Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2013, fimmtudaginn 21. nóvember var haldinn 228. fundur s og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Sverrir Bollason, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sendiherrar kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eftirtaldir aðilar tóku sæti á fundinum undir þessum lið og kynntu samninginn: Sendiherrarnir Skúli Steinn Pétursson, Ína Valsdóttir og Gísli Björnsson ásamt talskonu Gísla, Auði Finnbogadóttur og Ásdísi Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra hjá Fjölmennt,
2. Lögð fram tillaga til að fjölga tímabundið neyðargistirýmum sbr. samþykkt velferðarráðs frá 5. september s.l. Sviðsstjóri Velferðarsviðs og skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerðu grein fyrir málinu.
Heiða Kristín Helgadóttir tók sæti á fundinum kl. 13.40.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: Því er fagnað að loksins skuli fjölgað gistirýmum fyrir heimilislausa í Reykjavík en það vekur furðu að ekki skuli tryggt að allri fái inni þar sem rúmin verða aðeins fimm en þörfin hefur oft á tíðum verið meiri í ár. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hefur allt frá því snemma í vor barist fyrir fleiri rúmum fyrir utangarðsfólk en því var hafnað í ráðinu. Það var ekki fyrr en þegar fulltrúi Vinstri grænna lagði til í borgarráði 11. júlí s.l. að brugðist yrði við neyðinni og vitnaði í því sambandi í yfirlýsingu mannréttindaráðs að hreyfing komst á málið. Borgarráð óskaði eftir umsögn velferðarráðs um tillöguna og tæpum tveimur mánuðum síðar eða 5. september s.l. lagði Velferðarsvið fram, á fundi velferðarráðs, umsögn þar sem fram kom eftirfarandi: „Þar sem undirbúningur að flutningi Gistiskýlisins í varanlegt húsnæði sem hentar er í fullum gangi er óráðlegt að hefja leit að bráðabirgðahúsnæði að svo komnu máli“. Umsögnina gerði meirihlutinn að sinni að því viðbættu að skoða skyldi „til hlítar hvort hægt væri að fjölga plássum í eða við núverandi húsnæði Gistiskýlisins“. Ekkert pláss er við gistiskýlið til nýbygginga en reynt var að fá leyfi til fjölgunar rúma í húsinu sem brunayfirvöld bönnuðu sem betur fer. Þvert á fyrri yfirlýsingar en vegna vaxandi þrýstings fór sviðið að leita að öðrum kostum og sú leit hefur gengið ótrúlega hægt. Nú, fjórum mánuðum eftir að tillagan var send frá borgarráði til velferðarráðs til umsagnar og rúmum tveimur mánuðum eftir að velferðarráð gaf umsögnina og sviðið fór að leita að öðrum kostum, kemur lausn sem þó er þannig að óvíst er að allir sem á þurfa að halda, njóti. Þar sem um líf og limi er að ræða og kominn er harður vetur eru þessi vinnubrögð vítaverð að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Velferðarsvið hefur verið að vinna að því að ná utan um og greina þá fjölgun sem hefur orðið í hópi utangarðsmanna sem nýta sér þjónustu Gistiskýlisins frá því fyrr á þessu ári. Lausn í málinu liggur nú fyrir og miðar hún að því að koma í veg fyrir að vísa gestum frá og taka til notkunar viðbótarrými. Það er mikið fagnaðarefni. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar brýnir þó fyrir Velferðarsviði að halda áfram að fylgjast vel með þessari fjölgun og bregðast ef til þarf með þarfir notenda þjónustunnar að leiðarljósi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: Fleirum en fimm hefur ítrekað verið vísað frá vegna plássleysis í neyðarskýli borgarinnar á þessu ári og í því sambandi er vakin athygli á fréttum frá lögreglu, þess efnis allt að sjö heimilislausir hafa gist fangageymslur lögreglunnar að undanförnu. Utangarðsmenn sjálfir hafa sagt velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna að eftir að kólna tók í veðri, veigri þeir heilsuveilli sér við því að bíða upp von og óvon, í röð fyrir utan Gistiskýlið, jafnvel tímunum saman til að eiga von á því að komast undir þak og í hlýju. Þannig má búast við því að vegna þess ófremdarástands sem ríkt hefur, hafi einhverjir leitað annarra úrræða, þó svo að þau séu í raun ekki mönnum bjóðandi. Það að einhver niðursveifla hafi orðið það sem af er þessum mánuði og þeim síðasta getur það átt sér ýmsar skýringar en samt sem áður hefur allt að fimm manns verið vísað frá á þessum tímabili. Það er því ljóst að aukning um fimm rúm tryggir ekki það að allir sem eftir leita fái inni í neyðarskýlum borgarinnar.
3. Kynnt drög að starfsáætlun Velferðarsviðs 2014. Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu og skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra kynnti starfsáætlunina.
4. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis um barnavernd. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
5. Lagðar fram lykiltölur janúar – september 2013. Sviðsstjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Velferðarráð óskar eftir upplýsingum um hversu margir íbúar búa í þjónustuíbúðum Velferðarsviðs sem hafa verið metnir í þörf á hjúkrunarrými af Færni- og heilsufarsnefnd höfuðborgarsvæðisins.
6. Kynnt níu mánaða uppgjör Velferðarsviðs. Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
7. Lagt fram bréf frá Karitas, hjúkrunar- og ráðgjafarþjónustu, dags. 28. október s.l. varðandi húsnæðið að Funahöfða 17a. Velferðarráð samþykkti að vísa málinu til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir upplýsingum frá þessum aðilum um hvort ástand húsnæðisins sé óviðunandi.
8. Lagt fram bréf Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu dags. 1. nóvember s.l. um breytingu á þjónustu frá Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun: Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (ÞHS) hefur tilkynnt Velferðarsviði að stöðin sé hætt að taka við tilvísunum í frumgreiningu vegna barna sem þegar eru í leikskóla. Í bréfi ÞHS er ástæðan sögð allt að árs bið eftir greiningu og vill því ÞHS hætta að taka við tilvísunum í frumgreiningu vegna barna sem þegar eru í leikskóla, „enda hafi þau aðgang að sambærilegri þjónustu innan sérfræðiþjónustukerfis leikskólanna“ eins og segir í bréfi ÞHS. Velferðarráð tekur undir mikilvægi þess að bregðast þurfi við löngum biðtíma eftir greiningum barna, enda er snemmtæk íhlutun einn grundvöllur þess að vel takist til í þjónustu við börn. Velferðarráð tekur jafnframt undir mikilvægi þess að draga úr skörun á milli þjónustukerfa. Það er hins vegar ótækt að stofnanir ríkisins bregðist við vanda sínum með því að loka á hann eða færa hann yfir á sveitarfélögin eins og gert er í þessu tilfelli. Hér er kostnaði og þjónustuskyldum ríkisins ýtt yfir á Reykjavíkurborg og væntanlega önnur sveitarfélög og er þetta því miður ekki eina dæmið um það hvernig ríkisstofnanir hafa brugðist við niðurskurðarkröfum undanfarinna ára. Er þetta gert án þess að reynt sé að semja um greiðslur eða tekjustofna til að mæta auknum skyldum. Við gætum að sama skapi sagt að biðlistar eftir sérfræðiþjónustu hafi lengst hjá okkur, þess vegna hættum við þjónustunni og vísum henni yfir á ríkið. Okkur hefur ekki enn dottið það í hug. Sérfræðiþjónusta skóla hjá Reykjavíkurborg á nú þegar fullt í fangi með að sinna sínum eigin þjónustuskyldum sem ríkið jók á í lok 2010 með setningu nýrrar reglugerðar. Óskar velferðarráð eftir því við Velferðarsvið að metinn verði kostnaður af þessari ráðstöfun ÞHS á þjónustu borgarinnar svo hægt verði að krefja ríkið um viðeigandi endurgjald. Einnig að málinu verði vísað til félagsþjónustunefndar og stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem málið varðar fleiri sveitarfélög.
9. Skipan starfshóps velferðarráðs um styrki og þjónustusamninga, sbr. reglur velferðarráðs um styrkúthlutanir. Samþykkt var að skipa Diljá Ámundadóttur og Svein H. Skúlason í starfshópinn:
10. Betri Reykjavík; Banna bíla sem eru skreyttir með áfengisauglýsingum. Lögð fram efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík 30. september s.l.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun: Ríkið fylgir eftir að lögum um bann við áfengisauglýsingum sé framfylgt og því er það ekki á valdi borgarinnar að beita viðurlögum við slíku. Áhrif auglýsinga sem hvetja ungt fólk til áfengisneyslu eru ekki í samræmi við áherslur borgarinnar þar sem áhersla er lögð á að vinna gegn hvers kyns vímuefnaneyslu ungs fólks og hvetja frekar til hollra lífshátta sem forvörn gegn hvers kyns áhættuhegðun.
Eftirtaldir starfsmenn viku af fundi kl. 15.30: Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Aðalbjörg Traustadóttir.
11. Kynnt að nýju tillaga Velferðarsviðs að nýju skipuriti. Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Hrönn Pétursdóttir, ráðgjafi, tók sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun: Nýtt skipurit Velferðarsviðs staðfestir aukna miðstýringu á kostnað þeirrar dreifstýringar sem meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar höfðu lofað. Verið er að fjölga skrifstofu- og deildarstjórum í höfuðstöðvum sviðsins að Borgartúni sem hefur í för með sér árlegan kostnaðarauka upp á 62 milljónir en breytingin sjálf kostar yfir 10 milljónir. Þetta gengur í berhögg við samstarfsyfirlýsingu meirihlutans en þar segir meðal annars: „Í samráði við íbúa og starfsfólk verði útfærðar tillögur um hvernig best sé að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðunar í rekstri innan hverfis“. Og „Þjónustumiðstöðvar í hverfum verði efldar svo öll nærþjónusta sé á einum stað og að hún sé vel kynnt íbúum“. Það vekur athygli að ekki er áætlað að auglýsa allar nýjar stöður sem er andstætt þeim yfirlýsta vilja meirihlutans að „öll störf hjá Reykjavíkurborg, önnur en pólitískra aðstoðarmanna, verði auglýst“. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það að Besti flokkurinn og Samfylkingin skuli vera að auka miðstýringu á kostnað dreifstýringar í borginni. Þær 62 milljónir sem verið er að setja í miðlæga stjórnun Velferðarsviðs hefðu komið sér vel þar sem þjónustan er veitt, hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar.
Fundi slitið kl. 16.33
Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Heiða Kristín Helgadóttir (sign) Diljá Ámundadóttir (sign)
Sverrir Bollason (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Sveinn H. Skúlason (sign) Þorleifur Gunnlaugsson (sign)