Velferðarráð - Fundur nr. 342

Velferðarráð

Ár 2018, miðvikudaginn 21. nóvember, var haldinn 342. fundur Velferðarráð. Fundurinn var haldinn í Efstaleiti 1, 103 Reykjavík og hófst klukkan 13:09. Viðstödd voru Heiða Björg Hilmisdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Kolbrún Baldursdóttir, Sanna Magdalena Mörtudottir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Sigtryggur Jónsson, Agnes Sif Andrésdóttir, Helga Jóna Benediktsdóttir, Elínrós Hjartardóttir og Dís Sigurgeirsdóttir sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
  2. Lögð fram tillaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. nóvember 2018 að fyrirkomulagi samstarfs um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

    Samþykkt að taka þátt í vinnu við undirbúning á áframhaldandi sameiginlegri ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu og málinu vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna telja mikilvægt að halda áfram með sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Margar gagnlegar ábendingar koma fram í niðurstöðum greiningar og tillögunum sem á þeim eru byggðar. Mikilvægt er að nýta þá reynslu sem myndast hefur innan þjónustunnar frá 2014. Forðast verður að endurtaka þau mistök sem þá voru gerð við innleiðinguna. Mikilvægt er að nýta reynslu notenda þjónustunnar og starfsfólks við breytt fyrirkomulag. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er of flókið og því er lagt til að þjónustan verði á einni hendi og áfram í umsjón Strætó bs. Meta verður með ítarlegri hætti kosti og galla þess að Strætó bs. sinni akstrinum, eða að stofnað verði sérstakt undirfyrirtæki utan um þá þjónustu, samhliða þvi að unnið verði áfram að útboði. Í tillögunum er auk þess lagt til að skipuð verði sérstök rekstrarstjórn sem verður að teljast til bóta frá núverandi fyrirkomulagi þar sem ábyrgðarsvið milli aðila hefur ekki verið nægilega skýrt. Áður en til breytinga kemur á þessari þjónustu, hvort sem hún er boðin út aftur eða framkvæmd með öðrum hætti, er nauðsynlegt að farið verði í endurskoðun þjónustulýsingarinnar í samráði við notendur og hagsmunasamtök, á vettvangi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

    Reynir Kristinsson, ráðgjafi hjá NOR ehf. tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Fram fara viðræður vegna reksturs Strætó bs.
    Ástríður Þórðardóttir, sviðsstjóri fjármála og reksturs hjá Strætó bs. og Erlendur Pálsson, sviðsstjóri farþegaþjónustu hjá Strætó bs. taka sæti undir þessum lið.
  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, dags. 20. nóvember 2018, um innheimtu gistináttagjalds hjá öðrum sveitafélögum í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar:
    Lagt er til að velferðarsviði verði falið að innheimta gistnáttagjald hjá sveitarfélögum fyrir gistingu í neyðargistiskýlum Reykjavíkurborgar, kr. 17.500 fyrir hverja gistinótt, þegar einstaklingur á lögheimili utan Reykjavíkur. Gjaldið verði innheimt ársfjórðungslega og fjárhæð taki breytingu miðað við vísitölu neysluverðs.
    Greinargerð fylgir tillögu.
    Samþykkt. Sviðsstjóra falið að fara með málið í formlegt samráðsferli innan sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu.
    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
    Reykjavíkurborg hefur um árabil staðið undir kostnaði við rekstur neyðargistiskýla án framlags frá öðrum sveitarfélögum þrátt fyrir að það hafi legið lengi fyrir að hluti þeirra sem þar gista eru einstaklingar búsettir utan Reykjavíkur. Árið 2017 voru 9% gesta í Gistiskýlinu við Lindargötu með lögheimili utan Reykjavíkur og 40% gesta í Konukoti. Í júní 2017 var undirritaður samningur við Hafnarfjarðarbæ um að veita einstaklingum með lögheimili í Hafnarfirði neyðargistingu meðan verið er að leita lausna á húsnæðisvanda þeirra. Að því tilefni óskaði velferðarráð eftir því að velferðarsvið gerði sambærilega samninga við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Velferðarráð fagnar framkominni tillögu og beinir því til nágrannasveitarfélaganna að standa undir kostnaði við þjónustu við sína íbúa. Mikilvægt er að öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sýni þá samfélagslegu ábyrgð gagnvart sínum íbúum líkt og Hafnarfjarðarbær hefur gert frá síðasta ári.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra, ásamt fylgiskjölum, dags. 19. nóvember 2018:

    Lagt er til að velferðarráð samþykki tillögu að nýjum reglum um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík.

    Greinargerð fylgir tillögu.

    Samþykkt að vísa tillögu í umsagnaferli.

    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri, Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri, Ólafía Magnea Hinriksdóttir, verkefnastjóri og Ásta Kristín Benediktsdóttir, deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 27. ágúst 2018, þar sem svohljóðandi tillaga Flokks fólksins er send velferðarráði, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst 2018 og 7. lið fundargerðar velferðarráðs 3. september 2018:

    Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á skilyrðum þess að hægt sé að sækja um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Í stað þess að umsækjandi þurfi að hafa átt lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár nægir að hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2 ár.

    Greingerð fylgir tillögunni.

    Tillagan felld.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú stendur yfir heildarendurskoðun á reglum um félagslegt húsnæði hjá Reykjavíkurborg. Öll sveitarfélög hafa einhver viðmið um búsetu þegar kemur að umsókn um félagslegt leiguhúsnæði en búsetuviðmið hefur verið frá einu upp í þrjú ár. Í þeim drögum sem nú liggja fyrir og vísað verður til umsagnar hagsmunaraðila er gert ráð fyrir 12 mánaða búsetu í Reykjavík sem er svipað og hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Gerðar eru undantekningar frá reglunum, t.d. ef fólk flytur til Reykjavíkur til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, eða ef einstaklingur hefur flutt frá Reykjavík í skamman tíma. Meiri háttar breyting á búsetuskilyrðum þyrfti að gerast í samráði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt var til að krafan um að hafa þurft að eiga lögheimili í Reykjavík síðastliðin tvö ár yrði aflögð þegar sótt er um félagslegt húsnæði í Reykjavík. Þetta ákvæði hefur reynst mörgum umsækjendum erfitt og spurning hvort þetta sé löglegt? Aðstæður umsækjenda eru oft erfiðar og því ætti að vera í lófa lagið að reyna að gera umsóknarreglurnar eins sanngjarnar og hægt er. Hafa skal í huga að á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélagi á meðan það bíður en vill ekki gera það af ótta við að falla út af biðlistanum. Það er þess vegna leitt að velferðarráðið hafi ekki séð þetta sömu augum og borgarfulltrúi Flokks fólksins. Það skilyrði að hafa búið á Íslandi stærsta huta ævi sinnar getur vel dugað í þessu tilliti. Flokkur fólksins telur best að fá endanlegt álit á þessu atriði hjá Umboðsmanni Alþingis.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 21. nóvember 2018, vegna skoðunar á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu með tilliti til vísitölu neysluverðs, launavísitölu og örorkulífeyris.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram lykiltölur dags. 14. nóvember 2018, fyrir janúar til september 2018.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að kanna gróflega hvernig útfærslu yrði háttað ef Strætó bs. sæi beint um ferðaþjónustu fatlaðs fólks:

    Lagt er til að kannað verði gróflega hvernig fyrirkomulag og rekstur vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks færi fram ef Strætó bs. sæi beint um þá þjónustu, með fastráðnu starfsfólki, í stað þess að bjóða verkið út.

    Frestað.
    -    kl.16:10 víkur Magnús Már Guðmundsson af fundi.

Fundi slitið klukkan 16:23

Heiða Björg Hilmisdóttir Alexandra Briem

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir