Velferðarráð - Fundur nr. 212

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 2. maí var haldinn 212. fundur s og hófst hann kl. 12.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Birna Sigurðardóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram og kynnt rannsóknin „Líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg“ ásamt stuttri samantekt á rannsókninni. Enn fremur lagðar fram tillögur verkefnahóps um þróun verklags og úrræða vegna sjúklinga með fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

Sverrir Bollason tók sæti á fundinum kl. 13.32.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu.
Þar sem svarhlutfall var lágt í úttekt á líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg, leggur fulltrúi Vinstri grænna til að Velferðarsvið framkvæmi frekari úttekt.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir skýrslu um líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Þessi rannsókn sem unnin var með styrkjum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sýnir að meirihluti þátttakenda sem eru þrjá mánuði eða lengur á fjárhagsaðstoð og eru skráðir sjúklingar greinast með geðröskun, margir eru með áfengis- og/eða vímuefnamisnotkun og flestir greinast með vanda á heilsutengdum lífsgæðum. Niðurstöður þessar eru í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna afar léleg lífsgæði þeirra sem eru lengi á fjárhagsaðstoð. Því er akkur bæði fyrir þá og samfélagið að vinna markvisst að því að bæta líðan þeirra með markvissum stuðningi og ráðgjöf og draga fram hæfni og færni þeirra sem þarf að efla.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins leggja til að tillögur verkefnahóps um þróun verklags og úrræða vegna sjúklinga verði vísað í áframhaldandi vinnu hjá Velferðarsviði, sérstaklega í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og ára. Sérstaklega er óskað eftir kostnaðarmati á tillögu hópsins um að breyta fjárhagsaðstoðarreglum er varðar rétt þeirra sem fara í meðferð vegna áfengis- og vímuefnaneyslu.

Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fram kemur í úttekt að líðan þeirra sem eru með skerta starfsgetu og njóta framfærslu hjá Reykjavíkurborg er almennt slæm. Í úttektinni kemur fram að: “Niðurstaða rannsóknarinnar var að þátttakendur eru mikið andlega veikir…“ og: „Niðurstöður benda til þess að stór hluti hópsins er í sjálfsvígshættu og hefur reynt sjálfsvíg einhvern tíma um ævina …“ og: „Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að flestir þátttakendur áttu í vanda með bæði áfengi og vímuefni“. Fulltrúi Vinstri grænna telur að það sé pólitísk skylda velferðarráðs að bregðast á afgerandi hátt við úttektinni sem fyrst og óviðunandi sé að þessu sé vísað til Velferðarsviðs í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs og ára.

2. Lagt fram minnisblað um verkefni Velferðarsviðs í kynjaðri fjárhagsáætlun. Enn fremur lögð fram tillaga um að velja framfærslustyrk sem tillögu að þjónustuþætti til rýningar.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

3. Lagt fram minnisblað samráðshóps um málefni utangarðsfólks varðandi Dagsetur.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að málinu verði vísað til starfshóps um stefnu í málefnum utangarðsfólks.
Tillagan var felld með fimm atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Hægt er að taka undir það að starfshópur um utangarðsfólk fjalli um Dagsetur og framlag þess til þjónustu við utangarðsfólk um leið og stefnumörkun við þennan hóp er ákvörðuð. Hér liggur hins vegar fyrir mjög afmörkuð styrkbeiðni þar sem ljóst er að Dagsetur þarf viðbótarfjármuni til að geta sinnt þjónustu nú í sumar sem hingað til hefur staðið til boða. Til að leysa það mál fljótt og örugglega verður styrkbeiðnin afgreidd í velferðarráði.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem vísað hefur verið frá Gistiskýlinu á þessu ári.

4. Lagt fram bréf frá Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga vegna rekstrar Fríðuhúss og Maríuhúss.
Sviðsstjóri og staðgengill skrifstofustjóra velferðarmála gerðu grein fyrir málinu.
Samþykkt var að vísa málinu til frekari vinnslu á Velferðarsviði.

5. Lagt fram til kynningar minnisblað um stöðu mála vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
Staðgengill skrifstofustjóra velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

6. Lögð fram til kynningar viljayfirlýsing velferðarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu hjúkrunarrýma og þjónustu fyrir aldraða í Reykjavík.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

7. Lagt fram til kynningar minnisblað aðgerðateymis um barnavernd.
Staðgengill skrifstofustjóra velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

8. Lagðar fram lykiltölur fyrir tímabilið janúar – febrúar 2013.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinnu.

9. Kynnt bókhaldsstaða fyrir janúar 2013
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

10. Lagður fram til kynningar þjónustusamningur Velferðarsviðs við Ás-styrktarfélag um þjónustu við fatlað fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir.
Staðgengill skrifstofustjóra velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

Fundi slitið kl. 16.15
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Diljá Ámundadóttir
Sverrir Bollason Áslaug María Friðriksdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson