.

  9. Lagt fram yfirlit yfir lykiltölur velferðarsviðs, dags. 14. desember 2018, frá janúar til nóvember 2018.
    Frestað.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svör, dags. 22. janúar 2019, við fyrirspurnum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. nóvember 2018.

    Fulltrúi flokks fólksins leggur fram eftirfarandi bókun:

    Flokkur fólksins vill mótmæla með hvaða hætti svar við fyrirspurnum í lið 10 eru lögð fram. Öll svör við fyrirspurnum er sett í eitt skjal sem gerir það að verkum að þau eru illa aðgengileg. Nú er mikilvægt að hafa í huga að fundargerð sé aðgengileg öllum borgarbúum og að þeir sem vilja skoða mál/tillögur eða svör sjái þau fljótt og auðveldlega í fundargerðinni. Með þeim hætti sem þessu er stillt upp í lið 10 í dagskrá velferðarráðs 23. janúar eru svörin engan veginn aðgengileg.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    A. Hversu margir eldri borgarar verða af afslætti af fasteignagjöldum af þeim sökum að þeim er gert að flytja lögheimili sitt á sjúkrastofnun eða dvalarheimili tímabundið eða til lengri tíma? B. Hversu háar upphæðir er um að ræða og hvernig hefur niðurfelling fasteignaskatta áhrif á þennan hóp? C. Hver er rökstuðningurinn fyrir því að þessi háttur sé hafður á?

  12. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Hvernig er fyrirkomulag máltíða á rauðum dögum og um helgar fyrir eldri borgara sem eiga aðild að þjónustuíbúðum eða annarri þjónustu Reykjavíkurborgar?

Fundi slitið klukkan 16:56

Heiða Björg Hilmisdóttir Hjálmar Sveinsson

Alexandra Briem Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir