Velferðarráð - Fundur nr. 261

Velferðarráð

Ár 2015, fimmtudaginn 16. apríl var haldinn 261. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 að Borgartúni 12-14, Reykjavík. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Ragnar Hansson, Gunnar Alexander Ólafsson, Börkur Gunnarsson, Lára Óskarsdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Hörður Hilmarsson, Aðalbjörg Traustadóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Sigþrúður E. Arnardóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda. 

Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda ráðsins.

2. Lagt fram minnisblað, dags. 9. apríl 2015, um niðurstöður notendasamráðs NPA.

Eftirtaldir aðilar tóku sæti á fundinum undir þessum lið og gerðu grein fyrir málinu: Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri á skrifstofu þjónustunnar heim, og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson ásamt aðstoðarmanni sínum, Pálmari Hafþórssyni.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð fagnar því hvað vel hefur tekist til í tilraunaverkefninu um notendastýrða persónulega aðstoð í Reykjavík. Niðurstöður notendasamráðs sýna að allir þátttakendur voru ánægðir með NPA og töldu það svara betur þörfum sínum en fyrra fyrirkomulag í þjónustu. Til að tryggja framhald svona þjónustu og til að hægt verði að bjóða hana fleirum er það von velferðarráðs að Alþingi setji lög um NPA sem tryggi rétt fólks til slíkrar þjónustu og að jafnframt verði gert fjárhagslegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustunnar.

3. Lögð fram tillaga, dags. 13. apríl 2015, vegna utankjarnaþjónustu.

Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem verði falið að þróa og útfæra stefnu um utankjarnaþjónustu og framkvæmd hennar. Lagt er til að starfshópinn skipi kjörnir fulltrúar, starfsmenn velferðarsviðs og notendur þjónustunnar.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Lagt fram að nýju minnisblað, dags. 10. mars 2015, um tæki sem eru notuð til að meta viðhorf til þjónustu velferðarsviðs og mat á gæðum hennar. 

5. Lagðar fram lykiltölur fyrir janúar 2015.

6. Lagt fram minnisblað, dags 13. apríl 2015, yfirlit um húsnæðismál eldri borgara í Reykjavík.

7. Kynning frá Félagsbústöðum vegna Reykjavíkurhúsa og samvinnu við velferðarsvið. Eftirtaldir aðilar tóku sæti á fundinum undir þessum lið og gerðu grein fyrir málinu: Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagabústaða hf., Birgir Ottósson, forstöðumaður þjónustudeildar Félagsbústaða hf. og Ebba Schram, lögfræðingur á skrifstofu borgarlögmanns. 

- Ragnar Hansson vék af fundi kl. 15.00.

- Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti á fundinum kl. 15.00.

8. Lagt fram svar frá Félagsbústöðum, dags. 26. mars 2015, við fyrirspurn á fundi velferðarráðs þann 19. mars 2015.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagabústaða hf., og Birgir Ottósson, forstöðumaður þjónustudeildar Félagsbústaða hf., sátu fundinn undir þessum lið.

9. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf á velferðarsviði kjörtímabilið júní 2010 til 2014.

10. Betri Reykjavík: Geðheilbrigði fyrir alla.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Reykjavíkurborg starfrækir 17 félagsmiðstöðvar víðs vegar um borgina sem eru opnar Reykvíkingum á öllum aldri. Markmið félagsstarfsins er að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun með því að bjóða upp á opið félags- og tómstundastarf auk fjölda námskeiða. Félagsstarfið er vettvangur samfunda, mannlegra samskipta og skapandi athafna. Leitast er við að virkja frumkvæði og hæfileika hvers og eins. Hádegisverður er í boði gegn vægu gjaldi. Framboð getur verið breytilegt milli stöðva og fólk getur farið á milli eftir áhuga og dagskrá hverju sinni. 

11. Lögð fram að nýju tillaga frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann. 26. febrúar 2015. 

Framsókn og flugvallarvinir leggja til að reglubundin viðhorfskönnun verði gerð til að mæla viðhorf aldraðra til þjónustu Reykjavíkurborgar. Könnun þessi skal gerð tvisvar á ári auk þess að vera stutt og hnitmiðuð til að forðast brottfall. Markmið könnunarinnar er að fá bæði upplýsingar um kosti og galla starfsemi fyrir aldraða á vegum Reykjavíkurborgar frá fyrstu hendi og nota þær markvisst til að bæta þjónustuna.

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi greinargerð við tillöguna:

Samkvæmt minnisblaði velferðarsviðs dagsettu 17. febrúar 2015 er ástæða til að auka viðhorfskannanir almennt meðal notenda þjónustu borgarinnar með því að setja inn kerfisbundnar notendakannanir. Við í Framsókn og flugvallarvinum viljum þess vegna halda okkur við framlagða tillögu og leggja til að reglubundnar viðhorfskannanir verði gerðar til þess að mæla viðhorf aldraðra til þjónustu Reykjavíkurborgar. Könnun þessi skuli framkvæmd einu sinni til tvisvar sinnum á ári og sé auk þess stutt og hnitmiðuð til þess að forðast brottfall. Markmið könnunarinnar er að fá bæði upplýsingar um kosti og galla starfsemi fyrir aldraða á vegum borgarinnar frá fyrstu hendi og nota þær markvisst til að bæta þjónustuna.  Sem dæmi um útfærslu er hægt að gera stuttar skriflegar kannanir á starfsstöðvum borgarinnar þar sem að aldraðir hafa aðstöðu eða sækja.

Málinu er vísað til umsagnar hjá skrifstofu sviðstjóra, deild rannsókna og gæðamála.

12. Lagt fram erindi hverfaráðs Háaleitis og Bústaða til velferðarráðs, dags. 13. apríl 2015, varðandi sumarlokun í félagsmiðstöðinni Hæðargarði.

Erindinu er vísað til þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis sem kanni möguleika á útfærslu tillögunnar.

Fundi slitið kl. 16.45

Björk Vilhelmsdóttir (sign.)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign.) Gréta Björg Egilsdóttir (sign.)

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign.) Gunnar Alexander Ólafsson (sign.)

Börkur Gunnarsson (sign.) Lára Óskarsdóttir (sign.)