Velferðarráð
Ár 2014, fimmtudaginn 18. september var haldinn 246.fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.08 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, S. Björn Blöndal, Áslaug María Friðriksdóttir, Börkur Gunnarsson og Gréta Björg Egilsdóttir. Af hálfu starfsmanna; Stefán Eiríksson, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Árni Múli Jónasson, Kristjana Gunnarsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Sólveig Reynisdóttir, Bára Sigurjónsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fjárhagsáætlun; Afrakstur starfsdags, áherslur og forgangsröðun.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Kristín Elfa Guðnadóttir tók sæti á fundinum kl. 13.10.
2. Undirritun siðareglna af hálfu kjörinna fulltrúa.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu og kjörnir fulltrúar undirrituðu siðareglurnar.
3. Lagt fram minnisblað Velferðarsviðs, dags. 9. september 2014 um fjárhagsaðstoð; Yfirlit yfir tímalengd fjárhagsaðstoðar til framfærslu.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt. Breytingarnar feli í sér að meiri áhersla verði lögð á þá skyldu atvinnuleitenda að taka að sér verkefni á meðan á leitinni stendur en eiga annars ekki rétt til fjárhagsaðstoðar. Rétt er að geta þess að sú regla ætti ekki að ná yfir þá sem eru sjúklingar og njóta fjárhagsaðstoðar sem slíkir. Rannsóknir benda til að skilyrðingar af þessu tagi hafi ótvíræð áhrif við að hvetja til atvinnuleitar og virkrar þátttöku. Kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar var tæpir 3 milljarðar á síðasta ári og líklegt er að hækki milli ára. Mikilvægt er því að beina þessum hópi inn í virkniverkefni af alls kyns tagi til að viðhalda virkni og auka líkurnar á því að fólk komist aftur út á vinnumarkaðinn.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
4. Kynnt áfangaskýrsla umboðsmanns borgarbúa, dags. 1. september 2014.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri Velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi tillögu:
Í skýrslu umboðsmanns borgarbúa koma fram mörg atriði og mikilvægar ábendingar sem snúa að starfsemi Velferðarsviðs. Stærsti hluti þeirra mála sem bárust embættinu tengdust sviðinu. Meðal þess sem fram kemur eru ábendingar á borð við "þöggun", "ekki lausnamiðuð hugsun", "of mikil miðstýring" og að "borgin njóti alltaf vafans". Í ljósi ábendinga í skýrslu umboðsmanns borgarbúa telur velferðarráð mikilvægt að fá hann á sinn fund til að ræða niðurstöður skýrslunnar, sérstaklega þær ábendingar sem snúa að Velferðarsviði fyrir ráðinu. Einnig vill velferðarráð kalla eftir upplýsingum um hvernig mati á gæðum starfseminnar er háttað innan sviðsins. Hvaða tæki eru notuð til að meta ánægju með þjónustuna og hvernig upplýsingum um það sem betur má fara er safnað frá notendum þjónustunnar. Einnig óskar velferðarráð eftir upplýsingum um það hvaða leiðir starfsmenn hafa til að koma mikilvægum upplýsingum um vinnustaðinn, starfsumhverfi og starfsánægju á framfæri. Trúnaðarmenn eru á mörgum sviðum lykilaðilar til að safna upplýsingum um viðkvæm mál og spurning hvort slíkt kerfi er notað markvisst á ólíkum starfsstöðvum sviðsins.
5. Lagt fram minnisblað Velferðarsviðs, dags. 16.september 2014, um tillögur sérfræðiteymis á vegum velferðarráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar og kostnað af aðgerðum sem lagðar eru til, ásamt fylgigögnum.
Skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmdar þjónustu gerði grein fyrir málinu.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga, ásamt greinargerð, um að fela Eir rekstur dagdvalarrýma:
Lagt er til að Velferðarsvið Reykjavíkurborgar feli hjúkrunarheimilinu Eir rekstur 18 dagdvalarrýma fyrir heilabilaða.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
7. Lögð fram að nýju tillaga Framsóknarflokksins og flugvallarvina frá fundi velferðarráðs þann 4. september 2014.
Lagt er til að velferðarráð og Velferðarsvið beiti sér í því að fjölga starfsfólki sem starfar við stuðningsþjónustu, svo sem félagslega liðveislu þar sem núverandi stöðugildi eru ekki fyllt, til þess að létta á biðlistunum sem nú þegar eru til staðar. En fyrst og fremst til þess að bregðast við þeim áhyggjum foreldra að börnum þeirra vanti félagsskap og aðstoð til þess að taka þátt í félagslífi og tómstundastarfi eins fram kemur í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Einnig til þess að bregðast við vaxandi einmanaleika meðal fatlaðra barna sem virðist fara vaxandi með hækkandi aldri.
Samþykkt var að vísa tillögunni til Velferðarsviðs sem innlegg í þá vinnu sem þegar er í gangi til að mæta betur þörfum fatlaðra barna og foreldra þeirra.
8. Tilnefning í stjórn Fjölsmiðjunnar.
Samþykkt var að tilnefna Heiðu Björg Hilmisdóttur sem fulltrúa í stjórn Fjölsmiðjunnar.
9. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar til júlí 2014.
Fundi slitið kl.16.10
Björk Vilhelmsdóttir
Elín Oddný Sigurðardóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Heiða Björg Hilmisdóttir (sign) Börkur Gunnarsson (sign)
S. Björn Blöndal (sign) Gréta Björg Egilsdóttir.(sign)