Velferðarráð - Fundur nr. 264

Velferðarráð

Ár 2015, fimmtudaginn 11. júní, var haldinn 264. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:09 að Borgartúni 12-14, Reykjavík. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir.

Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir  sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda. Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda velferðarráðs.

2. Kynning á niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Lóa Birna Birgisdóttir, starfsmannastjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, tók sæti á   fundinum undir þessum lið og kynnti niðurstöður viðhorfskönnunarinnar.

3. Lögð fram  tillaga, dags. 19. maí 2015,  að reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Lagt er til að velferðarráð samþykki meðfylgjandi drög að  reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks.  Samþykkt samhljóða. 

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð óskar eftir því að þegar auglýst verður eftir umsóknum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa verði slíkt jafnframt   gert á vefsíðum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og á vinnustöðum fyrir fatlað fólk í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

4. Lögð fram áskorun frá íbúum Þorragötu 5,7 og 9.

Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi  bókun:

Borgarstjórn hefur ákveðið og þar með staðfest samhljóða ákvörðun velferðarráðs frá 16. október 2014 um að dagdvöl aldraðra í Þorraseli verði færð að Vesturgötu 7. Það er eftirsótt að njóta dagvalar Þorrasels og langir biðlistar eru eftir þjónustunni. Með flutningi má bjóða fleirum að nýta sér þjónustuna, enda nýtt húsnæði talsvert stærra en samt sem áður jafn hentugt. Velferðarráð hefur skilning á áhyggjum notenda þjónustunnar af fyrirhuguðum breytingum og leggur áherslu á að vel verði haldið utan um stjórnun þeirra. Með flutningi dagdeildarinnar er mögulegt að hagræða í rekstri velferðarsviðs um 28 milljónir króna á ársgrundvelli án þjónustuskerðingar. 

Hvað varðar ábendingu um að Reykjavíkurborg kunni að vera óheimilt að breyta notkun húsnæðisins að Þorragötu 3 vísar velferðarráð til álits sviðsstjóra velferðarsviðs og borgarlögmanns þar sem komist er að annarri niðurstöðu en fram kemur í áskorun íbúa. Þessi hluti umræðunnar hefur verið tekinn í borgarráði og komið fram í bréfaskriftum við lögmann íbúa.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vísar í bókun frá borgarstjórnarfundi sem haldinn var þann 2. júní sl. Ljóst er að núverandi húsnæði við Þorragötu hentar að mörgu leyti betur fyrir rekstur dagdeildarinnar, t.d. vegna aðstöðu til útivistar og aðkomu bifreiða, en núverandi húsnæði félagsstarfs eldri borgara að Vesturgötu 7. Einnig er ljóst að ef fyrirhugaður flutningur verður að veruleika, mun hann koma niður á starfsemi félagsstarfs eldri borgara að Vesturgötu 7 og þátttakendum þar vísað annað. Verður ekki séð að það sé skynsamleg ráðstöfun að skerða þannig umrædda þjónustu í gamla Vesturbænum þegar fyrirséð er að fjöldi eldri borgara muni a.m.k. tvöfaldast á næstu 15-20 árum. Þá hafa komið fram ábendingar um að Reykjavíkurborg kunni að vera óheimilt að breyta notkun nefnds húsnæðis að Þorragötu 3 án samþykkis húsfélagsins að Þorragötu 5, 7 og 9, sem hefur lýst sig andvígt umræddum fyrirætlunum Reykjavíkurborgar. 

5. Lagt fram minnisblað dags. 2. júní 2015 vegna stöðu flutnings dagdvalar Þorrasels að  

Vesturgötu. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Mikilvægt er að kynna vel íbúum á Vesturgötu 7 og þeim þjónustuþegum sem nýta sér þjónustuna og félagsstarfið á Vesturgötu að áfram verði boðið upp á dans, söng og annað félagstarf á Vesturgötunni. Einnig er lögð áhersla á að reynsla og þekking starfsmanna beggja starfsstöðva nýtist til þess að gera starfið gott og mæta þörfum gesta dagdvalarinnar, íbúanna og þátttakenda í opnu félagsstarfi.

6. Lögð fram tillaga að umsögn vegna flutnings á starfsemi Grettistaks og Unglingasmiðju sem hefur verið til húsa að Amtmannsstíg 5A.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Tillaga að umsögn var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum. 

Fulltrúar  Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og  Vinstri grænna samþykktu eftirfarandi  bókun:

Velferðarráð felur velferðarsviði að ræða við notendur þjónustunnar og aðstandenda ungmennanna í unglingasmiðjunni, þannig að sem mest sátt náist um fyrirhugaðan flutning.Velferðarráð fagnar því að Grettistak og Unglingasmiðjan á Amtmannsstíg fái nýtt og hentugra húsnæði í gömlu Rúgbrauðsgerðinni í Borgartúni 6.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúarnir gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eiga sér stað. Fyrr á fundinum er bókað um mikilvægi þess að hafa samráð og kynna ákvarðanir vel fyrir íbúum. Engu að síður gefur meirihlutinn sér ekki tíma til að kynna mjög umdeilda ákvörðun um Þorrasel áður en samþykkt er að hefja nýja starfsemi þar. Einnig liggur ekki nógu skýrt fyrir að tillaga um þær breytingar og flutninga sem fyrir liggja hafi verið kynnt foreldrum og viðeigandi hagsmunaaðilum Grettistaks, Unglingasmiðju og Safamýrarskóla. 

7. Lagt fram minnisblað, dags. 25. maí 2015,  um samstarfsverkefni geðsviðs LSH og velferðarsviðs vegna húsnæðismála. Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð fagnar þeim stórkostlega árangri sem samstarfsverkefni Landspítala og velferðarsviðs um húsnæðislausnir fyrir þá sem þurfa sértækan stuðning við búsetu hefur skilað. Í árslok 2014 voru 16 einstaklingar innlagðir á geðsviði Landspítalans sem biðu eftir sértæku húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg og gátu því ekki útskrifast. Þann 1. júní sl. hafði þeim fækkað um 12 en þá biðu 4 einstaklingar á geðsviði Landspítalans eftir viðeigandi húsnæðisúrræði hjá borginni. Um leið er lausn í sjónmáli fyrir þá aðila og vonir standa til að viðeigandi húsnæðisúrræði standi þeim til boða á næstu þremur mánuðum. Ljóst er að samstarf velferðarsviðs og Landspítalans hefur skilað markverðum árangri á þeim sex mánuðum sem það hefur staðið yfir. Ekki er langt síðan þegar tugir einstaklinga voru í sömu stöðu. Velferðarráð þakkar því starfsfólki sem kom að verkefninu og telur það gefa fullt tilefni til frekari samstarfs.

8. Lögð fram tillaga, dags. 8. júní 2015, um mögulegar leiðir til að koma til móts við fólk sem hefur verið húsnæðislaust til lengri tíma.

Lagt er til að farið verði í átak á þjónustumiðstöðvum sem hvetur viðtakendur fjárhagsaðstoðar til að þinglýsa húsaleigusamningi óháð því hvort þeir eiga rétt á almennum húsaleigubótum. Með þinglýstum húsaleigusamningi, hvort sem um er að ræða íbúð eða herbergi, öðlast þeir rétt til þess að fá greidda fulla grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. 

Samþykkt verði að veita viðtakendum fjárhagsaðstoðar sem hafa  verið án húsnæðis í sex mánuði eða lengur og uppfylla skilyrði um sérstakar húsaleigubætur og sérstaka aðstoð skv. 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, styrk til að gera þeim kleift að nýta sér þjónustu gistiheimila. Hámarksgreiðsla er 200.000 kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði. Um er að ræða bráðabirgðaaðgerðir þar til breyttur húsnæðisstuðningur ríkisins tekur gildi 1. janúar 2016.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

9. Lagt fram minnisblað dags. 2. júní 2015 um vinnu vegna nýrrar framtíðarsýnar fyrir starfsemi Seljahlíðar. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

10. Lagt fram til kynningar minnisblað,dags. 8. júní 2015,  um stöðu samstarfs við Hjálpræðisherinn á Íslandi, ásamt samstarfssamningi og viðauka, dags 8. júní 2015.

Skrifstofustjóri skrifstofu ráðgjafarþjónustu gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð  lýsir yfir fullum vilja til áframhaldandi  samstarfs við  Hjálpræðisherinn um dagsetur og vonast til þess að heppilegt húsnæði fyrir starfsemina finnist hið fyrsta.

11. Lögð fram að nýju  umsögn dags 20. apríl vegna tillögu frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi  velferðarráðs þann. 26. febrúar, 19. mars og 16. apríl 2015 v/ reglubundinnar viðhorfskönnunar. Framsókn og flugvallarvinir leggja til að reglubundin viðhorfskönnun verði gerð til að mæla viðhorf aldraðra til þjónustu Reykjavíkurborgar. Könnun þessi skal gerð tvisvar á ári auk þess að vera stutt og hnitmiðuð til að forðast brottfall. Markmið könnunarinnar er að fá bæði upplýsingar um kosti og galla starfsemi fyrir aldraða á vegum Reykjavíkurborgar frá fyrstu hendi og nota þær markvisst til að bæta þjónustuna

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Eins og fram kemur í umsögn velferðarsviðs er fyrirhuguð stór rannsókn á högum og líðan eldri borgara í samvinnu við Öldrunarráð og velferðarráðuneytið. Sú rannsókn er gerð á nokkurra ára fresti og gefur glögga mynd af stöðu aldraðra í samfélaginu, en notendakannanir í velferðarþjónustu eru einnig afar mikilvægar. Velferðarráð vísar tillögunni til meðferðar  á skrifstofu gæða og rannsókna á velferðarsviði. Þar er verið að þróa notendakannanir í velferðarþjónustu og mun vonandi verða litið til öldrunarþjónustu eins og annarra mikilvægra þátta í velferðarþjónustu borgarinnar.

12. Skipan í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

Samþykkt var að Ilmur Kristjánsdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

13. Betri Reykjavík, Borgarar gefa tíma.“

Afgreiðslu málsins var frestað.

14. Verkefni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um aldursvænar borgir.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð  fagnar því að Reykjavíkurborg hefur verið samþykkt inn í verkefni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar  um aldursvænar borgir. 

15. Lögð fram drög að þjónustusamningi við Rannsóknir og greiningu ehf. um rannsóknir á högum og líðan reykvískra barna í 5 – 10 bekk árin 2015 – 2017.

Drögin voru samþykkt samhljóða.

16. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Ákveðin tekju- og eignarmörk eru í gildi þegar þjónustuíbúðum er úthlutað. Hvernig er úthlutað í þær íbúðir og hvaða áhrif hafa eignir á tækifæri til úthlutunar? Er mögulegt fyrir fólk sem á íbúð að sækja um þjónustuíbúð án þess að vera búið að selja íbúðarhúsnæði sitt? Setja reglurnar óþarfa takmarkanir á það hvaða hópur fólks getur sótt um þjónustuíbúðir borgarinnar ? 

Fundi slitið kl.16.30

Björk Vilhelmsdóttir formaður

Ilmur Kristjánsdóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir  (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign)