Velferðarráð - Fundur nr. 276

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2015, fimmtudaginn 3. desember var haldinn 276. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Kjartan Þór Ingason. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

Kristín Elfa Gunnarsdóttir tók sæti á fundinum kl. 13.22.

2. Minnisblað um vinnu starfshóps um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, dags 15. nóvember 2015. 

Skrifstofustjóri ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram að nýju og kynnt tillaga um breytingu á forsendum leiguverðs hjá Félagsbústöðum ásamt umsögn fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar,dags. 26. nóvember 2015, um nýtt leiguverðslíkan Félagsbústaða hf.

Eftirtaldir aðilar tóku sæti á fundinum undir þessum lið: Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf. sem kynnti tillöguna. Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar. Einar Bjarki Gunnarsson, deildarstjóri áhættumatsdeildar, fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, sem kynnti umsögn fjármálaskrifstofu. Ívar Örn Ívarsson, lögfræðingur, fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Birgir Ottósson, forstöðumaður þjónustudeildar Félagsbústaða hf. Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að fá upplýsingar um kostnað við uppbyggingu eða kaup og lóðarverð 40 félagslegra íbúða sem síðast hefur verið fjárfest í hjá Félagsbústöðum. Tilefnið er að nú stendur til að skipuleggja félagslegar íbúðir við Vesturbugt, þar sem lóðarverð er mun hærra en annars staðar í borginni. Með sölu lóðarinnar gæti því borgin fengið tekjur til að fjármagna kaup á fleiri íbúðum í sama hverfi eða miðlægt í borginni. Félagsleg blöndun er afar mikilvæg en vel er hægt að útfæra hana án þess að nota dýrustu byggingarlóð borgarinnar. Hundruðir eru á biðlista eftir húsnæði og því mikilvægara að fleiri fái þak yfir höfuðið en að færri fái húsnæði á dýrri lóð.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:.

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hver stór hluti nýrra eigna sem félagsbústaðir kaupa eru hentugar fyrir einstæðinga út frá útgjöldum og kostnaði á leigu íbúða. Auk þess óskum við eftir að vita hversu stórt hlutfall þeirra sem nýta þjónustu Félagsbústaða búa einir.

4. Lagt fram minnisblað um fyrirhugaðar breytingar á reglum um stuðningsþjónustu, dags. 24. nóvember 2015.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu velferðarsviðs, tók sæti á fundinum kl. 15.25 og gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fram kemur í minnisblaðinu að af þeim 350 einstaklingum sem nýttu sér liðveislu á tímabilinu janúar til ágúst 2015 voru eingöngu 19, sem er 5% hópsins, sem nýttu sér liðveislu yfir 24 tímum á mánuði. Í tengslum við breytinguna sem lagt er til að verði gerð á reglum um stuðningsþjónustu er óskað eftir því að velferðarsvið taki saman hvaða áhrif breytingarnar munu hafa á þá einstaklinga sem tilheyra 5% hópnum og leggja fyrir velferðarráð.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihlutinn forgangsraðar ekki í þágu stuðningsþjónustu við fatlaða í Reykjavík. Enn fjölgar á biðlistum eftir stuðningsþjónustu sem eru algjörlega óásættanlega langir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fyrr á þessu ári fram á fundi velferðarráðs að stuðningsþjónustan yrði meðhöndluð eins og önnur lögbundin þjónusta, til dæmis fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur, þar sem ekki yrði leyfilegt að setja fólk á biðlista. Í ljósi þess hversu þjónustan er gríðarlega mikilvæg til að styðja við almennt líf fatlaðra í borginni væri sú ákvörðun eðlileg. Tillagan var felld af meirihlutanum en hann samþykkti að vísa hugmyndinni inn í vinnu vegna fjárhagsáætlunargerðar. Nú liggur hins vegar fyrir að stuðningsþjónustan þótti ekki nægilega mikilvæg til að njóta forgangsröðunar hjá Bjartri framtíð, Pírötum, Samfylkingunni og Vinstri grænum. 

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Í fjárhagsáætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna ársins 2016 er get ráð fyrir að auka hlutdeild frekari liðveislu í þjónustu til fatlaðs fólk með 150 mkr viðbótarfjárheimild. Þetta er gert til að fatlað fólk geti frekar búið á heimili sínu. Það samræmist stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum fyrir árin 2013-2023. Hækkun hámarkstíma í frekari liðveislu er því til samræmis við það markmið.

5. Lagt fram minnisblað um fyrirhugaðar breytingar á reglum um félagslega heimaþjónustu dags. 23. nóvember 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

6. Lagt fram minnisblað vegna ákvörðunar verkefnastjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð á vegum velferðarráðuneytis um að hætta að gefa út upplýsingar um upphæð viðmiðunarstundar í tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) dags. 25. nóvember 2015.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu velferðarsviðs, gerði grein fyrir málinu.

7. Lagt fram minnisblað, dags. 26.nóvember 2015, vegna framlengingar samninga um notendastýrða persónulega aðstoð á árinu 2016.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

8. Lögð fram tillaga að breytingum á reglum um tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á þjónustusvæði Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar. dags. 30 nóvember 2015.

Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

Lagt er til að gildistími reglna um tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á þjónustusvæði Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar verði framlengdur til 31. desember 2016.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu velferðarsviðs, vék af fundi kl. 16.08.

9. Lagt fram minnisblað um stöðumat á innleiðingu sértækrar ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar, dags. 24.nóvember 2015. 

Katrín Þórdís Jacobsen, deildarstjóri á skrifstofu velferðarsviðs, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

10. Lagður fram samþykktur fjárhagsrammi velferðarsviðs fyrir árið 2016. 

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

11. Samþykkt var að taka á dagskrá drög að eftirfarandi gjaldskrám velferðarsviðs.

a. Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði.

b. Gjaldskrá í félagsstarfi.

c. Þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.

d. Gjaldskrá í heimaþjónustu.

e. Þjónustugjald í Foldabæ.

f. Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum.

g. Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna og útlagðs kostnaðar vegna dvalar hjá stuðningsfjölskyldu.

h. Gjaldskrá um akstursþjónustu eldri borgara.

Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum að vísa drögunum til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

12. Lagt fram að nýju frá fundi velferðarráðs þann 19. nóvember 2015, stöðumat dags 2. nóvember 2015, á innleiðingaráætlun forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014-2019.

Málinu er frestað 

13. Lagður fram til kynningar samningur um samstarf milli geðsviðs Landspítala og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna Laugaráss-meðferðargeðdeildar og íbúðakjarnans að Austurbrún, dags. 18. nóvember 2015. 

14. Lögð fram tillaga að breytingu á 11. og 13. gr. reglna Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa dags. 25. nóvember 2015. 

Lagt er til að velferðarráð samþykki breytingu á 11. og 13. gr. reglna Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa.

Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

Samþykkt samhljóða.

15. Lögð fram tillaga að breytingu á 28. og 29. gr. reglna um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavík dags. 25. nóvember 2015.

Lagt er til að velferðarráð samþykki breytingu á 28. og 29. gr. reglna um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavík. 

Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

Samþykkt samhljóða.

16. Lagt fram svar Félagsbústaða dags 16. október 2015 við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks á fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015 vegna félagslegra íbúða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Núverandi meirihluti hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismál. Hlutverk velferðarráðs sem húsnæðisnefndar sveitarfélags var skerpt og unnin markviss stefnumótun um fjölgun félagslegra leiguíbúða með það að markmiði að mæta þörfum þeirra sem teljast í brýnni þörf eftir félagslegu leighúsnæði. Ljóst er að fjölgun íbúða á síðasta kjörtímabili var lítil enda hefur núverandi meirihluti lagt áherslu á að bæta verulega í hvað það varðar. Það sem af er þessa kjörtímabils hafa verið keyptar alls 58 íbúðir. Mest er eftirspurn eftir litlum íbúðum, einstaklingsíbúðum og tveggja herbergja íbúðum. Fækkað hefur á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, en þó er skortur á litlum íbúðum raunverulegt vandamál. Erfitt hefur verið að kaupa slíkar íbúðir á markaði þar sem framboð þeirra hefur verið lítið. Nú munu Félagsbústaðir hinsvegar hefja samstarf við ýmsa aðila m.a Búseta og nýta forkaupsrétt í samningum við verktaka til þess að fjölgunin geti orðið meiri í nýbyggingarverkefnum. Vanda þarf til verka við slíka uppbyggingu þannig að fjölga megi félagslegum leiguíbúðum en á sama tíma tryggja félagslega blöndum hverfa. Auk þess er mikilvægt að aðskilja reglur um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur en hefur sú vinna tafist vegna óvissu um framtíðarskipulag húsaleigubóta í nýju frumvarpi félagsmálaráðherra. Einnig er mikilvægt að eyða óvissu um stofnstyrki til bygginga félagslegs húsnæðis þannig að hægt sé að vinna stefnumótun til langs tíma.

17. Lögð fram fundaáætlun velferðarráðs fyrir janúar til júní 2016.

18. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs, þann 19. nóvember 2015.

Lagt er til að velferðarráð samþykki að vísa tillögu sjálfstæðismanna frá 22. janúar 2015 til velferðarsviðs.

Tillagan var eftirfarandi:

Lagt er til að velferðarsviði verði falið að skoða möguleika á því að setja upp vefsvæði í því skyni að kynna þjónustu sem stendur einstaklingum og fjölskyldum til boða í skóla- og velferðarmálum. Markmiðið er að stuðla að því að þeir sem þurfa geti fundið sér þjónustu við hæfi eins fljótt og hægt er. Með markvissu upplýsingaflæði um framboð skóla- og velferðarúrræða, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, má stuðla að því að fjölskyldur og einstaklingar leiti sér aðstoðar fyrr og helst um leið og grunur um þörf kviknar. Ná þarf enn frekar til þeirra sem ekki skila sér í ráðgjöf eða meðferð nógu snemma. Gott upplýsingaflæði um framboð myndi einnig draga úr því að of mikil áhersla sé á greiningu og að beðið sé langdvölum á biðlistum eftir mati en á meðan tapist mikilvægur uppbyggingartími.

Tillögunni var frestað. 

Velferðarráð lagði fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að velferðarsviði verði falið að yfirfara allar upplýsingar á heimasíðu Reykjavíkurborgar sem snúa að þjónustu sviðsins. Markmiðið með vinnunni verði að stuðla að því að þeir sem þurfa geti fundið sér þjónustu við hæfi eins fljótt og kostur er. Með markmissu upplýsingaflæði um framboð velferðarúrræða má stuðla að því fólk sem er í þörf fyrir þjónustu eyði ekki óþarfa tíma í leit að úrræðum við hæfi. Jafnframt verði sviðsstjóra falið að taka saman niðurstöður þeirra rannsókna sem kynnar hafa verið velferðarráði og snúa að aðgengi notenda þjónustu og aðstandenda þeirra að upplýsingum um þjónustu.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

19. Ráðstefna vegna afmælis þjónustumiðstöðva.

Fundi slitið kl: 17:10

Ilmur Kristjánsdóttir formaður 

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)

Áslaug Friðriksdóttir (sign) Kjartan Þór Ingason (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Heiða Björk Hilmisdóttir (sign)