Velferðarráð - Fundur nr. 270

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2015, fimmtudaginn 17. september var haldinn 270. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.05 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Lára Óskarsdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

- Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti á fundinum kl. 12.25.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fyrir nokkru var úrræðinu Mýrinni lokað og einstaklingum sem þar bjuggu fundin ný heimili. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvernig gengið hefur hjá þeim einstaklingum að búa í sjálfstæðri búsetu og hvort velferðarsvið telji  það hafa verið farsæla ákvörðun að loka Mýrinni. 

2. Lagt fram minnisblað, dags. 14. september 2015, um stöðu á biðlista eftir félagslegu  leiguhúsnæði. 

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lögðu  fram eftirfarandi bókun :

Af þeim 529 sem eru á biðlista og metnir eru í brýnni þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði eru 428 einstaklingar, þ.e. 286 einhleypir karlar og 142 einhleypar konur. Ljóst er því að hraða þarf mjög uppbyggingu stúdíóíbúða og tveggja herbergja íbúða til þess að mæta þessum hópi. Til þess að svo megi verða liggur í augum uppi að Félagsbústaðir þurfa að leita nýrra leiða t.d með því að fara sjálfir í uppbyggingu eða að einhverju leyti sveigja þær  viðmiðunarreglur sem þeir fylgja varðandi blöndun í hverfum.

3. Kynnt tillaga um breytingu á forsendum við útreikning húsaleigu hjá Félagsbústöðum hf.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf. og Birgir Ottósson, forstöðumaður þjónustudeildar Félagsbústaða hf. , tóku sæti á fundinum undir þessum lið og gerðu grein fyrir málinu.

- Lára Óskarsdóttir vék af fundi kl. 13.10.

4. Lagðar fram umsagnir velferðarsviðs, fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félagsbústaða  hf. vegna frumvarps til laga um húsnæðisbætur. Enn fremur lögð fram  þarfagreining vegna uppbyggingarstefnu Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum vegna   félagslegs leiguhúsnæðis, dags 3. nóvember 2014 og vegna sérstakra búsetuúrræða,  dags 3. nóvember 2015.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna,   Framsóknar  og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata taka undir umsagnir velferðarsviðs og Félagsbústaða um frumvarp til laga um húsnæðisbætur. Fulltrúarnir ítreka mikilvægi þess að í ljósi þeirrar stöðu sem nú ríkir á húsnæðismarkaði verði fólki gert kleift að fá húsaleigubætur þrátt fyrir að það búi í húsnæði sem ekki var byggt sem íbúðarhúsnæði, en hefur verið breytt í slíkt. Auk þess benda fulltrúarnir á að mikilvægt sé að heimild verði veitt til að greiða húsaleigubætur til þeirra sem leigja herbergi eða hluta af stærri eign.

5. Lögð fram eftirfarandi tillaga um nýtingu fjármagns vegna uppbyggingaráætlunar sértækra búsetuúrræða ásamt tillögu, dags. 25. nóvember 2014, um breytingu á 3ja ára áætlun um áfangaskipta áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk.

Í ljósi tafa í framkvæmdum við uppbyggingu búsetuúrræða er lagt til að hluti fjárheimilda velferðarsviðs vegna áranna 2015 og 2016, samtals 46  milljónir kr. á ári, sem samþykktar eru í áfangaskiptri áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða, verði veitt í endurskipulagningu búsetuverkefna í þremur þjónustuþyngstu búsetukjörnum sem nú er unnið að. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

- Heiða Björg Hilmisdóttir vék af fundi kl.13.55

- Lára Óskarsdóttir tók aftur sæti á fundinum  kl. 14.05.

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

- Elín Oddný Sigurðardóttir vék af fundi kl. 14.20.

- Sunna Snædal tók sæti á fundinum kl. 14.25.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga um viðbótar fjármagn vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. 

Í ljósi vanfjármögnunar er óskað eftir að fjárheimild vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks fyrir yfirstandandi fjárhagsárs hækki úr 729 milljónum króna  í 831 milljónir króna  eða um 102 milljónir króna  og jafnframt verði fjárheimild velferðarsviðs fyrir árið 2016 leiðrétt í samræmi við tillögu og  forsendur fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um verðlagsþróun. 

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

7. Kynnt uppgjör velferðarsviðs  fyrir tímabilið janúar til júlí 2015. 

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

8. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til júlí 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

9. Kynnt drög að fjárhagsáætlun  velferðarsviðs fyrir árið 2016 ásamt drögum að greinargerð.

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

- Heiða Björg Hilmisdóttir tók aftur sæti á fundinum kl. 14.55.

- Lára Óskarsdóttir vék af fundi kl. 15.37.

Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætluninni  til gerðar fjárhagsáætlunar.

Fulltrúi  Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúi  Sjálfstæðisflokksins lagði  fram eftirfarandi bókun:

Drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs bera það ekki með sér að af umbótum í velferðarmálum verði á næsta ári frekar en undanfarin ár. Engar tillögur um bráðnauðsynlegar grundvallarbreytingar liggja fyrir. Hvergi er að sjá hugmyndir um að tryggja fólki lögbundna þjónustu eins og stuðningsþjónustu og enn virðist eiga að halda áfram með biðlistastefnuna. Ekki er gert ráð fyrir að tekið verði á fjárhagsaðstoðarvandanum af neinum styrk.Hvergi örlar á hugmyndum að nýjum lausnum, nýrri hugsun og nýrri sýn í þeim drögum sem velferðarsvið og meirihlutinn leggja nú fyrir. Þetta er alvarleg staða og ótæk. Fjármagn til nýsköpunar og innleiðingar nýrra lausna er forsenda þess að hægt sé að færa þjónustuna í það horf að hún hafi burði til að taka á móti aukinni þörf. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að borgarráð og fjármálaskrifstofa endurskoði hvernig fjármagn skiptist á milli sviða og velji að fjárfesta í breytingum í velferðarþjónustu.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Ljóst er að til þess að rammi velferðarsviðs standi undir þeirri þjónustu sem sviðið veitir og til þess að halda uppi núverandi þjónustustigi í lögbundinni þjónustu þarf að taka nauðsynlegar og erfiðar ákvarðanir hvað varðar forgangsröðun, hagræðingu, niðurskurð í rekstri og  endurskoðun þjónustustigs. Horfa þarf til langvarandi lausna og ljóst er að meirihlutinn hefur ekki komið fram með neinar haldbærar tillögur til þess að bregðast við aðsteðjandi vanda þrátt fyrir þá gagnrýni sem lögð var fram við gerð síðustu fjárhagsáætlunar.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti velferðarráðs samþykkir að senda fjárhagsáætlun til gerðar fjárhagsáætlunar Reykjavíkur. Vinna þarf áfram í að finna leiðir til að ná fram hagkvæmni í rekstri og er þeirri vinnu hvergi nærri lokið.  Vísar ráðið meðal annars til umsagnar um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar.

10. Lagt fram minnisblað, dags. 15. september 2015, vegna  helgaropnunar í félagsmiðstöðinni Borgum. 

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs - þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

11. Lögð fram eftirfarandi tillaga, dags. 17. september 2015, og skýrsla um samstarf  velferðarsviðs og Námsflokka Reykjavíkur. 

Lagt er til að tillögur sem fram kom í skýrslu starfshóps um samstarf  Námsflokka  Reykjavíkur og velferðarsviðs verði samþykktar og að yfirflutningur starfa náms- og starfsráðgjafa, samtals tvö stöðugildi, verði þann 31. desember 2015. 

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

12. Lagt fram minnisblað, dags. 17.september 2015, ásamt viðauka við þjónustusamning velferðarsviðs og Blindrafélagsins, dags. 15. september 2015. Enn fremur lagður fram þjónustusamningur aðilanna, dags. 20. mars 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

13. Lagt fram yfirlit yfir innkaup velferðarsviðs yfir 1.000.000 kr. á  öðrum  ársfjórðungi ársins 2015.

14. Lögð fram umsögn velferðarráðs vegna skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar.

Velferðarráð þakkar fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í skýrslu um þjónustuveitingu borgarinnar. Þar má finna greinargóðar og mikilvægar upplýsingar sem nýtast munu við framtíðarstefnumótun Reykjavíkurborgar á sviði þjónustuveitingar. Niðurstöðurnar eru að sumu leyti sláandi og má segja að heildarsýn vanti við veitingu þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Niðurstöður skýrslunnar staðfesta á margan hátt  grun velferðarráðs um að breytingar þurfi að eiga sér stað á þjónustuveitingu borgarinnar meðal annars með því að stórefla rafræna stjórnsýslu. Velferðarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslunni um að nauðsynlegt sé að setja borginni heildræna þónustustefnu. Þjónustan verður að taka mið af þörfum íbúa og er það óásættanlegt að íbúar þurfi að þekkja stjórnsýslu borgarinnar til að geta sótt sér þjónustu, eins og fram kemur í skýrslunni. Stjórnkerfis-og lýðræðisráð fer nú með það mikilvæga verkefni að rýna þjónustu borgarinnar heildrænt og setja stefnu í þjónustuveitingu .Velferðarráð lýsir sig reiðubúið til að koma að þeirri stefnumótun. Það er til mikils að vinna og mikilvægt að stefnumótun á sviði þjónustuveitingar sé unnin þvert á flokka með hag notenda þjónustu að leiðarljósi. Við verkefnið framundan er gríðarlega mikilvægt að leita víðtæks samráðs við íbúa og notendur þjónustu sem og starfsfólk. Þannig má móta heildstæða stefnu sem setur þarfir íbúans sem nýtir sér þjónustuna í fyrsta sæti.

Áheyrnarfulltrúi Pírata lagði fram eftirfarandi bókun:

Píratar taka í meginatriðum undir umsögn velferðarráðs um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar en telja jafnframt ástæðu til að skerpa á því hvað átt er við með notendasamráði sem um er rætt í umsögninni. Píratar leggja til að notendur og íbúar séu hafðir með í ráðum á öllum stigum og stýri framvindu breytinga til jafns við stjórnvöld. Íbúakosning er einn þeirra möguleika sem þarna koma til greina.

15. Lagt fram svar við fyrirspurn frá fundi velferðarráðs þann 18. desember 2014 vegna fjölgunar aldraðra. 

Fundi slitið kl.16.25

Ilmur Kristjánsdóttir formaður.

Sunna Snædal (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson  (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign)