Velferðarráð - Fundur nr. 287

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 26. maí  var haldinn 287. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.03 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Magnús Már Guðmundsson, Rakel Dögg Óskarsdóttir og Sabine Leskopf. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Stefán Eiríksson, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Hörður Hilmarsson, Sigþrúður Erla Arnardóttir og Þóra Stefánsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:  

1. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

2. Lagt fram minnisblað um virkni, verkefni og vinnumiðaða stoðþjónustu fyrir fatlað fólk, dags. 17. maí 2016.

Katrín Þórdís Jacobsen, deildarstjóri sértækrar ráðgjafar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

- Kl. 13:40 tekur Lára Óskarsdóttir sæti á fundinum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi tillögu: 

Velferðarráð felur velferðarsviði að vinna kostnaðargreinda uppbyggingaráætlun í vinnumiðaðaðri stoðþjónustu fyrir fatlað fólk. Auk þess óskar ráðið eftir því að allra leiða verði leitað og áætlun lögð fyrir ráðið sem fyrst um með hvaða hætti er hægt að tryggja þeim einstaklingum sem útskrifast úr framhaldsskólum í vor viðunandi dagþjónustu. Ennig er velferðarsviði falið að óska eftir að dagdvalarrýmum fyrir 10 fatlaða aldraða einstaklinga við velferðarráðuneytið.

Tillaga samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfsstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun: 

Með „viljayfirlýsingu um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks“ sem velferðarráðuneyti, Vinnumálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu í desember 2015 voru hlutverk og ábyrgð skilgreind. Vinnumálastofnun mun sjá um almennar vinnumarkaðsaðgerðir, verndaða vinnustaði, starfsþjálfun, atvinnu með stuðningi og aðra atvinnutengda endurhæfingu og móttöku allra umsagna og mat. Sveitarfélögum ber að annast framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem tengjast iðju og hæfingu fyrir fólk sem þarf „blandaðra“ vinnustaði iðju, hæfingar og verndaðrar vinnu. Fulltrúarnir telja mikilvægt að gera kostnaðargreinda uppbyggingaráætlun til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er í atvinnumálum fatlaðs fólks og gera tillögur að dagþjónustuúrræðum fyrir eldra fatlað fólk. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja áherslu á að við þróun vinnumarkaðsaðgerða fyrir þennan hóp sé leitað skapandi lausna í samráði við stofnanir borgarinnar og atvinnulífið og að möguleikar fólks til að velja starf og skipta um starf séu fyrir hendi. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:

Því miður verður ekki séð að  rituð og meint áhersla meirihlutans á skapandi lausnir hafi skilað meiri velferð til borgarbúa. Ljóst er að gera þarf mun sterkara og þyngra átak í stoðþjónustu og atvinnumálum fatlaðra en skipulagt hefur verið fram að þessu. Útfæra þarf innleiðingaráætlun um hvernig borgin getur orðið bakhjarl og stuðningur við eigin svið og fyrirtæki í borginni um að finna störf og virkni við hæfi allra. Þessu verður að fylgja fjármagn svo hægt sé að trúa því að finna eigi lausn á vandanum. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir telja nauðsynlegt að tryggja þeim sem hafa verið lengst á biðlistum eftir dagþjónustu pláss. Leita þarf leiða til að ganga á biðlistana sem fyrst með kostnaðargreindri byggingaráætlun.  Enda er löngu vitað að það er þörf fyrir mun fleiri pláss og þarf að skapa pláss ár hvert eftir.  

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu:

Velferðarráð samþykkir það markmið að stoðþjónusta verði meðhöndluð á sama hátt og lögbundin þjónusta, fólk verði ekki sett á bið eftir henni heldur verði það talið sjálfsagt að mæta þeim þörfum sem skapast á hverju ári. Í því skyni verði unnin innleiðingaráætlun um hvernig borgin getur orðið bakhjarl og stuðningur við eigin svið og fyrirtæki í borginni um að finna störf og virkni við hæfi allra. Í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2017 verði fjármagn tryggt til þessa mikilvæga verkefnis.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

3. Lagt fram að nýju minnisblað um málefni Konukots, dags. 26. maí 2016.

Framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar og þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða gerir grein fyrir málinu.

4. Lagt fram minnisblað, dags. 17. maí 2016, um stöðu á biðlistum eftir stuðningsþjónustu 1. apríl 2016. 

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu þjónustu heim, tekur sæti undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu ásamt skrifstofustjóra skrifstofu þjónustu heim.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi tillögu: 

Velferðarráð leggur til að skipaður verði starfshópur með það verkefni að leita lausna til að finna starfsfólk í stuðningsþjónustu. Hópurinn verði skipaður starfmönnum velferðarsviðs og pólitískum fulltrúum. Loks óskar velferðarráð eftir kynningu á stöðu vinnu við endurskoðun reglna um stuðningsþjónstu.

Tillaga samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun: 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata telja brýnt að strax sé brugðist við stöðunni á biðlistum eftir stuðningsþjónustu. Mikilvægt er að grípa strax til markvissra aðgerða vegna stöðunnar. Auk þess telja fulltrúarnir mikilvægt að þær 150 milljónir sem settar voru til viðbótar í stuðningsþjónustuna skili sér í styttingu biðlista eftir þjónustu. Að lokum telja fulltrúarnir brýnt að vinna við endurskoðun reglna um stuðningsþjónustu leiði ekki til þess að fleiri lendi á biðlistum eftir þjónustu. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram eftirfarandi bókun:

Nauðsynlegt er að stytta biðlista eftir stuðningsþjónustu og forgangsraða í þágu þeirra notenda sem eru í mestri þörf fyrir þjónustu. Um mjög mikilvæga þjónustu er að ræða en markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir félagslega einangrun og bæta samskiptahæfni og hefur þjónustan forvarnargildi. Í minnisblaði velferðarsviðs frá því sumarið 2015 segir: „Það er samdóma álit þeirra sem starfa við stuðningsþjónustu að þeir sem ekki fá þjónustu í samræmi við þarfir geti frekar þróað með sér auknar þjónustuþarfir eða vandamál síðar”. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:

Fyrir tæpu ári síðan lagði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins til á fundi velferðarráðs að stuðningsþjónustan yrði meðhöndluð eins og önnur lögbundin þjónusta, til dæmis fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur, þar sem ekki er leyfilegt að setja fólk á biðlista. Tillagan var felld af meirihlutanum en hann samþykkti að vísa hugmyndinni inn í vinnu vegna fjárhagsáætlunargerðar. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 þróaðist svo að aukið fjármagn kom inn í stuðningsþjónustuna og væntingar urðu til um að eitthvað gæti ástandið batnað. Nú er ljóst að svo er ekki og hvergi verður séð að litið hafi verið til efnis tillögunnar í vinnslu málsins eða að stuðningsþjónustan verði einfaldlega skipulögð þannig að það verði ekki leyfilegt að setja fólk á bið. Ljóst er að um afar viðkvæma þjónustu er að ræða og hér er ekki hægt að sætta sig við að ekki sé tekið betur á málum. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að velferðarráð samþykki að það verði algjört forgangsatriði á næsta ári að bæta stuðningsþjónustu í borginni. Í því skyni verði samþykkt sú meginregla að stuðningsþjónustan verði meðhöndluð á sama hátt og lögbundin þjónusta sem íbúar eiga skýlausan rétt á, s.s. grunnskólavist fyrir börn. Reykjavíkurborg þarf að endurskoða hvernig á að mæta uppsafnaðari þörf, vegna gríðarlegs fjölda á biðlistum, og vinna þarf að lausninni út fyrir velferðarsvið eitt og leita samvinnu við borgarráð og fjármálaskrifstofu.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að velferðarsvið kanni hvort einhverjir aðilar á einkamarkaði taki að sér eða hafi áhuga á að taka að sér stuðningsþjónustu við fatlaða í ljósi þess að helsta ástæða fyrir biðlistum er talin vera starfsmannaskortur.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

5. Lagðar fram lykiltölur fyrir janúar til mars 2016.

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir málinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun: 

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata fagna markverðum árangri í að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda. Notendum í janúar til mars 2016 fækkaði um 23,6% miðað við sama tímabil árið 2015. Reykjavíkurmódelið byggir á  samræmdu verklagi við móttöku og meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð þar sem áhersla er á snemmtæk inngrip og að notendur finni styrkleika sína, meti starfsgetu og setji sér valdeflandi markmið. Í framhaldi af því er unnin einstaklingsáætlun hvers og eins og það er á ábyrgð einstaklingsins að fylgja henni. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata í velferðarráði lýsa ánægju sinni með árangurinn og telja mikilvægt að haldið verði áfram  á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og skilar árangri.

Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:

Fagna ber öllum árangri í að fækka fólki á fjárhagsaðstoð. Hins vegar verður að benda á að árangur annarra sveitarfélaga hefur verið skjótari og meiri en hjá Reykjavík. Seinagangur og slaki hvað varðar fjárhagsaðstoðina hefur einkennt vinnubrögð meirihlutans.

6. Lagðar fram tillögur að úthlutun „þvert á hverfi“ úr forvarnarsjóði 2016. 

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, tekur sæti á fundinum og gerir grein fyrir málinu.

Tillaga samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfsstæðisflokksins sitja hjá.

7. Lagðar fram til kynningar úthlutanir hverfaráða úr forvarnarsjóði 2016.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir gerir grein fyrir málinu og víkur af fundinum.

8. Lagt fram minnisblað dags. 21. maí 2016 vegna skýrslu starfshóps um innleiðingu á hugmyndafræði um sjálfstætt líf í sértækum búsetuúrræðum ásamt skýrslunni, dags. 23. mars 2016. 

Skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmd þjónustu gerir grein fyrir málinu. 

Ráðið óskar eftir að erindisbréf um innleiðingarhóp verði kynnt ráðinu þann 30. júní næstkomandi og þar komi fram aðgerðir.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 27. apríl 2016 vegna ítrekaðrar beiðni um viðbrögð vegna neyðarástands í málefnum barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir ásamt bókun barnaverndar frá fundi Barnaverndarnefndar sem haldinn var þriðjudaginn 10. maí 2016 og bréf borgarráðs, dags. 20. maí 2016, vegna málefna barna með þroska og geðraskanir.

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir málinu.

Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun: 

Velferðarráð lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem uppi er í málefnum barna með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Málefni þessa litla en viðkvæma hóps hefur um langt skeið verið í ólestri, ekki síst vegna aðgerða- og viðbragðsleysis ríkisins gagnvart þessum hóp. Þó liggur fyrir skýr og afdráttarlaus skylda ríkisins til að þjónusta þennan hóp sbr. 79. gr. barnaverndarlaga. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga, meðal annars með tilstyrk Sambands íslenskra sveitarfélaga, hafa engin svör borist við því hvernig ríkið ætlar að sinna sínum skyldum í þessum málaflokki. Þetta er alvarlegt viðbragðsleysi af hálfu ríkisins sem hefur haft í för með sér að þau börn sem um ræðir hafa ekki notið þeirrar heilbrigðisþjónustu og meðferðar sem ríkinu ber að veita lögum samkvæmt, með ófyrirsjáanlegum og óbætanlegum afleiðingum.

10. Lagður fram til kynningar samningur milli skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og þjónustumiðstöðvar Árbæjar um félagsstarf í Hraunbæ, dags. 9. maí 2016.

11. Lagður fram til kynningar samningur milli Félags eldri borgara og þjónustumiðstöðvar Breiðholts um aðstöðu og félagsstarf eldri borgara í Árbæ, dags. 9. maí 2016.

Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun: 

Velferðarráð fagnar framlögðum samningi milli þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Félags eldri borgara í Reykjavík um rekstur félagsstarfs í Árskógum. Verkefnið fellur vel að stefnu velferðarsviðs um sjálfbært og valdeflandi félagsstarf. Auk þess er framkvæmdin í anda hugmynda um “ekkert um okkur án okkar” þar sem eldri borgarar sjálfir halda utan um það félagsstarf sem í boði er. Velferðarráð mun fylgjast spennt með framvindu verkefnisins í framtíðinni og telur að tilraunin gæti orðið til eftirbreytni í öðrum hverfum ef vel tekst til.

12. Fundaáætlun velferðarráðs fyrir haustið 2016.

Formaður velferðarráðs gerir grein fyrir málinu.

13. Lagt fram bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 9. maí 2016, um breytingar á kjörnum fulltrúum í velferðarráði.

 Fundi slitið kl. 16.00

Ilmur Kristjánsdóttir (sign)

Áslaug Friðriksdóttir (sign) Sabine Leskopf  (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)

Rakel Dögg Óskarsdóttir (sign)