Velferðarráð - Fundur nr. 275

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2015, fimmtudaginn 19. nóvember, var haldinn 275. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Berglind Magnúsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist: 

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

2. Lögð fram og kynnt rannsókn á upplifun foreldra barna á þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra, frá nóvember 2015, ásamt minnisblaði dags. 19. nóvember 2015.

Tinna Björg Sigurðardóttir, verkefnastjóri í deild gæða og rannsókna á skrifstofu sviðsstjóra tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti rannsóknina.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á niðurstöðum rannsóknar á upplifun foreldra á þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir fötluðum börnum. Niðurstöður sýna meðal annars að foreldrar vilja vera í meiri tengslum við þjónustumiðstöð og telja að ráðgjafar eigi að sýna meira frumkvæði og að erfitt sé að nálgast upplýsingar um þá þjónustu sem stendur til boða. Velferðarráð felur velferðarsviði að koma með tillögur að úrbótum í samráði við ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva um hvernig megi m.a bæta aðgengi að upplýsingum um þjónustu og efla tengsl við notendur þjónustu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: 

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvað velferðarsvið er að gera til þess að fá fleira fólk til starfa í stuðningsþjónustu. Ljóst er að biðlistar eru langir og því nauðsynlegt að leggja metnað í að fá fleira fólk til starfa svo að hægt sé að létta undir með þeim fjölskyldum sem á þurfa að halda.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Ljóst er að foreldrar fatlaðra barna eru í mismiklum tengslum við ráðgjafa á þjónustumiðstöð og virðast tengsl við ráðgjafa hafa mikil áhrif á skoðun foreldra á miðlun upplýsinga. Flestir foreldrarnir segja miðlun upplýsinga ekki næga og að þeir hafi fengið upplýsingar um úrræði frá öðrum foreldrum og er það miður. Einnig telja foreldrar tregðu í kerfinu við að koma úrræðum á en eru ánægðir með úrræðin þegar þau eru á annað borð komin. Svo virðist sem skortur á úrræðum og fjármagni dragi úr því frumkvæði sem þjónustumiðstöðvar eiga að hafa til að miðla upplýsingum og úrræðum og við því þarf að bregðast.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að velferðarráð samþykki að vísa tillögu sjálfstæðismanna frá 22. janúar 2015 til velferðarsviðs. Tillagan sem lögð var fram í því skyni að auðvelda aðgengi að upplýsingum um velferðarúrræði var felld í borgarstjórn í desember á síðasta ári, lögð aftur fram í velferðarráði í janúar og frestað, hálfu ári síðar var ákveðið að vísa henni til stjórnkerfis- og lýðræðisráðs en nú kom í ljós að það var aldrei gert. Ár hefur því liðið án þess að málið hafi fengið einhverja vinnslu. Nú liggur fyrir rannsókn sem styður enn frekar við að tillögunni verði vísað til velferðarsviðs án frekari tafa enda nærri ár síðan hún var lögð fram í velferðarráði og ár síðan hún var lögð fyrir í sinni upphafilegu mynd í borgarstjórn. Full ástæða er því til að samþykkja hana og vísa til velferðarsviðs.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúarnir taka undir þá skoðun sjálfstæðismanna sem fram kemur í tillögu þeirra, að miður sé að misfarist hafi að senda tillöguna frá 5. febrúar sl. áfram til stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Tillagan snerist um að koma upp miðlægu vefsvæði þar sem kynna á alla þá þjónustu sem stendur einstaklingum og fjölskyldu til boða í skóla- og velferðarmálum. Fulltrúarnir telja mikilvægt að fylgja málinu fast eftir og koma með tillögu sem fyrst um hvernig hægt sé að koma þessum málum í lag á miðlægan hátt, m.a. við mótun nýrrar upplýsingastefnu borgarinnar.

3. Lagt fram og kynnt áfangamat RIKK (Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum) á verkefninu Saman gegn ofbeldi; Átak lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar gegn heimilisofbeldi, dags.16. október 2015, ásamt minnisblaði, dags. 10. nóvember 2015.

Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Þóra Kemp, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu áfangamatið.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir kynningu á samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu; Saman gegn ofbeldi. Mikilvægt er að skoða reynsluna af verkefninu og vakta hvernig hægt er að bæta enn frekar þjónustu við þolendur, gerendur og börn sem verða fyrir heimilisofbeldi. Miðað við niðurstöður áfangamatsins er full ástæða til að efla fræðslu og stuðning við starfsmenn, bæta þjónustu við gerendur, breyta fyrirkomulagi varðandi eftirfylgni viðtala, bæta þjónustu við börn og ná betur til fatlaðra þolenda í heimilisofbeldismálum. Velferðarráð óskar jafnframt eftir að fá kynningu á lokaúttekt verkefnisins, sem og tillögum að úrbótum þegar þær liggja fyrir enda sjáum við þetta fyrst og fremst sem verkefni um breytt verklag til framtíðar.

4. Lagt fram uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til september 2015.

Agnes Sif Andrésdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

5. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til september 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

6. Lögð fram og kynnt viðhorfskönnun vegna heimahjúkrunar frá nóvember 2015 ásamt minnisblaði, dags. 13. nóvember 2015.

Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri gæða og rannsókna á skrifstofu sviðsstjóra, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

7. Lagt fram stöðumat, dags. 2. nóvember 2015, á innleiðingaráætlun forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014–2019.

Málinu var frestað.

8. Lagt fram minnisblað vegna aðgerða í málaflokki utangarðsfólks, dags. 9. nóvember 2015

.

Sigþrúður E. Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

Lagt fram erindi frá Draumasetrinu varðandi meðferðarstarfs á Víðinesi. Samþykkt var að óska umsagnar velferðarsviðs um erindið. Afgreiðslu málsins er frestað.

9. Lagt fram að nýju stöðumat á aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum utangarðsfólks fyrir árin 2014 – 2018, dags 7. október 2015.

10. Lögð fram greining á notendum Gistiskýlisins á tímabilinu janúar til ágúst 2015, dags. 21. október 2015. Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir góða greiningu á notendahópi Gistiskýlisins. Þær mynda grunn að því að hægt sé að halda áfram þeirri góðu vinnu sem hafin er. Mikilvægt er að þróa þjónustuna áfram við þennan hóp áfram í takt við einstaklingsbundnar þarfir notenda. Athygli vekur hversu margir eru taldir í þörf fyrir sérhæfða þjónustu geðteymis og óskar ráðið eftir að fá sérstakar tillögur um hvernig mæta megi þeim hópi í þjónustu borgarinnar.

11. Lagt fram minnisblað um flutning heimaþjónustu í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum til Vitatorgs, dags. 29. október 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

12. Lagt fram svar, dags. 9 nóvember 2015, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á fundi velferðarráðs þann 17. september 2015 vegna Mýrarinnar. 

13. Lögð fram að nýju svo breytt eftirfarandi tillaga frá fulltrúum Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúa Pírata frá fundi velferðarráðs þann 1. október 2015:

Velferðarráð felur velferðarsviði að stofna rýnihóp, með einstaklingum utan sviðsins sem hefur það hlutverk að móta tillögur að breyttri áherslu í framkvæmd og skipulagi fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Hópurinn skal skipaður fulltrúa frá grunnskóla, fulltrúa framhaldsskóla, fulltrúa skapandi greina, fulltrúa tækni og iðnnáms, fullorðinsfræðslu og fulltrúa notenda fjárhagsaðstoðar. Rýnihópurinn styðjist við skýrsluna „Persónuleg þjónusta, það er góð þjónusta“ frá því í september 2012. Rýnihópurinn skal huga sérstaklega að fjölbreyttum menntunarmöguleikum fyrir notendur fjárhagsaðstoðar, ekki síst þeim sem eru á aldrinum 18-25 ára. Þá skal hópurinn koma með tillögur um skapandi starf með einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð, sérstaklega í þeim tilvikum sem almenn úrræði hafa ekki dugað til. Að lokum skal hópurinn gera tillögur að forvarnaráætlun vegna fjárhagsaðstoðar, sem hægt væri að nýta í samráði við skóla- og frístundasvið til að ná til þess hóps sem líklegur er að hætta í námu að loknum grunnskóla.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

14. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 1. október 2015, vegna beiðni um aukakostnað vegna flutnings þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, dags.10. nóvember 2015.

15. Lagt fram svohljóðandi bréf skrifstofu borgarstjórnar vegna kosningar í fulltrúaráð hjúkrunarheimilisins Skjóls, dags. 5. nóvember 2015:

Á fundi borgarráðs þann 5. nóvember 2015 var samþykkt að Elín Oddný Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs og Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar taki sæti í fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Skjóls í stað Þorleifs Gunnlaugssonar og Stellu Víðisdóttur. 

16. Heimahjúkrun.

Velferðarráð óskaði eftir upplýsingum um samanburð á verði fyrir þjónustu sem veitt er af hálfu einkafyrirtækja.

Fundi slitið kl. 17.05

Ilmur Kristjánsdóttir formaður

Gréta Björg Egilsdóttir (sign) Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Magnús Már Guðmundsson (sign)

Börkur Gunnarsson (sign) Áslaug Friðriksdóttir (sign)