Velferðarráð - Fundur nr. 312

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 22. júní var haldinn 312. fundur s og hófst hann kl. 13.07 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Örn Þórðarson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Regína Ásvaldsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning sviðsstjóra á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

2. Lagðar fram að nýju tillögur að úthlutun þvert á hverfi úr Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017, sbr. lið nr. 6 úr fundargerð velferðarráðs frá 1. júní 2017.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðslu málsins.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

3. Lögð fram að nýju drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs 2018 -2022, sbr. 3. lið fundargerðar velferðarráðs frá 1. júní 2017.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Á sama tíma og húsnæðisvandinn hefur aldrei verið meiri í Reykjavík leggur meirihlutinn fram drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs til næstu fjögurra ára þar sem meðal annars er áhersla á húsnæðismál eins og undanfarin ár, en efndir hingað til hafa verið litlar. Samtökin Barnaheill hafa vakið athygli allra borgarfulltrúa á áhyggjum samtakanna á þeim fjölda barna sem eru á hrakhólum vegna húsnæðisvanda, þar sem foreldrar eru húsnæðislausir, búa inni á ættingjum og eiga ekki eigið heimili. Aðstöðumunur barna í Reykjavík virðist því vera að aukast og mikilvægt er að bregðast við með ábyrgum hætti og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir vanlíðan og kvíða barna. Framsókn og flugvallarvinir taka undir áhyggjur Barnaheilla af því að fjölgun íbúðarhúsnæðis og almennra íbúða í Reykjavík taki of langan tíma og að ekki sé nóg að bjóða upp á húsnæðisbætur og fjárhagslegan stuðning ef að húsnæði er ekki til staðar og vonlaust að finna leiguhúsnæði.

Frestað.

4. Lagðar fram tillögur sviðsstjóra, dags. 22. júní 2017, um áfangaskipta uppbyggingaráætlun í sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk fyrir árin 2018-2030, ásamt greinargerð.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri húsnæðis- og búsetudeildar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

5. Lögð fram tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata um að afnema sumarlokanir á félagsmiðstöðvum velferðarsviðs en hafa þess í stað skerta opnunartíma í 3-4 vikur frá kl.10.00 til 14.00. Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lagt fram bréf frá hverfisráði Háaleitis- og Bústaðahverfis, dags. 22. maí 2017.

Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það gleðilegt að ekki verði af sumarlokunum á félagsmiðstöðvum velferðarsviðs. Hins vegar er enn gert ráð fyrir að þjónustan verði skert og því sitja þeir hjá. Þjónusta við aldraða á að vera algjört forgangsmál og ekki er hægt að skilja af hverju meirihlutinn í borginni tekur ekki undir þá stefnu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 var farið í umfangsmiklar hagræðingar hjá Reykjavíkurborg. Ein aðgerðin sem farið var í á árunum eftir hrun var að loka 5 af 16 mötuneytum á félagsmiðstöðvum velferðarsviðs í um 4 vikur á sumrin og vísa fólki á hin 11 mötuneytin eða bjóða því heimsendan mat. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að taka til baka sumarlokanir á félagsmiðstöðvunum fimm og hafa opið í mötuneytum félagsmiðstöðvanna frá kl. 10-14. Það vekur furðu að fulltrúar Sjálfstæðismanna styðji ekki þá tillögu þar sem þau fluttu tillögu þessa efnis í borgarstjórn fyrir tveimur dögum.

6. Fram fer kynning á viðhorfskönnun meðal starfsmanna velferðarsviðs.

Anna Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 22. júní 2017, um breytingu á opnunartíma þjónustumiðstöðvar Breiðholts.

8. Lagt fram uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til apríl 2017.

Jenný Stefanía Jensdóttir, fjármálasérfræðingur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til apríl 2017.

10. Lögð fram endurskoðuð tíma- og verkáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2018 – 2022 ásamt bréfi til borgarráðs, dags. 16. maí 2017.

11. Lagt fram minnisblað, dags. 16. júní 2017, um áhrif styttingar á greiðslutímabili atvinnuleysisbóta á fjárhagsaðstoð.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Þann 31. mars 2017 var lögð fram fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Eitt af þeim atriðum sem boðað er í áætluninni er stytting bótatímabils atvinnuleysisbóta úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Þetta er í annað sinn á þremur árum sem bótatímabilið er stytt um sex mánuði, síðast var það gert 1. janúar 2015. Það eru óásættanleg vinnubrögð að ríkið ákveði þessar skerðingar einhliða og án aðkomu og samvinnu við sveitarfélögin þar sem ljóst er að stytting bótatímabils mun auka útgjöld til fjárhagsaðstoðar.

12. Lagt fram minnisblað um stöðu mála varðandi velferðartækni, dags. 12. júní 2017, ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps um stefnumótun og aðgerðaáætlun í velferðartækni.

Samþykkt að fulltrúar velferðarráðs í hópnum verði Ilmur Kristjánsdóttir, sem jafnframt verði formaður, Magnús Már Guðmundsson og Áslaug María Friðriksdóttir.

13. Lögð fram drög að ársskýrslu velferðarsviðs fyrir árið 2016.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga velferðarráðs:

Í ljósi þess að samtökin Barnaheill hafa sent borgarfulltrúum áhyggjur sínar af stöðu barna vegna þess alvarlega húsnæðisvanda sem borgin glímir við leggur velferðarráð til að vísa beiðni félagsins til velferðarsviðs. Velferðarsvið skoði í framhaldinu beiðni félagsins um að gerð verði úttekt á stöðu barna, t.d. með því að kalla eftir upplýsingum frá þjónustumiðstöðvum um fjölda barna sem eiga ekki heimili, þ.e. búa við neyðarástand, með eða án fjölskyldu sinnar, inni á heimili annarra, í húsnæði sem er annað en þeirra eigið eða í eigin leiguhúsnæði.

Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi Pírata leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Pírata í velferðarráði telur mikilvægt að Reykjavíkurborg fari strax í uppbyggingu neyðarúrræða til að mæta bráðahúsnæðisvanda barnafjölskyldna í Reykjavík. Í því skyni verði til að mynda litið til svokallaðs „emergency housing“ úrræða í Bretlandi, auk þess að koma upp smáhýsum til tímabundinna nota á meðan húsnæðisástand er með þeim hætti sem nú er. Jafnframt verði leitað fleiri leiða.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Mannekla er vandamál sem gæti ógnað þjónustu velferðarsviðs verulega á næstu misserum. Lagt er til að velferðarráð samþykki að vísa því til velferðarsviðs að kortleggja hvar helst má búast við að um manneklu verði að ræða í þjónustu sviðsins og hvernig megi bregðast við henni. Greindar verði ástæður manneklunnar og tillögur um viðbrögð kynntar velferðarsviði að því loknu. Skoðað verði sérstaklega hvernig mæta má fólki eftir öðrum leiðum ef ekki verður nægt starfsfólk til staðar.

Frestað.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fram hefur komið hjá sérfræðingum sem vinna með utangarðsfólki að velferðarkerfið hér sé ekki bata þeirra endilega í hag. Hér sé bótakerfið hannað þannig að fólk fái bætur og geti fjármagnað neyslu sína en annars staðar fái fólk fjárhagsstuðning í takmarkaðan tíma og þurfi að uppfylla ýmis skilyrði til að fá bætur. Litið er á að of gjöfult kerfi geti hamlað árangri. Því er lagt til að velferðarsviði verði falið að leita leiða til að koma á kerfi sem gæti aukið árangur um bata. Eflaust felst í þeirri vinnu samráð við Tryggingastofnun ríkisins og lagt er til að velferðarsvið taki það samtal og leggi að því loknu tillögur um breytingar fyrir velferðarráð.

Frestað.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að velferðarsvið skoði aðferðir til að meta árangur úr viðtölum skjólstæðinga við ráðgjafa. Meta þarf hversu oft það gerist að skjólstæðingar koma í viðtöl til ráðgjafa án þess að nein úrlausn mála náist né að málið hljóti framgang. Dæmi eru um að fólk leiti margsinnis til ráðgjafa vegna umsókna um húsnæði eða vegna umsókna um sértæk búsetuúrræði en sökum ástands á húsnæðismarkaði gerist lítið því úrræði eru engin. Eins og staðan er í dag er slík mæling ekki til. Mikilvægt er að skoða vel hvort nýta megi tíma bæði ráðgjafa og skjólstæðinga betur. Niðurstöðurnar verði svo nýttar til að skoða hvort þróa megi betri aðferðir við þjónustuveitingu.

Frestað.

18. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvernig fjárhagsrammi borgarinnar hefur þróast undanfarin átta ár. Hver hefur rammi velferðarráðs verið án bundinna liða og sem hlutfall af heildarramma til þjónustu allra sviða ? Eins er óskað eftir þróun þjónustuþarfar sviðsins á sama tíma, hvar hefur mesta þjónustuaukning verið og hvar minnsta. Óskað er eftir því að málefni fatlaðra séu tekin frá rammanum og um þau fjallað sérstaklega. Hvernig hefur hlutfall rammans sem rennur til velferðarsviðs breyst á þessum tíma og hvernig rímar það við þá þjónustuþörf sem þarf að mæta á næstu árum?

- Kl. 16.32 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl.16.40

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign.)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Örn Þórðarson (sign.)

Gréta Björg Egilsdóttir (sign.)