Velferðarráð - Fundur nr. 267

Velferðarráð

Ár 2015, fimmtudaginn 27. Ágúst, var haldinn 267. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda ráðsins.

2. Lagt fram minnisblað, dags. 17. ágúst 2015, um stöðu samstarfs vegna Vinjar, ásamt fylgigögnum.

Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Nokkur óvissa hefur verið um framtíð athvarfsins Vinjar síðan árið 2011. Á árinu 2012 var gerður samstarfssamningur milli Rauða krossins, velferðarráðuneytisins og velferðarsviðs um framtíðarrekstur Vinjar. Í skýrslu NSN (notandi spyr notanda) frá árinu 2014 kemur fram að full þörf sé á sérhæfðri starfsemi athvarfsins. Þeir sem þekkja til reksturs athvarfsins taka undir mikilvægi þess. Í febrúar 2015 var skipaður hópur til þess að fara yfir framtíðarhlutverk og rekstur Vinjar. Það var mat hópsins að erfitt yrði að tryggja starfsemi Vinjar til framtíðar sem fræðslu- og bataseturs nema til komi aukið fjármagn. Velferðarráð felur velferðarsviði að ganga til viðræðna við Rauða krossinn og velferðarráðuneytið um rekstur Vinjar árið 2015. Jafnframt er sviðinu falið að vinna áfram að því að tryggja framtíðarstarfsemi Vinjar með geðheilsuteymi í huga þar sem notendur Vinjar hafa áfram öruggt athvarf, og leggja fram tillögur þess efnis fyrir velferðarráð eins fljótt og kostur er.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og lagði fram eftirfarandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir ítreka bókun sína sem lögð var fram á fundi velferðarráðs þann 8. janúar síðastliðinn og styðjum við jafnframt þá hugmynd að stofnuð verði ný geðheilsustöð fyrir mið- og vesturhluta Reykjavíkur og að innan slíkrar starfsemi mætti sinna sértækum þörfum notendahóps Vinjar. Mikilvægt er að velferðarsvið tryggi samfellda og samþætta þjónustu við þennan hóp.

3. Lögð fram að nýju tillaga, dags. 13. ágúst 2015, að reglum um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavík. 

Lagt er til að velferðarráð samþykki reglur um beingreiðslusamninga við fatlað fólk og forsjáraðila fatlaðra barna í Reykjavik. 

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Ekki er verið að búa til nýjar reglur um beingreiðslusamninga heldur er verið að festa í sessi verklag sem hefur verið við lýði en ekki verið fest í reglur. Það er ljóst að það er til mikilla hagsbóta fyrir notendur að geta kynnt sér reglurnar sem unnið er eftir og leitað réttar síns finnist þeim á sér brotið. Velferðarsvið hefur verið gagnrýnt m.a af umboðsmanni borgarbúa fyrir að hafa ekki reglur um svo mikilvæga þjónustu sem beingreiðslusamningar eru og telur ráðið eðlilegt að bregðast við þeirri gagnrýni. Það er vilji velferðarráðs að á þessu ári sem reglurnar gilda verði  þær endurskoðaðar í samráði við þjónustumiðstöðvar og þá sem þjónustuna veita, sem og hagsmunasamtök og notendur.

4. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 17. júlí 2015, þar sem skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar er vísað til umsagnar velferðarráðs. Enn fremur lögð fram skýrsla starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar, dags. 30. júní 2015.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Óskar Sandholt, skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu og rekstrar, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Starfshópur um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar hefur lokið verki sínu fljótt og vel og eru honum færðar bestu þakkir. Greinilegt er að víða er pottur brotinn í þjónustunni í Reykjavík. Niðurstöðurnar eru að stefnumótun innan borgarkerfis er óljós, einingar sem sinna stefnumörkun eru umboðslausar, nýting þjónustuvers er ómarkviss, þarfir borgarinnar eru í forgrunni í stað þarfa notenda og tækifæri rafrænnar þjónustu eru vannýtt. Ítrekað hefur Reykjavík komið mjög illa út í þjónustukönnunum og vel getur verið að hér séu komnar einhverjar skýringar á þeirri óánægju. Því miður hefur lítill skilningur verið á því að það væri í hendi meirihlutans að breyta einhverju þar um, helsta skýring borgarstjóra á lélegu þjónustumati var til dæmis sú að borgarbúar væri bara svo kröfuharðir og gagnrýnir. Vonandi leiða þessar niðurstöður málin inn í skynsamlegri umræðu.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar,Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans í velferðarráði lýsa yfir ánægju sinni með að skýrsla starfshóps um þjónustuveitingu í borginni hafi verið unnin. Hún er nauðsynlegur efniviður í þau verkefni sem framundan eru og mikilvægt innlegg í breytingaferlið.

5. Lagt fram sex mánaða uppgjör velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar til júní 2015. 

Agnes Sif Andrésdóttir, deildarstjóri skrifstofu fjármála og rekstrar á velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Rekstrarniðurstaða velferðarsviðs er neikvæð í 6 mánaða uppgjöri. Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður fer um 400 milljónir króna fram úr áætlunum, en tekjur vegna þjónustu eru meiri en áætlaðar voru. Kostnaður vegna veikinda starfsmanna hefur dregist saman frá síðasta ári en er engu að síður 100 milljónir króna á 6 mánaða tímabili. Niðurstaðan er hrikaleg í ljósi stöðu borgarinnar allrar en tap á A-hlutanum er gríðarlegt eins og fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar greinir frá í uppgjörinu fyrir borgina í heild sinni sem út kom í dag, en rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.038 milljónir, en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.865 milljónir á tímabilinu. Verst er þó að mikil þörf er á fjármagni til velferðarmála og ekki verður séð að notendur geti vænst bættra aðstæðna í þessu ástandi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að farið verði í grundvallarskoðun og breytingar á þjónustunni. Meirihlutinn hefur ekki séð neina ástæðu til að taka undir þær hugmyndir né koma með aðrar betri. Sofandi flýtur hann að feigðarósi með óskiljanlegu aðgerðarleysi.

6. Umræða um stöðu fjárhagsáætlunar. Lögð fram drög að  gjaldskrám fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs.

Hörður Hilmarsson, skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

a) Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði.

b) Gjaldskrá í félagsstarfi.

c) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra. 

d) Gjaldskrá í heimaþjónustu.

e) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ.

f) Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum. 

g) Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna og útlagðs kostnaðar vegna dvalar hjá stuðningsfjölskyldu.

h) Gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara. 

i) Gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Samþykkt samhljóða að vísa gjaldskránum til borgarráðs.

7. Lagt fram bréf  samgöngustjóra, dags 4. ágúst 2015, þar sem tillögu um leiðakerfisbreytingar Strætó er vísað til umsagnar velferðarráðs.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarsvið starfrækir fjölbreytta þjónustu fyrir borgarbúa á 129 starfsstöðvum víðsvegar um borgina, þjónustunotendur eru tæplega 20.500 og fjöldi starfsmanna er um 2.300. Meðal annars starfrækir velferðarsvið fjölbreytta þjónustu fyrir fatlað fólk og eldri borgara. Það er mikilvægt að hafa í huga að leiðakerfi Strætó sé byggt upp með þeim hætti að fatlað fólk og eldri borgarar geti nýtt sér almenningssamgöngur í eins miklum mæli og kostur er til að komast á milli staða og nýta sér þjónustu borgarinnar. Aðgengilegir vagnar, upplestur í vögnum á næsta viðkomustað, leiðakerfi á auðlesnu máli og fjarlægð frá stoppistöð að þjónustu skiptir miklu máli. Þess vegna telur velferðarráð mikilvægt að Strætó skoði hvort leiðakerfið nýtist þessum notendahópi með tilliti til fjarlægða innan hverfa. Markmið öflugra almenningssamgangna ætti að vera að þjónusta alla íbúa borgarinnar óháð aldri eða skerðingum. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar verður ekki séð að tillögur að breytingum á leiðakerfi Strætó hafi umtalsvert óhagræði í för með sér gagnvart notendum þjónustu og starfsfólki velferðarsviðs.

8. Betri Reykjavík – Frítt í sund frá 67 ára aldri.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Reglulega hafa komið fram tillögur um að aftur yrði gjaldfrálst í sund fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem eru 67 ára og eldri eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum. Samkvæmt. útreikningum velferðarsviðs frá árinu 2012 myndi slík ákvörðun fela í sér kostnað upp á 15 milljónir kr. á ári. Gróflega áætlað er að sá kostnaður sé nær 20 milljónum árið 2016. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið í fjárhagsramma velferðarsviðs árið 2016 og því ekki unnt að samþykkja tillögu þessa.

9. Staða mála vegna samnings við Dagsetur Hjálpræðishersins.

Eftirtaldir aðilar taka sæti á fundinum og gera grein fyrir málinu: Rannvá Olsen og Hjördís Kristinsdóttir fyrir hönd Dagseturs Hjálpræðishersins og Sigþrúður E. Arnardóttir, framkvæmdastjóri Vesturgarðs og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.

10. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015 vegna stuðningsþjónustu. 

Tillögunni er vísað til umsagnar velferðarsviðs sem hluta af þeirri vinnu sviðsins sem fram fer vegna endurskoðunar á reglum um stuðningsþjónustu.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

11. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 25. júní 2015, um að ekki verði hægt að synja fólki um stuðningsþjónustu. 

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn tveimur.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar,Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata samþykktu eftirfarandi bókun:

Velferðarráð hafnar tillögu Sjálfstæðisflokksins um að gera stuðningsþjónustu að bundnum lið en vísar því til fjárhagsáætlunargerðar að fara yfir leiðir til að tryggja þær lögbundnu skyldur sem á okkur hvíla gagnvart notendum stuðningsþjónustu. Jafnframt vill velferðarráð benda á að sú hefð hefur skapast innan Reykjavíkurborgar að við úthlutun fjármagns til skóla- og frístundasviðs sé tekið tillit til fjölda nemenda í leik- og grunnskólum. Með sama hætti telur velferðarráð eðlilegt að tekið sé tillit til fjölda notenda stuðningsþjónustu sem og annarar þjónustu við úthlutunar fjármagns til velferðarsviðs.

12. Lagt fram svohljóðandi bréf borgarráðs, dags. 13. ágúst 2015, um kosningu áheyrnarfulltrúa til vara í velferðarráð: Á fundi borgarráðs þann 13. ágúst 2015 var samþykkt að Halldór Auðar Svansson taki sæti Hauks Ísbjörns Jóhannssonar sem áheyrnarfulltrúi til vara í velferðarráði. 

13. Móttaka flóttafólks.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun: 

Velferðarráð fagnar því að íslensk stjórnvöld ætli að taka á móti flóttafólki á þessu ári og því næsta og axla þannig ábyrgð til að létta á vanda fólks í brýnni þörf. Reykjavíkurborg hefur tekið á móti flestum hópum flóttamanna á undanförnum árum með samningum við velferðarráðuneytið. Velferðarráð felur velferðarsviði að hefja viðræður við ráðuneytið um móttöku þeirra flóttamanna sem hér vilja dvelja.

Fundi slitið kl. 16:30

Ilmur Kristjánsdóttir, formaður

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Börkur Gunnarsson (sign)