Velferðarráð - Fundur nr. 202

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2013, mánudaginn 7. janúar var haldinn 202. fundur s og hófst hann kl. 13.44 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Páll Hjalti Hjaltason, Áslaug María Friðriksdóttir og Sveinn H. Skúlason.
Af hálfu starfsmanna; Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Guðmundur Sigmarson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt reglugerð, dags. 20. desember 2012, um breytingu á reglugerð um húsaleigubætur nr. 118/2003 með síðari breytingum.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Þorleifur Gunnlaugsson tók sæti á fundinum kl. 13.47.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Almennar húsaleigubætur hafa ekki hækkað síðan í maí 2008 á meðan leiga Félagsbústaða hefur hækkað um 38,4#PR samkvæmt húsaleigulið neysluvístölunnar.
Ef almennar húsaleigubætur fylgdu verðlagi væri grunnstofn til útreiknings húsaleigubóta á mánuði fyrir hverja íbúð komin úr kr. 13.500 í kr. 18.684 kr.Ríkisstjórnin hækkaði umræddan stofn í kr. 15.200 um áramót og hann mun fara í kr. 17.500 þann 1. júlí en þá hefur húsaleiga væntanlega hækkað enn frekar. Stjórnin hækkar hinsvegar ekki nokkuð sem komið hefur til viðbótar og er 15#PR þess hluta leigufjárhæðar sem liggur á milli 20.000 – 50.000 kr. Þar sem öll leiga er sennilega komin yfir þetta viðmið þýðir það að til viðbótar koma 4.500 kr. en þessi upphæð hefur staðið í stað síðan árið 2003. Væri hún verðbætt frá maí 2008 væri um að ræða 6.228 kr. í stað 4.500 kr. Að sama skapi hækkar ríkisstjórnin ekki almennar húsaleigubætur sem til koma vegna barna en þar hefur gætt mesta stuðnings til fátæks barnafólks. Í mars 2003 voru bæturnar kr. 7.000 fyrir fyrsta barn, kr.6.000 fyrir annað barn og kr. 5.500 fyrir þriðja barn. Í maí 2008 voru þær orðnar 14.000 fyrir fyrsta barn, 8.500 fyrir annað barn en stóðu í stað varðandi þriðja barnið, kr. 5.500. Ef húsaleigubætur vegna fyrsta fyrsta barns væru verðbættar frá því í maí 2008 væru þær komnar úr kr. 14.000 í kr. 19.396 á mánuði. Ef miðað er við þessar upphæðir og verðbætt væri til jafns við leiguhækkun Félagsbústaða frá því í maí 2008 gæti fátækt og eignalaust einstætt foreldri með eitt barn og fullan rétt á almennum húsalaleigubótum fengið kr. 51.756 en umrædd fjölskylda fékk kr. 33.700 kr. 1. janúar og fær 36.000 kr. 1. júlí. Frá því á árinu 2003 og út árið 2011 fóru húsaleigubætur að skerðast óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 1#PR af árstekjum þegar þær fóru yfir 2 milljónir kr. Allt síðastliðið ár var miðað við 2,25 milljónir og 1#PR skerðingu v/árstekna eftir það en frá og með 1. janúar sl. er miðað við skerðingamörk við 2,55 milljónir kr. og skerðingarhlutfallið lækkað úr 1#PR í 0,67#PR. Hámark almennra húsaleigubóta var frá byrjun árs 2003 fram á árið 2008 kr. 31.000. Það var hækkað í maí 2008 í 46.000 og hækkaði 1. janúar sl. í kr. 47.700 og fer í kr. 50.000 1. júlí nk. Þetta þýðir að verið er að styðja tekjuhærra fólk meira en áður og heimilistekjur eru tæpar 7,5 milljónir á ári þegar viðkomandi hætta alfarið að fá bæturnar sé miðað við skerðingarmörkin 1. júlí nk. Til samanburðar hættu viðkomandi að fá almennar húsaleigubætur þegar heimilistekjur námu 4.6 milljónum kr. frá því í maí 2008 út síðastliðið ár. Hækkun húsaleigubóta um 1.700 kr. nær ekki leiguhækkun Félagsbústaða sem til kom 1. janúar sl. og var 1,36 #PR sem nemur 2.040 kr. ef um er að ræða 150.000 kr. leigu. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar hækkun húsaleigubóta og að stuðningurinn skuli ná til fleiri en áður. Það er hinsvegar harmað að hækkunin skuli vera jafn lítil og raun ber vitni og fátækasta barnafólkið skuli fá hlutfallslega minnstu hækkunina en ekki má gleyma ósanngjörnu þaki á samanlögðum almennum og sérstökum húsaleigubótum sem bitnar á þeim sem síst skyldi.

2. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga meirihluta velferðarráðs að breytingum á sérstökum húsaleigubótum frá fundi velferðarráðs 6. desember 2012.
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að útfæra breytingar á margföldunarstuðli sérstakra húsaleigubóta og hámarksgreiðslum þeirra vegna fyrirhugaðrar breytingar á reglugerð um almennar húsaleigubætur sem taka á gildi 1. janúar nk. Markmiðið með breytingum á sérstökum húsaleigubótum er að hækkun almennu bótanna skili sér að fullu til þeirra sem jafnframt fá sérstakar húsaleigubætur, en að margföldunarstuðli sérstöku húsaleigubótanna verði breytt þannig að margföldunin leiði ekki til verulegs kostnaðarauka fyrir borgarsjóð.

Tillagan er dregin til baka.

Ennfremur lögð fram að nýju eftirfarandi breytingartillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 6. desember 2012.
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að útfæra tillögur að breytingum á margföldunarstuðli sérstakra húsaleigubóta og hámarksgreiðslum þeirra vegna fyrirhugaðrar breytingar á reglugerð um almennar húsaleigubætur sem taka á gildi 1. janúar nk. Tillögurnar verði sendar til umsagnar Neytendasamtakanna og Öryrkjabandalags Íslands áður en þær verða lagðar fyrir velferðarráð.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ekki náðist að senda tillögurnar um sérstakar húsaleigubætur til umsagnar ÖBÍ og Neytendasamtakanna vegna lítils tíma. Reglugerð kom fram 2 virkum dögum fyrir jól og þá fyrst var ljóst hvaða upphæðir var um að ræða. Þá átti eftir að vinna upp dæmi og kostnaðarmat. Það var ekki hægt fyrr en eftir áramót vegna jólafría starfsmanna. Nú þarf að afgreiða tillöguna, án umsagnar, til að fólk geti fengið húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur afgreiddar frá og með næstu mánaðarmótum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Reglugerð ráðuneytisins var send út 20. desember. Síðan eru liðnir 6 til 7 virkir dagar. Ekki fæst séð að um flókna útreikninga sé að ræða og jafnvel þó að svo væri var hægt að hefja undirbúning þeirra strax 6. desember, en þá voru línur nokkuð skýrar og eðlilega átti það að hjálpa að formaður velferðarráðs sat í nefnd ráðherra um málið. Afgreiðsla meirihluta velferðarráðs er því að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna, enn eitt dæmið um viljaskort þegar kemur að raunverulegu samráði við hagsmunaaðila.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að eftir sem áður verði fulltrúar Neytendasamtakanna og Öryrkjabandalagsins beðnir um að veita umsögn um ákvörðun velferðaráðs varðandi sérstakar húsaleigubætur og umsagnir rati á borð borgarráðs áður en ákvörðun verður tekin um málið þar.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Afgreiða þarf tillögur um breytingar á sérstökum húsaleigubótum í borgarráði í þessari viku til að tryggja húsaleigubætur til leigjenda. Gögn fyrir borgarráð þurfa að berast fulltrúum í borgarráði á morgun, og því er ekki hægt að verða við ósk fulltrúa Vinstri grænna um að senda tillögurnar til umsagnar fyrir afgreiðslu borgarráðs.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar þá skoðun sína að nægur tími hafi verið til að leita umsagnar.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Á fundi velferðarráðs 6. desember sl. þegar umrædd tillaga meirihlutans var lögð fram lagði fulltrúi Vinstri grænna til að Neytendasamtökin sem hagsmunagæsluaðili leigjenda og Öryrkjabandalagið fengju tillögurnar og útfærslur þeirra til umsagnar áður en þær yrðu lagðar fyrir ráðið til afgreiðslu. Meirihlutinn brást við með eftirfarandi bókum: Tillagan ásamt greinargerð, dæmum og bókunum verður send til umsagnar Neytendasamtakanna og Öryrkjabandalags Íslands.Á yfirstandandi fundi stendur til að klára málið en ekki hefur verið leitað umræddra umsagna eins og heitið hafði verið. Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir skýringum á þessu.

3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 20. desember 2012.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að þakið sem er á húsaleigubótum (70.000 kr.) verði afnumið.

Felld með einu atkvæði gegn sex.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það var velferðarráð sem í apríl árið 2008 ákvað að þak eða hámark vegna samanlagðra húsaleigubóta væri 70.000 kr. Að sama skapi getur ráðið hækkað umrætt þak að vild og verði það hækkað til samræmis við hækkun húsaleigu Félagsbústaða á tímabilinu væri hámarkið komið komið yfir 93.000 kr. Hámark á húsaleigubætur umfram fyrirliggjandi ákvæði þess efnis að þær geti aldrei farið yfir 75#PR af leigufjárhæð er hinsvegar fjarstæða þar sem slíkt bitnar á þeim sem síst skyldi og þá fyrst og fremst mjög illa stæðum, einstæðum foreldrum. Hámarks bætur vegna einstaklings með eitt barn áttu að vera í desember 73.601 kr. en þar sem þakið var 70.000 kr. voru bæturnar skornar niður. Niðurskurðurinn nam rúmum 23.000 kr. gagnvart verst stöddu einstaklingunum með tvö börn og tæpum 36.000 kr. hjá þeim verst settu með þrjú börn. Þó svo að umrætt þak hækkaði í 71.700 kr. um áramót og 74.000 kr. í júlí eykst mismunurinn og er orðin 41.000 kr. fyrir verst settu einstaklingana sem hafa fyrir þremur börnum eða meira að sjá 1. júlí nk. Samkvæmt reglum um félagslegar leiguíbúðir eru sérstakar húsaleigubætur ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ströngum viðmiðum og einvörðungu fátækasta fólkið sleppur í gegnum það nálarauga. Það skýtur því skökku við að þeim verst settu úr þeim hópi skuli vera mismunað á þennan hátt.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Þak á húsaleigubótum er eðlilegt þar sem gert er ráð fyrir að fólk greiði hluta af sínum húsnæðiskostnaði sjálft, þó það búi við fjárhagslega og félagslega erfiðleika. Nú er verið að hækka þak sérstakra húsaleigubóta þannig að sú hækkun sem verið er að gera á almennum húsaleigubótum skili sér að fullu til þeirra leigjenda sem jafnframt fá sérstakar húsaleigubætur. Að svo komnu máli er Reykjavík ekki að hækka sérstakar húsaleigubætur þar sem fyrirhuguð er endurskoðun á þessu ári. Markmiðið samkvæmt húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar er að Reykjavíkurborg hafi forystu í því að endurskoða og samræma eins og kostur er reglur um sérstakar húsaleigubætur í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þeim verði ætlað að létta greiðslubyrði til tekjulágs fólks sem jafnframt á í félagslegum vanda. Í nýjum reglum verði stuðningur óháður því hver á og/eða rekur húsnæði, en að hann fari eftir aðstæðum og greiðslubyrði hvers leigjanda. Kostnaður við þessa tillögu Vinstri grænna er áætlaður um 226 millj. kr. á ári, miðað við notendahóp húsaleigubóta í nóvember 2012. Hvorki hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar né í fjárlögum ríkisins.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Þar sem verið er að hækka almennar húsaleigubætur í skrefum á árinu og lækka margföldunarstuðul sérstakra húsaleigubóta er spurt hvernig útkoman er fyrir borgina á ársgrundvelli miðað við stöðuna 1. júlí.

4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 20. desember 2012.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að Reykjavíkurborg hækki sérstakar húsaleigubætur til jafns við hækkun húsaleigu Félagsbústaða frá því í maí 2008.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar þá afstöðu meirihluta velferðarráðs að borginni beri ekki siðferðileg skylda til að auka húsnæðisstuðning við þá íbúa sína sem ófærir eru um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess að undafarin ár hefur húsnæðisstuðningur Reykjavíkurborgar við umrædda einstaklinga minnkað jafnt og þétt. Samfara hækkun húsaleigubóta í maí 2008 var húsnæðisstuðningi Reykjavíkurborgar breytt þannig að í stað þess að borgin væri að greiða niður þriðjung húsaleigu Félagsbústaða (stuðningurinn hækkaði samfara hækkun leigu) var tekið upp kerfi sérstakra húsaleigubóta. Þetta átti að leiða til þess að greiðslubyrði þeirra verst settu lækkaði og öfugt. Síðan þá hafa sérstakar húsaleigubætur staðið í stað á meðan húsaleiga Félagsbústaða hefur hækkað um 38,4#PR. Væru bæturnar hækkaðar til jafns við leiguna næmi hækkunin að hámarki tæpum 23.000 kr. á mánuði miðað við stöðuna í janúar. Í svari Velferðarsviðs frá 3. maí sl. vegna fyrirspurnar velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna kemur fram að hlutfall kostnaðar Reykjavíkurborgar af leigufjárhæð hefur farið hríðlækkandi frá því árið 2007, farið úr 44#PR (2007) í 19,7#PR (2011). Kostnaður Reykjavíkurborgar m.v. 60#PR endurgreiðslu sérstakra húsaleigubóta hafi farið úr kr. 684.610.788 kr (2007) í 420.466.496 kr. (2011). Jafnframt þessu hefur borgin nær algerlega brugðist skyldum sínum hvað varðar uppbyggingu félagslegs húsnæðis og lítið hefur orðið úr stórhuga hugmyndum í upphafi síðasta kjörtímabils um kaup á 100 íbúðum á ári til að eyða biðlistum. Reykjavíkurborg hefur hagnast á þeim breytingum sem átt hafa sér stað síðan í byrjun árs 2008 á kostnað leigjenda og ríkisins. Það er því fyllilega orðið tímabært að ráðamenn hér á bæ standi undir skyldum sínum varðandi húsnæðismál fátækustu íbúanna. Það er því vonbrigði að áfram eigi að lækka hlutfallslegan húsnæðisstuðning borgarinnar við þá íbúa sem mest þurfa á honum að halda og þá ljóst að í Reykjavíkurborg fer fátækum fjölgandi og fátækt eykst.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Reglur um sérstakar húsaleigubætur gera ráð fyrir að þær séu reiknaðar sem ákveðið hlutfall af almennum húsaleigubótum og séu því viðbót við almennar húsaleigubætur. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins sjá hins vegar alveg réttlætið í því að tengja húsaleigubætur við vísitölu eins og húsaleiga gerir, en lög og reglugerð um almennar húsaleigubætur gera ekki ráð fyrir því. Nú eru hins vegar í gangi breytingar sem eiga að tryggja aukinn stuðning við leigjendur með það að markmiði að jafna opinberan húsnæðisstuðning milli þeirra sem leigja og kaupa íbúðarhúsnæði. Þessi breyting er fyllilega í samræmi við samþykkta húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar og vonandi mun sá stuðningur fylgja húsnæðisverði eða greiðslubyrði fólks af húsnæði þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Þetta er einungis fyrsta skrefið en áfram verður unnið og það mun skila sér vonandi betur til þeirra sem eru verst settir á húsnæðismarkaði. Áætlaður kostnaður við tengja sérstakar húsaleigubætur við vísitölu neysluverðs frá maí 2008 er tæpar 350 m.kr. á ári. Það er verðmiði þessarar tillögu Vinstri grænna og ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar né í fjárlögum ríkisins.

5. Lögð fram eftirfarandi tillaga að breytingu á reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur ásamt greinargerð og kostnaðarmati.
Lagt er til að velferðarráð samþykki; að margföldunarstuðull sérstakra húsaleigubóta verði 1,2 janúar til júní og 1,1 frá júlí 2013, að samanlögð upphæð húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta nemi ekki hærri upphæð er kr. 71.700 janúar til júní og ekki hærri en 74.000 frá júlí 2013 og breytingu á 8.gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur til samræmis við ofangreint.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Samþykkt með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Markmið með þessum breytingum á sérstakar húsaleigubótum er að tryggja að hækkun almennra húsaleigubóta skili sér að fullu til þeirra sem jafnframt fá sérstakar húsaleigubætur. Það tekst og vísa þarf málinu til borgaráðs þar sem þetta mun kosta borgina 5.5. millj. kr. sem þarf að taka af ófyrirséðu. Á þessu ári mun verða unnið að þróun sérstakra húsaleigubóta og það mun skila sér til þeirra sem verst eru staddir á húsnæðismarkaði.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar að umrædd breyting kemur ekki fátækustu leigjendum borgarinnar til góða vegna þess þaks sem velferðarráð hefur ákveðið á bæturnar.

Guðmundur Sigmarsson vék af fundi kl. 15.05

6. Lögð fram drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) ásamt minnisblaði og kostnaðarmati Velferðarsviðs.
Eftirtaldir aðilar tóku sæti á fundinum undir þessum lið kl. 15.15:
Þórhildur Egilsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, fyrir hönd verkefnastjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð Guðmundur Steingrímsson formaður verkefnisstjórnar, Guðjón Sigurðsson frá MND-félaginu, Hrefna Óskarsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Embla Ágústsdóttir frá NPA- miðstöðinni og Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp.

Sverrir Bollason og Páll Hjalti Hjaltason viku af fundi kl. 16.25.
Áslaug María Friðriksdóttir vék af fundi kl. 16.28.

7. Lagt fram bréf Öryrkjabandalags Íslands, dags.7. janúar 2013 varðandi ósk um að fá afhent drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Í velferðarráði í dag átti sér stað afar mikilvægt samráð milli NPA verkefnisstjórnarinnar og velferðarráðs. Niðurstaðan var sú að skoða málið enn frekar og bíða með að senda gögn til umsagnar hagsmunaaðila þar til búið er að kanna möguleika á þeim atriðum sem rædd voru í samráðinu í dag.

Fundi slitið kl.16.40

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Sveinn H. Skúlason
Þorleifur Gunnlaugsson