Velferðarráð - Fundur nr. 265

Velferðarráð

Ár 2015, fimmtudaginn 25. júní, var haldinn 265. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00  að Borgartúni 12-14, Reykjavík. Mættir: Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir.

Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir  sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt fundaáætlun velferðarráðs og áherslur í starfi í haust. 

Nýr formaður velferðarráðs, Ilmur Kristjánsdóttir, gerði grein fyrir áherslum sínum hvað varðar störf ráðsins.

Magnús Már Guðmundsson tók sæti á fundinum kl. 13.05.

Kristín Elfa Guðnadóttir tók sæti á fundinum kl. 13.08.

2. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

3. Lögð fram og kynnt drög að ársskýrslu velferðarsviðs fyrir árið 2014.  

Guðmundur Sigmarsson, verkefnastjóri í deild gæða og rannsókna á velferðarsviði Reykjavíkurborgar tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir efni ársskýrslunnar ásamt skrifstofustjóra skrifstofu sviðsstjóra.

4. Lagðar fram tillögur að úthlutun úr forvarnasjóði fyrir árið 2015.

Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs-þjónustumiðstöðvar Grafarvogs, sem leiðir starfshóp um forvarnir á grundvelli forvarnastefnu Reykjavíkurborgar, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir tillögum að úthlutun úr forvarnasjóði.

Eftirfarandi tillögur að úthlutun voru samþykktar:

Sumarbúðir fyrir 10-12 ára börn með sérþarfir ( Skógarmenn KFUM) : kr. 1.000.000.

Ungt fólk utan skóla 2015 (Rannsóknir og greining ehf) : kr. 1.000.000.

Endurprentun á foreldrasáttmála Heimilis og skóla (Heimili og skóli) : kr. 150.000.

SAFT fræðsla fyrir 6. bekk í grunnskólum Reykjavíkur (Heimili og skóli) : kr. 500.000.

Gerð sjónvarpsmyndar um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (Barnaheill) : kr. 500.000.

Jafningjafræðsla um rafrænt einelti : Taktu afstöðu….(Ungmennaráð SAMFÉS) :  kr. 400.000.

Skimun á heilbrigði unglinga: (Sóley Sesselja Bender) : kr. 350.000.

Framkvæmd vegna dagskrár í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags ( Styrktarfélag alþjóða geðheilbrigði) : kr. 500.000.

Herferð gegn kynsjúkdómum (Ástráður) : kr. 400.000.

Ábyrgir foreldrar á Menningarnótt (SAMAN hópurinn) : kr. 600.000.

Saman gegn sjálfsvígum (Geðhjálp) : kr. 323.000.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

5. Lögð fram tillaga, dags. 12. júní 2015, vegna nemakorts fatlaðra ungmenna í ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Lagt er til að fatlaðir nemendur greiði fyrir ferðir með ferðaþjónustu fatlaðs fólks samkvæmt gjaldskrá velferðarsviðs, sem svarar hálfu almennu gjaldi hjá Strætó bs. 

Jafnframt verði felld  úr gildi ákvörðun velferðarráðs frá 28. október 2009 um að fatlaðir nemendur sem nýta sér ferðaþjónustu fatlaðs fólks greiði fyrir þær með nemakorti. 

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu. Afgreiðslu tillögunar var frestað. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Samkvæmt tillögum sérstakar stjórnar yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks frá 5. mars 2015 er m.a. lagt til að notendur ferðaþjónustu fatlaðs fólks geti keypt sér árskort sem hægt verði að nota samhliða hefðbundnum almenningssamgöngum fyrir þá notendur sem eiga þess kost. Velferðarráð beinir því til samráðsvettvangs sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að sú tillaga sem liggur fyrir fundi ráðsins um nemakort verði tekin til skoðunar samhliða umfjöllun um sérstakt árskort. Einnig óskar ráðið eftir upplýsingum um mögulegan notendahóp nemakorta og kostnaðargreiningu frá velferðarsviði vegna þessa. Velferðarráð óskar eftir tillögum um framhaldið frá velferðarsviði í september 2015.  

6. Lagt fram minnisblað, dags 29. maí 2015, vegna Fjölskyldumiðstöðvar í Breiðholti. 

Óskar Dýrmundur Ólafsson, hverfisstjóri Breiðholts, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar Óskari Dýrmundi Ólafssyni fyrir yfirferðina um Fjölskyldumiðstöðina í Breiðholti. Um afar spennandi tilraunaverkefni er að ræða sem vonandi verður leiðandi og fordæmisgefandi fyrir önnur sambærileg verkefni í borginni. Velferðarráð bindur vonir við að hægt verði að halda áfram að þróa þjónustu fyrir fjölskyldur og koma þannig enn betur til móts við fjölbreyttar þarfir íbúa hverfisins.

7. Lögð fram  tillaga, dags. 10. júní 2015, að næsta kynjaða fjárhags- og starfsáætlunar-þjónustuþætti. Lagt er til að velferðarráð samþykki að stuðningsþjónusta verði rýnd samhliða gerð fjárhagsáætlunar 2016 út frá aðferðafræði kynjaðrar fjárhagsáætlunar eins og  kveðið  er  á um í reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg.

Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

8. Lagt fram minnisblað, dags 25. júní 2015, um stöðu samnings velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við Ásgarð-handverkstæði um 11 stöðugildi fatlaðs fólks. 

Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð samþykkti að fela velferðarsviði að vinna áfram að því að ná  samningi við Ásgarð innan þess fjárhagslega svigrúms sem sviðið hefur.

9. Lagt fram minnisblað, dags. 22. júní 2015, vegna samnings velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Rauða kossins um aðkomu að rekstri Fjölskyldumiðstöðvar á árinu 2015 ásamt drögum að samningi. 

Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.

Drögin voru samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

10. Lögð fram að nýju aðgerðaáætlun velferðarsviðs dags. 8. júní 2015 um aðgerðir gegn heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki. 

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð fagnar framkominni aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn heimilisofbeldi   gagnvart fötluðu fólki en vísar lið nr. 2  til ofbeldisvarnarnefndar þar sem verkefnið fellur undir verksvið hennar.

11. Lagðar fram lykiltölur janúar til apríl 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir:

 a) Nú liggur fyrir að þeim sem þurfa fjárhagsaðstoð hefur fækkað um 4% milli ára  í Reykjavík. Á sama tíma hefur fækkað um 25% á Reykjanesi og enn meiri árangur hefur náðst í Hafnarfirði. Algjörlega er ljóst að betur má gera en gert er í Reykjavík, en viljinn til þess er auðvitað nauðsynlegur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt fram tillögur um aðgerðir til þess að mæta þessum vanda. Því er spurt hvernig meirihlutinn í Reykjavík ætli  að stuðla að því að mæta því fólki sem er á fjárhagsaðstoð. Einnig er spurt um þær áætlanir sem velferðarsvið hefur uppi um að koma betur til móts við fólk og aðstoða fleiri við að komast út af fjárhagsaðstoðinni en verið hefur.

b) Mun færri virðast nýta sér akstursþjónustu eldri borgara og spurning hvað veldur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því hvaða mögulegar skýringar geta verið á þessari fækkun, er það gjaldskrá eða eitthvað annað sem skýrir breytta notkun?

c) Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að fá upplýsingar um hvernig gjaldtöku fyrir máltíðir í mötuneytum á vegum velferðarsviðs er háttað.

Hver er niðurgreiðsla máltíða? Hvaða hópur á að njóta þeirrar niðurgreiðslu og hvernig er eftirliti með því háttað?

d) Úthlutanir félagslegra íbúða eru mun færri á þessu ári en því síðasta þrátt fyrir gríðarlega þörf og langa biðlista. Ekkert bólar á loforðum um fjölgun félagslegra íbúða. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að núverandi meirihluti aðhafist lítið en skýli sér á bak við að almennt sé gríðarlegur húsnæðisvandi.  Fjölgunin á síðasta kjörtímabili var lítil en hvaða húsnæði hefur bæst við? Hversu margar félagslegar íbúðir hafa verið tekið í notkun og hvaða framkvæmdir hafa hafist frá því vorið 2014. Hvernig afsakar meirihlutinn í Reykjavík að svo illa sé staðið að því að fjölga húsnæði fyrir þá sem verst standa.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina tekur undir fyrirspurn fulltrúa  Sjálfstæðisflokksins hvað varðar vöntun á félagslegu húsnæði og ástæður þess að ekki sé verið að bregðast hraðar við mjög svo aðkallandi vanda.

12. Lagt fram minnisblað dags. 8. júní 2015 um þróun kostnaðar í vistgreiðslum. 

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

13. Lagt fram minnisblað dags. 8. júní 2015 um stöðu biðlista í stuðningsþjónustu.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúar Bjartrar Framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata lögðu fram  eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Bjartrar Framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata óska eftir að minnisblaðið verði lagt fram til kynningar í borgarráði. Fulltrúar Bjartrar Framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata lýsa yfir áhyggjum vegna stöðu á biðlista eftir stuðningsþjónustu. Helsta ástæða þess að biðlistar eru langir er skortur á fjármagni. Mikilvægt er að hægt sé að mæta notendum velferðarþjónustu þar sem þeir eru staddir og veita þeim þjónustu við hæfi. Markmið stuðningsþjónustu er m.a að koma í veg fyrir félagslega einangrun, bæta samskiptafærni og styðja einstaklinga til sjálfstæðis á heimili og í daglegu lífi. Með því að auka fjármagn í stuðningsþjónustu má sporna við kostnaðarsamri dvöl á stofnun  með því að veita rétta þjónustu þegar á þarf að halda. Þannig má horfa til stuðningsþjónustu sem forvarnar í ákveðnum tilfellum. Ef fé vantar í stuðningsþjónustu er hætta á að slíkt feli í sér kostnaðarauka í velferðarútgjöldum til framtíðar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Reykjavíkurborg gengur erfiðlega að finna starfsfólk til að sinna mikilvægri stuðningsþjónustu við fólk sem þarf aðstoð við daglegt líf. Biðlistar eru því óásættanlega langir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að boðin verði út stuðningsþjónusta í því skyni að fá til liðs við velferðarþjónustuna fólk og fyrirtæki sem gætu tekið verkefni af þessu tagi að sér. Að sjálfsögðu þurfa slíkir aðilar að uppfylla sömu gæða- og hæfniskröfur og gerðar eru til þjónustunnar hjá Reykjavíkurborg. Því verði velferðarsviði falið að vinna að útboðslýsingu og skilgreiningu á þeim kröfum sem hugsanlegir samstarfsaðilar þurfa að uppfylla.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi  tillögu:

Lagt er til að velferðarráð samþykki þau eðlilegu mannréttindi að ekki sé hægt að synja fólki um stuðningsþjónustu, á sama hátt og farið er með bundna liði eins og fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur. Frá og með næstu fjárhagsáætlun taki það verklag gildi. Nauðsynlegt er að endurskilgreina ramma sviða borgarinnar út frá þessari forgangsröðun.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði  fram eftirfarandi bókun:

Ljóst er að stuðningsþjónusta í Reykjavík mætir alls ekki þeim þörfum sem til staðar eru. Kröfur eru sífellt að aukast i stuðningsþjónustu sem og að fjöldi notenda eykst sífellt. Ljóst er að biðlistar eru langir, erfiðlega hefur gengið að fá sérhæfða starfsmenn sem og að mjög mikil þörf er fyrir aukið fjármagn. Því er nauðsynlegt að litið verði á stuðningsþjónustu sem forgangsþjónustu og að farið verði í mjög róttækar og ákveðnar aðgerðir strax til þess að bregðast við þessum mjög svo aðkallandi vanda.

14. Umræður um viðburði í tengslum við eitt hundrað  ára afmæli kosningarréttar kvenna. 

15. Betri Reykjavík: Borgarar gefa tíma.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar góða ábendingu og felur velferðarsviði að skoða í samvinnu við hin ýmsu félaga- og hagsmunasamtök sem sviðið er í samtarfi við, að bjóða upp á ýmis verkefni sem byggja á styrkleikum einstaklinganna t.d. með jafningjastuðning að leiðarljósi.

16. Lagt fram bréf borgarstjórnar dags 22. júní 2015.

Kosning í velferðarráð

Á fundi borgarstjórnar þann 16 júní 2015 var samþykkt að Heiða Björg  Hilmisdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í velferðarráði og að Jódís Bjarnadóttir taki sæti Heiðu Bjargar sem varamaður í ráðinu. Einnig var samþykkt 

að Ilmur Kristjánsdóttir verði formaður í ráðinu. 

Það tilkynnist hér með.

Fundi slitið kl. 17.20

Ilmur Kristjánsdóttir (formaður)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Heiða Björg Hilmisdóttir,(sign) 

Magnús Már Guðmundsson (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign) 

Börkur Gunnarsson  (sign) Gréta Björg Egilsdóttir.(sign)