Velferðarráð
Ár 2014, fimmtudaginn 18. desember var haldinn 253. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.05 í fundarherbergi Höfuðborgarstofu að Aðalstræti 2. Mættir: Elín Oddný Sigurðardóttir, S. Björn Blöndal, Magnús Már Guðmundsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Starfið á milli funda.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir starfinu á Velferðarsviði á milli funda ráðsins.
2. Kynnt viðhorfskönnun varðandi heimsendan mat á vegum Velferðarsviðs. Jafnframt lagt fram minnisblað, dags. 11. desember 2014.
Erla Björg Sigurðardóttir, deildarstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti niðurstöður viðhorfskönnunarinnar.
Kristín Elfa Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, tók sæti á fundinum kl. 15.35.
Börkur Gunnarsson tók sæti á fundinum kl.15.45.
3. Lagðar fram áherslur Þjónustuhóps aldraðra í Reykjavík.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Gríðarlegri fjölgun aldraðra á næstu áratugum mun fylgja aukin þjónustuþörf sem skella mun fyrr en síðar á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir notendur. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að fá meirihlutann í Reykjavík til að auka fjárveitingar í verkefni tengd nákvæmlega þessu, ákvað meirihlutinn að taka ekki undir þær tillögur og halda því fram að sviðið hefði nægt svigrúm til að sinna þessu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta engan veginn séð að staðan sé sú. „
Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Allir eru sammála um að vinna þurfi skýrar áætlanir til að bregðast við fjölgun aldraðra á næstu árum og áratugum. Markviss vinna fer fram á Velferðarsviði við að greina hvað þessi fjölgun hefur í för með sér og skipuleggja viðbrögð við henni. Fjármunum mun verða veitt til þeirrar vinnu eftir þörfum. Ekki er rétt að byggja fjármögnun þeirrar vinnu á óútfærðu slumpi, heldur þurfa að liggja fyrir nákvæmari hugmyndir um hvernig og í hvað á að verja fjármunum.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögur um að sviðið fengi fjármagn til að fjárfesta í rannsóknum og tilraunaverkefnum upp að ákveðinni fjárhæð. Að kalla slíkt „slump“ lýsir einfaldlega metnaðarleysi meirihlutans í málinu.„
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að fá yfirlit yfir öll verkefni sviðsins sem tengjast endurskipulagningu á þjónustu við aldraða.
4. Lögð fram tillaga um breytingu vegna áfangaskiptrar áætlunar um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Jafnframt lagt fram minnisblað um breytingu á notendahópi í þjónustukjarna í Rangárseli. dags. 8. október 2014.
Jóna Rut Guðmundsdóttir, deildarstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og kynnti tillöguna.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
5. Kynnt tillaga að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð vegna hækkunar á grunnfjarhæðum fjárhagsaðstoðar til framfærslu í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 18.desember 2014.
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
6. Lögð fram tillaga um að þeir borgarbúar sem eru í atvinnuleit eða þiggja fjárhagsaðstoð fái frí bókasafnsskírteini og frítt á sundstaði borgarinnar út árið 2015 eins og verið hefur undanfarin ár.
Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni. Ástæðan er sú að of lítill munur er á atvinnuleysisbótum og lægstu launum. Með slíkum ívilnunum fyrir atvinnulausa dregur úr fjárhagslegum hvata til að sækja út á vinnumarkað. Sterkar vísbendingar eru einnig um að of mikill slaki og of lítil eftirfylgni sé gagnvart þessum hópi enda hefur fjölgað gríðarlega í honum á síðustu árum. Því miður virðist núverandi meirihluti ætla að halda áfram að reka slaka stefnu fyrri meirihluta í borginni.“
7. Betri Reykjavík: Neysluklefar fyrir sprautufíkla.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt var að vísa málinu til starfshóps heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum og samfélaginu í heild.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
„Skaðaminnkandi nálgun við meðferð fíkla og afglæpavæðing fíkniefnaneyslu hafa verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu ár. Heilbrigðisráðherra hefur nú skipað starfshóp um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Neyslurými falla undir slíka heildarstefnumótun enda mikilvægt að ríkið móti stefnu í þessum málaflokki í samvinnu við lögregluyfirvöld, sveitarfélög og almenning. Í Reykjavík starfa meðal annars borgarverðir og frú Ragnheiður undir formerkjum skaðaminnkandi nálgunar. Velferðarráð hvetur fulltrúa Reykjavíkurborgar í starfshópi heilbrigðisráðherra til að taka málið upp á þeim vettvangi.“
8. Betri Reykjavík: Skjól fyrir heimilislausa.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
„Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks var samþykkt í upphafi árs 2013. Markmiðið er að Velferðarsvið veiti þeim sem eru heimilislausir vandaða þjónustu við hæfi. Mörg skref hafa verið tekin til að móta sem heildstæðasta stefnu og fjölmörg úrræði eru rekin af Velferðarsviði eða styrkt af Reykjavíkurborg fyrir þennan hóp. Nýtt gistiskýli fyrir heimilislausa karla opnaði á Lindargötu í lok árs 2014 auk þess sem Rauði krossinn rekur gistiskýlið Konukot fyrir heimilislausar konur. Síðan má nefna fjölmörg önnur úrræði s.s smáhýsi úti á Granda , áfangaheimili fyrir konur og karla í neyslu, sem og fyrir þá sem hafa nýlokið meðferð.Reykjavíkurborg styrkir einnig Dagsetur Hjálpræðishersins úti á Granda, Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni og heldur borgin úti þjónustu Borgarvarða. Velferðarráð telur það ekki samræmast stefnu Velferðarsviðs að draga óþarfa athygli að heimilislausu fólki með því að koma þeim fyrir í skúrum inn í auglýsingaskiltum. Hins vegar er tekið undir mikilvægi þess að tryggja öllum borgarbúum öruggan næturstað og efla frekar þau úrræði sem heimilislausum standa til boða eftir þörfum hverju sinni.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að Velferðarsviði verði falið að kanna hvort ástæða sé til að koma enn frekar til móts við fólk sem hefur verið húsnæðislaust til lengri tíma. Skoðað yrði hvort nýta megi þjónustu gistiheimila eða annarra slíkra úrræða í meira mæli. Einnig verði skoðað hvort ástæða sé til að koma frekar til móts við þá sem ekki njóta húsnæðisbóta vegna heimilisleysis.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
9. Lögð fram fundaáætlun velferðarráðs fyrri hluta ársins 2015.
10. Lagt fram til kynningar samkomulag Félagsbústaða og Velferðarsviðs, dags. 19. nóvember 2014.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Fundi slitið kl. 17.25
Elín Oddný Sigurðardóttir
S. Björn Blöndal Heiða Björg Hilmisdóttir
Magnús Már Guðmundsson Börkur Gunnarsson
Gréta Björg Egilsdóttir Áslaug María Friðriksdóttir