Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2016, fimmtudaginn 25. ágúst var haldinn 290. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.07 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Rakel Dögg Óskarsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Agnes Sif Andrésdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
2. Lögð fram og kynnt drög að tillögu að stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík, dags. 6. júlí 2016 ásamt fylgigögnum.
Soffía Pálsdóttir, skrifstofustjóri og Sigrún Sveinbjörnsdóttir, fræðslustjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar taka sæti á fundinum undir þessum lið og gera grein fyrir málinu.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð telur mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra umsagna sem hafa borist við stefnumótun í frístundastarfi Reykvíkinga. Verið er að móta þjónustustefnu í Reykjavík þar sem komið verður inn á hlutverk þjónustumiðstöðva og uppbyggingu þjónustu í hverfunum en velferðarráð leggur áherslu á að samstarf innan hverfa og að stjórn frístunda sé nálægt notanda og í samráði við verkefnastjóra frístunda og félagsauðs. Það er skýr vilji hverfisráðanna að koma að ákvörðunum sem varða frístundir í þeirra hverfi. Velferðarráð þakkar skýrsluhöfundum og óskar eftir að áhersla verði lögð á heilsueflingu og frístundir fyrir alla og að húsnæði borgarinnar verði nýtt til að stuðla að blómlegri og betri hverfum.
3. Lagt fram að nýju minnisblað um stöðu samnings við Konukot, dags. 25. ágúst 2016 ásamt fylgigögnum.
Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerir grein fyrir málinu.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar leggja fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að fela velferðarsviði að ganga til samninga við Rauða krossinn í Reykjavík um áframhaldandi rekstur Konukots.
Tillagan samþykkt samhljóða.
4. Lagðar fram lykiltölur fyrir apríl til júní 2016, ásamt upplýsingum um fjölda nema sem fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu í júní og júlí árið 2016, dags. 22. ágúst 2016.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
Í takt við gríðarlegan efnahagsbata með sáralitlu atvinnuleysi er gleðilegt að sjá hversu mikil fækkun hefur verið á fjárhagsaðstoð hjá Reykjavík. Miðað við sama tíma og í fyrra er hún um 23,5%. Ljóst er að með áframhaldandi þróun verður mikið fjárhagslegt svigrúm jafnvel upp á hundruðir milljóna á næsta ári sem nauðsynlegt er að nýta til að bæta þjónustu og auka þróun og nýsköpun í velferðarmálum. Í harðnandi samkeppni um starfsmenn verður að vinna hratt að því að gera starfsumhverfið eftirsóknarvert um leið og þjónusta þarf fleiri. Vitað er að öldruðum fjölgar hratt og fatlaðir fá ekki næga þjónustu og þeirra þörfum þarf að mæta með skilvirkari hætti en nú er gert.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúarnir fagna markverðum árangri í að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda. Notendum í janúar til júní 2016 fækkaði um 23,5% miðað við sama tímabil árið 2015
5. Lagt fram og kynnt ársfjórðungsuppgjör velferðarsviðs janúar til júní 2016.
Jenný Stefanía Jensdóttir, sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.
6. Lagt fram yfirlit yfir innkaup velferðarsviðs yfir einni milljón kr. frá janúar til júní 2016, dags. 16. ágúst 2016.
7. Lagðar fram forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 og fimm ára áætlunar 2017 – 2021, dags, 13. júlí 2016.
8. Kynnt drög að bókun vegna áherslu velferðarráðs við afgreiðslu styrkja ráðsins fyrir árið 2017.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð leggur áherslu á forvarnir og alhliða heilsueflingu með framtíð ungs fólks að leiðarljósi. Við ákvörðun um veitingu styrkja fyrir árið 2017 verður litið til þessarar áherslu. Horft verður sérstaklega til verkefna sem leggja áherslu á aukna samfélagslega ábyrgð, jafningjastuðning og sjálfstyrkingu með það að leiðarljósi að bæta og viðhalda samfélagi sem byggir á trausti og virðingu þar sem allir fá tækifæri til að njóta sín.
9. Lagður fram til kynningar samningur við Alzheimer-samtökin vegna sértækrar dagdvalar í Maríuhúsi, dags.16. ágúst 2016.
Fundi slitið kl. 15.43
Ilmur Kristjánsdóttir
Magnús Már Guðmundsson Heiða Björg Hilmisdóttir
Rakel Dögg Óskarsdóttir Elín Oddný Sigurðardóttir
Áslaug Friðriksdóttir