Velferðarráð - Fundur nr. 279

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 21.janúar var haldinn 279. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.12 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Jóna Björg Sætran. 

Áheyrnarfulltrúi: Katla Hólm Þórhildardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir,  Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

UNICEF á Íslandi kynnti nýja skýrslu um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort. Þar koma fram tölur um fátækt meðal barna sem ráðið vill taka til enn frekari skoðunar. Velferðarsviði er því falið að kanna hvort gögnin fyrir Reykjavík sérstaklega séu aðgengileg og greinanleg og fá þá þau gögn send.

2. Styrkir og þjónustusamningar: Lögð fram að nýju til samþykktar tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og  þjónustusamninga.

Formaður velferðarráðs  gerði  grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt með áorðnum breytingum með fimm samhljóða atkvæðum.

Heiða Björg Hilmisdóttir vék af fundi við atkvæðagreiðsluna vegna vanhæfis.

3. Lagðar fram lykiltölur janúar til nóvember 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

4. Lögð fram og kynnt skýrsla frá nóvember 2015 um kynjaða fjárhags- og starfsáætlun; heimildargreiðslur fjárhagsaðstoðar,  

Jón Viðar Pálmason, fjármálasérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

5. Lagt fram að nýju frá fundi velferðarráðs þann 19. nóvember 2015, stöðumat, dags. 2. nóvember 2015, á innleiðingaráætlun forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014- 2019. 

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögu fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð telur mikilvægt að það sé alveg skýrt að þjónustumiðstöðvar hafa umboð til þess að aðinnleiða forvarnastefnuna og kalla eftir forvarnaáætlunum frá stofnunum borgarinnar. Velferðarráð telur mikilvægt að samþætta forvarna- og heilsueflingarstarf í hverfum borgarinnar þar sem lögð er áhersla ánæringu, vellíðan, hreyfing og jákvæðan lífsstíl. Mikilvægt er að heilsuefingarstarf nái til allra barna í Reykjavík. Hlutverk forvarnahópa e r meðal annars að starfa í miklu samráði við grasrótina og tengja góð verkefni sem hafa forvarnagildi inn í samstarfið. Mikilvægt er að réttindi barna séu virt, þau búi við heilsueflandi umhverfi, lýðræði og jafnrétti og hafi jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna virkum forvarnarstefnum sem ná til barna og unglinga í Reykjavík. Forvarnarstefna  Reykjavíkurborgar er útfærð með nokkuð ólíkum hætti eftir þjónustumiðstöðvum og skólahverfum. Brýnt er að góð samvinna sé þar milli forystu þjónustumiðstöðvar og skólastjórna í hverju hverfi um sig og æskilegt að ákveðið frelsi sé hvað varðar útfærslu til að hægt sé að nýta sem best aðstæður á hverjum stað. Framsókn og flugvallarvinir vilja vekja athygli á nauðsyn þess að í forvarnarvinnunni verði einnig hugað sérstaklega að börnum og unglingum af erlendum uppruna, og þá nú sér í lagi börnum innflytjenda og börnum fólks sem er í leit að alþjóðlegri vernd (þ.e. hælisleitenda) en þarfir og aðstaða þeirra getur verið með allt öðrum hætti en annarra barna og barna kvótaflóttafólks sem meiri reynsla er komin á.

6. Lögð fram og kynnt skýrsla starfshóps um utankjarnaþjónustu frá október 2015.

Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar starfshópi um þjónustu út frá kjarna við fatlað fólk á heimilum sínum fyrir vinnu við þá stefnumótun sem nú liggur fyrir. Ráðið beinir því til velferðarsviðs að vinna tillögu á grundvelli skýrslunnar. Greina þarf kostnaðarliði og hvernig samhæfa megi matstæki.

7. Lögð fram tillaga um tilraunaverkefni sem byggir á „Housing First“, þar sem lagt er til að fjórar almennar félagslegar leiguíbúðir verði færðar úr almennri úthlutun yfir í sértæka úthlutun fyrir utangarðsfólk, dags. 12. janúar 2016. 

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Málinu er frestað til næsta fundar.

8. Lagt fram minnisblað um verkefni á vegum velferðarsviðs um nýsköpun og tæknilausnir, dags. 14. desember 2015.

Málinu er frestað til næsta fundar.

9. Lögð fram umsögn velferðarsviðs um þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. dags 6. janúar 2016 ásamt aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og umsögn velferðarsviðs frá 27. ágúst 2015 um drög að geðheilbrigðisstefnu. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð tekur undir umsögn sviðsins um þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

10. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 14. janúar 2016:

Framsókn og flugvallarvinir ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins leggja til að  skoðað verði að ráða  fleiri fatlaða einstaklinga í þjónustuver Strætó en það myndi vera í samræmi við 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samþykkt samhljóða að vísa tillögunni til meðferðar stjórnar Strætó bs.  

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að Reykjavíkurborg og að aðilar henni tengdir leggi áherslu á að bjóða fötluðum einstaklingum atvinnutækifæri.

11. Lögð fram að nýju tillögu frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 17. desember 2015:

Velferðarráð samþykkir að breyta reglum um fjárhagsaðstoð á þann hátt að grunnkvarði verði lækkaður til jafns við grunnkvarða fjárhagsaðstoðar í nágrannasveitarfélögum. Um leið verði innleidd heimild til að veita virknistyrki til þeirra sem fylgja einstaklingsáætlunum og taka þátt í virkniverkefnum þannig að samanlögð upphæð grunnkvarða og virknistyrks verði jöfn núgildandi grunnfjárhæð.

Samþykkt samhljóða  að vísa málinu til umsagnar velferðarsviðs.

12. Lagðar fram umsagnir velferðarsviðs um eftirfarandi lagafrumvörp:

Umsögn um frumvarp til laga um almennar íbúðir.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994, með síðari breytingum (réttarstaða leigjanda og leigusala). 

Umsagnir lögfræðiskrifstofu og skrifstofu fjármála og rekstrar um frumvarp til laga um húsnæðisbætur.

Fundi slitið kl.16.40

Ilmur Kristjánsdóttir formaður 

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Fríða Björg Hilmisdóttir (sign)

Áslaug María Traustadóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)

Jóna Björg Sætran (sign)