Velferðarráð - Fundur nr. 236

Velferðarráð

Ár 2014, fimmtudaginn 20. mars var haldinn 236. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Elín Oddný Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna;Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Árni Múli Jónasson, Sigþrúður Arnardóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.   

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs fyrir árin 2015-2019 vegna vinnu við fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun.

Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.

Diljá Ámundadóttir tók sæti á fundinum kl. 12.45.

Velferðarsviði var falið að vinna ný drög með tilliti til þeirra breytinga sem fram komu í umræðum á fundinum. Málið verður afgreitt þann 3. apríl n.k.

2. Skipan varamanns í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

Velferðarráð samþykkti að skipa Elínu Oddnýju Sigurðardóttur sem varamann Áslaugar Maríu Friðriksdóttur í áfrýjunarnefnd velferðarráðs.

3. Kynnt tillaga starfshóps að aðgerðaáætlun í þróun þjónustu við fatlað fólk. Starfshópi var falið að móta aðgerðaáætlun um viðbrögð við ábendingum hagsmunasamtaka í málefnum fatlaðs fólks sem bárust með bréfi dags. 11.september 2013.

Aðalbjörg Traustadóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, gerði grein fyrir málinu.

Ellý A. Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra tók sæti á fundinum kl.14.05.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Hagsmunasamtök fatlaðs fólks sendu velferðarráði bréf og funduðu með okkur í framhaldinu á haustmánuðum 2013. Erindið var að gagnrýna ýmislegt í viðmóti og þjónustu Velferðarsviðs við fatlaða íbúa borgarinnar og regluverk sem velferðarráð hefur sett. Í framhaldinu var skipaður starfshópur sem var falið að móta aðgerðaáætlun um hvernig bregðast skyldi við ábendingum hagsmunasamtakanna. Nú liggja fyrir tillögur starfshópsins sem m.a. taka á því að að vinna sérstaklega með þekkingu og viðhorf starfsmanna, að stofna fagteymi til að miðla þekkingu og upplýsingum, að ráðgjafahópur verði settur um þjónustuna og að boðleiðir verði einfaldaðar. Þá leggur starfshópurinn til að stuðningsþjónustureglur og mælitæki verði endurskoðuð og að aukinn sveigjanleiki verði innleiddur í þjónustunni. Velferðarráð þakkar fyrir vinnu starfshópsins og samráð við hagsmunasamtök. Uppbyggileg gagnrýni er til góðs og það sýnir sig að hægt er að koma til móts við vilja notendanna og hagsmunasamtaka. Mikilvægt er að tryggja aðkomu notenda sem og hagsmunasamtaka að málum meðan þau eru ennþá á hugmyndastigi, þannig að hugmyndir að þróun þjónustu komi frá notendum sjálfum. Þannig verði til raunverulegt notendasamráð þar sem slagorðið “ekkert um okkur án okkar” er haft að leiðarljósi. Skortur á fjármagni á ekki að skilgreina þjónustuþörf fatlaðs fólks. Fyrst þarf að meta þjónustuþörfina með hlutlægum hætti, síðan er það hlutverk okkar kjörinna fulltrúa að forgagnsraða fjármunum og verkefnum í samræmi við það. Velferðarráð tekur undir tillögur starfshópsins og vísar þeim inn í vinnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar og til framkvæmda strax þegar við á. Hagmunasamtökunum verður nú send þessi aðgerðaáætlun og óskað eftir aðkomu þeirra að áframhaldandi vinnu og samráðshópum. Velferðarráð vill aftur funda með hagsmunasamtökunum eftir um ár, til að vita hvort breytingar hafi orðið.

Aðalbjörg Traustadóttir vék af fundi kl. 14.45.

4. Lögð fram tillaga starfshóps að stefnu í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, sbr. erindisbréf hópsins, dags. 4. mars 2013.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Málinu er frestað til næsta fundar.

5. Lögð fram tillaga að viðbótarstyrk vegna þjónustusamnings við Hugarafl vegna ársins 2014.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

6. Hvatningarverðlaun velferðarráðs.

Samþykkt var að Björk Vilhelmsdóttir og Áslaug María Friðriksdóttir verði fulltrúar 

 velferðarráðs við val á handhafa hvatningarverðlauna velferðarráðs fyrir árið 2014

7. Lögð fram til kynningar samantekt embættis Landlæknis á gæðavísum á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum fyrir árin 2010 – 2013.

Skrifstofustjóri skrifstofu þjónustu heim gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð lýsir yfir mikilli ánægju með það ötullega umbótarstarf sem unnið hefur verið af starfsfólki og stjórnendum Droplaugarstaða og birtist í niðurstöðum fyrir gæðavísa árið 2013. Allir gæðavísar sem Embætti Landlæknis safnar og lýsa gæðum þjónustu á sviði hjúkrunar, endurhæfingar og félagslegrar virkni eru undir viðmiðunarmörkum sem þýðir að starfið er framúrskarandi. Þetta er frábær árangur sem velferðarráð þakkar fyrir.

8. Lögð fram til kynningar ársskýrsla Dagseturs Hjálpræðishersins fyrir árið 2013.

9. Áhrif verkfalls framhaldsskólakennara á daglegt líf fatlaðra nemenda í Reykjavík.

Velferðarráð samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:

Alvarlegt ástand hefur skapast á heimilum fatlaðra framhaldsskólanema vegna verkfalls framhaldsskólakennara. Starfsfólk, annað en kennarar í skólunum, getur ekki sinnt þessum nemendum þrátt fyrir að vera á launum og í raun ekki í verkfalli. Er það vegna þess að þeir starfa undir verkstjórn framhaldskennara. Velferðarráð Reykjavíkurborgar hvetur verkfallsstjórn Kennarasambands Íslands til að veita undanþágur, berist beiðni frá nemendum og eða forráðamönnum þeirra, þannig að þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar geti unnið undir verkstjórn skólastjórnenda. Þannig raskast sem minnst daglegt líf fatlaðra framhaldsskólanema. Þó þarf að tryggja að ekki verði gengið í störf framhaldsskólakennara. Ef ekki verður orðið við undanþágum þarf Reykjavíkurborg að skoða möguleika á að opna fyrir lengda viðveru, skammtímavistun eða aðra stuðningsþjónustu á skólatíma. 

Fundi slitið kl.15.50

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Sveinn H Skúlason (sign)

Sverrir Bollason (sign) Elín Oddný Sigurðardóttir (sign)

Áslaug María Friðriksdóttir