Velferðarráð - Fundur nr. 308

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2017, fimmtudaginn 6. apríl 2017 var haldinn 308. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug  María Friðriksdóttir, Elísabet Gísladóttir og Rakel Dögg Óskarsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í kjölfar borgarstjórnarfundar 4. apríl þar sem óskað var eftir að munnleg fyrirspurn til formanns velferðarráðs yrði lögð fram skriflega á fundi borgarráðs er þessi fyrirspurn gerð. Framsókn og flugvallarvinir óska eftir því að upplýst sé hvenær og á hvaða fundi tekin var ákvörðun um að framlengja heimild íbúa Seljahlíðar til að dvelja á óbreyttum verðforsendum í íbúðum  sínum í Seljahlíð fram til 1.maí 2018. Hvernig var kynningu háttað til íbúa Seljahlíðar fyrir töku ákvörðunar  um yfirfærslu fasteigna frá eignasjóði til Félagsbústaða, miðað við  dagsetninguna  20. desember 2016 þegar ákvörðunin var tekin í borgarstjórn ? Hvernig telur velferðarsvið það hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart íbúum Seljahlíðar fyrir töku ákvörðunarinnar um yfirfærslu og síðar hækkun ?  Hvenær og á hvaða fundi var tekin ákvörðun um að gera þyrfti breytingar á húsnæðisúrræðum í Seljahlíð, þannig að þau uppfylli skilyrði svo að íbúar eigi rétt á húsnæðisbótum

- Kl. 13.35 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Leigumál íbúa í Seljahlíð voru ekki unnin með nægilega góðum hætti. Afstaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var sú þegar breytingar á leigumálum voru ákveðnar 19. desember sl. að betur hefði farið á því að hafa betri upplýsingar um hvernig ákvarðanir um leiguverð kæmu niður á íbúum Seljahlíðar áður en ákveðið var að hækka leiguverð. Í ljós kemur að meirihlutinn hefði betur hlustað á þær viðvaranir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að mun betur eigi að koma til móts við þá sem nú eru með leigusamninga í gildi í Seljahlíð. Ekki er hægt að líta á íbúa þar sem íbúa á virkum leigumarkaði, um eldra fólk og veikt fólk er að ræða sem flutti þangað miðað við ákveðnar forsendur og samninga. Taka ætti meira tillit til þess.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Við kaup Félagsbústaða á húsnæði úr eignasjóði Reykjavíkurborgar, þ.m.t. Seljahlíð, um síðustu áramót var hugað að ólíkum þáttum. Íbúar voru strax í desember á síðasta ári upplýstir um breytt eignarhald á húsnæði Seljahlíðar auk þess sem meirihluti velferðarráðs lagði áherslu að jafnræði væri gætt meðal leigutaka í húsnæði á vegum borgarinnar, að leiguverð væri gagnsætt og sanngjarnt og að mögulegar breytingar yrðu innleiddar í þrepum. Fyrir lá að hugað yrði að slíkum breytingum með fyrirvara. Félagsbústaðir tóku formlega við rekstri Seljahlíðar 1. apríl sl. Fyrir liggur sú ákvörðun velferðarsviðs og Félagsbústaða að leiguverð helst óbreytt til 1. maí 2018. Öllum íbúum, og eftir atvikum aðstandendum, verður boðið viðtal við ráðgjafa hjá Reykjavíkurborg sem mun koma í Seljahlíð þar sem aðstoðað verður við að sækja um húsnæðisbætur og farið yfir stöðu hvers og eins.

2. Lögð fram tillaga, dags. 14.mars 2017, um breytingu á tekju- og eignamörkum og breytingar á tekjuviðmiðum á matsblaði samkvæmt 4. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur,

Samþykkt.

Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

3. Lögð fram tillaga, dags. 23.mars 2017,  um innleiðingu á hugmyndafræði endurhæfingar í heimahúsi, ásamt fylgigögnum.

Samþykkt.

Þórhildur Egilsdóttir, deildarstjóri, tekur tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð fagnar þeirri tillögu sem hér er lögð fram og miðar að því að hefja innleiðingu á verklagi sem byggist á hugmyndafræði „endurhæfingar í heimahúsi” í heimaþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Nýtt verklag snýst um að virkja notendur og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi og er nálgunin frábrugðin hefðbundinni heimaþjónustu þannig að sérhæfðir starfsmenn koma fyrr að þjónustunni. Ráðnir verða iðjuþjálfar, sjúkraþjálfar ásamt því að þjálfa stafsmenn í heimaþjónustu í þessari nýju nálgun. Á Norðurlöndum hafa verkefni sem þessi rutt sér til rúms með góðum árangri og niðurstöður tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar um endurhæfingu í heimahúsi sem fram fór á árunum 2014-2015 sýndi góðan árangur. Í ljós kom að 37% af þeim sem tóku þátt í verkefninu þurftu enga þjónustu í kjölfar verkefnisins, 39% þurftu minni þjónustu og 24% þurftu sömu þjónustu. Þetta verklag er í samræmi við tillögur starfshóps um heilsueflingu eldri borgara og ein af helstu stefnumarkandi tillögum starfshóps til heilbrigðisráðherra um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til ársins 2035. Með þessu má efla sjálfstæði og sjálfræði eldra fólks sem býr heima og efla lífsgæði þess til muna og leggur velferðarráð áherslu á virkt notendasamráð eins og kostur er hverju sinni.

4. Lagt fram minnisblað skrifstofu ráðgjafarþjónustu, dags. 27. mars 2017, vegna breytinga á samstarfssamningi á milli Vímulausar æsku og velferðarsviðs á grundvelli styrkveitinga. Auk þess lagður fram samstarfssamningur Vímulausrar æsku og velferðarsviðs, dags. 14. apríl 2015 og viðauki, dags. 27. mars 2017.

Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerir grein fyrir málinu.

5. Fram fer kynning á stöðu mála vegna sérstaks húsnæðisstuðnings.

Guðmundur Sigmarsson, sérfræðingur, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri og Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri, taka sæti á fundinum undir þessum lið og gera grein fyrir  málinu.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Lög um húsaleigubætur og reglur um sérstakar húsaleigubætur tóku miklum breytingum um áramótin og urðu lög um húsnæðisbætur og reglur um sérstakan húsnæðisstuðning. Velferðarráð hefur fylgst með innleiðingunni frá áramótum og ljóst er að ýmsir byrjunarerfiðleikar hafa verið við innleiðingu nýs kerfis. Gagnrýni hefur komið fram á að hækka þurfi tekjuviðmið húsnæðisbóta og hefur félagsmálaráðherra gefið það út að til standi að hækka tekjuviðmið afturvirkt frá 1. janúar 2017. Velferðarráð óskar eftir greiningu á því hvaða afleðingar slíkar breytingar muni hafa, ef einhverjar, á greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings. Einnig óskar ráðið eftir greiningu og tillögum um það hvort hækkun tekjuviðmiða  húsnæðisbóta kalli á breytingar á reglum og hækkun tekjuviðmiða sérstaks húsnæðisstuðnings. Á sama tíma og velferðarráð fagnar því að ríkið hafi áttað sig á mikilvægi þess að hækka tekjuviðmið  húsnæðisbóta teljum við mikilvægt að rýna reglur um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að kerfin vinni sem best saman og nýtist þeim sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.

6. Lagt fram minnisblað skrifstofu ráðgjafarþjónustu, dags. 28. mars 2017, um stöðumat á aðgerðaráætlun fjárhagsaðstoðar ásamt fylgigögnum.

Þóra Kemp, deildarstjóri, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi tillögu:

Velferðarsviði er falið að vinna drög að nýrri aðgerðaráætlun vegna fjárhagsaðstoðar í samræmi við tillögur stýrihópsins sem hér eru lagðar fram. Einnig er lagt til að stýrihópurinn starfi áfram til að fylgja nýrri áætlun eftir. Ljóst er að aðgerðaráætlun um fjárhagsaðstoð og sérstakur stýrihópur um hana hefur tryggt meira utanumhald og yfirsýn yfir þetta stóra og mikilvæga verkefni í velferðarmálum.

Samþykkt.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að aðgerðaráætlun fjárhagsaðstoðar heldur áfram að skila árangri. Notendum fjárhagsaðstoðar heldur áfram að fækka milli áranna 2016 og 2017 eða um rúm 16%. Stýrihópur um aðgerðaráætlun um fjárhagsaðstoð var skipaður í október 2015 og er starfstímabil hans var til september 2017. Velferðarráð telur mikilvægt að unnið verði áfram samkvæmt þessu verklagi og aðgerðaráætlun fjárhagsaðstoðar endurskoðuð með það í huga að sá hópur sem situr eftir á fjárhagsaðstoð er að miklu leyti með skerta starfsgetu vegna langvarandi atvinnuleysis eða sjúkdóma. Einnig eru vísbendingar um að langtímanotendum sé að fjölga sem þarfnast sérstakrar rýningar. Samstarf við Vinnumálastofnun vegna atvinnulausra á fjárhagsaðstoð hefur gengið vel og rennur samningur út í lok árs 2017. Velferðarráð telur fulla ástæðu til að kanna grundvöll fyrir frekara samstarfi við stofnunina þegar samningar renna út.  Allir einstaklingar njóta góðs af því að vera við stjórnvölinn í eigin lífi og fá stuðning til valdeflingar og samfélagslegrar virkni. Mikilvægt er að til grundvallar allrar vinnu með notendur fjárhagsaðstoðar sé sú sýn að allir einstaklingar hafi löngun og vilja til að vera hamingjusamir og láta drauma sína rætast.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir mikilvægi þess að nýta það svigrúm sem gefst vegna þess að færri þurfa fjárhagsaðstoð en áætlað var og styðja því tillöguna. Ljóst er að mikil þörf er til að nýta það fé í áframhaldandi vinnu til að koma í veg fyrir að fólk festist í viðjum fátæktar og nýta það til að aðstoða fólk að finna störf við hæfi. Engan veginn er þó hægt að taka undir bókun meirihlutans. Því þegar litið er yfir farinn veg er verulega gagnrýnisvert hvernig meirihlutinn brást seint og illa við fjárhagsaðstoðarvandanum. Með aðgerðarleysi sínu og sinnuleysi varð ástandið í Reykjavík mun alvarlegra og verra en það þurfti að vera þegar horft er til sveitarfélaganna í kring sem náðu mun meiri árangri hraðar. Ekki verður því séð annað en að helst megi þakka árangurinn í Reykjavík ytri skilyrði um jákvæðs efnahagsástands frekar en innri skýringum eins og meirihlutinn telur.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:

Það er ánægjulegt að viðtakendum fjárhagsaðstoðar fari fækkandi en það er enn hægt að gera betur. Nauðsynlegt er að styðja enn betur við langtíma notendur fjárhagsaðstoðar. Má þar nefna unga einhleypa karlmenn undir fertugu. Reykjavíkurborg þarf að forgangsraða betur og styðja betur við þennan hóp. Einblína á einstaklinginn til að koma honum  út á vinnumarkaðinn.

7. Lagt fram minnisblað deildar gæða og rannsókna,  dags. 28. mars 2017, vegna lækkunar á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu samkvæmt  3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð á árinu 2016.

Frestað.

8. Fram fer kynning á ársuppgjöri velferðarsviðs fyrir árið 2016.

Jenný Stefanía Jensdóttir, fjármálasérfræðingur, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lagt fram yfirlit skrifstofu fjármála og rekstrar yfir innkaup yfir 1.000.000 kr. fyrir tímabilið janúar til desember 2016.

10. Lagt fram yfirlit skrifstofu fjármála og rekstrar, dags. 27. mars 2017, yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa árið 2016.

11. Lagt fram svar frá Félagsbústöðum dags. 27. mars 2017, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina þar sem óskað er eftir upplýsingum um hver ábyrgð Félagsbústaða er gagnvart leigutaka íbúðar þar sem fram kemur myglusveppur, ásamt fylgigögnum.

12. Lagður fram til kynningar samningur velferðarsviðs við Blindrafélagið um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, dags. 21.mars 2017, ásamt fylgigögnum.

13. Lagður fram til kynningar viðauki við samning, dags. 3. apríl 2017, vegna athvarfs fyrir fatlað fólk hjá Vin og þróunarverkefnis um fræðslu og batasetur við Rauða krossinn í Reykjavík.

Fundi slitið kl.16.10

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)

Áslaug María Friðriksdóttir (sign) Elísabet Gísladóttir (sign)

Rakel Dögg Óskarsdóttir (sign) Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)