No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2016, fimmtudaginn 17. mars var haldinn 283. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Líf Magneudóttir og Ingvar Már Jónsson. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Starfið milli funda.
Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
- Áslaug María Friðriksdóttir tók sæti á fundinum kl.13.15.
2. Lögð fram og kynnt skýrsla starfshóps um undirbúning og stofnun teymis vegna stuðnings við börn og ungmenni á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda, dags.í nóvember 2015. Jafnframt lagt fram á fundinum minnisblað dags. 17. mars 2016.
Hrund Logadóttir verkefnisstjóri á skóla- og frístundasviði tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti skýrsluna.
Skrifstofustjóri ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir minnisblaðinu 17. mars 2016.
3. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, ásamt minnisblaði um umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna tillögunnar, dags. 12. febrúar 2016.
Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Afgreiðslu málsins var frestað.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins gerir alvarlegar athugasemdir við þá niðurstöðu sem velferðarsvið leggur fram í umsögn sinni.Því er haldið fram að: „ljóst sé að margir einstaklingar sem nú þegar eiga undir högg að sækja muni eiga í auknum erfiðleikum með að framfleyta sér og sinni fjölskyldu“. Þessi fullyrðing stenst ekki, tillagan byggir á að um sömu fjárhæðir verði að ræða hins vegar sé hægt að nýta þær betur. Eðlilegt er að setja þær kröfur að fólk sinni eigin bataferli, vinni sig út úr erfiðleikum og til sjálfshjálpar. Hvetja ætti það til þess með öllum ráðum og virknistyrkurinn er til þess fallinn. Virknin sjálf getur verið af ýmsum toga og ætti að skilgreina í einstaklingsáætlun og þar horft í getu hvers og eins. Virknin gæti þess vegna fjallað um litla hluti sem einstaklingar eru að reyna að sigrast, til dæmis verkefni til að rjúfa félagslega einangrun eða læra að lifa með kvíða, en ekki endilega að sækja skipulagðara virkniúrræði sem virðist vera sá skilningur sem lagður er upp með í umsögninni. Fram kemur jafnframt; „Hætta er á að inntak einstaklingsáætlunar yrði minna marktæk, en í dag er unnið á grundvelli raunhæfðra markmiða og valdeflingar.“ Hvergi er rökstutt hvernig draga má þá ályktun að hætta sé á þessu og algjörlega óskiljanlegt að hægt sé að halda slíku fram. Hvatastyrkir myndu einmitt styrkja og styðja við einstaklingsáætlanirnar. Ekki verður séð að önnur atriði sem talin eru upp sem rökstuðningur gegn tillögunni séu annað hártoganir og viljaleysi til að breyta verklagi. Vísað er í að um „grundvallarstefnubreytingu á reglum yrði að ræða“, „leggjast þyrfti í heildarendurskoðun“ og þá sé ekki skýrt hvort virkni yrði eingöngu út frá kröfum um starfsendurhæfingu, vinnu og námi eða félli virkni til aukinna lifsgæða þar undir. Já! Tekið skal undir með starfsfólki að tillagan gæti haft í för með sér breytingar og jafnvel einhver óþægindi tengdum þeim.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Óskað er eftir skýringum með eftirfarandi atriðum í umsögn Velferðarsviðs, með vísan til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. „Grunnfjárhæðin yrði matskennd og erfitt yrði að gæta jafnræðis varðandi mat á því hvaða einstaklingar myndu falla undir heimildagreiðslur um virknistyrk.“
„Hætta er á að inntak einstaklingsáætlunar yrði minna marktæk, en í dag er unnið á grundvelli raunhæfðra markmiða og valdeflingar.“
„Yrði skilgreining á virkni eingöngu út frá kröfum um starfsendurhæfingu, vinnu og námi eða félli virkni til aukinna lífsgæða þar undir.“
4. Lagt fram bréf borgarráðs með beiðni um umsögn velferðarráðs um drög að nýrri mannréttindastefnu, dags. 19. janúar 2016. Jafnframt lögð fram ódagsett umsögn velferðarsviðs vegna mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
5. Lagt fram minnisblað um flutning geðteymis heimahjúkrunar frá velferðarsviði til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis. dags. 7. mars 2016.
Sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
6. Lagt fram minnisblað, dags. 13 mars 2016, ásamt drögum að samningi milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um rekstur félagsmiðstöðvarinnar í Hraunbæ 105.
7. Lagt fram svar, dags. 8. mars 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þann 4. febrúar 2016 um eflingu upplýsingaflæðis til aldraðra og eflingu ráðgjafarþjónustu.
8. Lagt fram svar, dags. 8. mars 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þann 4. febrúar 2016 vegna nærþjónustu og samráðs.
9. Lagt fram svar við fyrirspurn, dags. 8. mars 2016, frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þann 4. febrúar 2016 vegna stuðnings við aðstandendur.
10. Lögð fram og kynnt drög að starfsáætlun velferðarsviðs fyrir árin 2016-2017.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
11. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi tillögu:
Efla þarf forvarnir í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur yfir að ráða sérfræðingum og fagfólki á velferðarsviði sem sinna fjölskyldum í vanda. Meginreglan hefur verið að sinna þeim sem oft á tíðum eru komin í mikinn vanda og taka á móti fólki sem leitar sér aðstoðar en minni áhersla hefur verið lögð á að vinna að forvörnum og leiðbeina foreldrum og fjölskyldum með almennari leiðum, s.s. í gegnum fjölmiðla með skrifum og myndskeiðum til dreifingar á netmiðlum. Með þeim hætti má vekja athygli á því hvers konar hegðun gæti verið vísbending um að grípa þurfi inn og fjölskyldur eiga möguleika á að átta sig fyrr. Vel er þess virði að reyna nýstárlegri en áfram faglegar leiðir til að ná til fjölskyldna og leiðbeina þeim. Velferðarsviði verði falið að útfæra hvernig draga má fram slíkan fróðleik og kynna með nýstárlegri hætti en gert hefur verið.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Fundi slitið kl. 16.00
Ilmur Kristjánsdóttir formaður (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Áslaug María Friðriksdóttir (sign) Líf Magneudóttir (sign)
Ingvar Már Jónsson (sign)