Velferðarráð - Fundur nr. 217

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 27. júní var haldinn 217. fundur s og hófst hann kl. 11.00 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Sverrir Bollason, Karl Sigurðsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Ingibjörg Óðinsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Birna Sigurðardóttir Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt bókhaldsstaða janúar – apríl 2013.

2. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi velferðarráðs þann 20. júní s.l.
Af svörum Velferðarsviðs má ráða að óskað verður eftir uppsögn á leigusamningi tveggja leigutaka sem ekki eru yfir tekjumörkum sem velferðarráðherra ákvað í janúar. Því er lagt til að hætt verði við umræddar uppsagnir.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarsvið vinnur í samræmi við þær reglur sem velferðarráð setur, þar á meðal um tekju- og eignamörk í félagslegu leiguhúsnæði. Velferðarráð getur ekki ákveðið að láta önnur mörk gilda fyrir suma. Mörkin eru allvíð, en samkvæmt upplýsingum fjármálaskrifstofu eru 68#PR Reykvíkinga undir þeim. Rétt er að minna á að við nýlegt tekjueftirlit voru 139 leigutakar yfir tekju- og eignamörkum. Þegar búið er að taka alla frá sem eru 15#PR yfir mörkum eða minna, búa við lækkandi tekjur, erfiða skuldastöðu, mikla félagslega erfiðleika, erfið veikindi og/eða stækkandi fjölskyldu voru 25 aðilar eftir og verður þeim sagt upp húsnæðinu. Þeir leigutakar sem fá uppsögn verður leiðbeint um möguleika á að áfrýja uppsögn til áfrýjunarnefndar velferðarráðs þar sem möguleiki er á að taka tillit til sérstakra aðstæðna.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það að meirihluti velferðarráðs skuli vera svo ósveigjanlegur að vilja segja upp leigusamningi tveggja leigutaka sem eru yfir tekjumörkum sem Reykjavíkurborg hefur sett sér en undir þeim tekjumörkum sem velferðarráðherra ákvað í janúar og öll önnur sveitarfélög fylgja.

3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi velferðarráðs þann 20. júní s.l.
Samkvæmt svörum Velferðarsviðs hefur Konukot verið yfirfullt í fjörutíu og þrjú skipti á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þannig hefur úrræði sem hýsa á átta konur, hýst allt að sextán á þessum tíma. Því er lagt til að fundið verði hentugra húsnæði.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram hefur komið hefur verið fjölgun á gistinóttum í Konukoti það sem af er árinu 2013. Í Konukoti eru 8 rúm fyrir utangarðskonur en konum er þó ekki vísað frá þó öll rúm séu upptekin heldur eru settar upp dýnur þegar þörf er á. Eina nótt í sögu Konukots hafa sextán konur gist þar. Að meðaltali gistu 8,5 konur í Konukot í mars 2013 og er það í eina skiptið á árunum 2012 og 2013 sem meðaltalið fer yfir 8 konur á mánuði. Ekki verður séð að ástæða sé til að fjölga rýmum í Konukoti að svo komnu máli en mikilvægt er að fylgjast vel með þróuninni. Starfshópur um málefni utangarðsfólk er með það verkefni að skoða þjónustu við utangarðskonur og er framtíð Konukots hluti af því.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er ljóst að mikil aukning hefur orðið á fjölda þeirra kvenna sem sækir Konukot, úrræðis sem á að hýsa allt að 8 konur. Á fyrstu fimm mánuðum síðasta árs var heimsóknir fleiri en átta kvenna í þrjú skipti en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs eru þær 43. Það er því augljóst að við þessu þar að bregðast.

4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs þann 20. júní s.l.
Velferðarráð samþykkir að teknar verði saman ítarlegri tölur um málefni fatlaðra í samantekt lykiltalna sem lagðar eru fyrir ráðið reglulega. Fram komi fjöldi fatlaðra í þjónustu hjá sviðinu, fjöldi á sambýlum með næturvakt, sambýlum með minni þjónustu og öðrum sérstökum heimilum, fjöldi með þjónustu skv. reglugerð um þjónustu á heimilum fatlaðs fólk, fjöldi á biðlistum eftir húsnæði og hvers kyns húsnæði og biðlistum eftir þjónustu inn á heimili.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

5. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Velferðarsviðs um rekstraraðila stuðningsheimilis fyrir karlmenn sem hætt hafa neyslu áfengis og vímuefna.
Lagt er til að samið verði við Samhjálp um rekstur stuðningsheimilis til 3ja ára.
Greinargerð fylgir.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu ásamt greinargerð:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að Velferðarsvið taki yfir rekstur stuðningsbýlis/áfangaheimilis að Miklubraut 18.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.

Aðaltillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Í þeim tveimur úttektum sem gerðar hafa verið á rekstri Samhjálpar vegna Miklubrautar 18, er starfsfólk Velferðarsviðs gagnrýnið og almennt á þeirri skoðun að borgin sjálf eigi að reka úrræðið en ekki þriðji aðili. Jafnframt kemur fram í svörum Velferðarsviðs að kostnaður, ef sviðið ræki úrræðið, yrði svipaður og sú samningsfjárhæð sem samþykkt hefur verið til Samhjálpar. Það er því með ólíkindum að meirihluti velferðarráðs skuli nú ætla að semja við Samhjálp um rekstur Miklubrautar 18 og það til þriggja ára. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur á yfirstandandi fundi lagt fram lista með spurningum sem varða málið og mun bóka frekar þegar svör hafa borist.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarsvið leggur til að samið verði við Samhjálp um rekstur Miklubrautar 18 til næstu 3ja ára. Af fjórum aðilum er metið að reynsla Samhjálpar og Sinnum ehf. sé meiri en hinna tveggja. Hvað valinu á milli Samhjálpar og Sinnum varðar er fjallað er um að ólík nálgun fyrirtækjanna ráði afstöðu sviðsins. Af svörum starfsmanna kemur fram að skýringin liggur í ólíku skipulagi vakta eða viðveru starfsmanna og hversu sveigjanlega fyrirtækin munu mæta þeim einstaklingum sem eiga erfitt með að standa í skilum. Að þessu sögðu taka fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undir niðurstöðu sviðsins en vilja benda á að Samhjálp hefur áralanga reynslu að annast og reka úrræði fyrir fólk með fíkniefnavanda og hefur ákveðið forskot á Sinnum ehf. hvað það varðar. Hins vegar er Sinnum ehf. nýtt og vaxandi fyrirtæki í velferðarþjónustu og myndi geta stuðlað að fjölbreytni í þjónustu við þá sem þurfa á velferðarþjónustu í borginni að halda en mikil fákeppni er á þeim markaði.

Enn fremur lagt fram svar við eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 6.júní s.l.:
Hér er verið að leggja til að samið verði við Samhjálp til þriggja ára um rekstur áfangaheimilis/stuðningsbýlis að Miklubraut 18. Af því tilefni óskar velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir skriflegum svörum við eftirfarandi spurningum.
1. Er úrræðið að einhverju leyti frábrugðið öðrum áfangahúsum fyrir alkóhólista í bata, sem starfrækt eru á höfuðborgarsvæðinu af þriðja aðila?
2. Flest áfangahús borgarinnar eru rekin af þriðja aðila og styrkt af borginni samkvæmt þar til gerðum reglum og þangað fara mun minni fjármunir vegna hvers íbúa en áætlað er í umrætt úrræði. Er ástæða fyrir borgina að gera þjónustusamning við þriðja aðila um þetta eina áfangahús?
3. Hvað myndi það kosta Velferðarsvið að reka úrræðið?
4. Í sambyggðu húsi rekur Velferðarsvið úrræði fyrir tvígreinda alkóhólista í neyslu. Ef borgin ræki áfangaheimili að Miklubraut 20, gæti þá verið um að ræða samlegðaráhrif til sparnaðar?
5. Í greinargerð með tillögu Velferðarsviðs segir „Meðfylgjandi er yfirlit yfir kostnaðarmat einstakra aðila sem áhuga höfðu á rekstri Gistiskýlisins. Er um að ræða endurskoðað kostnaðarmat sem aðilar áttu kost á að senda inn eftir fyrsta viðtal“. Þrjú af fjórum tilboðum voru nákvæmlega jafn há. Má ætla að um hafi verið að ræða óeðlilegt samráð?
6. Velferðarsvið semur um þjónustu sem nemur hundruðum milljóna kr. á ári. Eftir hvaða reglum er farið í aðdraganda samninga, hvernig er viðsemjandi valinn og hvernig er gagnsæis gætt?
7. Er ekki óeðlilegt að verið sé að semja um úrræði sem þetta, fimm mánuðum eftir að samningur við núverandi rekstaraðila rann út?
Jafnframt þessu er óskað eftir þeim úttektum sem gerðar hafa verið á úrræðinu að Miklubraut 18. Svör við þessum spurningum óskast send, að lágmarki sólarhring fyrir næsta fund ráðsins.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Fulltrúi Vinstri grænna þakkar svörin en óskar efir nánari útskýringum á eftirfarandi:
1. Í svari sviðsins segir: „Markhópur í áfangaheimilið á M-18 er sá hópur einstaklinga sem hefur ítrekað reynt að ná tökum á áfengis- og eða vímuefnavanda, á að baki margar meðferðir og eiga við mjög mikla félagslega erfiðleika að etja.“
a. Er hópurinn að þessu leyti frábrugðinn þeim markhópi sem gistir t.d. Takmarkið sem er áfangaheimili fyrir karla þar sem flestir eru endurkomumenn að koma frá Staðarfelli eða Dyngjuna sem er eina áfangaheimilið fyrir konur á landinu?
b. Væri ekki með sömu rökum, ástæða til að semja við Líknarfélagið Konuna sem rekur Dyngjuna þar sem borgin rekur ekkert áfangaheimili fyrir konur í bata?
2. Í svari sviðsins segir „Velferðarsvið hefur aðkomu að úthlutun í þrjú áfangaheimili, Brautina, Vin, og M-18. Brautin og Vin byggja á nokkurri sérhæfingu m.t.t. endurhæfingar. Þannig leggur Brautin áherslu á að íbúar þar séu í Grettistaki og Vin leggur áherslu á endurhæfingu sprautufíkla. Bæði þessara úrræði leggja t.d. áherslu á að fólk með geðrænan vanda samhliða fíknivanda eigi ekki samleið með íbúum sem eru í endurhæfingu hjá þeim.“
Má ráða af þessu að Miklabraut 18 sé ætluð fyrir tvígreinda alkahólista í bata?
3. Í svari sviðsins segir: „Ekki hefur verið farið í nákvæmt kostnaðarmat á því hvað það myndi kosta Velferðarsvið að reka M-18 en gera má ráð fyrir að sá kostnaður sé svipaður og sú samningsfjárhæð sem verið er að vinna út frá varðandi rekstur á M18.“
Er ekki að finna áætlun varðandi rekstur M18 sem byggð er á kostnaðarmati sviðsins í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2013 á sama hátt og gert var varðandi áfangaheimilið Brautina?
4.
a) Að mati sviðsins „þá er ekki talið ráðlegt að samreka Miklubraut 20 og Miklubraut 18 þó um sé að ræða sama húsið þar sem um er að ræða afar ólík úrræði“
Þó svo að ekki verði um að ræða samrekstur er enn spurt hvort ekki megi reikna með samlegðaráhrifum, svo sem í innkaupum og jafnvel matseld og eftirliti á helgum?
b) Sviðið segir að „á áfangaheimili sem sem rekið er af Velferðarsviði (Brautin) er samnýttur forstöðumaður með tveimur öðrum heimilum fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga í virkri neyslu. Samrekstur tveggja svo ólíkra úrræða hefur ekki endilega gefið góða raun og líklegt er að endurskoða þurfi samnýtingu milli þessara staða sem nú þegar eru með samnýtingu starfsfólks milli svo ólíkra úrræða.“
Óskað er efir nánari útskýringu á þessu.

5. Með útsendum gögnum vegna málsins fylgja þær tvær úttektir sem gerðar hafa verið á starfseminni að Miklubraut 18. Sú fyrri var lögð fram í velferðarráði 14 febrúar árið 2007. Þá átöldu fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna harðlega vinnubrögð Velferðarsviðs. Úttektin var gerð í júlí og ágúst 2006 og skýrsla um úttektina í september 2006 en hún var ekki lögð fram í ráðinu fyrr en í febrúar 2007 og þá var það gert vegna eftirreksturs umræddra fulltrúa sem komist höfðu að tilvist tilvist skýrslunnar. Í úttektinni komu fram alvarlegar athugasemdir, íbúar voru mjög ósáttir við mat og húsnæðisaðstæður og kvörtuðu undan lítilli viðveru starfsmanna og ónógu eftirliti með heimilinu. Jafnframt höfðu ráðgjafar heimilismanna ýmsar athugasemdir fram að færa og efuðust um að úrræðið hafi nýst notendum sínum.
Þegar úttektin var kynnt var því lofað að önnur úttekt yrði gerð fljótlega. Nú, í lok júní 2013, í kjölfar fyrirspurnar fulltrúa Vinstri grænna er fyrst lögð fram úttekt sem gerð var á Miklubraut 18 í október árið 2007. Af þessu tilefni er spurt:
a) Var seinni úttektin ekki gerð í framhaldi af þeirri fyrri og ekki síst til þess að meta hvort breytingar hafi orðið til batnaðar?
b) Sé svo, hver er þá ástæðan fyrir því að sviðið hefur leynt tilvist úttektarinnar?

Velferðarráð samþykkti samhljóða að fela Sverri Bollasyni, Áslaugu Friðriksdóttur og Þorleifi Gunnlaugssyni að koma með útfærða tillögu að því hvernig samspili innkaupareglna, innkauparáðs og velferðarráðs eigi að vera háttað.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Velferðarráð samþykkir að láta óháðan aðila gera úttekt á stuðningsheimilinu Miklubraut 18 á árinu 2014.
Samþykkt samhljóða.

7. Lögð fram að nýju tillaga um að ferðaþjónusta blindra verði undanþegin forvali vegna sameiginlegs útboðs á akstri fyrir fatlað fólk. Ennfremur lögð fram umsögn Blindrafélagsins dags. 24.júní 2013, sbr. bókun velferðarráðs frá 20.júní s.l.

Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna áréttar að samgöngur fyrir fatlaða eigi að vera hluti almenningssamgangna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og að sérstakt útboð samgana fyrir fatlaða hamla því að Strætó bs þrói til framtíðar samgöngumáta án aðgreiningar. Fólksbílar á vegum byggðarsamlagsins Strætó eða samningar þess við leigubílastöðvar eiga að vera hluti almenningssamgangna fyrir alla.

8. Lagt fram bréf Hrafnistu dags. 7. júní 2013 um beiðni um samstarf Velferðarsviðs og Hrafnistuheimilisins í Reykjavík.

Samþykkt að vísa erindinu til umsagnar Velferðarsviðs.

9. Lagt fram bréf ÖBÍ dags.14.júní s.l. um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð. Ennfremur lagt fram að nýju bréf forstöðumanns lögfræðiskrifstofu dags. 4. júní s.l. og bréf ÖBÍ dags. 22. maí sl.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir gagnrýni sem fram kemur í bréfi Öryrkjabandalagsins frá 14 júní s.l. Sérstaklega er tekið undir að það er ekki Reykjavíkurborg til sóma að fela sig á bak við lítið fjármagn. Brotið sé með því á mannréttindum fatlaðs fólks til að lifa lífi sínu til jafns við aðra í þjóðfélaginu sbr. lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

10. Úthlutun fjárhagsramma Velferðarsviðs sbr. verk- og tímaáætlun fjárhagsáætlunarferlis.
Lögð var fram til kynningar tillaga borgarstjóra að rammaúthlutun fyrir árið 2014.
Formaður gerði grein fyrir málinu.

Fundi slitið kl. 12.55

Björk Vilhelmsdóttir (sign)
Diljá Ámundadóttir (sign) Sverrir Bollason (sign)
Karl Sigurðsson (sign) Áslaug María Friðriksdóttir (sign)
Ingibjörg Óðinsdóttir (sign) Þorleifur Gunnlaugsson (sign)