Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Árið 2016, fimmtudaginn 28. apríl, var haldinn 285. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:04 að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Börkur Gunnarsson, Magnús Már Guðmundsson, Jódís Bjarnadóttir og Ingvar Már Jónsson. Áheyrnarfulltrúi var Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna sátu fundinn Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Hörður Hilmarsson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Stefán Eiríksson, Sigþrúður Erla Arnardóttir og Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerir grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
2. Lögð fram tillaga um samþættingu þjónustumiðstöðva Vesturbæjar og þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða dags. 26. apríl 2016.
Í samræmi við ákvörðun borgarstjórnar á fundi 2. febrúar 2016 er lagt til að starfsemi þjónustumiðstöðva Miðborgar og Hlíða og Vesturgarðs verði samþætt með það að markmiði að efla og styrkja starfsemi nýrrar þjónustumiðstöðvar og til að ná fram hagræðingu með betri nýtingu húsnæðis og samþættingu stjórnunarlegrar ábyrgðar.
Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og formaður velferðarráðs gera grein fyrir málinu.
Tillagan samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata binda miklar vonir við breytt fyrirkomulag þjónustu og fagna því að áhersla sé lögð á nýsköpun í rekstri og að færa þjónustuna nær íbúum. Fulltrúarnir leggja jafnframt áherslu á að unnið verði að breytingunum í góðu samstarfi við alla hluteigandi aðila eins og gert er ráð fyrir í tillögunni.
3. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 17. desember 2015.
Velferðarráð samþykkir að breyta reglum um fjárhagsaðstoð á þann hátt að grunnkvarði verði lækkaður til jafns við grunnkvarða fjárhagsaðstoðar í nágrannasveitarfélögum. Um leið verði innleidd heimild til að veita virknistyrki til þeirra sem fylgja einstaklingsáætlunum og taka þátt í virkniverkefnum þanni að samanlögð upphæð grunnkvarða og virknistyrks verði jöfn núgildandi grunnfjárhæð.
Formaður velferðarráðs gerir grein fyrir málinu.
Tillaga felld með fjórum atkvæðum. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks sitja hjá.
4. Lögð fram að nýju umsögn vegna tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og innleiðingu á virknistyrkjum dags. 12. febrúar 2016.
Fulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Aðgerðaráætlun velferðarsviðs um fjárhagsaðstoð byggir á virku samráði og þátttöku notenda fjárhagsaðstoðar. Lögð er áhersla á valdeflingu og að hver og einn taki ábyrgð á eigin lífi og geti séð sér og sínum farborða. Ef tillaga um lækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar yrði samþykkt þá væri um grundvallarstefnubreytingu á reglum um fjárhagsaðstoð að ræða. Fjárhagsaðstoð er veitt sem neyðaraðstoð til fólks. Lægri grunnfjárhæð án virknistyrks til þessa hóps gæti haft bein áhrif á lífsgæði og líðan hópsins til hins verra. Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð er gríðarlega fjölbreyttur hópur sem býr við ólíkar aðstæður. T.d. er stórt hlutfall viðtakenda fjárhagsaðstoðar er barnafólk en 2898 einstaklingum sem fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu árið 2015 voru 1150 börn á þeirra framfæri. Rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar þess að alast upp við fátækt getur haft víðtæk áhrif á börn og skert framtíðarmöguleika þeirra. Gerð einstaklingaáætlana gengur út á að styðja fólk til virkni en ef til vill má nýta betur heimildargreiðslur í reglum um fjárhagsaðstoð til þess að styðja fólk í virkni sinni og auka þar með lífsgæði þeirra.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
Því miður er ekki vilji hjá meirihlutanum að fást við mikilvægar breytingar. Ekki þarf að koma á óvart að starfsfólk verjist breytingum það er alþekkt fyrirbæri í stjórnun fyrirtækja.
5. Lagt fram svar dags. 11. apríl 2016, við fyrirspurn frá fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá fundi velferðarráðs, þann 17. mars 2016 vegna lækkunar grunnfjárhæðar.
6. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 17. mars 2016.
Efla þarf forvarnir í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða sérfræðingum og fagfólki á velferðarsviði sem sinna fjölskyldum í vanda. Meginreglan hefur verið að sinna þeim sem oft á tíðum eru komin í mikinn vanda og taka á móti fólki sem leitar sér aðstoðar en minni áhersla hefur verið lögð á að vinna að forvörnum og leiðbeina foreldrum og fjölskyldum með almennari leiðum, s.s. í gegnum fjölmiðla með skrifum og myndskeiðum til dreifingar á netmiðlum. Með þeim hætti má vekja athygli á því hvers konar hegðun gæti verið vísbending um að grípa þurfi inn og fjölskyldur eiga möguleika á að átta sig fyrr. Vel er þess virði að reyna nýstárlegri en áfram faglegar leiðir til að ná til fjölskyldna og leiðbeina þeim. Velferðarsviði verði falið að útfæra hvernig draga má fram slíkan fróðleik og kynna með nýstárlegri hætti en gert hefur verið.
Tillaga er samþykkt samhljóða.
7. Lögð fram samantekt um fjárhagsaðstoð frá velferðarsviði, dags. 22. apríl 2016.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu.
8. Lagt fram minnisblað um stöðumat aðgerðaáætlunar vegna fjárhagsaðstoðar, dags. 20. apríl 2016.
- Þóra Kemp deildarstjóri almennrar ráðgjafar tekur sæti á fundinum undir þessum lið og gerir grein fyrir málinu.
9. Lagðar fram lykiltölur frá janúar til febrúar 2016. Skrifstofustjóri sviðsstjóra gerir grein fyrir málinu.
Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun:
Lykiltölur velferðarsviðs gefa til kynna að verið sé að vinna þétt með viðtakendum fjárhagsaðstoðar með valdeflingu, notendasamráði, þátttöku og ábyrgð að leiðarljósi í anda aðgerðaráætlunar velferðarsviðs vegna fjárhagsaðstoðar. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 er fjárhagsaðstoðarliðurinn 79% af áætlun eða 170 milljónir undir áætlun sem telst góður árangur. Velferðarráð fagnar árangri velferðarsviðs og vill þakka starfsmönnum og öðrum sem koma að þessu verkefni að styðja fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu.
10. Kynning á hugmyndafræði skaðaminnkandi nálgunar.
- Valgerður Rúnarsdóttir læknir á Vogi og Helga Sif Friðjónsdóttir deildarstjóri geðdeildar á Landspítalanum taka sæti á fundinum undir þessum lið og kynna málið.
Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir áhugaverðar kynningar á að skaðaminnkandi hugmyndafræði og leggur áherslu á að skaðaminnkandi hugmyndafræði sé höfð til hliðsjónar á öllum starfsstöðvum sviðsins sem þjónustar utangarðsfólk og fíkla, eftir því sem við á.
- Heiða Björg Hilmisdóttir tekur sæti á fundinum kl. 15:15.
- Jódís Bjarnadóttir víkur af fundi kl. 15:15.
11. Lagt fram minnisblað vegna aðgerða í málaflokki utangarðsfólks í Reykjavík dags. 18. apríl 2016.
Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdastjóri þjónunustumiðstöðvar Vesturbæjar og þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða gerir grein fyrir málinu.
12. Lögð fram að nýju tillaga dags. 12. janúar um tilraunaverkefni sem byggir á „Housing First“.
Lagt er til að samþykkt verði tveggja ára tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræði „Housing First“ en í því felst að fjórar almennar félagslegar leiguíbúðir verði færðar úr almennri úthlutun yfir í sértæka úthlutun fyrir utangarðsfólk. Vettvangs- og ráðgjafarteymi þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða veiti utangarðsfólkinu stuðning við að halda heimili. Úthlutun mun fara fram í húsnæðisúrræða og í samvinnu við vettvangs- og ráðgjafarteymið.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir deildarstjóri húsnæðis- og búsetudeildar gerir grein fyrir málinu.
Tillaga er samþykkt með fjórum atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir að ráðist verði í tveggja ára tilraunaverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni „Housing First“ með því að fjórar félagslegar leiguíbúðir fari í sértæka úthlutun til utangarðsfólks. Íbúar munu njóta stuðnings frá sérstöku vettvangs– og ráðgjafarteymi í málefnum utangarðsfólks. Hugmyndafræði „Housing First“ byggir á því að öruggt húsnæði sé forsenda þess að hægt sé að vinna með vanda einstaklinga s.s. vímuefnavanda. Áhersla er lögð á að veita húsnæðislausu fólki húsnæði án þess að gera kröfu um að viðkomandi hafi lokið vímuefnameðferð. Þjónusta í anda „Housing First“ hefur sjónarmið skaðaminnkunar að leiðarljósi. Í þeim löndum þar sem „Housing First“ hefur verið sett á laggirnar hefur heimilisleysi dregist saman. Auk þess sýna bandarískar rannsóknir að aðferðin virkar. Tilraunaverkefninu er ætlað að auka við þá fjölbreytni sem þarf að vera til staðar. Velferðarráð óskar eftir að verða upplýst um framgang verkefnisins eftir sem því vindur fram. Að lokum telur velferðarráð að mikilvægt sé að vinna samhliða því að uppbyggingu fjölbreyttra búsetukosta fyrir þá sem teljast utangarðs í Reykjavík.“
13. Lagt fram minnisblað um stöðu samnings við Konukot, dags. 20. apríl 2016. Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu og skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gera grein fyrir málinu.
14. Lagt fram að nýju bréf borgarráðs með beiðni um umsögn velferðarráðs um drög að nýrri mannréttindastefnu, dags. 19. janúar 2016. Jafnframt lögð fram umsögn velferðarsviðs dags. 25. febrúar 2016 vegna mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar dags. 25. febrúar.
Frestað.
15. Lögð fram drög að sameiginlegri viljayfirlýsingu sveitarfélaga og Rauða krossins, dags. 7. apríl 2016, vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Formaður velferðarráðs gerir grein fyrir málinu.
Velferðarráð leggur fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð Reykjavíkur hélt fyrir skemmstu fund með Rauða krossinum um málefni flóttafólks og hælisleitenda þar sem fulltrúum fjölskyldu/velferðarráða sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var boðið að sitja. Á fundinum kom skýrt fram að nauðsynlegt er að laga ósamræmi sem gætir í þjónustu við þá sem hingað leita alþjóðlegrar verndar og auka samvinnu milli sveitarfélaga. Eins var rætt um hvort að málaflokkurinn ætti frekar heima hjá sveitarfélögum með fyrirvara um að nægt fjarmagn fylgi frá ríkinu. Velferðarráð Reykjavíkur lýsir sig reiðubúið að skrifa undir yfirlýsingu sem þessa og vísar málinu til samráðsvettvangs Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til frekari skoðunar. Ráðið telur mikilvægt að Rauði krossinn komi að vinnunni og styðji við og samræmi þá þjónustuveitingu sem flóttafólki og hælisleitendum þarf að standa til boða.
16. Lagt fram svar frá Strætó, dags. 12. apríl 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 18. febrúar 2016 vegna námskeiðs bílstjóra hjá Strætó sem hefja akstur hjá ferðarþjónustu fatlaðs fólks.
17. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurn:
Eins og marg oft hefur komið fram þá er langur biðlisti eftir greiningu fyrir börn með þroskahömlur hjá borginni. Getur biðin varað mánuðum saman og er í sumum tilfellum jafnvel talin í árum. Nú hefur mér borist til eyrna frekar súrrealísk frásögn af stöðu foreldra með barn á þessum biðlista. Samkvæmt þessari frásögn þá höfðu foreldrarnir gefist upp á því að bíða eftir því að það kæmi að þeirra barni í greiningu og því ákveðið að leita til sjálfstætt starfandi fagaðila til þess að framkvæma greininguna. Í framhaldinu hafi svo borist bréf frá borgaryfirvöldum þess efnis að barnið yrði tekiðaf biðlistum hjá borginni, svokölluð foreldraþjónusta sem foreldrar greindra barna eigi rétt á falli niður auk þess sem að barnið fái ekki þá þjónustu í skóla sem að önnur börn eigi rétt á og fái að lokinni greiningu. Eru borgaryfirvöld þess bær, að meta hæfi fagfólks, annarra en þeirra eigin, til þess að framkvæma þessar greiningar. Sé það svo að uppleggið hjá borgaryfirvöldum sé að allir eigi að sitja við sama borð og þess vegna skuli þessar greiningar fara í gegnum borgarkerfið, má spyrja, í ljósi þess að börn í Breiðholti þurfa að bíða mun lengur en t.d. börn í Vesturbæ eftir greiningu, af hverju þau börn sem fara í þessar greiningar í gegnum borgarkerfið sitji ekki við sama borð? Svo má auðvitað líka spyrja, þar sem það er á flestra vitorði að félagsleg þjónusta borgarinnar er í molum, hvort að biðlistar þessir séu settir upp til þess að stýra því hversu mikið álag sé á þá aðila innan borgarkerfisins er sinna þeirri þjónustu sem börn fá að lokinni greiningu.
18. Málefni Draumasetursins, áfangaheimilis að Héðinsgötu 10.
Frestað.
Fundi slitið kl. 16:59
Ilmur Kristjánsdóttir (formaður)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Ingvar Már Jónsson (sign) Börkur Gunnarsson (sign)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)