Velferðarráð - Fundur nr. 195

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2012, fimmtudaginn 11. október var haldinn 195. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.20 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Bjarnveig Magnúsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna; Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar komu Kristján Ágúst Njarðarson og Laufey Böðvarsdóttir frá búsetukjarnanum á Dalbraut og afhentu fundarmönnum tímaritið Hugviljann sem gefið er út af fimmtán áfangaheimilum og búsetukjörnum Reykjavíkurborgar fyrir fatlað fólk.

1. Lagt fram til kynningar framlengt samkomulag Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Áss- styrktarfélags, dags. 26. september 2012, um þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík.

2. Lagður fram til samþykktar samningur Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Áss - styrktarfélags um þjónustu við fatlað fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir. Ennfremur lagt fram minnisblað Velferðarsviðs um samningsgerð og þjónustusamning við Ás - styrktarfélag.
Jóna Rut Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á Velferðarsviði kom á fundinn og kynnti samninginn.
Samþykkt samhljóða. Vísað til borgarráðs.

3. Fjölsmiðjan; tilnefning í stjórn.
Formaður velferðarráðs lagði til að Heiða Kristín Helgadóttir yrði kjörin í stjórn Fjölsmiðjunnar.
Samþykkt samhljóða.

4. Kynnt bókhaldsstaða janúar – júlí 2012.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

5. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – júlí 2012.

6. Gjaldskrár;
a) Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á gjaldskrá í heimaþjónustu ásamt breytingartillögu.
Formaður gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar gjaldskrárstefnunefndar, Félags eldri borgara og Öryrkjabandalags Íslands.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Tillaga að breytingu á gjaldskrá var borin upp til atkvæða og samþykkt svo breytt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í velferðarráði sitja hjá við afgreiðslu á hækkun gjaldskrár í heimaþjónustu í ljósi þess að hækkað er umfram almennar verðlagshækkanir og borið við að viðmið um gjald á klukkustund skuli miðast við 50#PR af kostnaði við virka vinnustund í heimaþjónustu á ársgrundvelli. Nauðsynlegt hlýtur að vera að skoða grundvöll þess að kostnaður við virka vinnustund hafi hækkað umfram almennar hækkanir verðlags en hækka ekki sjálfkrafa á móti kostnaðaraukningu.

b) Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar gjaldskrárstefnunefndar, Sjálfsbjargar og Öryrkjabandalags Íslands.

Tillagan var felld með sex samhljóða atkvæðum.

Tillaga um breytingu á gjaldskrá var borin upp til atkvæða og samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

c) Lögð fram leiðrétt tillaga að breytingu á gjaldskrá Foldabæjar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar gjaldskrárstefnunefndar, Félags eldri borgara og Félags aðstandenda alzheimersjúklinga.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Tillaga um breytingu á gjaldskrá var borin upp til atkvæða og samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ekki er samþykkt að fara í samráð hagsmunaaðila vegna gjaldskrárhækkana vegna þess að þær breytingar sem gerðar er á gjaldskrám eru einungis verðlagsbreytingar að meðaltali um 5.6#PR. Engar aðrar breytingar eru gerðar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eðlilegt er að gjaldskrár hækki í samræmi við verðlagshækkanir en skoða þarf sérstaklega forsendur hækkana í gjaldskrá heimaþjónustu.
Faglegra er að gjaldskrárhækkunum staðið með því að horfa á þær heildstætt í stað þess að hvert svið skoði aðeins sinn hluta gjaldskrárinnar, þannig má koma í veg fyrir misræmi milli sviða eins og upp kom á síðasta ári. Betra er þannig að gjaldskrárhækkunartillögur sviða fari allar inn á borð gjaldskrárstefnunefndar áður en þær koma til afgreiðslu í fagráðum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði telur það sjálfsagt að gjaldskrárhækkanir fari til umsagnar hagsmunaaðila. Slíkt er í anda þess notendasamráðs sem meirihlutinn stærir sig af á tyllidögum. Ekki er síður ástæða til að tillögur sem þessar fari til meðferðar starfandi gjaldskrárstefnunefndar sem á að vera til þess bær að forgangsraða í gegnum gjaldskrár.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fram kom við afgreiðslu gjaldskráa á síðasta fundi velferðarráðs þá mun gjaldskrárstefnuhópur yfirfara allar gjaldskrár fyrir lokaafgreiðslu fjárhagsáætlunar í borgarstjórn.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er undarlegt að meirihluti velferðarráðs skuli ekki átta sig á því hvað það er önugt að samþykkja gjaldskrár sem eiga eftir að fara til meðferðar til þess bærrar nefndar.

7. Lögð fram drög að starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir 2013.
Skrifstofustjóri velferðarmála kynnti drögin.

Heiða Kristín Helgadóttir vék af fundi kl. 14.45.
Elsa Hrafnhildur Yeoman tók sæti á fundinum kl. 14.50.

8. Lögð fram framvinda starfsáætlunar Velferðarsviðs fyrir árið 2012.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

9. Lögð fram drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) ásamt minnisblaði Velferðarsviðs.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Stella K. Víðisdóttir tók sæti á fundinum kl. 15.30.

Málinu er frestað.

10. Betri Reykjavík; Lögð fram að nýju tillaga frá samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. júlí 2012, um sprautunálabakka inn í hverfin.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hefur skoðað hugmyndina um sprautunálbox í hverfi borgarinnar og þakkar fyrir hana. Velferðarsvið hefur lokið rannsókn á fjölda og högum utangarðsfólks og samkvæmt starfsáætlun Velferðarsviðs verður unnið að gerð stefnu í málefnum utangarðsfólks á árinu 2012 þar sem m.a. verður gert mat á forgangsröðun verkefna í þágu utangarðsfólks. Stefnan verður unnin í samvinnu við fagaðila og notendur. Nú er ljóst að ákveðin útfærsla af umræddri hugmynd er í undirbúningi hjá Rauða krossinum í Reykjavík. Fylgst verður með hvernig til tekst með verkefnið hjá Rauða krossinum.

11. Betri Reykjavík; Lögð fram tillaga frá samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. ágúst s.l. um að efla „Vesturbæinn okkar“ sem öflugt hverfisfélag.
Velferðarráð samþykkti að vísa málinu til hverfisráðs Vesturbæjar.

12. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks frá fundi velferðarráðs þann 1. október s.l:
Fulltrúi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. leggur til að gjaldskrár sem varða eldri borgara og öryrkja og voru samþykktar af meirihluta velferðarráðs í dag fari til umsagnar Félags eldri borgara, Félags aðstandenda alzheimersjúklinga og Öryrkjabandalags Íslands.

Formaður velferðarráðs lagði til að tillögunni yrði vísað frá.
Tillaga um frávísun var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Sveinn H. Skúlason vék af fundi kl. 15.47.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ekki er samþykkt að fara í samráð hagsmunaaðila vegna gjaldskrárhækkana vegna þess að þær breytingar sem gerðar er á gjaldskrám eru einungis verðlagsbreytingar að meðaltali um 5.6#PR. Engar aðrar breytingar eru gerðar.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði telur það sjálfsagt að gjaldskrárhækkanir fari til umsagnar hagsmunaaðila. Slíkt er í anda þess notendasamráðs sem meirihlutinn stærir sig af á tyllidögum. Ekki er síður ástæða til að tillögur sem þessar fari til meðferðar starfandi gjaldskrárstefnunefndar sem á að vera til þess bær að forgangsraða í gegnum gjaldskrár.

13. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð óskar eftir að áfram verði unnið markvisst að því að fækka fólki á fjárhagsaðstoð og auka þannig lífsgæði þeirra. Langvarandi og neikvæð áhrif eru fylgjandi því að vera óvirkur notandi fjárhagsaðstoðar. Því er mikilvægt að styðja fólk til að verða ekki að langtíma notendum.
Til að ná þessu marki óskar velferðarráð eftir tillögum Velferðarsviðs um það hvernig megi frekar setja skilyrði við því að þiggja fjárhagsaðstoð svo fólk sem ætti að geta verið virkt á vinnumarkaði eða í námi geti bætt lífsskilyrði sín til skemmri og lengri tíma. Einnig er tekið við tillögum um ný úrræði sem gætu náð fólki af fjárhagsaðstoð og út í virkni á vinnumarkaði og í nám.
Velferðarsvið kortleggi þá hópa sem líklegastir eru til að geta komist til virkni og sjálfbjargar. Tillögur komi að breytingum á reglum sem þurfa eða geta breyst til að greiðslur nýtist betur skjólstæðingum og óþarfa greiðslur verði afnumdar, séu þær fyrir hendi. Sett verði markmið um að ákveðinn fjöldi fari af fjárhagsaðstoð fyrir mitt ár 2013 og eða þiggi önnur úrræði.
Leitað verði til starfsmanna á þjónustumiðstöðvum sem sinna fjárhagsaðstoðarmálum um hugmyndir að frekari skilyrðingum og breytingum á reglum.
Málinu er frestað.

14. Lögð fram skilagrein stýrihóps um vinnumarkaðsmál varðandi fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi atvinnumála hjá Reykjavíkurborg.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

Fundi slitið kl. 16.15

Björk Vilhelmsdóttir

Elsa Hrafnhildur Yeoman Sverrir Bollason
Bjarnveig Magnúsdóttir Jórunn Frímannsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson