Velferðarráð - Fundur nr. 343

Velferðarráð

Ár 2018, miðvikudaginn 12. desember, var haldinn 343. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst klukkan 10:23. Viðstödd voru . Fundarritari:

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 10. desember 2018, að breytingum á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis. Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis, sem samþykkt var í borgarráði 24. ágúst 2017:

    Að áfangaheimili með stuðningi, þjálfun og kennslu fyrir einstaklinga með þroskahömlun og skyldar raskanir í þjónustuflokki I, sem gert er ráð fyrir í 1. áfanga áætlunarinnar verði breytt í íbúðakjarna í þjónustuflokki I.
    Að íbúðakjarni fyrir einstaklinga með geðfötlun og fíknivanda í þjónustuflokki III, sem gert er ráð fyrir undir 3. áfanga, verði færður undir 1. áfanga.
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt samhljóða.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í meirihlutasáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er kveðið á um að komið verði á fót búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíkinvanda. Fulltrúarnir fagna því þessari breytingu á uppbyggingaráætlun um sértæk búsetuúrræði þar sem þessu verkefni er flýtt enda er um mikilvægt verkefni að ræða.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði lýsir yfir ánægju með þá ákvörðun um að flýta uppbyggingu á íbúðakjarna fyrir einstaklinga með geðfötlun og virkan fíknivanda. Skortur hefur verið á slíku úrræði fyrir konur innan Reykjavíkurborgar. Mikilvægt er að forgangsraða verkefnum í þágu viðkvæmustu þjónustuþega velferðarsviðs.

    Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 3. desember 2018, um niðurlagningu herbergjasambýlis að Vesturbrún 17:

    Lagt er til að herbergjasambýlið að Vesturbrún 17 verði lagt niður vegna vaxandi færniskerðingar, aðgengisvanda og bágs heilsufars íbúa. Jafnframt er lagt til að íbúar sambýlisins, fjórir talsins, fái tilboð um búsetu í nýjum íbúðakjarna fyrir aldrað fatlað fólk í Þórðarsveig 1-5. 
    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt.

    Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá og leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ekki tryggt ef marka má umræðu um þetta mál að fólkið sem hér um ræðir sé fullkomlega sátt við flutninginn og að full sátt sé hjá hverjum og einum varðandi hið nýja húsnæði. Liggja þarf fyrir staðfesting frá hverjum og einum þar sem fram kemur að viðkomandi hafi verið upplýstur um ástæður flutningsins og geri sér grein fyrir hvað bíður er við kemur framtíðarhúsnæði. Aðlögun og sátt allra er grundvöllur fyrir því að stíga skref sem þetta enda stór breyting í lífi þessa fólks.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur samþykkt áætlun um niðurlagningu herbergjasambýla í samræmi við ákvörðun stjórnvalda þar að lútandi. Ljóst er að aðstæður í Vesturbrún eru ekki til þess fallnar að tryggja fullnægjandi þjónustu við íbúa auk þess sem aðgengi er ábótavant. Velferðarráð leggur áherslu á að samhliða breytingunum sé öllum íbúum tryggð áframhaldandi þjónusta í takti við þarfir hvers og eins. Flutningar af þessu tagi krefjast auk þess mikillar varfærni og samvinnu við íbúa og aðstandendur þeirra og ítreka fulltrúarnir þörf á að slíkt samráð verði haft að leiðarljósi við flutningana og treysta starfsmönnum og embætismönnum sviðsins fyllilega til þess.

    Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram rekstrarniðurstaða velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til september 2018.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram yfirlit dags. 10. desember 2018, um innkaup yfir milljón frá janúar til september 2018.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á skrifstofu fjármála og rekstrar á velferðarsviði.

  7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní 2018 og sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs þann 25. september 2018, ásamt umsögn skrifstofustjóra dags. 10. desember 2018.

    Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt.
    Frestað.

    Velferðarráð óskar eftir að tillagan verði send til umsagnar Öldungaráðs.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að fók megi taka mat í eigin umbúðum úr mötuneytum.

    Lagt er til að borgin hlutist til um að fólk fái að koma með sín eigin matarílát í mötuneyti eldri borgara. Þar með verði vikið frá því að eldri borgurum sem vilja taka með sér mat úr mötuneytum á vegum borgarinnar sé gert skylt að kaupa einnota umbúðir, bakka undir mat sem þeir taka með sér heim. Þessir bakkar eru óumhverfisvænir einnota bakkar eða dósir, eftir því hvort bitamatur er tekinn eða súpur, grautar.
    Tillaga felld. Flokkur fólksins greiðir atkvæði með tillögunni. 
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá. 

    Fulltrúi flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Krosssmit eru vissulega gild rök. En hvernig verður þannig smit til ef matarílátið sem gesturinn kemur með er aldrei snert með áhöldum afgreiðslumannsins og eða matur sé afhentur á öðrum stað ef komið er með ílát að heiman? Í þessu sambandi má vega og meta alla möguleika og vissulega þarf að gæta hreinlætis og taka sem minnsta áhættu. Það hækkar matarverðið til muna að afgreiða í umhverfisvænar umbúðir. Nefna má margt annað í þessu sambandi sem óttast mætti mun frekar. En svonefnt krosssmit fer fram með margvíslegum hætti til dæmis þegar verið er að borga með peningum. Fátt sem ber meiri bakteríur en peningar sem ganga á milli manna (handa). Einnig þó greitt sé með greiðslukorti, þar er sama smithætta. Það er mat borgarfulltrúa að borgin megi hvorki slaka á né hunsa að taka ábyrgð en e.t.v. er ótti hér óþarfur. Þessu má vel halda aðskildu. Margir eldri borgarar upplifa þetta sem valdníðslu af hálfu Reykjavíkurborgar á eldri borgara. Á það skal minnt að aldur er ekki sjúkdómur og hér er ekki verið að tala um sjúkrahúsaðstæður eða veikt fólk. Flokkur fólksins leggur til að þessi mál séu skoðuð með opnum huga og fordómalaust.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohlóðandi bókun:

    Mikilvægt er að huga að mögulegu krosssmiti í svo stóru eldhúsi sem um er að ræða á Vitatorgi, sérstaklega með tilliti til þess að oft er um viðkvæman notendahóp að ræða. Aldraðir eru útsettari en aðrir hópar fyrir alvarlegum veikindum af völdum smits sem orðið getur við gerð og dreifingu matvæla og því mikilvægt að tryggja að fyllsta hreinlætis sé gætt við gerð og flutning matvæla til þessa hóps. Að sama skapi er þó mikilvægt að leita leiða til þess að auka notkun umhverfisvænna umbúða án þess að slíkt komi niður á heilsu eldri borgara. Fulltrúarnir beina því þeim tilmælum til velferðarsviðs að útfæra tilraunaverkefni sem felur í sér notkun fjölnota umbúða og gerir notendum kleift að nota eigin ílát, að því tryggðu að sjónarmið um matvælaöryggi og heilsuvernd séu höfð til leiðsagnar.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 10. desember 2018, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 3. lið fundargerðar frá 24. október 2018 um biðlista vegna námskeiða.

    Fulltrú Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta eru sláandi tölur og með öllu óviðunandi ástand. Hér er verið að tala um óheyrilegan fjöld barna og foreldra sem bíða eftir að komast á nauðsynleg námskeið eins og PMT námskeið sem skipt getur sköpum fyrir foreldra við uppeldi barna sinna. Bið eftir foreldrafærnisnámskeiðinu PMT eru 309, Í hópmeðferð PMTO 116 krakkar, Í Klóka krakka 83 og í litla Klóka krakkar 54. Á námskeiðið Mér líður eins og ég hugsa bíða 45. Við þetta er ekki búið. Hér er komin enn ein staðfesting þess hversu flókið og stirt kerfi borgarinnar er í það minnsta sem snýr að þessum hluta. Að ekki sé hægt að anna þessu segir að skipulagið er ekki gott og skilvirknin lítil. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölmargar kvartanir frá svekktum foreldrum sem hafa beðið lengi eftir að börnin þeirra komist á námskeið sem þessi enda talin afar hjálpleg og gefandi fyrir börnin. Ekki skortir fagfólk til að halda þau en vissulega þarf fullnægjandi fjármagn sem borgarmeirihlutinn virðist ekki sjá ástæðu til að veita í þessi mikilvægu verkefni í þágu barna og foreldra.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á árinu 2018 hafa foreldrar 333 barna fengið námskeið á vegum velferðarsviðs, flestir PMTO (Parent Management Training Oregano) en meginmarkmið PMTO er að kenna foreldrum að nota styðjandi uppeldisaðferðir. Í dag eru 43 milljónir settar í námskeið og árinu 2019 er fjármagn aukið um 4 milljónir króna og verður alls 47 milljónir króna. Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 1. október síðastliðinn að fela velferðarsviði að hefja undirbúning að nýrri starfsemi sem haldi utan um alla stuðningsþjónustu á vegum sviðsins og er ráðgert að forgangsraða stuðningsþjónustu fyrir börn og unglinga og hefja nýja starfsemi á árinu 2019. Um er að ræða grunnþjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarlögum og viðameiri þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Með nýrri starfsemi verður allt fjármagn vegna stuðningsþjónustu fyrir börn og unglinga, m.a. vegna námskeiða sett á einn stað og markmiðið er að auka framboð af foreldrafærninámskeiðum, námskeiðum fyrir börn og hópastarfi.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar velferðarsviðs dags. 10. desember 2018, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins sbr. 3. lið fundargerðar frá 10. október 2018, um upplýsingar um í hve miklu mæli skólaþjónusta er veitt, annars vegar á vettvangi og hins vegar á þjónustumiðstöð.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kvartanir þess efnis að sálfræðingar í skólum borgarinnar séu víða enga veginn nægjanlega sýnilegir eru enn að berast. Þeir hafa ekki í öllum tilfellum kynnt sig börnunum og foreldrum þeirra og eru ekki að koma inn í mál sem talið er að eðlilegt að þeir gerðu í skólanum. Til dæmis má nefna að ef óskað er eftir að sálfræðingur sitji fundi með foreldrum með skömmum fyrirvara þá hefur það sýnst oft mjög erfitt. Varðandi húsnæði eru dæmi þess að skólasálfræðingur nýti aðstöðu skólahjúkrunarfræðings sem alla jafna er aðeins hálfan daginn í skólanum. Borgarfulltrúi er því ekki alveg að kaupa þessar skýringar að skortur sé á aðstöðu sé ástæða þess að skólasálfræðingur sé ekki með aðsetur í skólanum en vissulega gæti það verið í einhverjum tilvikum. Borgarfulltrúi hefur einnig setið fundi fyrr á árinu með nokkrum skólastjórum sem allir sögðust óska þess að sjá meira af skólasálfræðingnum. Hins vegar ber að fagna þeirri áherslu að auka viðveru sérfræðinga skólaþjónustu á vettvangi. Það er samt sem áður mat borgarfulltrúa að vel mætti einfalda þetta kerfi miklu meira og ganga skrefið til fulls að skólasálfræðingar borgarinnar verði raunverulegi hluti af starfsliði skólanna.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 10. desember 2018, um stöðu innleiðingar á Breiðholtslíkaninu, sbr. 9. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. október 2018.

     

    Fylgigögn

  12. Fram fer kynning á stöðu framkvæmdar tilraunaverkefnisins Sveigjanleiki – frá barni til fullorðins.

    Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram bréf velferðarsviðs til dómsmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins, ríkissaksóknara og Héraðsdóms Reykjavíkur vegna öryggisvistunar einstaklinga ásamt samningi velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Greiningarstöðvar ríkisins um öryggisvistun.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Velferðarráð tekur undir þær alvarlegu athugasemdir sem gerðar eru í bréfi velferðarsviðs til Dómsmálaráðuneytisins dags. 28. nóvember sl. vegna dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákærða í málinu bar að sæta vistun í sértæku úrræði Reykjavíkurborgar með gæslu allan sólarhringinn. Ljóst er að húsnæði á vegum sveitarfélaga er veitt íbúum þess á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Engin formleg skýring er til á því úrræði sem einstaklingar eru dæmdir til skv. 62 gr. hegningarlaga. Starfshópur var skipaður á árinu 2015 vegna framtíðarskipunar öryggisvistunarmála. Hópurinn skilaði niðurstöðum sínum ári seinna og vakti meðal annars athygli á nauðsyn þess að lög yrðu sett um rekstur slíkrar starfssemi. Velferðarráð ítrekar þá afstöðu sína að vistun þeirra einstaklinga sem um ræðir séu óviðunandi án skýrrar réttarheimildar. Ljóst er að rekstur öryggisvistana er á ábyrgð réttarvörslukerfisins en ekki á hendi sveitarfélaga sem sinna þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu og þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Mikilvægt er að þetta mál verði leyst að hálfu ríkisins sem fyrst.

    Fylgigögn

  14. Lagðar fram lykiltölur velferðarsviðs, dags. 5. desember 2018, fyrir janúar til október 2018.

    Fylgigögn

  15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að tengja sérstakan húsnæðisstuðning við vísitölu leiguverðs:

    Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands sem voru birtar 21. nóvember 2018, hækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,4% frá fyrri mánuði. Leiguverð hefur tekið miklum hækkunum að undanförnu og síðastliðna þrjá mánuði hækkaði umrædd vísitala um 3,6% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 9,6%. Því er lagt til að upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings uppfærist mánaðarlega í samræmi við vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt Þjóðskrá.
    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 14:47 Víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundi.

    Frestað. 

    Fylgigögn

  16. Lögð fram tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um breytingar á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings:

    Lagt er til að reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning verði breytt þannig að stuðningurinn byrji ekki að skerðast nema þegar húsnæðiskostnaður er undir 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Þá er einnig lagt til að þær breytingar hafi ekki neikvæð áhrif á þá sem mögulega greiða nú þegar undir 25% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað.
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  17. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi tillögu um opna móttöku velferðarráðs: 

    Lagt er til að velferðarráðsfulltrúar hafi opna skrifstofu sem hafi það hlutverk að taka á móti þeim er sækja sér þjónustu velferðarsviðs, hafa sótt um þjónustu sviðsins eða vilja koma á framfæri sínum málefnum og hugleiðingum er falla undir verksvið velferðarsviðs og velferðarráðs. Hlutverk móttökunnar verði það að leitast við að fá að heyra milliliðalaust þær raddir sem þekkja til málanna sem eru til umfjöllunar innan velferðarráðs. Markmiðið með opinni móttöku velferðarráðs verði að hlusta á raddir borgarbúa sem nýta sér þjónustu velferðarsviðs eða þjónustu sem er mótuð af velferðarráði eða gæti fallið þar undir. Með því að hlusta beint á þarfir þeirra einstaklinga og fjölskyldna vegna mála er heyra undir verksvið velferðarráðs tryggjum við það að fulltrúar ráðsins séu í beinum samskiptum við fólkið sem kemur til með að nota þjónustu velferðarsviðs. En sviðið annast framkvæmd velferðarþjónustu í umboði velferðarráðs. Velferðarráði er falið að útfæra hvenær og hvar skrifstofan yrði opin. 
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

  18. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu er varðar aðhlynningu og virkniþjálfun við sjúklinga með heilabilun:

    Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið endurskoði með það að markmiði að bæta og dýpka virkniþjálfun fyrir heilabilunarsjúklinga á hjúkrunarheimilum borgarinnar. Fólk sem glímir við heilabilun hrakar oft hratt og þá sérstaklega ef það fær ekki viðeigandi þjálfun. Fyrir þennan hóp hafa rannsóknir sýnt að með því að virkja fólk er hægt að hægja á sjúkdómnum, t.d. með ríkulegum samskiptum við það í orði og verki, með því að umönnun verði persónuleg og einstaklingsbundin og með því að virkniþjálfun, hvatning og örvun sé með fullnægjandi hætti.
    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

Fundi slitið klukkan 15:07