Velferðarráð - Fundur nr. 209

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, fimmtudaginn 21. mars var haldinn 209. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 8.41 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Karl Sigurðsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Elín Sigurðardóttir.
Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Birna Sigurðardóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hörður Hilmarsson, Sigþrúður Arnardóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir verkefnisstjóri og Tryggvi Haraldsson forstöðumaður Atvinnutorgs, tóku sæti á fundinum undir liðum 1-3.

1. Lagt fram minnisblað aðgerðarteymis vegna aðgerðaráætlunar Velferðarsviðs um fjárhags-aðstoð og atvinnuleysi.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir verkefnisstjóri gerði grein fyrir málinu.

Sverrir Bollason tók sæti á fundinum kl. 8.43.

2. Kynnt stöðuskýrsla um verkefnið Virkni til velferðar 2012.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir verkefnisstjóri kynnti skýrsluna.

3. Kynnt ársskýrsla Atvinnutorgs 2012.
Tryggvi Haraldsson, forstöðumaður Atvinnutorgs kynnti skýrsluna.

4. Kynnt drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs í málaflokknum árin 2014-2018 ásamt erindi fjármálaskrifstofu um fjárhagsáætlun 2014-2018 dags. 8. mars 2013.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.

5. Kynnt drög að ársuppgjöri Velferðarsviðs 2012.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

6. Lögð fram að nýju drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) ásamt tillögu og kostnaðarmati Velferðarsviðs. Ennfremur lagðar fram umsagnir hagmunaaðila. Þórhildur G. Egilsdóttir verkefnisstjóri tók sæti á fundinum undir liðnum og gerði grein fyrir málinu ásamt formanni velferðarráðs.

Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum með áorðnum breytingum. Fulltrúi vinstri grænna sat hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Loksins er notendastýrð persónuleg aðstoð að verða að veruleika í Reykjavík. Húrra. Þetta ferli hefur tekið langan tíma og biðin hefur verið erfið þeim sem hafa fram til þessa búið við þjónustu sem ekki hefur mætt þörfum þeirra og/eða verið mætt af aðstandendum. Nú er búið að semja regluverk fyrir Reykjavíkurborg í góðri sátt við hagsmunaaðila. Á tilraunatímabilinu, sem ætlað er að standa út árið 2014, verður leitast við að fá fjölbreytta samninga þannig að sem víðtækust reynsla fáist úr verkefninu. Ekki verður hægt að semja við alla sem sóttu um að taka þátt í verkefninu þar sem fjármagn skortir til að það geti orðið. Hins vegar vonast fulltrúar í velferðarráði til þess að Reykja-víkurborg fái aukin framlög frá Jöfnunarsjóði sem hægt verði að nýta til að gera fleiri samninga, án þess að það kalli á viðbótarfé úr borgarsjóði. Það er von okkar að þetta tilraunarverkefni verði upphafið að nýrri nálgun í velferðarþjónustu, þar sem notendum er betur gert kleift að stjórna sínu eigin lífi.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi VG fagnar því skrefi sem hér er tekið í átt að þjónustu út frá hugmyndafræði um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Mikilvægt er að framkvæmd verkefnisins sé út frá þeirri forsendu að litið sé á fatlað fólk sem mismunandi einstaklinga með mismunandi þarfir og langanir. Fulltrúin telur að vel hafi verið tekið í flestar athugasemdir þeirra hagsmunaaðila sem fengu drögin að reglum þessum til umsagnar. Fulltrúin harmar þó að reglur þær sem hér liggja fyrir séu afgreiddar án þess að sótt hafi verið eftir því til borgarráðs að nægjanlegt fjármagn fáist til að hægt verði að tryggja öllum umsækjendum tilraunaverkefnisins notendastýrða persónulega aðstoð. Brýnt er að endurskoða þær viðmiðunarfjárhæðir sem koma fram í reglunum. Útreikningar NPA – miðstöðvarinar sýna að þessar upphæðir duga ekki til að tryggja þá þjónustu sem þarf. Mikilvægt er að allar upphæðir séu tengdar við ákveðið fast viðmið s.s launavísitölu eða kjarasamninga og hækki samkvæmt þeim. Einnig furðar fulltrúi VG sig á því að eitthvað sé til sem kallist “sofandi næturvaktir” því annaðhvort er persónulegur aðstoðarmaður á vakt eða ekki, ýmist sofandi eða vakandi.

7. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga VG.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að meirihluti velferðarráðs taki vel í athugasemdir hagsmunaaðilanna og að sótt verði eftir því við borgarráð að nægjanlegt fjármagn fáist til að allir umsækjendur fá notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

Felld með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það hefur komið skýrt fram á fjölmörgum velferðarráðsfundum og samráðsfundum með hagsmunaraðilum að fjárhagsstaða borgarinnar leyfir ekki frekari útgjöld í tilraunarverkefni um NPA fyrir árið 2013 en fengust – um 72 milljónir, teknar af liðnum ófyrirséð. Heildarupphæð samninga er þó nálægt 200 milljónum þar sem fjármagn kemur einnig frá þjónustu sem fellur niður og frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Við það verður að una. Hagsmunaaðilum er þetta ljóst og þeirra tillaga var sú að taka sem fjölbreyttastan hóp inn í verkefnið innan þess svigrúms sem þetta fjármagn leyfir. Það er óábyrgt af fulltrúa VG að leggja til annað en honum ætti að vera fullljóst að er ekki gerlegt.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna harmar að velferðarráð standi ekki með sínu eigin verkefni um notendastýrða persónulega aðstoð alla leið, með því að sækja um aukið fjármagn til borgarráðs, til að hægt sé að tryggja að allir umsækjendur geti tekið þátt í tilraunaverkefni borgarinnar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Ljóst er að tafir á innleiðingu verkefnisins hefur leitt til þess að fé frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem annars hefðu runnið til verkefnisins á árinu 2012 er tapað. Það er hlutverk borgarráðs að rýna fjárhagsáætlun borgarinnar og tryggja aukið fjármagn í verkefnið. Fulltrúi Vinstri grænna furðar sig á því að ekki sé samstaða í ráðinu að reyna þessa leið til hlítar.

8. Lagt fram minnisblað um uppbyggingu sértækra búsetuúrræða fatlaðs fólks.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Bókun velferðarráðs:
Velferðarráð ítrekar mikilvægi þess að sem fyrst liggi fyrir áfangaskipt tillaga Velferðarsvið um markvissa uppbyggingu húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk, þó svo samhliða verði unnið að þróun þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, svo ekki þurfi sértæk búsetuúrræði. Fatlað fólk á eins og aðrir að hafa val um búsetu og búa í allskonar húsnæði, í leigu, eigin húsnæði, með öðrum og einir.
Nú er verið að vinna að opnun tveggja nýrra búsetuúrræða sem eru tímabundin neyðarúrræði á meðan á byggingu framtíðarheimila stendur. Mikilvægt er að fólk festist ekki í tímabundnum úrræðum og að í áfangaskiptri áætlun Velferðarsviðs sem unnin er nú, verði gert ráð fyrir því að forgangsverkefni verði að að koma fólki úr tímabundnum úrræðum. Þá er eitt heimili ætlað allt að 7 manns vegna þess að um neyðarúrræði er að ræða en horft verður til þess að reyna að hafa ekki fleiri en 6 einstaklinga saman.

9. Lögð fram til kynningar drög á stefnu og starfsáætlun um heildstæða þjónustu í Breiðholti.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

10. Samkvæmt bréfi borgarráðs dags. 4. mars 2013 er vísað til umsagnar velferðarráðs heildarstefnu Reykjavíkurborgar í umhverfis- og auðlindamálum ásamt tillögum stýrihóps dags. 14. febrúar 2013.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi umsögn:
Velferðarráð telur mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sér heildarstefnu í umhverfis- og auðlindastefnu. Í tillögu að heildarstefnu sem lögð er fram til velferðarráðs til umsagnar er sérstakur kafli um skipulag. Velferðarráð telur það jákvætt að nýjar íbúðir verði innan núverandi þéttbýliskjarna, því þannig ætti að vera hægt að efla almenningssamgöngur og fólk á að geta komist á milli á ódýrari hátt s.s. hjólandi og/eða gangandi. Samgöngur skipta miklu máli í lífi borgarbúa sem búa við lágar tekjur en það er sá hópur sem velferðarráð þarf að hugsa sérstaklega til.

Kostnaður vegna húsnæðis er mjög stór hluti af ráðstöfunarfé lágtekjufólks.Í skipulagskafla á bls. 12 mætti bæta við mikilvægi þess að við uppbyggingu íbúðabyggðar verði tryggður félagslegur fjölbreytileiki og að þarfir borgarbúa verði hafðir að leiðarljósi, sérstaklega hvað varðar þörf á minni og ódýrari íbúðum í samræmi við húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Slík uppbygging er einnig umhverfisvæn.

Að lokum óskar velferðarráð þess að í kafla um náttúruvernd og útivist á bls. 14–15 verði bætt við mikilvægi aðgengis fatlaðra og aldraðra í borgarumhverfinu, ekki síst á útivistarsvæðum. Reykjavíkurborg vill vera aðgengileg og aldursvæn borg. Til að svo verði, þarf útivist að vera fyrir alla borgarbúa því með góðu aðgengi og aukinni útivist og hreyfingu aukast lífsgæði þeirra sem búa við skerðingar sökum aldurs, fötlunar og/eða veikinda.

11. Lagt er fram minnisblað Velferðarsviðs um starfsemi heimilis fyrir heimilislausar konur.
Afgreiðslu málsins er frestað.

12. Lögð fram umsögn Velferðarsviðs um skýrslu og tillögur starfshóps á vegum samtaka Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlegar bakvaktir barnaverndar.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

13. Lagt fram til kynningar bréf frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins dags. 25. febrúar 2013 um sameiginlega leit að húsnæði með þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Fundi slitið kl. 12.12

Björk Vilhelmsdóttir (sign)

Heiða Kristín Helgadóttir Karl Sigurðsson (sign)
Sverrir Bollason (sign) Áslaug María Friðriksdóttir
Jórunn Frímannsdóttir Elín Sigurðardóttir (sign)