No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2016, fimmtudaginn 18.febrúar var haldinn 281. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir.
Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Starfið milli funda.
Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
2. Lagafrumvörp um húsnæðismál.
Af hálfu velferðarráðuneytisins tóku eftirfarandi aðilar sæti á fundinum ; Bolli Þór Bollason, Rún Knútsdóttir og Helga María Pétursdóttir. Eftirfarandi lagafrumvörp voru kynnt:
Frumvarp til laga um almennar íbúðir.
Frumvarp til laga um húsnæðisbætur.
Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003.
Jafnframt lagðar fram að nýju umsagnir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til velferðarnefndar Alþingis varðandi frumvarp til laga um almennar íbúðir, frumvarp til laga um húsnæðisbætur og frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, dags. 18. janúar 2016.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók sæti á fundinum kl.14.00.
3. Lagðar fram lykiltölur frá janúar til desember 2015.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra geri grein fyrir málinu.
4. Lögð fram drög að samstarfssamningi við Hjálpræðisherinn í Reykjavík á grundvelli styrkveitingar frá febrúar 2016.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
5. Lagt fram minnisblað, dags.7. febrúar 2016, vegna vinnu við mótun nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.
Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að við vinnu við nýja framkvæmdaráætlun í málefnum fatlaðs fólks sem nú stendur yfir í velferðarráðuneytinu verði allar aðgerðir framkvæmanlegar og raunhæfar. Mikilvægt er að kostnaðarmeta allar aðgerðir sem lagðar eru til þannig að ákvörðun um fjármögnun þeirra sé tekin samhliða samþykkt áætlunarinnar.
6. Lagt fram að nýju minnisblað, dags. 14. desember 2015, um verkefni á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um nýsköpun og tæknilausnir.
Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.
7. Lögð fram til upplýsingar fræðsluáætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar fyrir vorið 2016.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar metnaðarfullri fræðsluáætlun velferðarsviðs. Áætlunin veitir greinargott yfirlit yfir þau námskeið sem í boði eru á vegum velferðarsviðs á vorönn 2016 og ætluð eru starfsmönnum sviðsins. Velferðarráð beinir því til yfirmanna á starfsstöðum velferðarsviðs að hvetja sitt starfsfólk til að kynna sér fræðsluáætlunina og sækja áhugaverð námskeið sem þeim stendur til boða.
8. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 4. febrúar 2016.
Á fundi með fulltrúum aldraðra kom í ljós að mikilvægt er að skipuleggja matarþjónustu við aldraða til framtíðar. Mjög mikilvægt er að vinna að því að fólk hafi meira val um tegundir og magn. Nauðsynlegt er einnig að upplýsingar um innihald fylgi öllum mat. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir með það. Lagt er til að öldruðum í Reykjavík bjóðist matarþjónusta um helgar á mest sóttu stöðunum í borginni þar til frekari stefnumörkun liggur fyrir. Fyrirkomulag þjónustunnar þarf jafnframt að endurskoða, til dæmis með aðkomu sjálfboðaliða.
Samþykkt samhljóða að óska eftir umsögn öldungaráðs um málið.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir það að nauðsynlegt er skipuleggja matarþjónustu fyrir aldraða heildstætt og til framtíðar og að unnið sé að meira vali eldri borgara um innihald máltíða, magn matar sem og að láta næringarinnihald fylgja.
9. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 4. febrúar 2016.
Mikilvægt er að koma til móts við fjölbreyttar þarfir aldraðra og leggja grunn að þjónustu sem byggir á fjölskylduvænum og persónulegum grunni. Á fundi velferðarráðs með fulltrúum aldraðra kom fram að hinn félagslegi þáttur heimaþjónustu og þrifa er ekki síður mikilvægur en áhersla á þrifin sjálf. Lagt er til að velferðarsvið skoði hvernig opna megi á að aldraðir geti ráðið aðstoð, t.d ættingja til að sinna þessum mikilvæga þætti.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að tillaga Sjálfstæðisflokksins frá 4. febrúar um fyrirkomulag félagslegrar heimaþjónustu verði vísað til heildarendurskoðunar á reglum og matstæki fyrir heimaþjónustu.
Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
10. Lögð fram umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 12. febrúar 2016, vegna tillögu frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 17. desember 2015 um að grunnkvarði verði lækkaður til jafns við grunnkvarða fjárhagsaðstoðar í nágrannasveitarfélögum. Um leið verði innleidd heimild til að veita virknistyrki til þeirra sem fylgja einstaklingsáætlunum og taka þátt í virkniverkefnum þannig að samanlögð upphæð grunnkvarða og virknistyrks verði jöfn núgildandi grunnfjárhæð.
Afgreiðslu málsins er frestað.
11. Lagt fram svar, dags. 2. febrúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 19. nóvember 2015, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé að gera til þess að fá fleira fólk til starfa í stuðningsþjónustu.
Samþykkt samhljóða að fela sviðinu að kostnaðarmeta það að aðgreina frekari liðveislu og tilsjón frá stuðningsþjónustu og ráða menntað starfsfólk til að sinna þeirri þjónustu og hvaða áhrif það hefði á þjónustuna í heild. Ráðið leggur einnig til að auglýst verði eftir stuðningsfjölskyldum í fjölmiðlum, vefsíðu borgarinnar og fleiri stöðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Fram kemur að illa hefur gengið að fá stuðningsfjölskyldur til starfa, enda er greiðsla á hvern sólarhring lág og engan veginn hvati fyrir umsækjendur. Sem dæmi má nefna að hámarksgreiðsla til stuðningsfjölskyldu, vegna barns í hæsta umönnunarflokki, er 792 kr. á klukkustund. Til samanburðar má nefna að lágmarkslaun á klukkustund eru 1.321 kr. skv. kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og greiðslur til stuðningsfjölskyldna því í engum takti við samfélagið. Langir biðlistar í stuðningsþjónustu eru því mest megnis tilkomnir vegna þess að illa hefur gengið að ráða starfsmenn vegna bágra launakjara og er það mjög miður.
12. Lagt fram svar, dags. 3. febrúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum velferðarráðs frá fundi velferðarráðs þann 3. desember 2015 um áhrif fækkunar hámarkstíma í félagslegri liðveislu.
13. Lagt fram svar frá Félagsbústöðum, dags. 22. janúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 3. desember 2015 um kostnað við uppbyggingu eða kaup og lóðaverð þeirra 40 félagslegra íbúða sem síðast hefur verið fjárfest í hjá Félagsbústöðum.
14. Lagt fram svar frá Félagsbústöðum, dags. 22. janúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 3. desember 2015 um hve stór hluti nýrra eigna sem Félagsbústaðir kaupa séu hentugar fyrir einstæðinga út frá útgjöldum og kostnaði á leigu íbúða.
15. Lagt fram svar, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 14. janúar 2016, vegna upplýsinga um hvað líði vinnu við viðaukasamninga sem gera átti milli Reykjavíkurborgar og Blindrafélagsins.
16. Lagt fram svar frá Strætó bs., dags. 20. janúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 14. janúar 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig eftirliti með bifreiðum sem sinna ferðaþjónustu fatlaðra sé háttað, t.d hvað varðar öryggiskröfur og gild leyfi.
17. Lagt fram svar frá Strætó bs, dags. 20. janúar 2016, við fyrirspurn frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 14. janúar 2016 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig nýliðaþjálfun og undirbúningi fyrir nýja bílstjóra hjá ferðaþjónustu fatlaðra sé háttað og hvort að í gangi séu regluleg námskeið fyrir þá bílstjóra sem fyrir starfa hjá ferðaþjónustunni til þess að viðhalda þekkingu þeirra og kynna þeim breytingar eða nýjungar.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um það hvort að bílstjórar sem hefja akstur hjá ferðaþjónustu fatlaðs fólks hafi allir lokið þessu námskeiði er varðar öryggi, samskipti við ferðaþjónustu, upplifun notanda, fræðslu um þroskaskerðingu, einhverfu og helstu fatlanir ásamt fræðslu um flogaveiki áður en þeir hefja akstur. Einnig hvort þeir hafi lokið skyndihjálparnámskeiði áður en þeir hefja akstur.
18. Lagt fram svar, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 4. febrúar 2016 um stefnu í málefnum aldraðra vegna breytinga á heimilum.
19. Lagt fram svar, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 4. febrúar 2016 um stefnu í málefnum aldraðra vegna þjónustubúða.
20. Lagt fram svar, dags. 9. febrúar 2016, við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 4. febrúar vegna málefna aldraðra um rafrænt ábendingakerfi í heimahjúkrun.
Fundi slitið kl.16.40
Ilmur Kristjánsdóttir
formaður (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)
Börkur Gunnarsson (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)