No translated content text
Velferðarráð
Ár 2015, fimmtudaginn 12. febrúar var haldinn 257. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13:00 í Borgartúni 12 – 14 í fundarherberginu Hofi á 7. hæð. Mættir: Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Magnús Már Guðmundsson, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A Þorsteinsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Sigtryggur Jónsson, Hörður Hilmarsson og Birna Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram minnisblað dags. 10. febrúar 2015 með upplýsingum um áhugasama rekstraraðila Gistiskýlis fyrir heimilislausa karla, ásamt fylgiskjali og kröfulýsingu fyrir Gistiskýlið. Jafnframt lagt fram minnisblað, dags 3. nóvember 2014, um kosti og galla þess að einkaaðili eða velferðarsvið reki Gistiskýlið.
Sigtryggur Jónsson framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða og Ellý A. Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri á Velferðarsviði gerðu grein fyrir málinu.
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð leggur til að rekstur gistiskýlis fyrir húsnæðislausa karla verði falinn velferðarsviði. Verkefnið verði tekið út og að tveimur árum liðnum endurmetið hvort rétt sé að halda rekstrinum hjá velferðarsviði eða bjóða hann út. Velferðarsvið taki við rekstrinum frá og með 1. apríl 2015. Jafnframt óskar ráðið eftir auknu fjármagni til rekstrarins sem sýnt er að þurfi til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru með vísan til kröfulýsingar og ný staðsetning krefst. Sérstök tillaga þess efnis verði lögð fyrir borgarráð.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mótmælir þeirri niðurstöðu meirihlutans að taka að sér rekstur á Gistiskýlinu. Það er rangt að taka yfir rekstur Gistiskýlisins þegar aðilar eins og Samhjálp og Hjálpræðisherinn hafa boðist til að sjá um reksturinn á skýlinu fyrir nánast sömu upphæð.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi bókun:
Framsókn og flugvallarvinir gera grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Við greiðum Samhjálp atkvæði okkar, þar sem þeir hafa áralanga reynslu í rekstri á Gistiskýlinu með góðum árangri og þá er ekkert sem áþreifanlega gefur til kynna að Reykjavíkurborg geti sinnt þessu verkefni fyrir lægri fjárhæð eða með betri þjónustu en núverandi rekstraraðili. Við teljum kost að leyfa frjálsum félagasamtökum að koma rekstri úrræða til þess að auka fjölbreytni og val þjónustuþega.
Tillagan borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.
Tvö atkvæði fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks á móti.
Fundi slitið kl.14:25
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)
S. Björn Blöndal (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)
Magnús Már Guðmundsson (sign)