Velferðarráð - Fundur nr. 338

Velferðarráð

Ár 2018, miðvikudagur 10. október var haldinn 338. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:07 í Borgartúni 12-14. Fundinn sátu:, Elín Oddný Sigurðardóttir, Dóra Magnúsdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Alexandra Briem, Egill Þór Jónsson, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Dís Sigurgeirsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, og Elínrós Hjartardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

  2. Lagt fram svar skrifstofustjóra ráðgjafaþjónustu, dags. 18. september 2018, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks, sbr. 14. liðar fundagerðar velferðarráðs frá 17. ágúst 2018, um úrræði fyrir börn á grunnskólaaldri í Reykjavík með fíknivanda.
  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi barna að sálfræðingum sem vísað var til velferðarráðs á fundi borgarstjórnar 18. september 2018:

    Flokkur fólksins leggur til að borgin tryggi öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Ástandið hefur lengi verið slæmt í þessum efnum. Í nýrri skýrslu Embættis landlæknis kemur fram að almenn vanlíðan barna hefur aukist og aukning hefur orðið á tíðni sjálfskaða og sjálfsvígshugsana stúlkna. Borginni ber skylda til að tryggja öllum börnum biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Borgin getur axlað ábyrgð hér í mun ríkari mæli, annars vegar með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum í stað þjónustumiðstöðva og hins vegar með því að fjölga sálfræðingum í skólum. 

    Frestað.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eins og staðan er í dag er langur biðlisti eftir þjónustu skólasálfræðings bæði í forgang 2 og 3. Um er að ræða allt frá 3 mánuðum upp í 9 mánuði, misjafnt eftir hverfum. Borgarfulltrúi veit það fyrir víst vegna starfa hans sem sálfræðingur að fjölmargir foreldrar eru afar ósáttir með slakt aðgengi að skólasálfræðingi fyrir barn sitt. Börnin líða fyrir biðina. Jafnvel þegar búið er að ákveða að nánari greiningar er þörf þá þarf barn að bíða í allt að ár. Vissulega er einhver íhlutun í gangi en það dugar ekki til í öllum tilfellum þegar ekki er nákvæmlega vitað hverjar orsakir eru fyrir vanda og vanlíðan barns sem um ræðir. Færst hefur í vöxt að foreldrar hafa orðið að leita á stofu út í bæ með barn sitt sem stundum er komið í 8. og 9. bekk. Þá fyrst hefur komið í ljós að barnið á í sumum tilfellum við vitsmunaþroskafrávik að stríða, t.d. í vinnsluminni. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að tapa sjálfstrausti og sjálfsöryggi sínu. Það er skoðun borgarfulltrúans að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki í þessu tilliti og hamli enn frekar aðgengi barnanna að sálfræðingunum. Sálfræðingar með aðsetur í skólum að öllu leyti geta vel haldið áfram að vera í þverfaglegu starfi með þjónustumiðstöðvum að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Stefna skólaþjónustu Reykjavíkurborgar er að veita snemmtæka íhlutun, það er þjónustu sem næst börnum eins fljótt og auðið er óháð læknisfræðilegum greiningum. Sálfræðingar og aðrir sem starfa í skólaþjónustu eiga því að veita þjónustu sem mest í skóla barns, á heimili eða annars staðar þar sem barnið er. Velferðarráð óskar eftir upplýsingum um í hve miklu mæli skólaþjónusta er veitt, annars vegar á vettvangi og hins vegar í þjónustumiðstöð. Mikilvægt er að þjónusta sé samræmd milli sviða áfram og samstarf milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs sé vel samhæft og eins samstarf við stofnanir ríkis og þriðja geira. Nauðsynlegt er að nýta vel tíma og orku starfsfólks og koma í veg fyrir tvíverknað eða vinnu sem kemur ekki til með að nýtast. Þjónusta sérfræðinga skólaþjónustunnar þarf einnig að vera sýnileg og er það liður í því að börn og foreldrar viti af henni og þeim möguleikum sem í boði eru, og er viðvera sálfræðinga í skólum mikilvægur hluti þess sýnileika.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á endurhæfingateymum velferðarsviðs.

    Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á endurhæfingu við athafnir daglegs lífs í tengslum við samþætta heimaþjónustu í Reykjavík. Fyrsta teymið tók til starfa í mars 2018 og hefur því starfað í sjö mánuði. Áætlað er að innleiðingu verkefnisins verði lokið i öllum hverfum borgarinnar í nóvember 2019. Hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsi hefur rutt sér til rúms í heimaþjónustu á Norðurlöndunum og snýst um að virkja notendur þjónustunnar og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi. Nálgunin er frábrugðin hefðbundinni heimaþjónustu þar sem áherslan er á aðkomu sérhæðs starfsfólks og snemmtæka íhlutun. Teymið hefur nú þjónustað 133 einstaklinga á fyrstu sjö mánuðum verkefnisins. Af þeim 87 sem hafa útskrifast þurftu 40 enga þjónustu, 5 fengu heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, 3 hafa leitað til stofnanna og 39 fengu einungis félagslega heimaþjónustu. Árangur verkefnisins er ótvíræður og stuðlar að auknu sjálfstæði og sjálfræði notenda þjónustunnar þar sem þjónustan er mótuð í samráði við notendur. Velferðarráð fagnar þessum góða árangri og óskar eftir að fá að fylgjast með framvindu verkefnisins og innleiðingu þess í öll hverfi borgarinnar.

    Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, verkefnisstjóri og Sólveig Reynisdóttir, framkvæmdarstjóri taka sæti undir þessum lið.

  5. Lögð fram tillaga að seinni úthlutun úr forvarnarsjóði fyrir árið 2018.
    Samþykkt.

    Guðrún Halla Jónsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Fram fer kynning á skrifstofu málefna fatlaðs fólks.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að verið er að vinna gott starf á skrifstofu málefna fatlaðs fólks en borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verulegar áhyggjur af gríðarlega löngum biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða 173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni í ljósi þess að ný stuðningsþjónusta er að fara af stað vegna nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir að það hafi áhrif á þennan biðlista, hvernig áhrif, er ekki ljóst. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komnir eru nær þrítugu eru enn heima hjá foreldrum sínum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir alla fjölskylduna og einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi, en er hún nægjanlega metnaðarfull? Einstaklingar hátt í þrítugt og rúmlega það hafa sumir beðið í nokkur ár. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að það sé mjög brýnt að flýta uppbyggingaráætluninni þannig að þessir 173 einstaklingar komist í sjálfstæða búsetu með þann stuðning sem þeir þurfa. Í þessum málflokki á enginn biðlisti að vera.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna þakka fyrir greinagóða kynningu á skrifstofu málefna fatlaðs fólks. Fulltrúarnir taka undir þörfina fyrir það að nútímavæða þessa þjónustu í sem mestu samráði við notendur og í samræmi við hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Síðan borgin tók við þessum málaflokki fyrir 12 árum hefur mikið kapp verið lagt á að bæta þjónustuna, þrátt fyrir að það hafi verið á miklum aðhaldstíma. Frá árinu 2014 hafa verið opnaðir 7 íbúðakjarnar fyrir alls 37 íbúa og vill núverandi meirihluti leggja kapp á frekari uppbyggingu búsetumöguleika þar sem stutt er við sjálfstætt líf og dregið úr stofnanavæðingu þar sem það er hægt. Í fyrsta áfanga uppbyggingaráætlunar, sem samþykkt hefur verið mun á árunum 2018-2020 íbúðum vera fjölgað um 80. Í síðari áföngum mun bætast enn frekar við. Um 40-50 íbúðir 2021 og 2025 og um 40 að auki í þriðja áfanga árin 2026 til 2030. Ljóst er að með innleiðingu NPA mun þeim sem nýta sér sjálfstæða búsetu fjölga. Áhersla er lög á mesta fjölgun í upphafi uppbyggingaráætlunarinnar til þess að takast á við uppsafnaðan vanda.

  7. Fram fer kynning á málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

    Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdarstjóri og Magdalena Kjartandsdóttir deildarstjóri taka sæti undir þessum lið.

  8. Lagt fram svar skrifstofustjóra ráðgjafaþjónustu, dags. 3. október 2018, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundar velferðarráðs 25. september 2018 um réttindi hælisleitenda.

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að það líði oft langur tími þar til að barn umsækjenda um alþjóðlega vernd komist í leik- og grunnskóla. Þessi mál eru kannski ekki mörg og eru á vegum Útlendingastofnunar. Enda þótt þetta sé kannski ekki á ábyrgð borgarinnar heldur ríkisins er það ábyrgð okkar allra að grípa hér inn í. Í þessum dæmum eru foreldrar og börn kannski búin að vera lengi einangruð og einmana. Borgarfulltrúi vill að borgin/teymið hafi frumkvæði að fundi við Útlendingastofnun til að ræða þetta. Hér þarf að hafa hagsmuni barnanna í huga án tilllits til hvort það er líklegt að þau fái dvalarleyfi eða ekki. Dæmi eru um hvorutveggja, þ.e. jölskyldan sem er hjá borginni fái synjun þegar upp er staðið og fjölskylda hjá Útlendingastofnun fá samþykki. Öll börn umsækjenda eiga að fá skólagöngu hér á Íslandi á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Mikilvægt er að þau geti hafið skólagöngu sem fyrst. Annað stríðir gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eins og við öll vitum eru flestir umsækjendur um alþjólega vernd að koma úr skelfilegum aðstæðum. Því fyrr sem börnin komast í rútinu þar sem þau geta dreift huga sínum, hitt önnur börn og byrjað að upplifa barnæsku, jafnvel í fyrsta sinn, því betra.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Móttaka umsækjenda um alþjóðlega vernd og þjónusta við þá er á ábyrgð og forræði Útlendingastofnunar. Reykjavíkurborg hefur gert þjónustusamning við Útlendingastofnun um að þjónusta 200 einstaklinga. Í því felst að umsækjendum er tryggt húsnæði, framfærsla, heilbrigðisþjónusta og lyf, félagsleg ráðgjöf, samgöngur, túlkaþjónusta, tómstundir og fullorðinsfræðsla og skólavist fyrir börn. Reykjavíkurborg hefur byggt upp þekkingu á þjónustu við fólk í þessum aðstæðum og leggur kapp á að þjónustan sé góð og áreiðanleg. Það eru þó ekki allir umsækjendur um alþjóðlega vernd að fá þjónustu frá Reykjavíkurborg jafnvel þó þeir séu búsettir í Reykjavík þar sem Útlendingastofnun velur að þjónusta suma einstaklinga beint. 

    Fylgigögn

  9. Fram fer kynning á tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um undirbúning að breytingum á stuðningsþjónustu, sem samþykkt var í borgarstjórn 2. okótóber 2018.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar skrifstofustjóra þjónustan heim, dags. 2. október 2018, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. ágúst 2018, um einstaklinga sem eru í félagslegu leiguhúsnæði.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ljóst er að engin markviss stefna er hjá Reykjavíkurborg í að hjálpa einstaklingum af félagslega kerfinu. Aðeins 214 leigjendur hafa flutt úr félagslegum leiguíbúðum síðastliðin 10 ár eða um 21 leigjandi á ári. Í ljósi hve illa sú vinna hefur gengið er óskað eftir nánari upplýsingum á aðferðum sem er unnið eftir og hvaða verkfæri félagsráðgjafar hafa til þess að styðja einstaklinga í félagslega kerfinu aftur til sjálfshjálpar. Á meðan bíða um 1000 einstaklingar eftir félagslegu húsnæði.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar skrifstofustjóra þjónustan heim, dags. 2. október 2018, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 11. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. ágúst 2018, um einstaklinga sem glíma við fíkni- og geðvanda í félagslegri heimaþjónustu.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar skrifstofustjóra þjónustan heim, dags. 2. október 2018, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs 17. ágúst 2018, um úrræði fyrir fólk með tvíþættan vanda.

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um konur með fíknivanda.

Fundi slitið klukkan 16:37

Magnús Már Guðmundsson Alexandra Briem

Sanna Magdalena Mörtudottir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir