Velferðarráð - Fundur nr. 286

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, miðvikudaginn 4. maí var haldinn 286. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:01 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson og Rakel Óskarsdóttir. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir,  Hörður Hilmarsson,  Kristjana Gunnarsdóttir og Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir sem ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

1. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs. 

- Börkur Gunnarsson tekur sæti á fundinum kl. 13:09.

2. Kynnt ársuppgjör velferðarsviðs fyrir árið 2015. 

- Agnes Sif Andrésdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun: 

Rekstrarniðurstaða sviðsins í heild var 19.841 mkr. sem var 433 mkr. eða 2% innan fjárheimilda. Reglubundinn rekstur sviðsins án bundinna liða var 15.895 mkr. sem var 219 mkr. eða 1,4% umfram fjárheimildir. Mikilvægt er að hjúkrunarheimili fái daggjöld sem duga til rekstrar þeirra, hækkunar vegna kjarasamninga var um 2,2% á árinu 2015, en kjarasamningar hækkuðu í raun á bilinu 9-11% og augljóst að sú hækkun er hvergi nærri nægjanleg. Af frávikum má nefna vistunarþjónustu vegna barna með þroska- og geðraskanir, samtals að fjárhæð 242 mkr. þar sem mikilvægt er að ríkið fjármagni sinn hluta.   Að teknu tilliti til þessa og óbættra launahækkana var rekstur sviðsins án bundinna liða 97 mkr. innan fjárheimilda sem er góður árangur og vilja fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka starfsmönnum sviðsins fyrir góðan árangur í rekstri.“

Fulltrúar Sjálfsstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun: 

Í september 2014 gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins háan kostnað vegna veikinda starfsmanna á velferðarsviði en talið var að veikindi og fjarvistir hefðu kostað borigna þá 145 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum árins. Nokkur umræða átti sér stað um í kjölfarið í borgarstjórn og lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að skoðað yrði hvernig bregðast mætti við þessu, skoða hvort veikindin væru vinnutengd og þá hvort nauðsynlegt væri að gera breytingar á skipulagi vinnu starfsmanna. Skemmst er að greina frá því að sú tillaga var samþykkt var samhljóða og skilja mátti á umræðunum að meirihlutinn í Reykjavík hefði mikið til málanna að leggja.  Niðurstaðan í árslok 2015 dregur fram að ekkert hefur áunnist, eða eins og segir í uppgjöri ársins 2015 þá eru veikindastundir á árinu hjá Velferðarsviði voru alls 246 þúsund þar af voru metnar afleysingavinnustundir um 66 þúsund og kostnaður vegna þeirra metinn um 207 mkr. Nauðsynlegt er að taka það fram að fleiri svið ef ekki öll hafa glímt við sama vanda, þannig að gera má ráð fyrir að samanlögð upphæð sé mun hærri á heildina litið og því verulegir hagsmunir í húfi fyrir borgarbúa. Erfitt er að túlka þessa niðurstöðu á annan hátt að lítið sé að marka það sem meirihluti borgarinnar samþykkir í borgarstjórn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvað hefur verið gert á velferðarsviði til að bregðast við þeim kostnaði sem verður vegna veikinda starfsmanna og fjarvista. Hefur verið lögð meiri áhersla á að greina og skoða vandann undanfarin 2 ár og hvernig hefur það þá verið gert?

3. Kynntar skuldbindingar velferðarsviðs vegna fjárhagsáætlunar 2017 – 2021 og áhættur í rekstri sviðsins árið 2017 ásamt drögum að greinargerð dags. 2. maí 2016. Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerir grein fyrir málinu. 

4. Lögð fram og kynnt drög að starfsáætlun Reykjavíkurborgar  fyrir árin 2016 – 2017. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu. 

Fulltrúar Samfylkingarinar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

Í starfsáætlun eru settar fram þær aðgerðir sem koma til framkvæmda á árunum 2016 og 2017, í samræmi við áherslur velferðarráðs leggur velferðarsvið sérstaka áherslu á málefni barna og ungmenna, bæta upplýsingamiðlun, rafræn samskipti og að efla notendasamráð. Ánægjulegt er að sjá að lögð er áhersla á starfsgleði á Velferðarsviði en grunnurinn að góðri þjónustu er ánægðir starfsmenn. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun: 

Eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bókað um stendur velferðarþjónustan í Reykjavík á tímamótum. Þegar horft er nokkur ár fram í tímann er ljóst að mæta þarf þjónustuþörf stærra hlutfalls íbúa sökum öldrunar og að skort hefur á þjónustu við fatlaða sem og að þjónustan er ekki veitt með nógu sveigjanlegum og persónulegum hætti. Mjög mikla áherslu þarf að leggja á hvernig þjónustukerfið í Reykjavík þarf að breytast til að vera í stakk búið til að mæta þessu aukna álagi. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefði meginverkefni sviðsins á næsta ári átt að vera að vinna áætlun um hvernig mæta þarf þessum óumflýjanlegu stóru breytingum og ennþá er ekki að sjá að nógu mikil áhersla sé lögð á slíka nýsköpun. Á meðan er tíma sóað. Því lengur sem beðið er með slíkar fjárfestingar í breytingu því erfiðara og dýrara verður verkefnið. Ekki er hægt að sjá að fjármagn til velferðarmála muni aukast á vakt meirihlutans í Reykjavík, rekstur borgarinnar er í járnum á meðan hópur þeirra sem þarf aðstoð vex. Taka þarf verkefnið mun alvarlegar því hætta er á því að velferðarþjónustan í Reykjavík bíði annars skipbrot.

5. Lagt fram stöðumat aðgerðaráætlunar um stefnu í málefnum aldraðra dags. 27. apríl 2016. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu.

- Áslaug María Friðriksdóttir tekur sæti á fundinum kl. 14:20.

6. Lagt fram minnisblað vegna áfangaheimila, dags. 27. apríl  2016. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu.

Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar rýnihóp og starfsmönnum sviðsins fyrir vel útfærðar tillögur og felur Velferðarsviði að vinna áætlun um hvernig megi nýta þær og kostnaðargreina jafnframt þær tillögur sem fela í sér kostnað. Ráðið vill leggja áherslu á áframhaldandi notendasamráð og tengls við skapandi greinar. Ánægjulegt er að sjá áherslur notenda á stuðning og utanumhald til virkni og þátttöku í samfélaginu. 

7. Lagður fram til kynningar viðauki, dags. 8. apríl 2016, við samning við SÁÁ vegna Vinja- búsetuúrræðis, dags. 9. desember 2008. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu. 

8. Lagt fram minnisblað vegna rýnihóps um fjárhagsaðstoð, dags. 22. apríl 2016. 

- Erla Björg Sigurðardóttir deildastjóri á skrifstofu sviðsstjóra tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.

- Elín Oddný Sigurðardóttir víkur af fundi kl. 15:10

- Sunna Sædal tekur sæti á fundinum kl. 15.12.

Lagt fram að nýju bréf borgarráðs með beiðni um umsögn velferðarráðs um drög að nýrri mannréttindastefnu, dags. 19. janúar 2016. Jafnframt lögð fram umsögn velferðarsviðs dags. 25. febrúar 2016, ásamt drögum að nýrri mannréttindastefnu dags. 19. janúar 2016.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð telur drög að nýrri mannréttindastefnu í heildina litið skref í rétta átt til þess að Reykjavíkurborg geti unnið gegn hvers konar mismunun og stuðlað að jafnrétti meðal borgarbúa. Mikilvægt er að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir á þeirra eigin forsendum þannig að hver og einn geti notið sín. Mikilvægt er að stefnan sé þannig sett fram að auðvelt sé að fylgja henni eftir. Notendur þjónustu velferðarsviðs er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Mikilvægt er að þegar talað er um hugtök á borð við „fatlað fólk“ að hafa í huga að ekki er um einsleitan hóp að ræða. Einnig vill ráðið benda á að þó svo að talað sé um öll kyn í stefnumótun er mikilvægt að kyngreinanlegar upplýsingar liggi fyrir þannig að hægt sé að vinna kynjaða fjárhagsáætlun og rannsaka hvernig stefnumótun hefur áhrif á kynin. Að lokum vill velferðarráð að mestu leyti taka undir umsögn velferðarsviðs.

Áheyrnarfulltrúi Pírata leggur fram eftirfarandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Pírata í Velferðarráði fagnar metnaðarfullri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og tekur undir mest allt sem þar kemur fram. Ég myndi þó vilja ítarlegri útfærslu á valdeflingu borgara og meiri áherslu á virka þátttöku þeirra í lýðræði Reykjavíkur. Hér vísa ég til a-liðar og grunnstefnunnar (1. kafla), að fjalla mætti meira um ofangreint í þeim texta sem snýr að Reykjavíkurborg sem stjórnvaldi og gefa þessari umfjöllun  aukið sjálfstætt vægi. Í c-lið grunnstefnu vantar einnig að mínu mati að vísa til þjónustuþega sem virkra mótenda þjónustu, sbr. orðalagið " ... hvetur þjónustuþega til að koma á framfæri ..." sem gengur ekki nógu langt. Ég fagna líka vel unninni umsögn velferðarsviðs og tek sömuleiðis undir hana að lamgmestu leyti. Er þó ósammála í þremur tilvikum:  1) Tek ekki undir athugasemd sviðsins við bls. 5. 2) Tek ekki að fullu leyti tekið undir athugasemd við bls. 6, en þó má gjarnan breyta texta í "... að borgarmyndin taki í auknum mæli tillit til allra kynja í skipulagi, svo sem í vali á útilistaverkum." 3) Tek ekki undir sjónarmið sviðsins að svo stöddu varðandi seinni athugasemd við bls. 6 (4. kafli 2. mgr.) en greinin þarfnast e.t.v. frekari samræðu.

9. Formaður velferðarráðs gerir grein fyrir þeim tillögum sem lagðar voru fram vegna hvatningarverðlauna velferðarráðs 2015 sem afhent verða í Ásmundarsafni við Sigtúni í Reykjavík. Samþykkt samhljóða.

10. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 24. febrúar 2016 vegna tillögu um bætt aðgengi að sálfræðiaðstoð. Borgarstjórn samþykkti þann 23. febrúar 2016 að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs sem leita skal umsagnar skóla- og frístundaráðs.

11. Kosning í áfrýjunarnefnd velferðarráðs. Lagt til að Rakel Óskarsdóttir verði fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í áfrýjunarnefnd velferðarráðs. Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 15:50

Ilmur Kristjánsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Magnús Már Guðmundsson

Rakel Óskarsdóttir Börkur Gunnarsson

Áslaug María Friðriksdóttir Sunna Snædal