Velferðarráð
Ár 2015, fimmtudaginn 5. febrúar, var haldinn 256. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Elín Oddný Sigurðardóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna; Ellý A. Þorsteinsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynnt nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri fyrir árið 2015 sem veitt voru Geðheilsustöð Breiðholts.
Sigríður H. Bjarnadóttir, verkefnisstjóri á Geðheilsustöð Breiðholts og Helga Sigurjónsdóttir, deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Breiðholts tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu Geðheilsustöðina.
2. Styrkir og þjónustusamningar: Lögð fram að nýju tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga.
Birna Sigurðardóttir, deildarstjóri á velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Tillaga um úthlutun almennra styrkja var borin upp til atkvæða .
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Tillaga um áætlun að úthlutun styrkja til áfangaheimila var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Tillaga um innri leigu var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Heiða Björg Hilmisdóttir vék af fundi vegna vanhæfis.
Tillaga um þjónustusamninga var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Heiða Björg Hilmisdóttir tók aftur sæti á fundinum.
3. Lagður fram til kynningar viðauki við samning, dags. 5. janúar 2015, um sameiginlegt þjónustusvæði Reykjavíkur og Seltjarnarnesbæjar um þjónustu við fatlað fólk, dags.12. janúar 2011, ásamt minnisblaði dags. 28. janúar 2015.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
4. Lagður fram til kynningar samningur velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar, dags. 20. janúar 2015, um móttöku og aðstoð við hóp flóttafólks, ásamt fylgiskjölum.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
5. Lagður fram til kynningar samningur við Eir, dags.13. janúar 2015, um dagdvöl fyrir heilabilaða.
Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.
6. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur, dags. 26. janúar 2015, milli velferðarsviðs og Vinnumálastofnunar, sem kynntur var á fundi velferðarráðs þann 4. desember 2014.
Elsa Hrafnhildur Yeoman vék af fundi kl.14.05.
S. Björn Blöndal tók sæti á fundinum kl. 14.05.
Stefán Eiríksson tók sæti á fundinum kl. 14.10.
Kristjana Gunnarsdóttir tók sæti á fundinum kl. 14.15.
7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 22. janúar 2015:
Lagt er til að velferðarsviði verði falið að skoða möguleika á því að setja upp vefsvæði í því skyni að kynna þjónustu sem stendur einstaklingum og fjölskyldum til boða í skóla- og velferðarmálum. Markmiðið er að stuðla að því að þeir sem þurfa geti fundið sér þjónustu við hæfi eins fljótt og hægt er. Með markvissu upplýsingaflæði um framboð skóla- og velferðarúrræða, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, má stuðla að því að fjölskyldur og einstaklingar leiti sér aðstoðar fyrr og helst um leið og grunur um þörf kviknar. Ná þarf enn frekar til þeirra sem ekki skila sér í ráðgjöf eða meðferð nógu snemma. Gott upplýsingaflæði um framboð myndi einnig draga úr því að of mikil áhersla sé á greiningu og að beðið sé langdvölum á biðlistum eftir mati en á meðan tapist mikilvægur uppbyggingartími.
Velferðarráð samþykkti að vísa málinu til meðferðar stjórnkerfis og lýðræðisráðs. Jafnframt er óskað eftir að fram fari kostnaðarmat á uppbyggingu vefgáttar hjá Reykjavíkurborg sem snýr að upplýsingum um þjónustu við börn.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata taka undir þær ábendingar sem fram koma í tillögu Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi markviss upplýsingaflæðis til foreldra á þeim skóla- og velferðarúrræðum sem standa reykvískum börnum til boða. Hér er þó um að ræða stórt mál sem snýr að fleiru en eingöngu þjónustu velferðarsviðs. Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata telja eðlilegt að vísa tillögunni til frekari vinnslu í stjórnkerfi- og lýðræðisráði. Ráðið hefur nýlega stofnað starfshóp sem falið er að fara yfir upplýsingastefnu borgarinnar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg móti sér og vinni samkvæmt öflugri heildstæðri upplýsingstefnu sem miðar að því að auka aðgengi íbúa borgarinnar að rafrænum upplýsingum. Velferðarráð telur brýnt að slík vinna sé unnin heildrænt í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar. Einnig bendir ráðið á mikilvægi þess að í kjölfar þeirrar vinnu fylgi fjármagn til þess að hægt sé að standa að nauðsynlegum úrbótum og nýsköpun í rafrænni stjórnsýslu borgarinnar, íbúum til hagsbóta.
8. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2015, varðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lagða fram á fundi borgarstjórnar þann 20. janúar 2015, um að taka upp Hafnarfjarðarmódelið hvað varðar fjárhagsaðstoð:
Borgarstjórn samþykkir að taka upp Hafnarfjarðarmódelið hvað varðar fjárhagsaðstoð. Með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa skilgreindi Hafnarfjarðarbær og tók upp nýjar leiðir við að sinna fjárhagsaðstoð með afar góðum árangri á síðasta ári. Fleiri fengu vinnu og færri þurftu aðstoð sveitarfélagsins eftir að nýtt ferli var tekið í gagnið. Sá undraverði árangur náðist að kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar í nóvember á síðasta ári hafði lækkað um 40% frá því í janúar. Í Reykjavík hefur kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar ekki lækkað síðustu árin. Ljóst er að verulegir hagsmunir eru í húfi til að reyna að ná sama árangri og náðist í Hafnarfirði.
Borgarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðaráð óskar eftir samanburði á framkvæmd fjárhagsaðstoðar í Reykjavík og í Hafnarfirði. Áfram-verkefnið hefur verið kynnt fyrir hluta fulltrúa í velferðarráði auk þess sem kynning hefur farið fram á verkefninu fyrir stjórnendur á velferðarsviði í lok ársins 2014. Velferðarráð telur eðlilegt að verkefnið verði kynnt formlega á fundi velferðarráðs áður en stórar ákvarðanir um breytingar á framkvæmd fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg eru teknar.
9. Lagt fram minnisblað dags. 28. janúar 2015, um stöðu vinnu starfshóps um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild.
10. Lagt fram minnisblað, dags. 12. janúar 2015, um innleiðingu sértækrar ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar og skiptingu fjármagns, ásamt viðauka.
11. Lögð fram til kynningar menningarstefna Reykjavíkurborgar fyrir árin 2014 til 2020:
„Menning er mannréttindi“ ásamt aðgerðum sem fylgja markmiðum í menningarstefnu Reykjavíkurborgar.
Afgreiðslu málsins frestað.
12. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags 22. janúar 2015, um kosningu í velferðarráð sem fram fór á fundi borgarstjórnar þann 20. janúar 2015.
Samþykkt var að Kjartan Þór Ingason taki sæti Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur sem varamaður í velferðarráði.
13. Lögð fram skýrsla velferðarvaktarinnar fyrir janúar 2015, ásamt fylgiskjali ; Tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
14. Lagt fram stöðumat, dags.28. janúar, um aðgerðaáætlun samkvæmt stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017
Málinu var frestað.
15. Lögð fram tíma- og verkáætlun fjárhagsáætlunar 2016 – 2020
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
16. Starfið milli funda.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda ráðsins.
17. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 22. janúar 2015, um tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um að skipa aðgerðahóp til að leysa vandamál í ferðaþjónustu, sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar þann 20. janúar 2015.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði tók sæti á fundinum.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja til að borgarstjórn samþykki að skipa tímabundið 3ja manna ad hoc aðgerðahóp án tafar sem leggja skal fram aðgerðaáætlun fyrir stjórn Strætó bs. til að leysa það vandamál sem byggðasamlagið Strætó stendur frammi fyrir sem er að uppfylla skyldur sínar gagnvart ferðaþjónustumálum fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðahópinn skipa einn fulltrúi sem tilnefndur er að Sjálfsbjörg, einn fulltrúi tilnefndur af meirihluta borgarstjórnar og einn fulltrúi minnihluta borgarstjórnar. Hópurinn skal skila niðurstöðum eigi síðar en 15. febrúar 2015.
Borgarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Nú hefur verið tekin ákvörðun á eigendavettvangi Strætó bs. að skipa sérstaka neyðarstjórn yfir sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólk á höfuðborgarsvæðinu. Í stjórninni eiga sæti fulltrúar allra sveitarfélaga sem að þjónustunni koma auk fulltrúa ÖBÍ, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar. Eðlilegt er að eftirfylgd með þjónustunni sé framkvæmd af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk stjórnarinnar verður að tryggja örugga og eðlilega þjónustu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu eins fljótt og kostur er. Stjórnin hefur fullt umboð eigenda til að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr þjónustu og framkvæmd og hefur jafnframt fullt umboð til að gera tillögur að grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.
Velferðarráðsfulltrúar harma einnig að sú aðgerðaráætlun sem Strætó bs. kynnti fyrir velferðarráði þann 22. janúar hafi ekki gengið eftir. Þá tekur velferðarráð undir þá tillögu borgarráðs að mikilvægt sé að fram fari óháð úttekt á aðdraganda og innleiðingu sameiginlegrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfðuborgarsvæðinu. Kjörnir fulltrúar í velferðarráði munu halda áfram að hafa eftirlit með framkvæmd þjónustunnar svo lengi sem þurfa þykir.
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Í ljósi þess að á borgarráðsfundi í dag, 5. febrúar 2015, var samþykkt að skipa neyðarstjórn um málefni fatlaðra hjá Strætó bs, þá lítum við í Framsókn og flugvallarvinum svo á að efnislega hafi sú tillaga sem hér er til umfjöllunar verið samþykkt og hún nú komin í framkvæmd. Miður er að tillögunni hafi verið vísað til ráðsins í stað þess að taka strax afstöðu til hennar á borgarstjórnarfundi enda um afar brýnt og viðkvæmt málefni að ræða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um það verkferli sem viðhaft er þegar barn eða fatlaður einstaklingur sem ekki getur tjáð sig neitar að fara með ferðaþjónustu eða finnst ekki þegar ferðaþjónustu ber að garði. Fer eitthvað tilkynningarferli af stað og hvernig er því háttað ? Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um hvaða reglur eigi við á þeim stöðum sem annast fatlaða s.s. Hitt húsið, skammtímavistanir, dagvistanir og fleira. Á hvaða tímapunkti er haft samband við foreldra? Er þetta verkferli kynnt og kennt til dæmis á námskeiðum sem starfsmenn sækja?
Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um hvort að stjórn Strætó bs. hafi fengið einhverja ráðgjöf varðandi uppsagnir á þeim fötluðum einstaklingum sem sagt var upp í tengslum við yfirfærslu verkefnisins frá ferðaþjónustunni til Strætó.
18. Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð felur velferðarsviði að fara í endurskoðun á reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Við þá vinnu verði tekið mið af umsögn umboðsmanns borgarbúa, umsögnum og ábendingum hagsmunasamtaka fatlaðs fólks. Einnig verði velferðarsviði falið að framkvæma úttekt á reglunum með tilliti til laga um málefni ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Velferðarráð ítrekar að vinna við endurskoðun reglna eigi ekki að fela í sér skerta ferðaþjónustu við fatlað fólk.
Afgreiðslu málsins er frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja það að reglur um ferðaþjónustu verði skoðaðar frá grunni út frá ábendingum hagsmunaaðila og áliti umboðsmanns borgarbúa. Nauðsynlegt er að setja ferðaþjónustumálin í algjöran forgang vegna þeirra alvarlegu mála sem komið hafa upp að undanförnu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að neyðarstjórn sem skipuð verður helgi sig verkefninu algerlega þar til búið er að ná tökum á framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðra.
19. Lagt fram bréf borgarstjórnar,dags. 22. janúar 2015, um tillögu borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um gjaldfrjálst númer fyrir ferðaþjónustu, dags. 20. janúar 2015.
Tillaga Framsóknar og flugvallarvina að símtöl hringjenda í þjónustuver, skv. 3.1.1. í þjónustulýsingu fyrir sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólk á höfuðborgarsvæðinu, verði gerð gjaldfrjálst grænt númer án tafar.
Borgarstjórn samþykkti að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Samþykkt var að vísa tillögunni til stjórnar Strætó bs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð tekur undir þau sjónarmið að gjaldfrjálst númer í þjónustuveri Strætó bs. myndi leiða til betri þjónustu við viðskiptavini. Hins vegar er eðlilegt að ákvörðun um þjónustuaukningu við viðskiptavini Strætó b.s verði tekin á vettvangi stjórnar Strætó b.s þar sem öll sveitarfélög sem standa að sameiginlegri ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu eiga sæti. Tillögunni er vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.
Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði, vék af fundinum.
20. Lagt fram minnisblað dags. 3. febrúar 2015 um rekstur Gistiskýlis og upplýsingar um áhugasama rekstraraðila. Jafnframt lögð fram kröfulýsing fyrir Gistiskýlið.
Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Fundi slitið kl.16.40
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)
S. Björn Blöndal (sign) Áslaug Friðriksdóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)
Magnús Már Guðmundsson (sign) Gréta B. Egilsdóttir (sign)