Velferðarráð - Fundur nr. 210

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 4. apríl var haldinn 210. fundur s og hófst hann kl. 12.45 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Karl Sigurðsson, Sverrir Bollason og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna; Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað vegna breytinga á greiðsluupphæð í samningum um notendastýrða persónulega þjónustu.
Formaður velferðarráðs og staðgengill sviðsstjóra gerðu grein fyrir málinu.
Diljá Ámundadóttir tók sæti á fundinum kl. 12.48.
Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 12.48.

2. Kynnt greinargerð Velferðarsviðs um tækifæri til sparnaðar/hagræðingar, skuldbindingar, áhættur og tækifæri í málaflokknum vegna fjárhagsáætlunar 2014-2018.
Staðgengill sviðsstjóra og framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar gerðu grein fyrir
málinu.
Bryndís Alma Gunnarsdóttir, sérfræðingur á fjármálaskrifstofu Velferðarsviðs, tók sæti á fundinum undir liðum 2 og 3.
Áslaug María Friðriksdóttir tók sæti á fundinum kl. 13.12.

3. Lögð fram tillaga að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs í málaflokknum árin 2014-2018 vegna vinnu við fjárhagsáætlun.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Staðgengill sviðsstjóra og framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar gerðu grein fyrir málinu og lögðu fram samantekt um aukningu í ráðgjöf í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs fyrir árin 2014-2018.

Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð afgreiðir nú áherslur og forgangsröðun Velferðarsviðs vegna áranna
2014 – 2018 með sérstaka áherslu á verkefni ársins 2014.
Áhersluþættir velferðarráðs fyrir komandi ár eru níu talsins og lúta meðal annars að stuðningi og þróun þjónustu við fátækt fólk sem leitar aðstoðar með fjármál sín, þar sem markmiðið er að fækka þeim sem þurfa á langtímafjárhagsaðstoð að halda. Undir þessum áhersluþáttum eru skilgreind níu verkefni fyrir næsta ár. Þá er lögð áhersla á bættan stuðning við börn, ungmenni, innflytjendur, utangarðsfólk, fatlað fólk og aldraða og hefur Velferðarsvið skilgreint 21 verkefni til að ná fram áherslum ráðsins hvað varðar þessa hópa. Lögð er áhersla á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði og að lokum er það gert að áherslu ráðsins að styrkja Velferðarsvið með fimm skilgreindum atriðum þannig að það nái betur að þjóna hlutverki sínu gagnvart stjórnsýslunni og borgarbúum sjálfum. Þá er brýnt að halda utan um starfsmannahóp sem hefur á undanförnum árum tekið að sér aukin og flóknari verkefni án þess að hafa fengið til þess styrkingu eins og á hefur þurft að halda.
Það er von velferðarráðs að tekið verði mið af þessum ríku þörfum við úthlutun fjárhagsramma vegna ársins 2014 og í komandi fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar. Við teljum að þannig séum við að fjárfesta í fólki og koma í veg fyrir fjölgun langtímanotenda velferðarþjónustunnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar sjálfstæðismanna telja margt gott í þeim drögum sem lögð eru fram á fundinum og taka undir mikilvægi þess að mæta vaxandi velferðarvanda. Mikilvægt er að taka það fram að vandanum þarf að mæta af fullum krafti á næstu árum og til þess þarf fjármagn. Í þeim gögnum sem fyrir fundinum liggja eru dæmi um hvernig ákveðnar fjárfestingar í velferðarþjónustu geta borgað sig og þeirri vinnu þarf að hrósa sérstaklega. Hins vegar teljum við að ekki hafi verið gengið nógu langt í að skoða hvort aðrar leiðir í rekstri eða aðrar áherslur í velferðarstarfinu geti skilað hagræðingu eða markvissari árangri. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja því hjá.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Á starfsdegi velferðarráðs 28. febrúar s.l talaði velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna fyrir eftirfarandi áherslum vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014. Að teknu tilliti til tillagna meirihlutans er hluti þeirra ítrekaðar hér:

Málaflokkar:
Þjónustumiðstöðvar
• Komið verði á aukinni dreifstýringu á kostnað miðstýringar og öll þjónusta sem tilheyrir nærumhverfinu verði veitt frá þjónustumiðstöðvum borgarinnar.
Fatlaðir
• Endurskoða samning um flutning málefna fatlaðra og í því skyni skipa starfshóp velferðarráðs/borgarráðs um málið.
• Farið verði yfir reynsluna af flutningnum, gerðar fjárkröfur á ríkið og samið þannig að endurskoðun fari fram árlega.
• Búseta allra fatlaðra verði tryggð.
• Tvígreindar konur fái viðunandi úrræði.
Aldraðir
• Starfshópur um flutning á málefnum fatlaðra fjalli einnig um flutning á málefnum aldraðra og hefji þá vinnu strax.
• Gera tillögur um flutning á málefnum aldraðra og heilsugæslunni til borgarinnar.
• Brugðist verði við biðlistum eftir þjónustuíbúðum, með fjölgun íbúða Félags-bústaða.
Félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun
• Að hverfaskipting þjónustusvæða heimaþjónustu verði miðuð við hverfi þjónustu-miðstöðvanna.
• Að þjónustunotendur geti treyst á þjónustuna og ráðningar miðist við það að starfsfólk geti mætt á boðuðum tíma.
Barnavernd
• Grafalvarleg staða verði greind frekar og brugðist við henni.
• Sett það fjármagn sem þarf og málið hafi algjöran forgang.
• Flest verkefni Barnaverndar Reykjavíkur fari til þjónustumiðstöðvanna.

Ferðaþjónusta fatlaðra
• Hætt verði við útboð og þjónustan verði hluti af almenningssamgöngum.
Fjárhagsaðstoð og atvinnumál
• Reiknað verði út hvað fólk þarf til framfærslu og brugðist við því.
• Hugað sérstaklega að börnum frá fátækum heimilum.
• Hækka fjárhagsaðstoð þegar þjónustunotendur hafa notið hennar lengur en 9 mánuði.
Húsnæðismál
• Félagsbústaðir - Eyða biðlistum og í því skyni verði keyptar 100 íbúðir á ári.
• Húsaleigubætur verði verðbættar frá júlí 2008.
• Þakið á húsaleigubótunum verði afnumið.
Utangarðsfólk
• Vandinn verði viðurkenndur sem heilbrigðisvandi með félagslegar afleiðingar og brugðist við því.
• Tekið verði á vandanum á heildstæðan hátt í stað þess að dreifa fjármunum á ómarkvissan hátt.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 14.58.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Allir fulltrúar velferðarráðs hafa unnið sameiginlega að áherslum og forgangsröðum fyrir næstu ár. Allir hafa lagt inn tillögur og hefur verið tekið tillit til þeirra eftir fremsta megni þ.á m. frá fulltrúa Vinstri grænna. Þessi framkomna tillaga Vinstri grænna sem kemur fram við afgreiðslu málsins er ómarkviss en áfram verður hlustað á raddir allra við gerð starfsáætlunar.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun :
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki tekið undir það að tekið hafi verið tillit til allra þeirra tillaga sem fram voru lagðar á starfsdegi ráðsins. Tillögur sjálfstæðismanna á þeim degi lutu meðal annars að því hvernig breyta mætti rekstrarfyrirkomulagi í velferðarþjónustunni sem hvergi má sjá að tekið hafi verið til greina.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Endurtekið er að tillögur fulltrúa Vinstri grænna voru lagðar fram á fundi ráðsins þann 28. febrúar s.l. Ekki er málefnalegt að halda því fram að tekið hafi verið tillit til þeirra. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði situr hjá við tillögu meirihlutans þó ýmislegt gott komi þar fram en harmar að ekki skuli verið tekið af skarið hvað varðar það sem kemur fram í tillögum velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna.

Fundi slitið kl. 15.05

Björk Vilhelmsdóttir

Karl Sigurðsson Sverrir Bollason
Diljá Ámundadóttir Þorleifur Gunnlaugsson
Áslaug María Friðriksdóttir