Velferðarráð - Fundur nr. 278

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2016, fimmtudaginn 14. janúar var haldinn 278. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í fundarsalnum Hofi, Borgartúni 14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sigtryggur Jónsson, Agnes Sif Andrésdóttir og Birna Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

- Katla Hólm Þórhildardóttir tók sæti á fundinum kl. 13:10

2. Kynntar tillögur velferðarsviðs vegna hagræðingar. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir málinu. 

Agnes Sif Andrésdóttir deildarstóri á skrifstofu fjármála og rekstrar tók sæti á fundinum undir þessum lið.

- Börkur Gunnarsson vék af fundi kl. 13:54

- Börkur Gunnarsson tók sæti á fundinum kl. 14:30

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Aðgerðarleysi meirihlutans í Reykjavík síðastliðin 2 kjörtímabil hefur leitt af sér hættuástand.  Í stað þess að vinna jafnt og þétt að nauðsynlegum breytingum, hefur skuldum verið safnað og eytt verið um efni fram. Nú er svo komið að viðkvæmri velferðarþjónustu er ógnað. Tillögur um hagræðingu sem með réttu hefði átt að leggja fram fyrir mörgum mánuðum eru rétt að líta dagsins ljós og samt eru margar hverjar enn óútfærðar. Ofan á þær tillögur glímir velferðarþjónustan við almenna hagræðingarkröfu sem lögð var á fyrir árið 2016.

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fjárhagsáætlun Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata einkennist öðru fremur af því markmiði að reka Reykjavíkurborg með sem hagkvæmustum hætti til framtíðar. Meirihlutinn leggur áherslu á sjálfbæran rekstur borgarsjóðs þar sem tekjur eru í samræmi við útgjöld. Vinna við breytingar og hagræðingu í rekstri til að ná þeim árangri sem krafa er gerð um  árið 2016 eru á áætlun. Staðið verður vörð um grunnþjónustu og barnafjölskyldur auk þess að leitast verður við að minnka húsnæðiskostnað, ná fram hagkvæmari innkaupum og gæta aðhalds í starfsmannamálum.  

3. Lögð fram tillaga um að sundferðir og bókasafnskírteini verði gjaldfrjáls fyrir atvinnulausa og einstaklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu árið 2016. dags.8. janúar 2016.

Tillagan samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum  Fulltrúar sjálfstæðisflokks greiddu  atkvæði á móti tillögunni.

4. Kynnt kaup Félagsbústaða á 47 íbúðum af Íbúðalánasjóði. 

Auðun Freyr Ingvarsson og Birgir Ottósson frá Félagsbústöðum tóku sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

5. Lagður fram til kynningar samningur um hjúkrun í heimahúsum dags. 23. desember 2015. Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

6. Kynnt umsögn um tillögu stjórnar SSH um breytingar á kostnaðarskiptingu aðildarsveitarfélaga   að samkomulagi um ferðaþjónustu fatlaðra og tillögu að breytingum á framkvæmd þjónustunnar dags. 28. október 2015 ásamt fylgigögnum. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir málinu. 

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

Ný kostnaðarskipting milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks mun leiða af sér aukin útgjöld fyrir Reykjavíkurborg. Ef fjárhagslegur ávinningur næst með breytingunum kemur hann til frádráttar að einhverju leyti á þessu ári, en erfitt getur reynst að kostnaðarmeta ávinning þeirrar vinnu. Velferðarráð bendir á að ekki er gert ráð fyrir þessum viðbótarkostnaði í fjárhagsáætlun velferðarsviðs fyrir árið 2016. 

7. Kynnt skýrsla framkvæmdaráðs um ferðaþjónustu fatlaðs fólks dags.13. desember 2015

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvernig eftirliti með bifreiðum sem sinna ferðaþjónustu fatlaðra er háttað, t.d hvað varðar öryggiskröfur og gild leyfi. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra bifreiða sem þjónustunni sinna en komið hefur í ljós að bílarnir henta misvel þeim farþegum sem þá nota. 

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvar vinna við viðaukasamning sem gera átti milli Reykjavíkurborgar og Blindrafélagsins stendur.  En sá viðaukasamningur átti að veita Blindrafélaginu heimild til þess að veita ferðaþjónustu til fatlaðra notenda sem ekki féllu að skilgreiningu í upphaflegum samningi.

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvernig nýliðaþjálfun og undirbúningi fyrir nýja bílstjóra hjá ferðaþjónustu fatlaðra er háttað og hvort að í gangi séu regluleg námskeið fyrir þá bílstjóra sem fyrir starfa hjá ferðaþjónustunni til þess að viðhalda þekkingu þeirra og setja þá inn í breytingar eða nýjungar. 

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Framsókn og flugvallarvinir ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins leggja til að skoðað verði að ráða fleiri fatlaða einstaklinga í þjónustuver Strætó. En það myndi vera í samræmi við 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Tillögunni var frestað.

8. Fulltrúar sjálfstæðisflokks og Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að velferðarráð samþykki að eldri borgurum í Eirborgum og Aflagranda standi til boða matarþjónusta um helgar þar til heildarmat og yfirsýn yfir þjónustuna liggur fyrir og svör við fyrirspurn velferðarráðs frá síðasta fundi hafa borist og unnið verið úr þeim. 

Tillögunni var frestað. 

Fundi slitið kl. 16:35

Ilmur Kristjánsdóttir formaður

Börkur Gunnarsson (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign)