Velferðarráð - Fundur nr. 233

Velferðarráð

Ár 2014, fimmtudaginn 13. febrúar var haldinn 233. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 11.15 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Sverrir Bollason, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Berglind Magnúsdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Jóna Rut Guðmundsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist :

1. Kynntar gjafir minningarsjóðs Lofts Gunnarssonar.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.Gestir fundarins undir þessum lið voru eftirtaldir :

Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Þórunn Brandsdóttir og Ellen Ágústa Björnsdóttir.

Velferðarráð afhenti þeim viðurkenningarskjal með þökkum fyrir eftirtektarvert  framtak, gjafir og alúð í garð heimilislausra.

2. Lögð fram til kynningar tillaga að áfangaskiptri áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk, samkvæmt tillögu staðgengils borgarstjóra sem lögð var fram á fundi borgarráðs þann 28. febrúar 2013.

Jóna Rut Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, kynnti áætlunina.Samþykkt var að óska eftir umsögnum Þroskahjálpar, Umsjónarfélags einhverfra og Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar um tillöguna.

Málið verði lagt aftur fyrir borgarráð og velferðarráð þegar umsagnir liggja fyrir.

Jóna Rut Guðmundsdóttir vék af fundi kl. 12.45.

3. Lögð fram að nýju stefna í málefnum utangarðsfólks 2014-2018, sbr. Samþykkt velferðarráðs frá 19. desember 2013. Enn fremur lögð fram umsögn Raddarinnar- baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks. 

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Heiða Kristín Helgadóttir, formaður starfshóps um stefnu í málefnum utangarðsmanna, kynnti stefnuna.

Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs þann 19. desember 2013:

Tillaga velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi stefnu í málefnum utangarðsfólks sem lögð er fyrir velferðarráð þann 19. desember 2013:

Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að eftirfarandi rati í stefnu um málefni utangarðsfólks. 

a) Að tryggt verði að alltaf verði næg gistirými í neyðarskýlum borgarinnar.

b) Að til staðar verði nægt rými í þeim úrræðum sem borgin rekur fyrir utangarðsfólk og biðlistar verði ekki lengri en þrír mánuðir

c) Komið verði upp neyðarskýli fyrir utangarðsfólk sem hættir neyslu þannig að það þurfi ekki að vera innan um virka alkóhólista. Þessi aðstaða verði til staðar þar til önnur úrræði bjóðast.

d) Sett verði á fót úrræði fyrir tvígreindar konur og konur sem metnar eru með slík einkenni þó svo að þær hafi ekki verið greindar. 

e) Sett verði á fót úrræði fyrir framheilaskaðað utangarðsfólk. 

f) Sett verði á fót úrræði fyrir utangarðsfólk úr röðum eldri borgara.

g) Komið verði á fót samsvarandi gistiskýli fyrir konur og það sem stendur til að opna fyrir karla í vor.

h) Að fagfólk verði á öllum vöktum þar sem borgin rekur úrræði fyrir utangarðsfólk.

i) Að öll úrræði fyrir utangarðsfólk verði aðgengileg og þar á meðal gert auðvelt að baða fólk í hjólastól. 

j) Að sett verði í gang skipuleg forvarnarvinna, mönnuð tveimur stöðugildum af hálfu borgarinnar, í samvinnu við áfengis- og geðbatteríið og markhópurinn verði þeir sem eru sjúkraskrifaðir á fjárhagsaðstoð en samkvæmt rannsóknum telur þessi hópur sig upp til hópa vera með áfengisvandamál.

k) Að þjónusta borgarinnar verði tekin út af þriðja aðila í samræmis við skilgreiningu Reykjavíkurborgar á mannréttindum utangarðsfólk 

l) Að stefnunni verði vísað til umsagnar þeirra hagsmunaaðila sem heimsóttu hópinn.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti velferðarráðs telur að margt af því sem fulltrúi Vinstri Grænna óskar eftir að rati inn í stefnu um utangarðsfólk sé nú þegar tilgreint í stefnunni, svo sem úrræði fyrir framheilaskaðaða, betri þjónusta fyrir eldri borgara sem eru utangarðs og úrræði fyrir tvígreindar konur. Það væri að sjálfsögðu gott að hægt væri að koma til móts við allar þær kröfur sem fram koma í tillögu fulltrúa Vinstri grænna. Fjárhagsstaða borgarinnar leyfir það hins vegar ekki. 

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: 

Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það að ekki skulið tekið tillit til neinna af tillögum hans varðandi úrræði fyrir utangarðsfólk. Engar beinar tillögur eru í stefnunni varðandi úrræði fyrir framheilaskaðaða, ný úrræði fyrir eldri borgara sem eru utangarðs né úrræði fyrir tvígreindar konur. Að öðru leyti er vísað til bókunar Vinstri grænna frá 19. desember sl.

Stefna í málefnum utangarðsfólks 2014-2018 var borin upp til atkvæða og 

samþykkt með sex samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við 

atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Þessi stefna um málefni utangarðsfólks er unnin í samvinnu við fjölmarga einstaklinga, samtök og stofnanir sem vinna í málaflokknum. Reykjavíkurborg hefur lagt metnað í að sinna hlutverki sínu sem höfuðborg með alls konar íbúum og er fólk sem lendir utangarðs af ólíkum ástæðum þar engin undantekning. Þarfir fólks sem eru utangarðs breytast sífellt með þeim einstaklingum sem eru utangarðs hverju sinni og með breytingum í samfélaginu. Stefnan þarf því að vera sveigjanleg þannig að Reykjavíkurborg geti á hverjum tíma gert sitt besta til að mæta þörfum fólksins. Undanfarin ár hefur orðið fjölgun í þessum hóp. Það gefur tilefni til þess að skoða af alvöru hvert við erum komin sem samfélag í þeirri þjónustu sem við veitum og eins hvað það er sem veldur þessari fjölgun.

Í stefnunni sem er nú samþykkt er lagt til að forvarnir verði stórlega efldar til að koma í veg fyrir að fólk lendi á götunni. Áhersla er á fjölgun íbúða fyrir þennan hóp og að borgin nái betur utan um þau úrræði og þjónustu sem hún er að veita. Einnig er lögð þung áhersla á að Reykjavíkurborg og ríkisvaldið, sérstaklega heilbrigðiskerfið, vinni meira saman að þessum málaflokki þannig að utangarðsfólk og þeir sem eiga á hættu að verða utangarðs fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og þar með aukin lífsgæði. Velferðarráðherra tók undir þessi sjónarmið nýverið í viðtali við Fréttablaðið og því fögnum við og hlökkum til að takast á við öflugara samstarf. Það er okkur ljóst að margt er enn óunnið til að koma í veg fyrir að fólk lendi utangarðs í samfélaginu og til að mæta þeim sem eru utangarðs. Velferðarráð fagnar stofnun Raddarinnar – baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólk. Við lítum ekki svo á það sé einungis á valdi Reykjavíkurborgar að gera betur í þessum málaflokki, heldur sé það sameiginlegt átak margra aðila sem veita hvor öðrum aðhald og ýta á framfarir. Litið verður til umsagnar Raddarinnar – baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks þegar unnin verður tímasett aðgerðaáætlun til að framkvæma þá stefnu sem hér er samþykkt.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti velferðarráðs hefur hafnað athugasemdum og tillögum stjórnar Raddarinnar baráttusamtaka fyrir réttindum utangarðsfólks varðandi stefnu í málefnum utangarðsfólks 2014 – 2018, sniðgengið ítarlega umsögn hennar og svarar ekki fjölda spurninga stjórnarinnar. 

Umsögnin með ábendingum, tillögum og spurningum er nú opinbert gagn og fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hvetur almenning og fjölmiðla til að kynna sér hana. Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna eru þær athugasemdir og tillögur sem fram koma í umsögninni, ekki aðeins til þess fallnar að auka lífsgæði og batalíkur utangarðsfólks heldur myndu þær leiða til sparnaðar fyrir borgina þegar til lengri tíma er litið. Bókun meirihlutans um að tekið verði tillit til tillagna og athugasemda á síðari stigum málsins er undarleg og í raun ómarktæk þegar það er haft í huga að engin þeirra rataði inn í stefnuna eða þær „aðgerðir“ sem þar eru settar fram. 

4. Lögð fram svör við fyrirspurn Vinstri grænna sem lögð var fram á fundi velferðarráðs þann  

 19. desember 2013.

 Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Þær fundargerðir sem loks hafa verið sendar út eru greinilega til málamynda og hafa ekki fengið samþykki nefndarfólks. Ýmislegt var tækt á opinni síðu hópsins, þar á meðal fyrstu fundargerðir. Í ljósi aðstæðna og þess að ekkert er ákveðið varðandi úrræði fyrir utangarðsfólk næstu ár væri æskilegt að stefnan gilti í sem stystan tíma og engin ástæða er til að framlengja hana um eitt ár. 

5. Nýtt skipurit Velferðarsviðs. 

Sviðsstjóri gerði grein fyrir ráðningum í nýjar stöður á Velferðarsviði.

 Fundi slitið kl. 13.50

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Diljá Ámundadóttir

Sverrir Bollason (sign) Sveinn H. Skúlason (sign)

Þorleifur Gunnlaugsson (sign)