No translated content text
Velferðarráð
Ár 2014, fimmtudaginn 3. apríl var haldinn 237. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.43 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Ragnar Hansson, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Elín Oddný Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Árni Múli Jónasson, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs í málaflokknum árin 20152019 vegna vinnu við fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
2. Lagt fram til kynningar yfirlit Velferðarsviðs um skuldbindingar,valkosti og tækifæri, ásamt greinargerð.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
3. Lögð fram stöðuskýrslan „Framfærslustyrkur“ vegna aðferðafræði kynjaðrar fjárhagsáætlunar og lagðar fram skýrslur um kynjaða fjárhagsáætlunargerð sem unnar voru árið 2012. Enn fremur er lögð fram tillaga um að þjónustuþátturinn „heimildargreiðslur“ verði næsta viðfangsefni kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar á Velferðarsviði.
Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
4. Lögð fram að nýju tillaga starfshóps að stefnu í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum sbr. erindisbréf hópsins dags. 4 mars 2013.
Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum. Velferðarsviði var falið að vinna aðgerðaáætlun á grundvelli stefnunnar.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir nú einróma stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum. Markmið stefnunnar er að fatlað fólk fái þjónustu samkvæmt reglugerð nr. 1054/2010 í samræmi við þarfir sínar og óskir. Þjónustunni er ætlað að styðja við sjálfstætt og innihaldsríkt líf fatlaðs fólk, á heimili og í tómstundum
Velferðarráð þakkar fulltrúum hagsmunasamtaka og sérfræðingum Velferðarsviðs fyrir afar gott og gefandi samráð við þessa vinnu. Nú höfum við náð saman um hvernig þjónustan á að þróast á næstu árum – og hlökkum til innleiðingarinnar. Velferðarsviði er nú falið að vinna aðgerðaáætlun á grundvelli þessarar stefnu, svo hún verði ekki bara falleg orð á blaði eða skúffuplagg.
5. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis um fjárhagsaðstoð.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
6. Lögð fram að nýju tillaga að áfangaskiptri áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk í Reykjavík ásamt umsögnum Þroskahjálpar, Einhverfusamtakanna, fjármáladeildar borgarinnar um tillöguna. Jafnframt lagt fram minnisblað Velferðarsviðs, dags. 27. mars 2014.
Jóna Rut Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, tók sæti á fundinum undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Tillagan, með áorðnum breytingum, var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Heiða Kristín Helgadóttir vék af fundi kl.14.50.
Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar samþykkt áfangaskiptrar áætlunar um sértæk húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Uppbyggingin tekur til 28 einstaklinga, þar af 5 barna þar sem komið verður á móts við þjónustuþarfir þeirra á einstaklingsmiðaðan hátt og í samræmi við stefnu borgarinnar um þjónustu við fatlað fólk. Uppbyggingin nýtist þó mun fleirum þar sem nýjar íbúðir og ný þjónustuúrræði losa um þjónustu fyrir aðra s.s. í stuðningsþjónustu, skammtímavistunum o.fl.
Með tillögunni er einnig lögð fram ný útfærsla um hvernig leiguverð er reiknað í íbúðum fatlaðs fólks. Um afar sanngjarna leigu er að ræða þar sem íbúar greiða einungis fyrir fermetra innan íbúðar, en allt vegna sameiginlegs rýmis og kostnaðar sem er tilkomin vegna fötlunar greiðist að sjálfsögðu af sveitarfélaginu einsog kveðið er á um í reglugerð nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir umsagnir Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um tillögu að áfangaskiptri áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Í umsögn frá Einhverfusamtökunum, dags. 28. febrúar 2014, kemur fram að æskilegt hefði verið að hafa samráð við Einhverfusamtökin eða Landssamtökin Þroskahjálp við mat á þeim kostum sem til skoðunar voru á fyrri stigum. Það hefði því verið heppilegt að mati fulltrúans að bjóða fulltrúum hagsmunasamtaka með þegar teikning var rýnd og lóð að Þorláksgeisla var skoðuð af fulltrúum Velferðarsviðs þann 27. mars sl. Fulltrúinn leggur til að haft verði áframhaldandi samráð við Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og eftir atvikum önnur hagsmunasamtök.
7. Lagðar fram til kynningar lykiltölur Velferðarsviðs fyrir janúar 2014.
8. Lagt fram til kynningar starfshlutfall mannréttindafulltrúa á sviðum.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð lýsir yfir stuðningi við tillögu mannréttindaráðs um að önnur fagráð borgarinnar samþykki að þeir mannréttindafulltrúar sem starfa á sviðum borgarinnar, verði að lágmarki í 15-25% starfshlutfalli.
Þekking á mannréttindum og virðing fyrir þeim og skyldum og réttindum sem af þeim leiða er afar mikilvæg við útfærslu og framkvæmd þeirra verkefna sem Velferðarsviðið, þjónustumiðstöðvar og stofnanir sem heyra undir þær veita borgarbúum. Það er því nauðsynlegt að vakandi auga sé haft með því að mannréttinda sé gætt í samskiptum sviðsins við þá sem njóta þjónustunnar. Mikilvægur þáttur í því er að tryggja að starfsfólk sviðsins fái viðeigandi fræðslu og leiðbeiningar um mannréttindi og þýðingu þeirra við útfærslu þjónustuleiða, samskipti við þjónustuþega og aðra borgarbúa.
Velferðarráð telur, í ljósi stærðar Velferðarsviðs og eðlis þeirra verkefna sem það ber ábyrgð á, sé eðlilegt að starfshlutfall mannréttindafulltrúa á sviðinu verði 25% og felur sviðsstjóra að tryggja að svo verði. Mannréttindafulltrúar skulu vinna náið með stjórnendum og starfsfólki Velferðasviðs sem og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og mannréttindafulltrúum annarra sviða borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir mikilvægi þess að unnið sé af metnaði að mannréttindamálum á öllum sviðum og starfsstöðvum borgarinnar. Samkvæmt tillögu mannréttindaráðs er lagt til að ákveðið hlutfall af stöðugildi starfsmanna á öllum sviðum borgarinnar verði eyrnamerkt mannréttindamálum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki nauðsynlegt að skipta verkefnum milli sviða með þessum hætti. Áherslu á að leggja á að kynna mannréttindastefnuna og tryggja að starfsfólk sviðsins fái viðeigandi fræðslu og leiðbeiningar um mannréttindi. Tillaga um eyrnamerkt starfshlutfall er fordæmi sem gæti þýtt meira flækjustig í stjórnkerfi borgarinnar sem nóg er flókið fyrir. Þá benda fulltrúarnir á að ekki er um tímaskráningu að ræða hjá starfsfólki á Velferðarsviði, því er til lítils að vera að samþykkja tillögur sem þessar, því hvorki verður hægt að fylgjast með hvort unnið sé í samræmi við þær né að meta árangur af verkefninu.
9. Lagður fram til kynningar samstarfsamningur Velferðarsviðs og Vinnumálastofnunar.
Sveinn H. Skúlason vék af fundi kl. 15.15.
10. Betri Reykjavík; Tekjuviðmiðun í niðurgreiðslu aldraðra. Erindið var efsta hugmynd febrúarmánaðar 2014 í málaflokknum velferð.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hvetur fólk til að leita réttar síns, telji það reglur okkar ósanngjarnar eða að brotið sé á rétti þeirra. Reglurnar er þannig að ef tekjur umsækjanda og maka hans eru undir eða við tekjuviðmið TR er unnt að sækja um lækkun greiðslu, og greiðir notandi þá sem samsvarar almennu fargjaldi skv. gjaldskrá Strætó bs. hverju sinni fyrir fyrstu 16 ferðirnar á mánuði en kr. 1.060 fyrir hverja ferð umfram 16 ferðir. Heimilt er að veita þeim sem hafa allt að 5% umfram viðmiðunartekjur lækkun greiðslu. Ákvörðun um synjun á lækkun greiðslu vegna akstursþjónustu má skjóta til velferðarráðs. Ákvörðun velferðarráðs má skjóta til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, velferðarráðuneytinu.
11. Lögð fram til upplýsingar tillaga um tímabundna þjónustu við framhaldsskólanema með fötlun vegna verkfalls sem samþykkt var frá fundi borgarráðs þann. 27. mars 2014.
12. Lagt fram til upplýsingar minnisblað um þörf á hjúkrunarrýmum í Reykjavík, ásamt bókun borgarráðs frá fundi þann 27. mars 2014.
Velferðarráð tekur undir bókun borgarráðs frá fundi ráðsins þann 27. mars 2014.
13. Lagt fram bréf sviðsstjóra Velferðarsviðs dags. 18. mars 2014, um breytta útreikninga á RAI stuðli hjúkrunarheimila sem lagt var fyrir fund borgarráðs þann 20. mars 2014. Jafnframt lögð fram bókun frá sama fundi.
Velferðarráð tekur undir bókun borgaráðs frá fundi ráðsins þann 20. mars 2014.
14. Lögð fram uppfærð fundaáætlun velferðarráðs frá apríl til júní 2014.
15. Kynning á verkaskiptingu skrifstofu Velferðarsviðs eftir breytingar.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Fundi slitið kl. 16.02
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Kristín Soffía Jónsdóttir (sign) Sveinn H Skúlason (sign)
Ragnar Hansson (sign) Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)