Velferðarráð - Fundur nr. 298

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 24. nóvember var haldinn 298. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Gunnar Alexander Ólafsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Birna Sigurðardóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Lóa Birna Birgisdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram og kynnt úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á þjónustumiðstöðum og hverfisráðum, dags. 24. október 2016.

Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar, tekur sæti á fundinum kl. 13.10 og gerir grein fyrir málinu.

- Magnús Már Guðmundsson tekur sæti á fundinum kl. 13.20.

- Gunnar Alexander Ólafsson víkur af fundi kl. 14.06.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:

Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur ekki tekist að setja fram heildstæða þjónustustefnu eins og bent er á í úttekt innri endurskoðunar borgarinnar er varðar þjónustumiðstöðvar og hverfisráð. Ekki hefur markmiðum varðandi þjónustumiðstöðvar og hverfisráð verið náð nema að hluta til, þar sem starfssvið þjónustumiðstöðva þykir einskorðast að miklu leyti við velferðarsvið en þjónustumiðstöðvar voru settar undir sviðið árið 2007. Hverfisráðin þykja hafa óskýrt hlutverk, vera ósýnileg og valdalaus og því er mikilvægt að skýra hlutverk þeirra og valdsvið. Það vekur einnig athygli að þó að áherslan hafi verið á aukna nærþjónustu og aukið íbúalýðræði er hvorki að finna þjónustumiðstöðvar né hverfisráð í skipuriti borgarinnar. Mikilvægt er að setja stefnu um hvaða þjónustu á að veita í hverfum og einnig er mikilvægt að stórbæta alla rafræna þjónustu. Í lok skýrslunnar eru lagðar fram hugmyndir að sameiningu sviða er snúa að fjölskyldum og velferðarmálum sem nú eru dreifð á þrjú svið og er mjög áhugavert að skoða þær tillögur gaumgæfilega þar sem slíkar hugmyndir gætu aukið möguleika á þverfaglegu samstarfi og hagræði í rekstri.

2. Lögð fram tillaga, dags. 7. nóvember 2016, að framlengingu á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð á árinu 2017.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu þjónustu heim, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

Lagt er til að velferðarráð samþykki að heimilt verði að framlengja núgildandi samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hjá Reykjavíkurborg út árið 2017 með endurskoðunarákvæði að sex mánuðum liðnum.

Tillagan er samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Velferðarráð samþykkir eftirfarandi bókun:

Velferðarráð hefur nú ákveðið að framlengja alla núgildandi NPA samninga í Reykjavík út árið 2017. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi þjónustu við þennan hóp og koma í veg fyrir rof í þjónustunni. Til framtíðar er brýnt að tryggja framhald NPA þjónustu og tekur velferðarráð undir áskorun til stjórnvalda sem samþykkt var samhljóma í borgarstjórn þann 4. október sl. um lögfestingu NPA þjónustu. Mikilvægt er að nú verði unnin áætlun, miðað við þær forsendur sem liggja fyrir um hvernig Reykjavíkurborg muni tryggja þá fjármuni sem þurfa að vera til staðar þegar NPA verður lögfest þjónusta hér á landi.

3. Lögð fram að nýju drög að gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs.

a) Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði.

b) Gjaldskrá í félagsstarfi.

c) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.

d) Gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu.

e) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ.

f) Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum.

h) Gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara.

i) Gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Samþykkt með þremur samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

4. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 15. nóvember 2016 vegna breytinga á aðalmanni og varamanni í velferðarráði.

Fundi slitið kl. 14.40

Ilmur Kristjánsdóttir formaður (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)