Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2017, fimmtudaginn 2. febrúar var haldinn 304. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.02 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Margrét Norðdahl, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnusdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Birna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
2. Kynning á niðurstöðum könnunar á líðan og högum aldraðra á Íslandi.
Eftirtaldir aðilar taka sæti á fundinum undir þessum lið: Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri deildar gæða og rannsókna, Maja Loncar, nemi í félagsráðgjöf og Helgi Guðmundsson sem kynnir niðurstöður könnunarinnar fyrir hönd Félagsvísinda-stofnunar Háskóla Íslands.
- Kl. 14.00 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum.
- Kl. 14.00 tekur Gunnar Alexander Ólafsson sæti á fundinum.
3. Lögð fram að nýju tillaga, dags. 19. janúar 2017, um stofnun hreyfanlegs teymis til stuðnings allt að níu fötluðum einstaklingum á heimili sínu, ásamt fylgigagni.
Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.
Tillagan er samþykkt samhljóða.
4. Fram fer kynning á forvarnaráætlunum þjónustusvæða í Reykjavík.
Þórdís Lilja Gísladóttir, Arna Hrönn Aradóttir, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Helga Margrét Guðmundsdóttir og Þorvaldur Guðjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 14.50 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum.
- Kl. 14.50 víkur Gunnar Alexander Ólafsson af fundi.
Velferðarráð samþykkir eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar verkefnastjórum forvarnastarfs á þjónustumiðstöðvum borgarinnar kærlega fyrir kynningu á forvarnarstarfi. Ljóst er að mikið og mikilvægt starf er unnið í samstarfi við skóla og félagasamtök í hverfum borgarinnar með heilsueflingu og hamingju íbúa að leiðarljósi.
5. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2017 um að draga til baka ákvörðun um að starfsfólk Reykjavíkurborgar fái frítt í sund.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafa borist þær upplýsingar að um 7 þúsund sundkort hafi verið útgefin til borgarstarfsmanna og um 4.600 kort (93.817 ferðir) hafi verið notuð og við hverja notkun gjaldfærist 365 kr. hjá viðkomandi sviði og tekjufærist hjá viðkomandi sundlaug. Þá hefur komið fram hjá borgarfulltrúum meirihlutans að litið sé á sundkortin sem heilsuræktarstyrk til starfsfólks. Á velferðarsviði eru þetta um 21.815 ferðir sem hafi verið notaðar á árinu 2016. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig gerð er grein fyrir þeim kostnaði í ársreikningi. Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um önnur hlunnindi starfsmanna ef þau eru til staðar, hver þau eru og kostnað vegna þeirra. Óskað er eftir upplýsingum um hvort líkamsræktarstyrkir, þ.m.t. styrkir vegna sundferða, standi starfsmönnum almennt til boða í gegnum stéttarfélög eins og dæmi er um að margir nýti sér. Meðal annars má lesa af vef starfsmannafélags Reykjavíkur að hægt sé að sækja styrk til líkamsræktar í gegnum styrktarsjóð BSRB.
Frestað.
6. Fram fer umræða um afgreiðslu húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings.
Staðgengill sviðsstjóra og Jón Viðar Pálmason, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 15.40 víkur Áslaug María Friðriksdóttir af fundi.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð leggur áherslu á að þau vandræði sem upp hafa komið vegna breytinga á almennum og sérstökum húsalegubótum komi ekki niður á leigjendum Félagsbústaða og þeim sýndur sveigjanleiki meðan greitt er úr kerfisvillum hjá Vinnumálastofnun. Einnig er mikilvægt að leigjendum séu veittar upplýsingar um hvernig og hvert þeir eigi að snúa sér til að fá upplýsingar um greiðslu leigu vegna janúarmánaðar sem allra fyrst.Einnig óskar ráðið eftir að fá upplýsingar um framvindu mála og leggur áherslu á gott samstarf milli velferðarsviðs, Félagsbústaða og Vinnumálastofnunar meðan innleiðing á nýju kerfi stendur yfir. Ljóst er að ef rétt reynist að nýjar reglur séu ekki að tryggja stuðning til þess hóps sem gert var ráð fyrir við gerð nýrra reglna þá þarf að ráðast í endurskoðun á reglunum fyrr en áætlað var. Hins vegar þarf að komast á hreint hvað eru kerfisvillur og hvað er regluverk sem þarf að breyta.
7. Lögð fram tillaga, dags. 27. janúar 2017, að breytingu á reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólk í Reykjavík.
Frestað.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
8. Lögð fram tillaga, dags. 18. janúar 2017, um tilraunaverkefnið: „Sveigjanleiki í þjónustu - frá barni til fullorðins“.
Samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.
Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Velferðarráð fagnar þeim skrefum sem tekin eru í átt að sveigjanlegri þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Þau verkefni sem voru til umfjöllunar á fundi í dag þ.e. tilraunaverkefnið “frá barni til fullorðins” og tillaga um Liðsaukann eru sannarlega skref í þá átt og í samræmi við stefnumótun Reykjavíkur í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina samþykkir umrætt tilraunaverkefni ,, Sveigjanleiki í þjónustu – frá barni til fullorðins´´ í ljósi þess að nú eru 14 einstaklingar í bið eftir sértæku búsetuúrræði og brýnt að létta á þeim biðlista og koma til móts við þjónustuþega og foreldra þeirra. Þetta verkefni mun gera það unnt að veita viðkomandi einstaklingum sólarhringsþjónustu meðan þeir búa enn í foreldrahúsum. Einnig er verkefnið liður í að auka sveigjanleika þjónustunnar við fatlað fólk og í því að viðurkenna ólíkar þarfir notenda ásamt því laga þjónustukerfi borgarinnar að mismunandi aðstæðum fólks.
- Kl. 16.30 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundi.
9. Lagður fram til kynningar samningur velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um móttöku, aðstoð og stuðning við hóp flóttafólks 2017-2019.
Fundi slitið kl. 16.35
Ilmur Kristjánsdóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)
Margrét M. Norðdahl (sign) Böðvar Gunnarsson (sign)