Velferðarráð - Fundur nr. 319

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn  2. nóvember var haldinn 319. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Elín Oddný Sigurðardóttir, Gunnar Alexander Ólafsson, Sverrir Bollason, Kristín Elfa Guðnadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Börkur Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi var: Gréta Björg Eiríksdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Eva Einarsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigtryggur Jónsson, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1.    Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

2.    Lögð fram tillaga, dags. 2. nóvember 2017, um fjárveitingu vegna neyðarástands í búsetuúrræðum barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir, ásamt minnisblaði, dags. 2. nóvember 2017 og bréfi til velferðarráðuneytisins, dags. 23. ágúst 2017. 

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og áheyrnarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Allt frá árinu 2013 hefur ríkt óvissa um stöðu hóps barna með alvarlegar þroska-og geðraskanir. Niðurstaða endurmats á tilfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga leiddi í ljós að um 400 milljónir króna vantaði frá ríkinu vegna málefna þessara barna. Í samkomulagi sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga í kjölfar endurmats féll málið enn og aftur milli skips og bryggju. Verkefnið hefur ekki enn verið að fullu fjármagnað í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og ljóst er að það vantar tæpar 290 milljónir í þjónustuna á árinu 2017. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga með stuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga, hafa engin svör borist við því hvernig ríkið ætlar að sinna sínum skyldum í þessum málaflokki. Fulltrúarnir ítreka mikilvægi þess að leysa málefni þessa hóps sem fyrst.

3.    Lagt fram minnisblað, dags. 2. nóvember 2017, vegna stuðningsþjónustu ¬; Launagreiðslur til starfsfólks, tölfræðiupplýsingar og biðlistar, sbr. bókun velferðarráðs frá 4. maí 2017.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar , Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja áherslu á að vinna við heildarendurskoðun á fyrirkomulagi stuðningsþjónustu verði sett í forgang. Mikilvægt er að samhliða nýjum lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og nýjum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga verði kláruð heildarendurskoðun á reglum um stuðningsþjónustu. Endurskoða þarf reglur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og samhliða því reglur um beingreiðslusamninga. Ljóst er að NPA mun með nýjum lögum taka við af beingreiðslusamningum hjá þeim sem eru með mikla þjónustu (a.m.k 80 tímar á mánuði). Þó svo að NPA þjónustan verði lögfest er mikilvægt að bjóða áfram upp á smærri beingreiðslusamninga fyrir þá sem ekki ná lágmarksviðmiði fyrir NPA þjónustu. Fulltrúarnir telja í því samhengi mikilvægt að mat á þjónustuþörf sé unnið miðlægt til að ekki skapist misræmi á mati eftir búsetu. Auk þess er eðlilegt að lækka þann tímafjölda sem viðkomandi þarf til þess að fá beingreiðslusamning eftir lögfestingu NPA en nú eru um 30% af þeim sem eru með beingreiðslusamninga undir 80 tíma lágmarki á mánuði. Auk þess er lagt til að í stuðningsþjónustu við einstaklinga sem fá hana á grundvelli laga um félagsþjónustu og barnaverndarlaga verði horft til þess verkefnis sem unnið hefur verið í Miðgarði-þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, þar sem unnið er með hópa sem leiddir eru af fagmenntuðu fólki. Þannig má þjónusta fleiri börn og skapa eftirsóknarverð störf í stuðningsþjónustu. Sviðsstjóra er falið að undirbúa stofnun starfshóps sem fylgir eftir heildarendurskoðun á stuðningsþjónustunni. Ljóst er að verkefnið er umfangsmikið og full þörf á að kanna möguleika þess að fá utanaðkomandi sérfræðing til að halda utan um þá vinnu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina telur í hæsta máta óeðlilegt hversu langan tíma endurskoðun á fyrirkomulagi stuðningsþjónustu og heildarendurskoðun á reglum um stuðningsþjónustu hefur tekið og telur eðlilegt að fólk sem þurfi á þessari þjónustu að halda hafi val um hvort að þjónustan sé veitt af velferðarsviði eða aðila sem þeir velja sér sjálfir til að veita þjónustuna.

4.    Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi umsýslu- og starfsmannakostnað inn í reglur um beingreiðslusamninga, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2017, ásamt minnisblaði um tillöguna, dags. 16. október 2017:

Velferðarráð samþykkir að breyta reglum um beingreiðslusamninga á þann hátt að gert sé ráð fyrir umsýslukostnaði á sama hátt og gert er með NPA samninga. Ljóst er að talsverður kostnaður hlýst af umsýslu ef um mikla þjónustu er að ræða og ástæða er til að tekið sé tillit til hans. Einnig verði reglum um beingreiðslusamninga breytt með hliðsjón af reglum um NPA á þann hátt að gert verði ráð fyrir útlögðum kostnaði sem hlýst af því að aðstoðarmaður fylgir notanda í lífi og starfi. Velferðarsviði verði falið að útfæra tillögu að breytingum á reglunum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Lagt er til að tillögunni verði vísað til heildarendurskoðunar reglna um stuðningsþjónustu og reglna um notendastýrða persónulega aðstoð.

Samþykkt með fimm atkvæðum Fulltrúa Samfylkingarinn, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænan og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

5.    Lagt fram til kynningar bréf velferðarsviðs til umhverfis og skipulagssviðs, dags. 30. október 2017, um að útvega lóðir vegna sértækra húsnæðisúrræða og íbúðakjarna.

6.    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að þeim notendum, og fjölskyldum þeirra þar sem við á, sem eru á biðlistum eftir stuðningsþjónustu vegna manneklu verði boðið að sjá sjálfir um að finna starfsmann til að sinna þjónustunni gegn beingreiðslusamningi við velferðarsvið.

Frestað.

 Fundi slitið kl.15.10

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)

Gunnar Alexander Ólafsson (sign)    Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Sverrir Bollason (sign)    Börkur Gunnarsson (sign)

Kristín Elfa Guðnadóttir (sign)