Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2017, fimmtudaginn 21. september var haldinn 316. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.09 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sverrir Bollason, Kristín Elfa Guðnadóttir og Börkur Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi var: Gréta Björg Eiríksdóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Dís Sigurgeirsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fram fer kynning sviðsstjóra á starfi velferðarsviðs á milli funda velferðarráðs.
- Kl. 13.13 tekur Áslaug María Friðriksdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúarnir ítreka áskorun borgarstjórnar frá 4. október 2016 og mikilvægi þess að lögfesta þjónustufyrirkomulagið NPA (notendastýrða persónulega aðstoð). Þriðja framlenging tilraunaverkefnisins um NPA rennur út núna um áramótin og hefur mikill kvíði og óvissa skapast hjá bæði þeim sem reiða sig á þjónustuna og ekki síður hjá þeim sem bíða eftir að þjónustan verði lögfest. Ljóst er að ekki þykir líklegt að tími gefist til að samþykkja heildarlög um málefni fatlaðs fólks fyrir kosningar og því er lögð áhersla á að lagt verði fram á Alþingi sérstakt frumvarp um NPA þjónustu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ríkisstjórn Íslands hafði fullan hug á því að innleiða löggjöf um NPA en það var á ábyrgð Bjartrar framtíðar að slíta því stjórnarsamstarfi. Sömu aðilar og nú kalla eftir því að aðrir taki ábyrgð. Sjálfstæðisflokkurinn styður innleiðingu NPA og þarf enga brýningu til þess.
2. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, sbr. 4. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2017.
Lagt er til að farið verði í tilraunaverkefni með að bjóða háskólanemum að leigja tvær þjónustuíbúðir í þjónustukjörnum fyrir aldraða, annars vegar í Lönguhlíð og hins vegar í Norðurbrún. Leigan væri án þjónustugjalda og hússjóðs gegn 40 tíma vinnuframlagi á mánuði sem greitt verði fyrir. Óskað er eftir að velferðarsvið formi tillögu um hvaða verkefnum háskólanemar gætu sinnt og hvernig forma megi leigusamning með þessum skilyrðum. Svona fyrirkomulag hefur reynst vel erlendis, skapað vettvang til samskipta kynslóða og auðveldað ráðningar í stuðningsþjónustu við aldraða.
Samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
3. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs frá 14. september 2017.
Velferðarráð samþykkir að breyta reglum um beingreiðslusamninga á þann hátt að gert sé ráð fyrir umsýslukostnaði á sama hátt og gert er með NPA samninga. Ljóst er að talsverður kostnaður hlýst af umsýslu ef um mikla þjónustu er að ræða og ástæða er til að tekið sé tillit til hans. Einnig verði reglum um beingreiðslusamninga breytt með hliðjón af reglum um NPA á þann hátt að gert verði ráð fyrir útlögðum kostnaði sem hlýst af því að aðstoðarmaður fylgir notanda í lífi og starfi. Velferðarsviði verði falið að útfæra tillögu að breytingum á reglunum.
Frestað.
Samþykkt að fela velferðarsviði að leggja fram minnisblað varðandi málið ásamt kostnaðarmati.
4. Lögð fram tillaga, dags. 13. september 2017, um samstarf við velferðarráðuneytið um rannsókn á aðstæðum fátækra barna á Íslandi, sbr. 6. lið í fundargerðar velferðarráðs frá 6. október 2016.
Samþykkt.
5. Lögð fram að nýju drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs fyrir tímabilið 2018-2022, sbr. 3. lið í fundargerðar velferðarráðs frá 1. júní 2017.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Óskað er eftir að velferðarsvið aðgerðabindi og tímasetji áherslur og forgangsröðun . Ítrekað er mikilvægi þess að fjárhagsáætlun endurspegli áherslur ráðsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Áherslur og forgangsröðun velferðarráðs næstu fjögur ár eru full fyrirheita. Engu að síður verður ekki séð að fjármagn til verkefna haldist í hendur við þau stóru og nauðsynlegu verkefni sem framundan eru. Ár eftir ár hefur meirihlutinn í Reykjavík lagt fram hvert plaggið á fætur öðru uppfullt af loforðum um betri tíð með blóm í haga en því miður eru efndirnar ekki nægar. Biðlistar lengjast og ástandið er að verða óbærilegt. Rauði þráðurinn í velferðarmálum Reykvíkinga er húsnæðisskorturinn. Skorturinn gerir fólki í borginni nánast ómögulegt að bjarga sér sjálft. Í því ástandi verða skjólstæðingar velferðarþjónustunnar enn verra úti en áður með fyrirsjáanlegum þrýstingi á félagslega íbúðakerfið eða neyðarþjónustu. Húsnæðisskorturinn kemur gríðarlega illa niðri á leigjendum og fjöldi þeirra á ekki í nein hús að venda. Viðkvæmustu hóparnir búa við algjöran skort á úrræðum, innflytjendur finna hvergi húsnæði, búa við illar aðstæður og barnafjölskyldur eru á hrakhólum á leigumarkaði. Ákvarðanir meirihlutans í húsnæðismálum hafa beinlínis stuðlað að því neyðarástandi sem ríkir í borginni og úrræðaleysi ríkir gagnvart þeim sem minnst mega sín í borginni.
6. Lögð fram að nýju drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs fyrir árið 2018 ásamt drögum að greinargerð fyrir fjárhagsáætlun.
Samþykkt.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.
Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
7. Lögð fram að nýju drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs fyrir árið 2018.
Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá í félagsstarfi samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá í heimaþjónustu samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum.
Samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna og útlagðs kostnaðar vegna dvalar hjá stuðningsfjölskyldu samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
Samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
8. Lagt fram yfirlit um innkaup yfir einni milljón kr. fyrir tímabilið janúar til júní 2017.
9. Lagður fram listi, dags. 14. september 2017, yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa á tímabilinu janúar til júní 2017.
10. Lögð fram tillaga ásamt minnisblöðum um innleiðingu á velferðartækni og rafrænni þjónustu, sbr. tillögu velferðarráðs undir 2. lið fundargerðar velferðarráðs frá 16. febrúar 2017 um kortlagningu tæknilausna og hvernig nýta má velferðartækni í þjónustunni.
Samþykkt.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu þjónustunnar heim, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
11. Lögð fram greinargerð, dags. 21. september 2017, um manneklu og viðbrögð við henni á velferðarsviði. sbr. lið 2 í fundargerð velferðarráðs frá17. ágúst 2017.
12. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til júní 2017.
13. Lagt fram upplýsingablað, dags. 27. júlí 2017, um fjárhagsaðstoð frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
14. Lagt fram upplýsingablað, dags. 23. ágúst 2017, um greiningu varðandi notendur velferðarsviðs með erlent ríkisfang.
15. Lögð fram til kynningar skýrsla fulltrúa samráðshóps um samstarf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar varðandi geðheilsuþjónustu til borgarbúa frá september 2017.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð fagnar skýrslu samráðshóps um stofnun geðheilsuteyma. Geðheilsustöð Breiðholts var fyrsta teymið á landinu með samþætta geð- og félagsþjónustu. Reynslan af starfssemi Geðheilsustöðvar Breiðholts sem sett var á laggirnar árið 2012 sýndi fram á mikilvægi samstarfs félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis. Í slíku samstarfi er mikilvægt að vinna út frá samfélagslegri nálgun og því að styðja einstaklinga í nærumhverfi sínu. Geðheilsuteymi fyrir efri byggðir er nú starfandi í Breiðholti. Undirbúningur að teymi fyrir Austurbæ, Miðborg og Vesturbæ er í fullum gangi og mun teymið hefja störf í janúar 2018. Velferðarráð vill ítreka mikilvægi þess að leggja áherslu á samþætta geð- og félagsþjónustu í nærumhverfi þeirra sem á þurfa að halda. Hér er stigið mikilvægt skref í þjónustu við fólk með geðraskanir sem búsett er í Reykjavík. Mikilvægt er að þjónustumiðstöðvar og velferðarsvið eigi góða samvinnu við geðheilsuteymin til að tryggja góða samþætta þjónustu líkt og gert hefur verið í Breiðholti.
Fundi slitið kl.16.07
Ilmur Kristjánsdóttir (formaður)
Sverrir Bollason (sign) Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)
Kristín Elfa Guðnadóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Áslaug Friðriksdóttir (sign)