Velferðarráð - Fundur nr. 303

Velferðarráð

Ár 2017, fimmtudaginn 19. janúar, var haldinn 303. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:10 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Birna Sigurðardóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

2. Lögð fram tillaga, dags. 6.janúar 2017, um að sundferðir og bókasafnsskírteini verði gjaldfrjáls fyrir atvinnulausa Reykvíkinga og einstaklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu á árinu 2017.

Tillagan er samþykkt með áorðrum breytingum um að menningarkort standi þessum hópi til boða með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

Greitt hefur verið fyrir sundferðir og bókasafnsskírteini fyrir atvinnulausa og einstaklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu undanfarin ár. Mikilvægt er að koma í veg fyrir vanvirkni og félagslega einangrun langtímaatvinnulausra sem og fólks á fjárhagsaðstoð. Með því að gera ráðgjöfum á þjónustumiðstöðum borgarinnar kleift að bjóða notendum fjárhagsaðstoðar og langtímaatvinnulausum, sem þurfa fjárhagsaðstoð til framfærslu, tilboð um virkni. Velferðarráð samþykkir nú að auk bókasafnsskírteinis standi menningarkort þessum hópi til boða en inni í því er m.a. aðgangur að söfnum borgarinnar. Nú er tillagan samþykkt út árið 2017. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja mikilvægt að samhliða þessari samþykkt verði unnin tillaga að framtíðarfyrirkomulagi á virknitilboðum á borð við sundkort og menningarkort til framtíðar.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:

Í ljósi þess að um er að ræða virkni- og forvarnarúrræði sem hefur verið samþykkt árlega frá árinu 2010 þá samþykkjum við þessa tillögu, en teljum þó að heildstæða stefnu þurfi að móta í þessu efnum, enda ótækt að vera með tímabundin úrræði, ár eftir ár. Við teljum að það sé mikilvægt að fylgjast með virkni í notkun, hversu margir séu að nýta sér úrræðið og það liggi fyrir samantekt fyrir árin 2010-2017 áður en næsta tillaga verður lögð fram.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að dregin verði til baka sú ákvörðun að starfsfólk Reykjavíkurborgar fái frítt í sund. Flestir starfsmenn borgarinnar eru langt yfir lágmarkslaunum og hafa ekki þörf fyrir niðurgreiddar sundferðir.

Frestað.

3. Lögð fram tillaga, dags. 19. janúar 2017, um stofnun hreyfanlegs teymis til stuðnings fötluðu fólki á heimili sínu, ásamt fylgiskjali.

Sigþrúður Erla Arnardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið

Frestað.

4. Lagt fram og kynnt minnisblað, dags. 10. janúar 2017, um stöðu tilraunaverkefnis um starfsemi þriggja búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga með þroskahömlun og/eða einhverfuerfiðleika og alvarlegar hegðunarraskanir.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa síðustu ár lagt ítrekað fram tillögur um innleiðingu nýsköpunar í velferðarþjónustu. Nú er ljóst að tilraunaverkefni um endurskoðun á skipulagi búsetukjarna og þróun nýrra hugmynda og lausna í þjónustu er á góðri leið. Verkefnið leiðir í ljós að mikið álag er í þjónustunni en með tilraunaverkefninu hefur dregið úr veikindafjarvistum starfsmanna og fleiri góðar úrbætur náð fram að ganga. Fram kemur í verkefninu eins og á öðrum stöðum í velferðarþjónustu að mannekla er töluverð og nauðsynlegt er að skoða sérstaklega hvernig bregðast á við henni.

Arne Friðrik Karlsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

5. Lagt fram að nýju minnisblað, dags. 3. janúar 2017, um kostnaðargreinda uppbyggingaráætlun í vinnumiðaðri stoðþjónustu fyrir fatlað fólk.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:

Fyrir liggur að frá 2011 hefur ríkt ófremdarástand í atvinnumálum fatlaðs fólks og uppbygging í málaflokknum engin og bráðamálum hefur aðeins verið sinnt. Loks ber á lífsmarki í þessum málum í Reykjavík en nú liggur fyrir áfangaskipt áætlun um úrbætur til næstu 10 ára. Þessi áætlun er þó ekki inni á áætlunum og ekki fjármögnuð, þrátt fyrir að hafa verið löngu fyrirséð sem er ótrúleg staða í ljósi þess að fjárhagsáætlun er nýfrágengin.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

Mikil óvissa ríkti um ábyrgð og verkaskiptingu í atvinnumálum fatlaðs fólks eftir flutning á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 þar til samkomulag um atvinnumál fatlaðs fólks var undirritað milli ríkis og Sveitarfélaga um áramótin 2015/2016. Krafa hagsmunasamtaka fatlaðs fólks hefur verið að öll vinna þ.m.t. fatlaðs fólks heyri undir Vinnumálastofnun. Vinnumiðuð stoðþjónusta fyrir fatlað fólk er á ábyrgð sveitarfélaganna. Frá yfirfærslu árið 2011 hefur rýmum í vinnumiðaðri stoðþjónustu fjölgað um 11,5 rými. Þann 26. maí 2016 fól velferðarráð velferðarsviði að vinna kostnaðargreinda uppbyggingaráætlun í vinnumiðaðri stoðþjónustu sem nú liggur

Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð telur afar brýnt að Vinnumálastofnun þrói og framkvæmi mat á vinnufærni fatlaðra einstaklinga í samræmi við samkomulag um atvinnumál fatlaðs fólks var undirritað milli ríkis og Sveitarfélaga um áramótin 2015/2016, og vísi í viðeigandi úrræði. Það er forsenda þess að samkomulagið virki eins og lagt var upp með.

Velferðarráð leggur fram eftirfarandi tillögu:

Velferðarráð felur velferðarsviði að vinna tillögur til að bregðast við þörf fyrir vinnumiðaða stoðþjónustu á árinu 2017 til að hægt sé að bregðast við þörf í náinni framtíð. Mikilvægt er að fylgja eftir þeirri ósk að fá 10 dagdvalarrými fyrir 10 fatlaða aldraða einstaklinga við velferðarráðuneytið þar sem um brýna þörf er að ræða.

Samþykkt.

6. Kynning á starfi og áherslum atvinnumálahóps Reykjavíkur.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarráð skipaði stýrihóp til að móta stefnu í atvinnu- og virknimálum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Velferðarráð vísar umbyggingaráætlun í vinnutengdri stoðþjónustu til þessa hóps. Einnig óskar velferðarráð eftir að fylgjast með vinnu atvinnumálahópsins.

Halldór Auðar Svansson og Katrín Þórdís Jacobsen taka sæti á fundinum undir þessum lið.

7. Lagt fram minnisblað um stöðu sértækrar ráðgjafar, dags. 6. janúar 2017, ásamt fylgiskjali.

Velferðarráð vísar umbyggingaráætlun í vinnutengdri stoðþjónustu til þessa hóps. Einnig óskar velferðarráð eftir að fylgjast með vinnu atvinnumálahópsins.

Katrín Þórdís Jacobsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

8. Lagt fram minnisblað dags. 27.desember 2016 vegna stöðu í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir það ákall að nú sé nauðsynlegt að skoða nýjar áherslur og leiðir í þjónustu við aldraða. Fjölgun aldraðra og aukin þörf þess vegna er löngu fyrirséð og því orðið tímabært að innleiða enn fleiri tilraunaverkefni. Það tilraunaverkefni sem nú er í gangi gefur góða von. Það verkefni snýr nokkuð að starfsmannahliðinni. Einnig ætti að horfa á notendahliðina og því er lagt til að velferðarsvið fari í að kortleggja hvaða tæknilausnir eru til staðar og hvernig mætti nota þær til að skoða markvisst hvernig endurskipuleggja þarf heimaþjónustuna svo hægt verði að sinna enn fleiri öldruðum í næstu framtíð.

Frestað.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

Endurhæfingarteymi velferðarsviðs og velferðarráðuneytið áttu á árunum 2014-2015 samstarf um endurhæfingu í heimahúsum. Verkefnið sem var að danskri fyrirmynd og snýst um að virkja einstaklinga til að verða virkir þátttakendur í eigin lífi. Markmiðið er að bæta lífsgæði fólks og seinka því að þeir þurfi mikla og varanlega aðstoð frá sveitarfélaginu. Verkefninu er nú lokið en niðurstöður voru að lífsgæði þátttakenda jukust. Ljóst er að vinna þarf að viðhorfsbreytingu innan heimaþjónustu og heimahjúkrunar í þessum anda þar sem það verður hlutverk starfsfólks að virkja frumkvæði þeirra sem nýta þjónustuna. Velferðarráð felur velferðarsviði að vinna tillögur um með hvaða hætti hægt sé að vinna áfram með endurhæfingu í heimahúsum innan heimaþjónustunnar.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð lýsir yfir ánægju sinni með því að tekist hafi að samþætta hjúkrun og félagslega heimaþjónustu á síðasta ári. Tekið er undir það að fjölgun aldraðra kalli á nýjar áherslur í þjónustu.

9. Lagt fram minnisblað dags. 21.desember 2016 vegna þarfar á fjölgun dagdvalarrýma í Reykjavík.

- Magnús Már Guðmundsson víkur af fundi kl.16.08.

10. Lögð fram rekstrarniðurstaða fyrir tímabilið janúar til nóvember 2016.

11. Lagður fram listi, dags. 2. janúar 2017, yfir utanlandsferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa fyrir tímabilið janúar til september 2016.

12. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá aukafundi velferðarráðs þann 19. desember 2016 vegna verkefnisins Hjólað óháð aldri.

13. Breyting á skipan fulltrúa velferðarráðs í Fjölsmiðjunni.

Samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum að Elín Oddný Sigurðardóttir verði fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Fjölsmiðjunnar.

Fundi slitið kl. 16.30

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (sign)