Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2015, fimmtudaginn 15. október var haldinn 272. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Starfið milli funda.
Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.
- Herdís Þorvaldsdóttir tekur sæti á fundinum kl. 13.15.
- Örn Þórðarson tekur sæti á fundinum kl. 13.15.
2. Lögð fram til samþykktar að nýju drög að samstarfssamningi við Vin ásamt minnisblaði um Vin, fræðslu- og batasetur dags. 22. september 2015.
Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir samninginn til að hægt sé að tryggja rekstur athvarfsins Vinjar út árið 2017. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar frá árinu 2014 kemur fram að full þörf sé á sérhæfðri starfsemi þess. Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að tryggja framtíðarstarfsemi Vinjar með starfsemi geðheilsuteymis í huga, í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt lýsir velferðarráð yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun velferðarráðuneytisins að draga stuðning sinn til Vinjar til baka á þessum tímapunkti. Nauðsynlegt er að tryggja aðkomu ráðuneytisins að verkefninu á meðan endurskoðun framtíðarstarfsemi athvarfsins stendur yfir.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir fagna því að velferðarsviði hafi tekist að tryggja áframhaldandi rekstur athvarfsins Vinjar út árið 2017 og að áfram verði unnið að þróun starfsins sem þar er unnið. Mikilvægt er að þrátt fyrir breyttar áherslur í geðheilbrigðismálum verði starfsemi Vinjar aðlöguð þannig að stefnunni að hún mæti áfram þjónustuþörfum þeirra einstaklinga sem reglulega sækja þangað.
3. Lögð fram endurskoðuð aðgerðaáætlun vegna fjárhagsaðstoðar, dags. 6. október 2015, ásamt minnisblaði dags. 6. október 2015. Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu kynnti minnisblaðið. Þóra Kemp, deildarstjóri á skrifstofu ráðgjafarþjónustu tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir aðgerðaráætluninni.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúarnir fagna því að tekist hefur að fækka í hópi þeirra Reykvíkinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð til framfærslu á að halda, en notendum í janúar til ágúst 2015 fækkaði um 9% miðað við sama tímabil árið 2014. Einnig hefur viðtakendum framfærslustyrks á aldrinum 18-24 ára fækkað um 15,7% frá árinu 2014. Árangur af átaksverkefnum sem miða að því að koma fólki á fjárhagsaðstoð í vinnu hefur sömuleiðis verið góður og hafa 71% þeirra sem vísað hefur verið í úrræði til Vinnumálastofnunar komist í starf eða nám það sem af er árinu 2015. Þá er árangur af vinnu færniteymis, sem falið er að vinna með notendum fjárhagsaðstoðar sem eru taldir tímabundið óvinnufærir, ánægjulegur, en 44% af þeim sem vísað er þangað hætta með fjárhagsaðstoð til framfærslu. Endurbætt aðgerðaáætlun um fjárhagsaðstoð er til mikilla bóta og fagnar velferðarráð útgáfu hennar. Megináhersla á að fá viðtakendur fjárhagsaðstoðar til þess að finna styrkleika sína og taka ábyrgð á þátttöku og virkni í úrræðum sem sett eru fram í einstaklingsáætlun hvers og eins er af hinu góða. Þannig er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið og skilar árangri. Sömuleiðis er lögð áhersla á að notendur setji sér valdeflandi markmið. Einnig ber að benda á mikilvægi þess að unnið verði samkvæmt samræmdu verklagi við móttöku og meðferð umsókna um fjárhagsaðstoð. Með snemmtækum inngripum má koma í veg fyrir langtímavanda notenda fjárhagsaðstoðar. Mikilvægt er að atvinnuleitendum sé vísað sem fyrst í þjónustu eftir að þeir sækja um fjárhagsaðstoð og mikilvægt að fjölga starfsmöguleikum sem þessu fólki stendur til boða hjá borginni. Velferðarráð telur eðlilegt að við endurskoðun aðgerðaáætlunar sé aukinn kraftur settur í ráðgjöf við virknihóp til að koma í veg fyrir að þeir festist í langtímavanda og að komið verði til móts við þarfir fólks í virknihóp. Mikilvægt er að velferðarsvið leggi nú sérstaka áherslu á þann hóp notenda fjárhagsaðstoðar sem önnur úrræði ná ekki til.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Margir viðtakendur fjárhagsaðstoðar til lengri tíma en sex mánaða eru ungir einhleypir karlmenn þ.e. karlmenn undir 40 ára og eiga margir þessara einstaklinga sögu um fjölþættan og langvarandi félagslegan og/eða andlegan vanda. Vinnumálastofnun telur að ekki séu til staðar úrræði fyrir þennan hóp og þá sem eiga hvað erfiðast með að komast út á vinnumarkaðinn og eiga jafnframt erfitt uppdráttar sökum t.d. brotaferils. Því er ljóst að Reykjavíkurborg þarf að forgangsraða og vinna sérstaklega með þennan hóp með einstaklingsbundnum áætlunum og þéttum stuðningi ásamt því að leita til stjórnenda innan borgarinnar um samstarf vegna atvinnutækifæra.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa ánægju með að loks sjáist þess merki að vilji sé til breytinga við aðgerðaáætlun vegna fjárhagsaðstoðar en vilja þó árétta að stefna meirihlutans í Reykjavík gagnvart fjárhagsaðstoð hefur viðhaldið fjárhagsaðstoðarvandanum í Reykjavík sem hleypur á 3 milljörðum króna hvert ár. Tekist hefur verið á um fjárhagsaðstoðarmálin í velferðarráði til lengri tíma. Meðal annars lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til fyrir ári síðan að Hafnarfjarðarmódelið yrði yfirfært á Reykjavík en þar á stuttum tíma náðist frábær árangur. Í ljós hefur komið að hægt var að aðstoða fólk mun betur að komast í virkni eða vinnu og kostnaðurinn við fjárhagsaðstoð lækkaði þar um nærri 800 milljónir króna á ári. Borið saman við önnur sveitarfélög sem hafa tekið á vandanum og náð kostnaði jafnvel niður um nærri 800 milljónir á ári þá er þetta algjörlega óviðunandi. Um stórtjón fyrir fólkið á fjárhagsaðstoð er að ræða sem fær ekki viðunandi aðstoð. Ekki síður tjón fyrir aðra sem á meðan fá ekki þjónustu í Reykjavík vegna fjárskorts.
4. Kynning frá Vinnumálastofnun um stöðu þjónustusamnings Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar. Á fundinum tóku sæti eftirtaldir aðilar af hálfu Vinnumálastofnunar: Gissur Pétursson, forstjóri, Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri á ráðgjafar- og vinnumálasviði og Guðlaug Hrönn Pétursdóttir, deildarstjóri á ráðgjafar- og vinnumálasviði sem kynnti stöðu þjónustusamningsins.
5. Lagt fram og kynnt minnisblað, dags 6. október 2015, um samanburð á ramma starfsendurhæfingar og virkniúrræða á Íslandi og í Noregi.
Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri gæða og rannsókna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti minnisblaðið.
Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram kemur í samanburði á ramma úrræða fyrir notendur fjárhagsaðstoðar á Íslandi og Noregi er löggjöf í Noregi mun skýrari en hún er á Íslandi varðandi réttindi notenda fjárhagsaðstoðar til stuðnings. Umtalsvert fleiri eiga við áfengis- og/eða annan vímuefnavanda að stríða í hópi notenda fjárhagsaðstoðar en gerist meðal almennings. Fjölmargar athuganir gefa til kynna að árangur af meðferð fyrir þá sem eiga við vímuefnavanda að etja sé bestur ef hin ýmsu kerfi starfa saman sem þjónustukeðja í samræmi við þarfir einstaklingsins á meðan meðferð stendur. Meðferð er nauðsynlegur undanfari starfsendurhæfingar og virkniúrræða. Hún hefur það hlutverk að rjúfa vítahring fíknar sem er nauðsynlegur þáttur ef um bataferli er að ræða. Meðferð hjálpar við að meðhöndla vímuefnafíkn og að koma viðkomandi í jafnvægi en greiðir ekki úr félagslegum vanda. Einnig kemur fram að mikilvægt er að hnykkja enn frekar á því að vinna að samræmdu vinnulagi á þjónustumiðstöðvum og hafa ramma sem kveður á um þéttan stuðning í úrræðum fyrir langtímanotendur. Formfesta í samstarfi t.d. með gerð kröfulýsinga skýrir betur hlutverk aðila sem aftur hefur áhrif á það hversu markvisst samstarfið og stuðningurinn til viðkomandi verður. Ráðið felur sviðinu að horfa til þessara þátta í áframhaldandi vinnu með notendum fjárhagsaðstoðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi bókun:
Greinilegt er að nokkur munur er á úrræðum notenda fjárhagsaðstoðar og stuðningi við notendur á Íslandi og í Noregi. Ljóst er að setja þarf lagaheimildir til skilyrðinga og auka þarf áhersluna á að kortleggja starfsgetu viðkomandi með notandasamráði. Því miður hefur gengið hægt hjá velferðarsviði að innleiða EMS (Eigið mat á starfsgetu) viðtalsformið sem ætlað er að kortleggja færni, heilsufar, félagslega stöðu og menntun viðkomandi. Árið 2014 fengu einungis 198 einstaklingar EMS viðtal af 3.175 viðtakendum fjárhagsaðstoðar eða 6,2% sem við teljum alls kostar óásættanlegt. Eftirfylgd með einstaklingsáætlunum þarf að auka til muna, samræma milli þjónustumiðstöðva og formgera þar sem skrifleg lýsing á hverjum þætti starfseminnar skýrir betur hlutverk þeirra aðila sem að ferlinu koma. Auka þarf áherslu á að þátttakendur fari í vinnu á almennum vinnumarkaði í þróun úrræða velferðarsviðs og skoða þarf hvort hugsanlegt sé að gera samning við aðila vinnumarkaðarins varðandi atvinnutækifæri líkt og gert er í Noregi.
6. Lagt fram stöðumat á aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum utangarðsfólks fyrir árin 2014–2018.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
7. Lagður fram til kynningar samningur, dags. 28. september 2015, um tiltekna þjónustuþætti við fatlað fólk sem grundvallast af samningi Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlað fólk. Jafnframt lagt fram minnisblað, dags. 6. október 2015. Sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
8. Lögð fram og kynnt áfangaskýrsla heilsueflingarhóps í júní 2015.
Heiða Björg Hilmisdóttir gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir áfangaskýrslu Heilsueflingarhóps Reykjavíkur og styður heilshugar að Reykjavík verði heilsueflandi samfélag. Mikilvægt er að búa börnum á öllum aldri góðan grunn þegar kemur að þekkingu á heilbrigði hvort sem er líkamlegu- eða andlegu heilbrigði. Tilgangurinn er að gera þeim kleift að stunda heilsusamlegan lífstíl, efla sjálfstraust þeirra ásamt því að undirbúa þau fyrir þær áskoranir sem kunna að verða á vegi þeirra á lífsleiðinni bæði þeim sjálfum og samfélaginu til góða. Áfangaskýrsla um lýðheilsu og heilsueflingu barna og unglinga í leik- og grunnskólum og frístundastarfi gefur glögga mynd af mikilvægi heilsueflingar í starfi með börnum og styður beint við forvarnastefnu Reykjavíkur. Í skýrslunni eru lagðar til leiðir að innleiðingu heilsueflandi skóla sem velferðarráð telur mikilvægt að hrinda í framkvæmd og felur velferðarsviði að tryggja að verkefnastjórar félagsauðs og/eða forvarna setji þetta málefni í forgang í sínu starfi og jafnframt að starfsmenn þjónustumiðstöðva fái kynningu á heilsueflingarstarfi borgarinnar. Í framhaldi leggur velferðarráð áherslu á að þetta verklag sem kallað er Reykjavíkurlíkan verði nýtt til heilsueflingar í starfsstöðvum velferðarsviðs og stuðla þannig að heilsueflandi hverfum.
9. Lögð fram viljayfirlýsing um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, dags. 28. september 2015.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð lýsir yfir ánægju með viljayfirlýsingu um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks með henni er ákveðinni óvissu eytt og ljóst að það er mikilvægur líður í bættri þjónustu við þennan hóp. Skýr verkaskipting mun án efa stuðla að bættum lífsgæðum takist að gera þjónustuna skilvirkari.
10. Lagt fram svar, dags. 6. október 2015, við fyrirspurn velferðarráðs frá fundi þann 28. júní 2015 þar sem ráðið óskar eftir upplýsingum um mögulegan notendahóp nemakorta og kostnaðargreiningu frá velferðarsviði vegna þessa.
11. Lagt fram svar, dags. 5. október 2015, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015 vegna akstursþjónustu eldri borgara.
12. Lagt fram svar, dags. 6. október 2015, við fyrirspurn frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 1. október 2015 vegna heimaþjónustu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að Reykjavíkurborg þarf að forgangsraða fjármunum í félagslegri heimaþjónustu í þágu þeirra sem þurfa hvað mest á þjónustunni að halda, þ.e. til þeirra sem þurfa daglega á félagslegum stuðningi og hvatningu að halda, ásamt aðstoð við athafnir daglegs lífs. Mikilvægt er að ákvarðanir og stefnumótun borgarinnar í þessum málaflokki snerti jafnt alla íbúa borgarinnar sama í hvaða hverfi þeir búa og að stefnubreytingar og breytingar á þjónustu séu kynntar opinberlega. Kynna þarf fyrir notendum hvar þeir geti leitað þjónustunnar á öðrum vettvangi og þeim gefin tími til að grípa til annarra ráðstafana sé þess kostur. Hvetjum við til þess að Reykjavíkurborg geri öðrum úrræðum jafnt hátt undir höfði.
Fundi slitið kl. 16.57
Ilmur Kristjánsdóttir formaður
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Örn Þórðarson (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Herdís Þorvaldsdóttir (sign)
Magnús Már Guðmundsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)