Velferðarráð - Fundur nr. 255

Velferðarráð

Ár 2015, fimmtudaginn 22. janúar var haldinn 255. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.07 að Borgartúni 12-14. Mættir: Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Gunnarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfið milli funda.

Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfinu á velferðarsviði á milli funda ráðsins.

2. Kosning nefndarmanna í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

Eftirfarandi skipan var samþykkt samhljóða:

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallavina: Aðalmaður Gréta Björg Egilsdóttir, fyrsti varamaður Áslaug Friðriksdóttir og annar varamaður Börkur Gunnarsson.

Fyrir hönd Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar og Vinstri grænna: Annar varamaður Magnús Már Guðmundsson.

3. Lagt fram minnisblað, dags. 14. janúar 2015, um styrki velferðarsviðs vegna þjónustu við geðfatlað fólk á árinu 2014 ásamt fylgigögnum. 

Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Birna Sigurðardóttir, deildarstjóri á skrifstofu sviðsstjóra, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

4. Styrkir og þjónustusamningar: Lögð fram til kynningar tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga. 

Frestað.

5. Kynnt rekstrarniðurstaða velferðarsviðs fyrir tímabilið janúar  til nóvember 2014. 

Agnes Sif Andrésdóttir, deildarstjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar, tók sæti á fundinum 

undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.

- S. Björn Blöndal tók sæti á fundinum kl.13.30.

- Ingibjörg Sigurþórsdóttir tók sæti á fundinum, af hálfu starfsmanna, kl. 13.40.

6. Lögð fram fræðsluáætlun velferðarsviðs fyrir vorönn 2015 ásamt  minnisblaði þar að lútandi, dags. 14. janúar 2015. 

Guðrún Edda Baldursdóttir, mannauðsráðgjafi, tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti fræðsluáætlunina.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð fagnar þessari glæsilegu fræðsluáætlun sem velferðarsvið mun bjóða 

starfsfólki sínu vorið 2015. Áætlunin er augljóslega metnaðarfull og verður án efa til þess að efla starfsgleði og velferð starfsmanna sviðsins.

7. Lögð fram hugmynd af vefnum Betri Reykjavík: Gistiskýli.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð þakkar fyrir þann góða hug og frumkvæði sem fylgir þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar. Reykjavíkurborg hefur veitt heimilislausu fólki þjónustu um árabil. Í lok október 2014 opnaði nýtt og endurbætt gistiskýli fyrir heimilislausa karlmenn við Lindargötu 48 og þar með lauk nærri hálfrar aldarsögu Gistiskýlisins við Þingholtsstræti. Gert er ráð fyrir a.m.k. 20 gestum á nóttu en engum er vísað frá. Samhjálp rekur Gistiskýlið samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg. Heimilislausum konum stendur til boða næturathvarf í Konukoti í Eskihlíð 4. Allt að átta heimilislausar konur geta dvalið í Konukoti á sama tíma. Konukot er samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og Reykjavíkurborgar. Að auki býður Reykjavíkurborg ýmis önnur úrræði fyrir utangarðsfólk, þar á meðal dagsetur í samstarfi við Hjálpræðisherinn og kaffistofu í samstarfi við Samhjálp. Rekstur Gistiskýlisins er reglulega boðinn  út og eru aðilar sem telja sig geta sinnt þessum rekstri með sóma hvattir til að fylgjast með því. Með vísan til þess að borgin veitir nú þegar utangarðsfólki fjölbreytta þjónustu, þar með talið gistiskýli, er tillögunni vísað frá.

- Börkur Gunnarsson tók sæti á fundinum kl. 14.10.

8. Lögð fram til kynningar úttekt Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á verk- og vinnulagi í sérfræðiþjónustu skóla í Reykjavík (janúar 2015), sbr. bókun velferðarráðs frá fundi ráðsins þann 30. apríl 2014.

Velferðarráð óskar eftir því við velferðarsvið að flýta vinnu starfshóps sem er að störfum og hefur m.a. það verkefni að endurskoða verk- og vinnulag í sérfræðiþjónustu skóla sem veitt er af þjónustumiðstöðvum. Verkefni hópsins eru samkvæmt erindisbréfi frá mars 2013 að gera tillögu sem:

1. Feli í sér samræmt vinnulag á milli þjónustumiðstöðva og tryggi jafnræði í þjónustu við börn í Reykjavík .

2. Stuðli með markvissum hætti að bættri þjónustu og geti þar með dregið úr fjölda á biðlista. 

3. Styrki forvarnarstarf.

4. Sé í samræmi við áherslur reglugerðar um sérfræðiþjónustu skóla og stefnu skóla- og frístundasviðs.

Þá óskar velferðarráð eftir að gerð verði úttekt á sérfræðiþjónustu við börn þar sem m.a. væri skoðað verklag þjónustumiðstöðva í sérfræðiþjónustu við börn og verk- og kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga. Í framhaldi af því verði lagðar fram tillögur til úrbóta. Úttektin verði gerð af óháðum aðila.

Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri gæða og rannsókna á velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið.

Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent og Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir, verkefnisstjóri frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu úttektina.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að mun betur megi vinna að kynningu á þeirri aðstoð sem þjónustumiðstöðvar og aðrir veita í velferðar- og skólaþjónustu. Ljóst er að mikillar kynningar er þörf og fólk áttar sig illa á því hvert skuli leita og hvað er í boði. Því miður felldi meirihlutinn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að boðið yrði út  "velferðartorg" í borgarstjórn 2. desember sl. þar sem lögð var til hugmynd að lausn þess vanda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að velferðarsviði verði falið að skoða möguleika á því að setja upp vefsvæði í því skyni að kynna þjónustu sem stendur einstaklingum og fjölskyldum til boða í skóla- og velferðarmálum. Markmiðið er að stuðla að því að þeir sem þurfa geti fundið sér þjónustu við hæfi eins fljótt og hægt er. Með markvissu upplýsingaflæði um framboð skóla- og velferðarúrræða, hvort sem um opinbera eða einkaaðila er að ræða, má stuðla að því að fjölskyldur og einstaklingar leiti sér aðstoðar fyrr og helst um leið og grunur um þörf kviknar. Ná þarf enn frekar til þeirra sem ekki skila sér í ráðgjöf eða meðferð nógu snemma. Gott upplýsingaflæði um framboð myndi einnig draga úr því að of mikil áhersla sé á greiningu og að beðið sé langdvölum á biðlistum eftir mati en á meðan tapist mikilvægur uppbyggingartími.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

9. Ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk. Farið yfir stöðu mála.

Lögð fram eftirfarandi gögn:

a) Minnisblað  Strætó.bs., dags. 13. janúar 2015.

b) Fundargerðir Strætó bs, dags. 3.des. 2013, 9.des. 2013, 16.des. 2013, 6.jan. 2014, 13. jan. 2014, 27.jan. 2014, 10. feb. 2014, 10. mars. 2014, 7. apríl. 2014, 29.okt. 2014, 5.nóv. 2014, 12.nóv. 2014, 19. nóv. 2014, 26.nóv. 2014, 3.des. 2014, 10.des. 2014, 17. des. 2014, 23.des. 2014 og 29.des.2014.

c) Aðkoma Strætó bs. að breyttu fyrirkomulagi á akstursþjónustu fatlaðs fólks og yfirlit yfir vinnu og innleiðingu Strætó bs. að verkefninu.

d) Akstursþjónusta fatlaðs fólks – Daglegt stöðumat við lok hvers virks dags á meðan þörf er á. 

e) Fundargerðir stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; 399. fundur dags. 3.feb. 2014, 401. fundur dags. 7. apríl 2014 og 402.fundur  dags. 5.maí 2014.

f) Tölfræði fyrir tímabilið 1. – 18. janúar 2015.

Ástríður Þórðardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Strætó bs., Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Strætó bs. og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri á velferðarsviði tóku sæti á fundinum undir þessum lið og gerðu grein fyrir málinu. Lögð voru fram eftirfarandi gögn:

Aðgerðaáætlun Strætó bs. vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks, dags. 22. jan. 2015, tölfræði fyrir miðvikudaginn 22. janúar 2015 og upplýsingar um námskeið fyrir bílstjóra.

Ingi B. Poulsen, umboðsmaður borgarbúa, tók sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík, dags. 22. janúar 2015.

Ingi B. Poulsen, umboðsmaður borgarbúa, sat fundinn undir þessum lið og kynnti álit sitt varðandi reglur um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk Í Reykjavík.

Ingi B. Poulsen vék af fundi kl. 17.40.

Tillaga að breytingu á reglum um ferðaþjónustu fatlaðs fólks var tekin til umfjöllunar.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað. Farið verður yfir tillöguna með hliðsjón af áliti umboðsmanns borgarbúa. Málið verður tekið fyrir á næsta fundi ráðsins.

11. Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl.18.30

Elín Oddný Sigurðardóttir

S. Björn Blöndal (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Börkur Gunnarsson (sign)