Velferðarráð
Ár 2019, miðvikudaginn 9. janúar, var haldinn 345. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Kerhólum Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 13:09. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Alexandra Briem, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudottir, Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sigurbjörg Fjölnisdóttir, Sigtryggur Jónsson, Agnes Sif Andrésdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 9. janúar 2019, að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð. Lagt er til að breytingar verði gerðar á 11. og 16. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn lagði fram tillögu við gerð fjárhagsáætlunar 2019 um að hækka fjárhagsaðstoð um 6% frá og með áramótum. Ákvörðunin var tekin í kjölfar greiningar á hækkun neysluvísitölu annarsvegar og launavísitölu hinsvegar og ákveðið í kjölfaið að hækka fjárhagsaðstoð umfram hefðbunda vísitöluhækkun, þar sem um framfærslu fólks er að ræða. Mikilvægt er að samhliða hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar verði áfram unnið að krafti að innleiðingu rafrænna umsókna um fjárhagsaðstoð hjá velferðarsviði með þjónustu við notendur að leiðarljósi.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsaðstoð til framfærslu er veitt þeim sem ekki geta séð sér farboða án aðstoðar. Eftir umræddar breytingar nemur grunnupphæð fjárhagsaðstoðarinnar allt að 201.268 kr. á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili en grunnupphæðin er breytileg eftir húsnæðisaðstæðum viðkomandi. Þær upphæðir eru ekki til þess fallnar að bæta viðkvæma stöðu þeirra sem framfleyta sér á henni og eru langt frá því að vera nóg til að tryggja að einstaklingar og fjölskyldur geti lifað mannsæmandi lífi. Sósíalistar myndu því vilja sjá grunnupphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu bundna við upphæð lágmarkslauna fyrir fullt starf, sem verkalýðsfélögin hafa nú sett við 300.000 kr. á mánuði. Þá telja sósíalistar einnig rétt að fjárhagsaðstoðin þróist í takt við hækkun lágmarkslauna. Þeir sem þurfa að lifa á fjárhagsaðstoð gera slíkt ekki nema að þörf sé á og ætti upphæðin að duga fyrir helstu nauðsynjum út mánuðinn en erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ætlast sé til þess að einstaklingur lifi sómasamlega á umræddri upphæð. Gert er ráð fyrir að vaxtabætur, húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur hjálpi til við að greiða húsnæðiskostnað en það er stuðningur sem einstaklingar á lágmarkslaunum fá einnig en slíkt dugar samt sem áður oft ekki til að láta enda ná saman.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:Fjárhagsaðstoð er tímabundin neyðaraðstoð og hefur Reykjavíkurborg verið með hæstu grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar á hverjum tíma. Mikilvægt er að því sé haldið til haga að þessari aðstoð er ekki ætlað að vera megin tekjustoð einstaklings til lengri tíma og hækkanir umfram það sem hér er farið í ættu að vera settar fram í samhengi við hvernig sú hækkun nýtist þeim hóp í að bæta stöðu sína og komast upp úr þeim fátæktargildrum sem þau kunna að vera stödd í hverju sinni.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins fagnar öllum hækkunum til þeirra sem búa við fjárhagsörðugleika og þurfa fjárhagsaðstoð. Þessar hækkanir hefðu þó mátt vera meiri en raun ber vitni. Hafa skal í huga að fyrir suma er þetta ekki tímabundið ástand heldur ástand til lengri tíma. Það er einfaldlega staðreynd. Fram kemur í reglunum að gert sé ráð fyrir að húsnæðiskostnaði sé mætt með greiðslu vaxtabóta, húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð. Það eru tilfelli þar sem fólk á ekki rétt á vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi. Sumir búa í ósamþykktu húsnæði sem dæmi, eru þar fastir, eiga ekki möguleika á að koma sér úr þeim aðstæður vegna annarra vandamála. Athuga verður að hafa í huga að enginn velur að vera í erfiðri stöðu eins og hér um ræðir.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsaðstoð borgarinnar er veitt þeim sem ekki geta séð sér farboða án aðstoðar og er ekki veitt nema að allar aðrar leiðir hafi verið kannaðar til hlítar. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er því síðasta úrræðið sem stendur einstaklingum til boða og er oft hugsuð sem öryggisnet til skemmri tíma en vegna aðstæðna sinna þurfa sumir að lifa á þessari upphæð til lengri tíma og mikilvægt er að upphæðin sé til þess fallin að einstaklingar og fjölskyldur búi aldrei við fátækt eða lendi í fátækrargildru.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 9. lið á fundargerð velferðarráðs frá 21. nóvember 2018, ásamt minnisblaði sviðsstjóra, dags. 9. janúar 2019.
- Kl.13:25 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Því miður hefur margt ekki farið á þann veg sem best yrði á kosið í gegnum tíðina, þegar litið er til útboðs á ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Mikilvægt er að veita sem besta þjónustu, sem fulltrúi sósíalista telur að yrði sennilega sem best komið á með fastráðnu starfsfólki, til að koma í veg fyrir mögulegt rask í þjónustunni.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirkomulag rekstrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks er í endurskoðun í samráði við þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem taka þátt í rekstri strætó. Þó breytinga kunni að vera þörf er ósennilegt að rekstri þjónustunnar sé best borgið með beinni yfirtöku borgarinnar, en það rekstrarform getur átt erfitt með að bregðast hratt við breytingum á rekstrarumhverfi. Mikilvægast er að uppfæra þjónustulýsingu og efla skipulag þjónustunnar til þess að þeir aðilar sem sjá um aksturinn séu í góðum samskiptum við þjónustuþega og skipulag þjónustunnar sé sem skilvirkast.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 12. desember 2018, er varðar aðhlynningu og virkniþjálfun við sjúklinga með heilabilun, ásamt minnisblaði sviðsstjóra dags. 9. janúar 2019.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með fimm atkvæðum gegn einu.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Ísland situr hjá við afgreiðslu.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Rétt er taka það fram að tillagan hefði mátt vera skýrari þar sem ekki er endilega verið að tala um hjúkrunarheimili heldur félagsstarf í dagþjónustu sem hefði svo sem átt að vera meirihluta velferðarráðs ljóst. Til að árétta er hér ekki verið að tala um endurhæfingu heldur virkniþjálfun og færnigetu fólks með ólæknandi sjúkdóm. Tillagan fjallar um að bæta félagsstarf sem er á forræði velferðarsviðs ýmist á félagsmiðstöðvum/þjónustumiðstöðvum. Borgin hefur fækkað einhverjum störfum t.d. leiðbeinenda í félagsstarfi sem gert hefur mál verri. Skynörvun, færniþjálfun, hreyfing og útivera gefur ekki bara lífi þessara sjúklinga meira gildi heldur getur hægt á þróun sjúkdómsins. Þjónustuna þarf bæði að auka og gera fjölbreyttari. Hægt er að gleðja og virkja þennan hóp með margs konar hætti. Til dæmis með heimsóknum gæludýra, jafnvel með heimsóknum leikskólabarna, eða með því að skipuleggja heimsóknir grunnskólabarna sem gætu lesið fyrir fólkið og spjallað við það. Áður hefur verið talað um hannyrðir og föndur og bakstur eða matseld gæti glatt einhverja. Velferðarsvið er hvatt til að líta á þessi mál jákvæðari augum og leggja sig mun meira fram en gert hefur verið. Margir aðstandendur hafa haft samband og upplýst um að mál eru ekki í nægjanlega góðum farvegi. Hægt er að hugsa út fyrir boxið og leggja sig mun betur fram til að bæta lífsgæði fólks með heilabilun.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan tekur til hjúkrunarheimila og ábyrgð á starfsemi þeirra er á forræði ríkisins. Engin kröfulýsing er nú í gildi á vegum ríkisins og sannarlega ástæða til að hvetja til þess að hún verði gerð og að kröfur þar og daggjöld verði samræmd. Mjög varasamt er að ætla félagsþjónustu sveitarfélaga að fara inn á svið heilbrigðisþjónustu án þess að sú þjónusta sé hugsuð frá upphafi til enda sem heilbrigðisþjónusta.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að það sé ekki á forræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að gera breytingar á þjónustunni, svo sem að auka virkniþjálfun en að velferðarráð geti að sjálfsögðu hvatt til þess að horft verði á mikilvægi virkniþjálfunar fyrir þennan hóp eldri borgara sem dvelur á hjúkrunarheimilum. Fulltrúi sósíalista tekur undir slíka hvatningu og vill hér með koma því á framfæri.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í bókun Flokks fólksins í málinu er það viðurkennt að í tillögunni var talað um hjúkrunarheimili en vissulega var verið að tala einungis um störf sem eru á forræði borgarinnar. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem aðaláhersla meirihlutans í andsvörum hafi snúist um þetta atriði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill hvetja meirihlutann til að horfa fyrst og fremst á hvernig hægt er að þjónusta borgarbúa betur og þá ekki hvað síst þennan hóp sem um ræðir sem eru einstaklingar með heilabilun í stað þess að festa sig í aukaatriði sem þessu sem auk þess hafði verið viðurkennt að orða hefði mátt betur eða öðruvísi af borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 12. desember 2018, um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarsviðs í tengslum við reglugerð nr. 1200/2016 með síðari breytingum á grundvelli laga um húsnæðisbætur.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að húsnæðisstuðningur sé skoðaður heildstætt, bæði skerðingarhlutfall, vísitölutenging og hámarks upphæð. Þá þarf að taka til greina væntanlegar breytingar á reglugerð, nánari rýningu og á núverandi útfærslu sérstaks húsnæðisstuðnings. Því er tillögunni vísað til meðferðar velferðarsviðs þar sem farið verði yfir möguleika á útfærslu í stærra samhengi.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Sósíalistaflokksins tekur vel í það að tillögum um útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings sé vísað til frekari meðferðar sviðsins.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 12. desember 2018, um breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarsviðs í tengslum við reglugerð nr. 1200/2016 með síðari breytingum á grundvelli laga um húsnæðisbætur.Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní 2018 og sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs frá 25. september 2018, og 7. lið fundargerðar velferðarráðs frá 12. desember 2018, ásamt umsögn öldungaráðs Reykjavíkur, dags. 7. janúar 2019.
Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um frestun á tillögunni felld með 5 atkvæðum gegn 2.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 1.
Fulltrúar Sósíalistaflokks Ísland og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins er nokkuð undrandi yfir umsögn öldungaráðsins sem segir að ekki sé þörf á skipun hagsmunafulltrúa fyrir aldraða, m.a. vegna þess að nú sé starfandi umboðsmaður borgarbúa sem fara eigi með málefni eldri borgara. Því sé ekki þörf á sérstökum hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða. Borgarfulltrúi vill í þessu sambandi koma því á framfæri að á fundi Korpúlfa kom Umboðsmaður borgarbúa í heimsókn og ræddi við fólkið. Fyrir liggur að Umboðsmaður borgarbúa nær ekki að anna öllum þeim verkefnum sem honum hefur verið falið að sinna, svo sem fræðslu og kennslu og frumkvæðisathugunum, vegna þess mikla málafjölda sem ratar inn á borð hans. Þá neyðist embættið til að forgangsraða verkefnum og málsmeðferð getur verið löng. Ljóst má vera að embættið þarf fjármagn og mannafla til að anna öllum þeim málum sem það fæst við og ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði að kynna starfsemi embættisins og auðvelda og hvetja hópinn til að leita til þess um hagsmunagæslu og réttarvernd. Í ljósi nýrrar rannsóknar Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kom ekki einungis fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar heldur voru sumir einnig vannærðir. Þetta eru ekki fyrstu upplýsingarnar á árstímabili sem berast um vannæringu og einangrun eldri borgara. Þess vegna skyldi ætla að velferðarsviðið sem og öldungaráðið hefðu viljað styðja þessa tillögu heilshugar eða í það minnsta viljað skoða að finna henni farveg. Sífellt er verið að fullvissa borgarana um að fylgst sé vandlega með einstaklingunum en nú hefur verið staðfest að betur má ef duga skal. Vandinn sem snýr að þessum hópi er stór enda uppsafnaður til margra ára.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með vísan til umsagnar öldungaráðs Reykjavíkurborgar telja fulltrúarnir ekki þörf á sérstökum hagsmunafulltrúa aldraðra umfram þá hagsmunagæslu sem fram fer í öldungaráði, en þar sitja fulltrúar hagsmunasamtaka eldri borgara, og hjá umboðsmanni borgarbúa, en það embætti er til hagsmunagæslu fyrir alla borgarbúa óháð aldri. Skipan sérstaks fulltrúa eins og lagt er fram í tillögunni myndi skapa óvissu um hlutverk öldungaráðs og um verkaskiptingu milli þess og umboðsmanns borgarbúa. Þó er mikilvægt að árétta að til þess að þessir aðilar geti sinnt sínu hlutverki er mikilvægt að íbúar séu upplýstir um tilvist þeirra og hlutverk og ávallt til skoðunar um hvernig megi styrkja og efla samráð við eldra fólk í borginni.
Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á að einstaklingar sem eiga í hlut komi beint að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar um mál er varða þá og finnst mikilvægt að tryggja beina aðkomu þeirra að fundum Reykjavíkurborgar þar sem umræður og ákvarðanir eru teknar um málefni er varða þá. Sem dæmi mætti bjóða öldruðum borgarbúum jafnt sem fulltrúum allra hagsmunaaðila aldraðra í Reykjavík oftar á fundi ólíkra ráða borgarinnar sem taka fyrir málefni er viðkoma eldri borgurum.
Fylgigögn
-
Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 9. janúar 2019, við bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 10. október 2018.
Fylgigögn
-
Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3811/2017.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á skýrslu verkefnisstjórnar vegna aðgerða til úrbóta í barnaverndarstarfi og þjónustu fyrir börn og unglinga, dags. 31. desember 2018.
Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjafadeild HÍ, Hákon Sigursteinsson, framkvæmdarstjóri, Bryndís Ósk Gestsdóttir, félagsráðgjafi og Stefanía Sörheller verkefnastjóri, taka sæti undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Kynning á mannauðssþjónustu velferðarsviðs.
Frestað.
Fundi slitið klukkan 16:30
Heiða Björg Hilmisdóttir Magnús Már Guðmundsson
Alexandra Briem Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir
Sanna Magdalena Mörtudottir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir