Velferðarráð - Fundur nr. 225

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 24. október var haldinn 225. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.46 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Lóa Birna Birgisdóttir, Jóna Rut Guðmundsdóttir, Sigtryggur Jónsson, Aðalbjörg Traustadóttir, Sólveig Reynisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Berglind Magnúsdóttir, Halldóra Dröfn Gunnardóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Hafdís Ýr Birkisdóttir, 10 ára, mætti á fundinn kl. 12.50 og afhenti velferðarráði uppskriftabók sem hún gefur út til stuðnings utangarðsfólks. Hún vék af fundi kl. 12.56.

1. Málefni fatlaðs fólks;
• lagt fram að nýju bréf fulltrúa hagsmunasamtaka fatlaðs fólks í rýnihópi Velferðarsviðs vegna reglna um stuðningsþjónustu og þjónustumatstæki dags. 11. september s.l. og bréf sömu aðila dags. 11. september um þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík og skipulag hennar.
• lögð fram samantekt Velferðarsviðs vegna bréfa hagsmunasamtaka um þjónustu við fatlað fólk frá 11. september 2013.
• lagt fram minnisblað dags. 6. júní 2013, tillögur um samráð við notendur, hagsmunasamtök og aðra hlutaðeigandi aðila í málefnum fatlaðs fólks.

Sverrir Bollason tók sæti á fundinum kl. 13.00.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir fulltrúi Geðhjálpar, Gerður A. Árnadóttir fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar, Guðríður Ólafsdóttir fulltrúi Öryrkjabandalands Íslands, Hrefna Haraldsdóttir fulltrúi Sjónarhóls ráðgjafarmiðstöðvar, Hrefna Sigurðardóttir fulltrúi Áss styrktarfélags, Ingibjörg Broddadóttir formaður réttindavaktar Velferðarráðuneytisins, Ingi B. Poulsen umboðsmaður borgarbúa, Magnús Þorgrímsson réttindagæslumaður fatlaðs fólks í Reykjavík, Kristjana Sigmundsdóttir réttindagæslumaður fatlaðs fólks í Reykjavík og Halldór Gunnarsson starfsmaður réttindavaktar Velferðarráðuneytisins tóku sæti á fundinum undir þessum lið. Gestir viku af fundi að umræðum loknum.

Heiða Kristín Helgadóttir vék af fundinum kl. 14.32.
Áslaug Friðriksdóttir vék af fundinum kl. 14.56.

Fulltrúi sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun:
Hagsmunasamtök fatlaðra hafa sent Reykjavíkurborg bréf þar sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar við verklag og viðhorf sem felast í reglum um stuðningsþjónustu. Fram kemur í gagnrýni að viðhorfið samrýmist ekki nútíma hugmyndafræði í málaflokknum en lögð skuli áhersla á sjálfstætt líf og sjálfsákvörðunarrétt fólks. Enn sé leitað í hópalausnir, stofnanahugsun sé ríkjandi, miðstýring óþarflega of mikil og að jafnræði komi í veg fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu.
Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar í næstu framtíð er að koma til móts við ofangreint. Mikil skortur á þjónustu einkennir málefni fatlaðra, aldraðra og annarra sem þurfa aðstoð þrátt fyrir að um lögbundna þjónustu sé að ræða. Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir þjónustu sem er þess eðlis að notandinn getur ákveðið hvar, hvernig og hvenær hún skuli veitt í stað þess að hann sætti sig við það skipulag sem ákveðið hefur verið innan stjórnsýslunnar. Mikilvægt er að forgangsraða fjármunum til að vinna að þessu verkefni. Því miður hefur meirihlutinn í Reykjavík verið áhugalaus um að taka rekstur og útfærslu þjónustunnar í Reykjavík til skoðunar. Engu að síður eru mörg teikn um að slíkt sé algjörlega nauðsynlegt til þess að hægt verði veita lögbundna þjónustu í næstu framtíð.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi VG tekur undir það grundvallarsjónarmið að Reykjavíkurborg eigi að bjóða fötluðu fólki þjónustu á heimilum sínum en skylda ekki hluta fatlaðra til búsetu í þjónustukjörnum. Slíkt er andstætt grundvallar mannréttindum og samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Gagnrýni fulltrúa hagsmunasamtakanna er alvarleg og brýnt er að taka tillit til hennar. Í raun snýr gagnrýnin ekki fyrst og fremst að skorti á fjármagni heldur skorti á viðhorfi og þekkingu. Að, að hálfu borgarinnar, skorti þekkingu á eðli fötlunar sem endurspeglist í viðhorfi til fatlað fólks og þjónustuþarfa þeirra. Velferðarráðsfulltrúi VG er hinsvegar á þeirri skoðun að mannréttindi verði að vera í fyrsta sæti þegar takmörkuðum fjármunum er forgangsraðað.
Gagnrýni hagsmunastamtakanna á stjórnsýslu borgarinnar er ekki síður alvarleg. Hagsmunasamtökin segja að Velferðarsvið vinni ekki eftir nýrri reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínum, þjónusta við fatlaða sé of miðstýrð og boðleiðir langar með litlum sveigjanleika.
Ennfremur er því haldið fram að hagsmunasamtökin fái verkefni til umsagnar á síðari stigum og lítið sé gert með athugasemdir sem lagðar eru fram og til staðar sé gamaldags stofnanahugsun og forræðishyggja borgaryfirvalda. Þessi gagnrýni snýr fyrst og fremst að velferðarráði og yfirstjórn velferðarsviðs og borgarinnar.
Þessar athugasemdir verða borgaryfirvöld að taka alvarlega, hún er til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns borgarbúa og vel er hugsanlegt að fram fari óháð úttekt á Velferðarsviði með tilliti til umræddrar gagnrýni hagsmunasamtaka fatlaðra.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðra íbúa er skýr og um hana er þverpólitísk samstaða. Leiðarljós stefnunnar byggir á Samningi Sameinuðu þjóðanna og hugmyndafræði um sjálfstætt líf.
Það er gott að fá gagnrýni hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, sem hægt er að nýta til umbóta í þjónustunni. Velferðarsvið mun í framhaldi af erindi hagsmunasamtakanna og þessum fundi koma með áætlun um úrbætur. Í raun er þróun þjónustunnar stöðugt umbótaferli. Samkvæmt því sem fram kemur þarf að breyta viðhorfum, auka þekkingu starfsfólks á aðstæðum þeirra sem þurfa lífstíðaraðstoð og samhliða því að endurskoða reglur um stuðningsþjónustu sem er ástæða erindisins. Áframhaldandi samráð milli borgar og hagsmunasamtaka er afar mikilvægt þannig að saman verði unnið að því að ná þeim markmiðum sem við erum sammála um að ná.
Verið er að vinna að endurskoðun á skipuriti Velferðarsviðs og í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir mikilli styrkingu á miðlæga stjórnsýslu sviðsins m.a. til að takast betur á við þróun þjónustu við fatlað fólk og fjármögnun þjónustunnar.
Við endurskoðun og mat á yfirfærslunni nú í vetur verða bæði hagsmunaðilar og sveitarfélög að tala fyrir því að aukið fjármagn komi inn í þjónustu við fatlaða íbúa þannig að hægt verði að mæta vilja þeirra og einstaklingsbundnum þörfum um sjálfstætt líf, þar sem þeir kjósa.

Fundi slitið kl. 16.20.

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Sverrir Bollason (sign) Diljá Ámundadóttir (sign)
Sveinn H. Skúlason (sign) Þorleifur Gunnlaugsson (sign)