Velferðarráð - Fundur nr. 294

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 6. október var haldinn 294. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.08 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Rakel Dögg Óskarsdóttir og Börkur Gunnarsson. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn: Aðalbjörg Traustadóttir, Agnes Sif Andrésdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson, Stefán Eiríksson og Bára Sigurjónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 42/2016.

Lögð er fram eftirfarandi tillaga:

Velferðarráð felur velferðarsviði að endurskoða reglur um stuðningsþjónustu í Reykjavík í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefnda velferðarmála í máli nr. 42/2016.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu tekur sæti á fundinum undir þessum.

2. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga að hækkun gjaldskrár til stuðningsfjölskyldna, dags. 27. september 2016.

Lagt er til að velferðarráð samþykki að hækka gjaldskrá til stuðningsfjölskyldna um 88% og samþykkja að auki nýjan sérstakan álagsflokk sem hægt er að greiða til stuðningsfjölskyldna þegar um er að ræða einstaklinga með sérstaklega miklar þarfir. Kostnaður vegna breytinga á gjaldskrá er áætlaður 92 m.kr. á ársgrunni.

Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri stuðningsþjónustu, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun

Velferðarráð vísar tillögu um hækkun greiðslna til stuðningsfjölskylda til gerðar fjárhagsáætlunar 2017. Með því að hækka gjaldskrá um 88% er vonast til að fleiri fjölskyldur muni taka að sér að styðja við börn í Reykjavík. Þannig má stytta biðlista eftir þessari mikilvægu þjónustu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna því að farið hafi verið í að skoða gjaldskár til stuðningsfjölskyldna.  Enda bentum við á það á fundi í velferðarráði og óskað var eftir að þessi mál væru skoðuð. Kærar þakkir fyrir það.  Enda voru 444 kr. á tímann til skammar og ekki nema von að fólk taki ekki að sér að vera stuðningsfjölskylda. En gott að greiðslurnar verði hækkaðar í að lágmarki 833 kr á tímann og það munar um 88% hækkun. Er það er nokkuð ljóst að þetta verði til þess að spara á öðrum sviðum.

Með stuðningsfjölskyldum léttir á fjölskyldum og er þetta skref í rétta átt þó alltaf megi gera betur.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að fara í aðgerðir til að efla stuðningsþjónustu.  Þeir sitja engu að síður hjá í þessu máli sem öðrum sem lúta að gjaldskrám.

4. Lagt fram minnisblað, dags. 22. ágúst 2016, um áfanga I í skýrslu um niðurfellingu á herbergjasambýlum, samkvæmt skýrslu starfshóps um breytingar á herbergja sambýlum frá júní 2015 og viðauka frá september 2015.

5. Lagt fram minnisblað vegna skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort, dags. 22. september 2016.

6. Lögð fram skýrsla Hagstofu Íslands, dags. 13. september 2016, um sárafátækt, unnin að beiðni velferðarvaktarinnar.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun

Velferðarráð þakkar velferðarsviði fyrir samantekt um börn og fátækt í Reykjavík. Fram kemur að samkvæmt svörum Hagstofunnar 15. ágúst síðastliðinn um beiðni velferðarsviðs um frekari greiningu á fjölda barna í Reykjavík sem líða skort verða vikmörk mjög víð þegar sundurgreint er eftir bakgrunnsþáttum fyrir þennan hóp. Fyrir vikið er jafnvel umtalsverður munur milli hópa tölfræðilega ómarktækur. Það þýðir að gögnin standa ekki undir ályktunum um skort afmarkaðra hópa barna í Reykjavík.

Velferðarráð telur því mikilvægt að framkvæmd verði rannsókn á aðstæðum Reykvískra barna sem búa við fátækt og að slík rannsókn yrði sett inn í úttektar- og rannsóknaráætlun sviðsins. Að lokum vill velferðarráð minna á þá stefnu að fjölga þeim notendum fjárhagsaðstoðar sem fá heimildagreiðslur vegna barna til að standa straum að kostnaði vegna leikskóladvalar, frístundar og skólamáltíða. Mikilvægt er að upplýsa þá notendur fjárhagsaðstoðar sem eiga rétt á heimildagreiðslum um þann rétt.

7. Lagt fram minnisblað vegna tillögu ungmennaráðs Laugardals og Háaleitis um bætt aðgengi að sálfræðiaðstoð, dags. 5. september 2016, ásamt fylgigögnum.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð fagnar tillögu ungmennaráðs um bætt aðgengi barna að sálfræðiaðstoð og felur velferðarsviði að finna breyttum áherslum stað í kröfulýsingu um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum sem unnið er að í samvinnu við skóla- og frístundasvið.

8. Lagt fram minnisblað um eftirfylgd skýrslu um þjónustu út frá kjarna, dags. 23. ágúst 2016, ásamt fylgigögnum.

9. Lagðar fram lykiltölur frá janúar til júlí 2016. Jafnframt lagðar fram upplýsingar um fjárhagsaðstoð til framfærslu til námsmanna, í júní, júlí og ágúst árin 2013-2016 dags. 6. október 2016.

10. Lagt fram til kynningar bréf frá velferðarráðuneytinu til forstjóra og framkvæmdastjóra dvalar- og hjúkrunarheimila um tilraunaverkefni um breytt fyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum, dags.1. júlí 2016.

11. Lögð fram eftirfarandi minnisblöð um áætlaða þörf:

a. Lagt fyrir fund velferðarráðs minnisblað um áætlaða þörf fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík, dags 7. september 2016.

b. Lagt fyrir fund velferðarráðs minnisblað um áætlaða þörf fyrir sértæk húsnæðisúrræði, dags. 7. september 2016.

c. Lagt fyrir fund velferðarráðs minnisblað um áætlaða þörf fyrir þjónustuíbúðir í Reykjavík. dags, 12. september 2016.

d. Lagt fyrir fund velferðarráðs minnisblað um áætlaða þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík, dags. 11. september 2016.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð hefur áhyggjur af því að áætlanir ríkisins um uppbyggingu hjúkrunarrýma í Reykjavík séu ekki í takti við útreiknaða þörf. Fjöldi hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu í lok árs 2015 voru 1.466 talsins (auk 85 dvalarrýma og hjúkrunarrýma fyrir yngri en 67 ára). Alls voru 208 einstaklingar með samþykkt vistunarmat á höfuðborgarsvæðinu þann 5. september 2016, þar af 134 úr Reykjavík. Þann 9. janúar 2013 voru 116 í bið eftir hjúkrunarrými, þar af 79 Reykvíkingar. Ljóst er að þörfin mun aðeins aukast á næstu árum en talið er að til til ársins 2020 er þörf á 300 hjúkrunarrýmum til viðbótar, til ársins 2025 um 600 rýmum og til ársins 2030 um 1.100. Velferðarráð  felur velferðarsviði að koma þeim upplýsingum sem fram koma í minnisblaðinu til Heilbrigðisráðherra og þingmanna Reykjavíkurkjördæma.

12. Lagt fram minnisblað um mögulegt tilraunaverkefni um Bataskóla í Reykjavík, dags. 27. september 2016, ásamt fylgigögnum.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð tekur vel í hugmyndir um bataskóla. Batamiðuð þjónusta hefur verið innleidd í þjónustu við einstaklinga með geðraskanir hjá Reykjavíkurborg undanfarin ár. Bataskóli myndi vera góð viðbót við þau úrræði sem stendur þessum hópi til boða. Mikilvægt er að uppbygging bataskóla sé á forsendum notenda þjónustunnar og að hugmyndafræðin um batamiðaða nálgun sé ávallt höfð að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að vinna málið áfram í samráði við notendur, úrræði í geðheilbrigðismálum auk frjálsra félagasamtaka. Að lokum óskar Velferðarráð eftir því að málið verði unnið áfram auk þess sem ráðið verði upplýst um framþróun verkefnisins.

13. Lagt fram erindisbréf Borgarstjórans í Reykjavík um skipan stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks, dags. 13. september 2016.

14. Lagt fram bréf, dags. 26. september 2016, frá velferðarráðuneytinu til Borgarstjórans í Reykjavík varðandi samstarf um móttóku flóttamanna frá Sýrlandi.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

15. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 21. september 2016, vegna kosningar í velferðarráð.

Fundi slitið kl. 15.36

Ilmur Kristjánsdóttir

Börkur Gunnarsson Heiða Björg Hilmisdóttir

Rakel Dögg Óskarsdóttir Elín Oddný Sigurðardóttir

Áslaug Friðriksdóttir Magnús Már Guðmundsson