Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2012, fimmtudaginn 6. desember var haldinn 200. fundur s og hófst hann kl. 12.39 að Borgartúni 12-14.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Páll Hjalti Hjaltason, Áslaug María Friðriksdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna; Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynnt breyting á fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2013.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
2. Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um fjárhagaðstoð í samræmi við samþykkt borgarstjórnar frá 4. desember s.l varðandi hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi telur það hafa litla þýðingu að gera breytingartillögu við tillögu meirihlutans. Borgarstjórn felldi, tillögu VG um hækkun fjárhagsaðstoðar um 5,6#PR til samræmis við hækkun gjaldskráa borgarinnar og samþykkti 3,9#PR hækkun sem endurspeglast þeirri tillögu sem hér er lögð fram. Fulltrúi VG vísar til fyrri bókana og tillagna um málið.
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
3. Lögð fram tillaga til velferðarráðs um breytingu á gr.16a í reglum um fjárhagsaðstoð í Reykjavík.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
Velferðaráðsfulltrúi VG leggur til að grein 16a í reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg verði breytt þannig að viðmiðunarmörk hækki um 5,6 #PR í samræmi við gjaldskrárhækkanir og verði kr. 13.348.
Breytingartillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Borgarstjórn samþykkti við gerð fjárhagsásætlunar 3.9#PR hækkun á fjárhagsaðstoð til samræmis við hækkun almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga. Velferðarráð hefur ekki heimild til að hækka einstaka liði umfram samþykkt borgarstjórnar og því er tillaga VG felld.
Aðaltillagan var borin upp til atkvæða.
Aðaltillaga samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
4. Sérstakar húsaleigubætur, lögð fram tillaga velferðarráðs að breytingum á sérstökum húsaleigubótum.
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að útfæra breytingar á margföldunarstuðli sérstakra húsaleigubóta og hámarksgreiðslum þeirra vegna fyrirhugaðrar breytingar á reglugerð um almennar húsaleigubætur sem taka á gildi 1. janúar nk.
Markmiðið með breytingum á sérstökum húsaleigubótum er að hækkun almennu bótanna skili sér að fullu til þeirra sem jafnframt fá sérstakar húsaleigubætur, en að margföldunarstuðli sérstöku húsaleigubótanna verði breytt þannig að margföldunin leiði ekki til verulegs kostnaðarauka fyrir borgarsjóð.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að útfæra tillögur að breytingum á margföldunarstuðli sérstakra húsaleigubóta og hámarksgreiðslum þeirra vegna fyrirhugaðrar breytingar á reglugerð um almennar húsaleigubætur sem taka á gildi 1. janúar nk. Tillögurnar verði sendar til umsagnar Neytendasamtakanna og Öryrkjabandalags Íslands áður en þær verða lagðar fyrir velferðarráð.
Fundarhlé kl. 13.41 – 13.52.
Afgreiðslu breytingartillögu frestað.
Afgreiðslu aðaltillögu frestað.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tillagan ásamt greinargerð, dæmum og bókunum verður send til umsagnar Neytendasamtakanna og Öryrkjabandalags Íslands.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur að húsaleigubætur muni hækka á næsta ári samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Meirihluti velferðarráðs vill skoða hvaða áhrif það hefur á sérstakar húsaleigubætur. Í þessu sambandi vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á eftirfarandi. Í fyrsta lagi að ljóst er að ekki er fyrirséð að innistæða sé fyrir hækkun húsaleigubóta hjá ríkissjóði, hvað eftir annað hefur ríkisstjórnin þurft að taka til baka þau áform sem í frumvarpinu fólust. Í öðru lagi að verði hækkun bótanna að veruleika mun hún renna beint út í verðlag í formi hærri leigu sem svo aftur er verðbólguhvetjandi. Slíkt hefur svo áhrif til hækkunar verðtryggðra lána sem er einn af stærstu vandamálum heimilanna í landinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna getur ekki tekið þátt í tillögu þar sem Velferðarsviði er falið að útfæra tillögur sem líklega bitnar á þeim sem síst skyldi. Nú þegar ríkið ætlar að loksins að hækka húsaleigubætur getur Reykjavíkurborg ekki hlaupið undan merkjum. Skilaboð meirihlutans til Velferðarsviðs þess efnis að því beri að tryggja það að hækkun almennu bótanna leiði ekki af sér „mikla hækkun sérstakra húsaleigubóta“ eins og segir í greinargerð er með ólíkindum.
Um leið og því er fagnað að Ríkið ætli að hækka bæturnar er minnt á það að húsaleigubætur, hvort sem um er að ræða almennar eða sérstakar, hafa staðið í stað síðan í maí árið 2008. Síðan þá hefur leiga Félagsbústaða fylgt húsaleigulið neysluvístölunnar og hækkað um 33#PR. Þetta hefur leitt til þess að einstætt foreldri með 2 börn sem leigir hjá Félagsbústöðum er nú komin með samanlagðar húsaleigubætur sem rekast í þak sem ákveðið var í maí 2008 og þýðir að bætur borgarinnar til þeirra lækka stöðugt.
Í um langan tíma hafa stjórnvöld lofað hækkun en látið málið velkjast í nefndum á meðan greiðslubyrði þeirra leigjenda sem þiggja húsaleigubætur og þá sérstaklega þeirra fátækustu, stöðugt hækkað. Í raun ættu leigjendur að fá bætur fyrir biðina en að lámarki á að hækka húsalaleigubætur í takt við vísitöluna og er ríkistjórnin hvött til þess.
Í maí 2008 var gerð sú kerfisbreyting hjá borginni að í stað þess að niðurgreiða félagslegt húsnæði um ca 1/3 voru teknar upp sérstakar húsaleigubætur fyrir leigjendur Félagsbústaða en áður höfðu þessar bætur verið boðnar þeim sem voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Rökstuðningurinn var sá að þessar breytingar yrðu til þess að þeir verst settu kæmu betur út en þeir gerðu með gamla kerfinu en betur settir, verr.
Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir leigjendur og í dag er hlutfallsleg greiðslubyrði allra leigjenda Félagsbústaða orðin talsvert meiri en sem nemur 2/3 hluta leigunnar. Í þessu ljósi er það í raun fjarstæðukennt að Reykjavíkurborg ætli að lækka enn frekar hlutfallslegan stuðning við leigjendur sem sökum fátæktar geta ekki séð sér og sínum farborða.
Leigjendur eiga ekki eiginleg samtök en Neytendasamtökin hafa samið við velferðarráðuneytið að sjá um hagsmuni þeirra og að sjálfsögðu eru margir leigjendur innan raða Öryrkjabandalagsins. Velferðaráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur heimildir fyrir að velferðarráðuneytið hafi ekki fengið þessa hagsmunaaðila til samráðs um málið og er gerð krafa um að það verði gert áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.
Meirihluti borgarstjórnar hefur stært sig af því að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sé til marks um að bjart sé framundan í íslensku efnahagslífi og má það vel vera. Það er hinsvegar svo að fjárhagsáætlunin hefur í för með sér svarta framtíð fyrir fátækustu íbúana. Á meðan gjaldskrár hækka að meðaltali um 5,6#PR hækkar fjárhagsaðstoðin aðeins um 3,9#PR og fyrir liggur greinilegur vilji meirihlutans til að lækka enn fremur hlutfallslegan stuðning við þá leigjendur sem teljast til skjólstæðinga borgarinnar. Samfylkingin sem hefur með höndum forystu í velferðarmálum borgarinnar leiðir því aðför að fátæku fólki sem í æ ríkara mæli á ekki fyrir nauðþurftum síðustu daga mánaðarins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Almennar húsaleigubætur munu hækka um áramótin og ná til mun fleiri en áður þar sem tekjuskerðingarmörk verða hækkuð og tekjuskerðingarhlutfall lækkað. Þetta er gleðiefni fyrir leigjendur og hefur verið tryggt fjármagn til þessa í fjárlögum. Það er skýr vilji fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að hækkunin skili sér til allra sem jafnframt fá sérstakar húsaleigubætur. Reykjavíkurborg hefur hins vegar í sinni fjárhagsáætlun ekki gert ráð fyrir hækkun sérstakra húsaleigubóta, og breyta þarf reglum vegna þess og einnig hækka þakið þannig að almenna hækkunin skili sér.
Til samræmis við samþykkta húsnæðisstefnu borgarinnar þurfa sérstakar húsaleigubætur að breytast og verður það gert á næsta ári samhliða boðuðum lagabreytingum á lögum um húsaleigubætur sem gerðar verða á því ári.
5. Lögð fram úttekt á samningi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Hjálpræðishersins á Íslandi um Dagsetur.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
6. Lagt fram til kynningar bréf Umhverfis- og skipulagssviðs dags. 22. nóvember 2013 varðandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030 þar sem vísað er „Bíla- og hjólastæðastefnu“ og „Vistvænni samgöngur“ til umræðu og kynningar til velferðarráðs.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð leggur áherslu á það að við skipulag borgarinnar þarf að hafa velferðarmálin til hliðsjónar. Kostnaður vegna íbúðarhúsnæðis og vegna samgangna er stærsti hluti útgjalda fjölskyldna. Horfa þarf til þess íbúum bjóðist að búa í ódýru húsnæði þar sem hægt er að halda kostnaði við samgöngur í lágmarki. Þá er einnig mikilvægt að horfa til aðgengis fatlaðra og aldraðra í borgarumhverfinu en ljóst er að með góðu aðgengi og aukinni þátttöku aukast lífsgæði.
7. Lögð fram að nýju fundaáætlun velferðarráðs 2013.
8. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu varðandi aðrar heimildagreiðslur:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að aðrar heimildagreiðslur hækki í samræmi við þá hækkun sem samþykkt var varðandi grein 16a.
Afgreiðslu frestað.
9. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að koma með tillögur um hvernig auka má valdeflingu fólks sem er í þörf fyrir þjónustu. Valdeflingu má t.d. auka með notkun á þjónustuávísunum eða þjónustutryggingu sem fylgir skilgreindri þörf. Þannig geti þeir sem hafa þörf fyrir þjónustu valið um hvernig þeir leysa úr henni og hvaðan þeir fá þjónustu. Um leið verður til hvati fyrir fjölbreyttari og sveigjanlegri velferðarúrræði sem byggja á þörfum fólksins sjálfs.
Afgreiðslu frestað.
10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Langir biðlistar eru eftir húsnæði og því mikilvægt að það húsnæði sem til er sé vel nýtt. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða verklag gildir til að kanna aðstæður þeirra sem búa í félagslegu húsnæði. Fer fram greining á því þegar aðstæður fólks breytast til batnaðar til dæmis þegar laun hækka og hefur niðurstaða slíkrar greiningar eitthvað í för með sér? Hvernig er verklagi háttað hvað þetta varðar almennt og hefur það haft það í för með sér að fólki er sagt upp félagslegu húsnæði?
Fundi slitið kl. 14.31
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Sverrir Bollason
Páll Hjalti Hjaltason Áslaug María Friðriksdóttir
Jórunn Frímannsdóttir Þorleifur Gunnlaugsson