Velferðarráð - Fundur nr. 248

Velferðarráð

Ár 2014, fimmtudaginn 2. október var haldinn 248. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.17 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir,  Magnús Már Guðmundsson, Áslaug María Friðriksdóttir og Gréta Björg Egilsdóttir. Áheyrnarfulltrúi: Kristín Elfa Guðnadóttir. Af hálfu starfsmanna; Stefán Eiríksson, Hörður Hilmarsson, Kristjana Gunnarsdóttir, Bára Sigurjónsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.  

Þetta gerðist: 

1. Áherslur og forgangsröðun Velferðarsviðs fyrir árin 2015 – 2019.

Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna og lagði fram eftirfarandi bókun:

Í áherslum um forgangsröðun Velferðarsviðs eru reifuð helstu verkefni sviðsins á næsta ári. Þrátt fyrir að verkefnin sem þar eru reifuð séu flest góð og gild þá vantar algjörlega að áherslurnar endurspegli betur hið nauðsynlega og óumflýjanlega, sem er að vinna að gagngerum breytingum á þjónustu og rekstri til framtíðar. Framundan er löngu fyrir séð að þjónustuþegum muni fjölga og mjög skýrar kröfur eru um sveigjanlega og einstaklingsmiðaðri þjónustu sem er ekki og verður ekki hægt að veita með óbreyttu kerfi. Nauðsynlegt er að sviðið hefji þetta gríðarlega breytingarferli án tafar. 

2. Kynnt drög að fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2015 ásamt greinargerð.

Skrifstofustjóri skrifstofu fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu og kynnti  sundurliðun á fjárhagsramma fyrir árið 2015.

S. Björn Blöndal tók sæti á fundinum kl. 13.42.

Árni Múli Jónasson tók sæti á fundinum kl. 14.00.

Samþykkt var með fjórum samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætluninni til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð samþykkir að vísa meðfylgjandi fjárhagsáætlun til borgarráðs. Í áætluninni er óútfærð hagræðing sem nemur fjármagni til að mæta halla á rekstri búsetuúrræða að upphæð 302 millj.kr., verkefnum í barnavernd að upphæð 39.6 millj.kr og rekstur vettvangsgeðteymis að upphæð 20.2 millj.kr. Það er einnig eindreginn vilji velferðarráðs til að fjármagna aukinn stuðning og forvarnir í þágu barna og ungmenna að upphæð 24.3 millj.kr. Samtals eru þetta verkefni upp á 386 millj.kr. Ljóst er að ef ekki fæst aukið fjármagn vegna þessara verkefna mun það leiða til skerðingar á þjónustu Velferðarsviðs.

Lára Óskarsdóttir tók sæti á fundinum kl.14.07.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Verkefni velferðarsviðs eru borgarbúum mikilvæg. Fyrir liggur að ekki verður hægt að halda óbreyttum rekstri sviðsins til næstu ára en mæta jafnframt auknum kröfum um breytingar, sveigjanlegri þjónustu, einstaklingsmiðaðri þjónustu fyrir aldraða og fatlaða og fjölgun þeirra sem þurfa þjónustu. Mjög nauðsynlegt er jafnframt að skoða enn betur hvernig bæta megi starfsaðstöðu starfsfólks og gera breytingar. Það er því með öllu óskiljanlegt að Velferðarsviði sé ekki úthlutað fjármagni til að geta hafið þetta mikla umbreytingarferli. Forgangsröðun meirihlutans í Reykjavík er svo sannarlega ekki í átt til velferðar. 

3. Lagðar fram tillögur að breytingu á eftirfarandi gjaldskrám Velferðarsviðs ásamt greinargerð.

a) Gjaldskrá fyrir veitingar.

b) Gjaldskrá í félagsstarfi.

c) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.

d) Gjaldskrá í heimaþjónustu. 

e) Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ.

f) Gjaldskrá vegna leigu/dvalargjalds í sértækum búsetuúrræðum.

g) Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna og útlagðs kostnaðar vegna dvalar hjá stuðningsfjölskyldu.

h) Gjaldskrá fyrir leigu á sölum og fleira.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum að vísa gjaldskránum til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins  lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fyrir liggja tillögur að breytingum á gjaldskrám  Velferðarsviðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera ekki athugasemdir við að almennt sé gert ráð fyrir að gjaldskrár taki verðlagshækkun. Mjög mikilvægt er hins vegar að horfa á gjaldskrárhækkanir heildstætt í stað þess að hvert svið skoði afmarkaðan hluta. Verði breytingar samþykktar er mikilvægt að kynna tillögurnar fyrir viðeigandi hagsmunaaðilum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna  og Pírata lögðu  fram eftirfarandi bókun:

Velferðarráð felur Velferðarsviði að kynna breytingar á gjaldskrám f. viðeigandi hagsmunasamtökum

Afgreiðslu gjaldskrár fyrir ferðaþjónustu fatlaðs fólks og gjaldskrár fyrir akstursþjónustu eldri borgara var frestað.

Fundi slitið kl.15.00

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)

S. Björn Blöndal (sign) Lára Óskarsdóttir (sign)

Magnús Már Guðmundsson (sign) Gréta Björg Egilsdóttir (sign)