Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2012, fimmtudaginn 6.september var haldinn 191. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Sverrir Bollason, Páll Hjalti Hjaltason, Áslaug María Friðriksdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Birna Sigurðardóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 21.ágúst s.l. þess efnis að Páll Hjalti Hjaltason taki sæti Diljár Ámundadóttur og að Sverrir Bollason taki sæti Bjarna Karlssonar í velferðarráði.
2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. í dag þess efnis að Jórunn Frímannsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Geirs Sveinssonar og að Ingibjörg Óðinsdóttir taki sæti Jórunnar sem varamaður í velferðarráði.
3. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – júní 2012.
Velferðarráð óskaði eftir eftirfarandi upplýsingum:
Í lykiltölum kemur fram að notendum með frekari liðveislu hefur fækkað um 29#PR milli áranna 2012 og 2011 en kostnaður hefur aukist um 19#PR. Ennfremur hefur notendum með liðveislu, tilsjón og persónulegan ráðgjafa fækkað um tæp 14#PR, en kostnaður aukist um 17#PR. Í heimahjúkrun hefur fjöldi notenda aukist um 3.3#PR en kostnaður aukist um 27.4#PR. Óskað er skýringa á hækkunum á einingarverði í þessum þjónustuþáttum.
4. Fjárhagsáætlun 2013.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu og lagði fram vinnugögn.
5. Kynnt 6 mánaða bókhaldsstaða.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
6. Lagt fram bréf Geðverndarfélags Íslands dags. 18. maí sl. varðandi beiðni um styrk til rekstrar áfangaheimilisins að Álfalandi 15.
Samþykkt samhljóða að veita styrk vegna ársins 2012 í samræmi við reglur um styrki til áfangaheimila.
7. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 8.júní sl. þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs um tillögur vinnuhóps Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um sameiginlegt útboð sveitarfélaganna á akstri vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Ennfremur lögð fram drög að umsögn velferðarráðs. Jafnframt er lagt fram minnisblað frá Sjálfsbjörgu - landssambandi fatlaðra til fulltrúa í velferðarráði dags. 4. september 2012.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu :
Í samræmi við óskir Sjálfsbjargar leggur velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna til að umsögn velferðarráðs verði frestað og metin í ljósi þess að framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks er ætlað að byggja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hafið verði víðtækt samráð við hagsmunasamtök um þróun þjónustunnar. Á meðan verði fyrirhuguð áform um útboð ferðaþjónustu fatlaðs fólks lögð til hliðar og gerð könnun á þeirri þjónustu sem nú er veitt og efnt til umræðu um hvort ekki sé nú rétt að líta svo á að ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk eigi að vera hluti af almenningssamgöngum.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar fyrir bréf Sjálfsbjargar - landsambands fatlaðra, varðandi hugmyndir um útboð á ferðaþjónustu fatlaðra. Málið hefur verið lengi í skoðun með fulltrúum notenda þar sem vilji hefur verið til að bæta þjónustuna m.a. með útboðsgerð sé þess þörf.
Velferðarráð vill vinna að þjónustu í samræmi við samning Sameinuðu Þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Þess vegna vill velferðarráð þróa þjónustuna í takt við þarfir notenda m.a. með því að hægt sé að panta ferðir samdægurs og þjónustan sé sveigjanlegri. Notendur þurfa að vera með í ráðum við gerð útboðsgagna þar sem þjónustuviðmið eru skilgreind.
Velferðarráð leggur áherslu á þau sjálfsögðu mannréttindi fatlaðs fólks og allra að almenningssamgöngur eigi að vera aðgengilegar öllum.
Svohljóðandi umsögn var borin upp til atkvæða .
Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur verið tilbúið að skoða útboð í ferðaþjónustu fatlaðra ef það leiðir til betri og eða a.m.k. sambærilegrar þjónustu fyrir notendur þjónustunnar þannig að hægt sé að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi eins og markmiðið er og að það sé hagkvæmara fyrir borgina. Markmiðið er m.a. að notendur geti pantað ferðir samdægurs. Nú leggur starfshópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að farið verði í sameiginlegt en svæðisbundið útboð, að eitt þjónustuver sinni öllu höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögin samræmi reglur sínar fyrir árið 2014. Þessar tillögur byggja á þeirri niðurstöðu að möguleiki sé til hagræðingar sem skapi tækifæri til að bæta þjónustuna.
Nýjum leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins um ferðaþjónustu fatlaðs fólks er ætlað að stuðla að samræmingu reglna milli sveitarfélaga og þjónustusvæða. Það er því eðlilegt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samræmi reglur sínar fyrir 1. feb. 2014 eins og lagt er til. Velferðarráð er enn þeirrar skoðunar að bjóða megi út þjónustuna sé það tryggt að hún verði a.m.k. jafn góð og hún er í dag og það fé sem næst fram með hagræðingu verði nýtt til að bæta þjónustuna. Skoða má hvort bjóða megi upp á mismunandi þjónustustig þannig að fólk geti valið þjónustu og um leið kostnaðarþátttöku sína. Þá bendir velferðarráð á að utanumhald þjónustunnar geti verið á hendi hagsmunaaðila eins og góð reynsla er af í Ferðaþjónustu blindra.
Mikilvægt er að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinni málið þannig að sátt sé um ferðaþjónustuna við notendur og hagsmunasamtök þeirra.
Umsögnin var samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga Vinstri grænna að umsögn.:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur að ferðaþjónusta fatlaðra eigi að tilheyra almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins og flokkast sem jafn sjálfsagður kostur og almenningssamgöngur fyrir aðra. Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna verður aðeins þannig unnið gegn samfélagi aðskilnaðar .
Það er jafnframt óyggjandi að sinni almannafyrirtækið Strætó bs. þessari þjónustu skapa samlegðaráhrif mestu mögulegu hagræðingarmöguleika þar sem um stærsta almenningsvagnafyrirtæki landsins er að ræða.
Því má ekki gleyma að Strætó bs. er sameign íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það ber einnig að hafa í huga að sinni Strætó bs. þjónustu við fatlaða sem aðra mun hvatinn til að gera vagnana aðgengilega verða mun meiri en ella.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna harmar umsögn meirihluta velferðarráðs um tillögu starfshóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um útboð á ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Tillaga SSH gengur út á það að ferðaþjónusta fyrir fatlaða verði boðin út á starfssvæði samtakanna en um er að ræða Reykjavík, Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ, Álftanes, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu reka byggðasamlagið Strætó. Meginhlutverk þess er að veita þjónustu á sviði almenningssamgangna. „Undir þetta hlutverk fellur rekstur almenningsvagna (strætó), ferðaþjónusta fatlaðra og ferðaþjónusta eldri borgara#GL eins og segir á heimasíðu samlagsins. Það er ljóst að Byggðasamlag ofantaldra sveitarfélaga skilgreinir ferðaþjónustu fatlaðra og eldri borgara sem hluta af almenningssamgöngum. Í þessu felst væntanlega sú hugsun að almenningssamgöngur séu grunnþjónusta fyrir alla, án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðanna, kynferðis, kynhneigðar, efnahags, ætternis, heilsufars, fötlunar eða aldurs.
Á síðasta fundi ráðsins lýsti fulltrúi Vinstri grænna sig ósammála meirihlutanum og bókaði það álit að ferðaþjónusta fatlaðra eigi að tilheyra almenningssamgöngum. Umrædd þjónusta eigi að vera fyrir fatlaða íbúa höfuðborgarsvæðisins jafn sjálfsagður kostur og almenningssamgöngur fyrir aðra. Það liggi í augum uppi að ef Strætó bs. annast þessa þjónustu þá hljóti það að skapa meiri hagræðingu en aðrir kostir gætu gert, þar sem um stærsta almenningsvagnafyrirtæki landsins er að ræða. Strætó bs. er sameign íbúa höfuðborgarsvæðisins og fulltrúar almennings í stjórn byggðasamlagsins gætu tryggt að hagsmunum fatlaðra yrði vel gætt í rekstri þess. Sinni Strætó bs. þjónustu við fatlaða mun hvatinn til að gera almennu vagnana aðgengilega jafnframt verða meiri og vonandi leiða til þess að minna þurfi að bregðast við sérþörfum.
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna hvetur kjörna fulltrúa, samtök fatlaðra og mannréttindasinna vítt og breitt til að beita sér gegn þessum frjálshyggjuhugmyndum um útvistun á grunnþjónustu og segja nei við samfélagi aðskilnaðar á höfuðborgarsvæðinu.
Velferðarráð fól Velferðarsviði að svara erindi Sjálfsbjargar og að hafa samráð við samtökin eins og verið hefur.
8. Lögð fram eftirfarandi tillaga um nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks;
Í samræmi við starfsáætlun Velferðarsviðs árið 2012 er lagt til að skipaður verði starfshópur sem vinni að gerð nýrrar stefnu í málefnum utangarðsfólk.. Hópurinn verði skipaður fjórum fulltrúum, einum frá hverjum flokki. Starfsmaður hópsins kemur frá skrifstofu Velferðarsviðs. Greinargerð fylgir.
Tillagan var samþykkt samhljóða
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar skipan starfshóps um nýja stefnu í málefnum utangarðsfólks. Í greinargerð er gerð nánari grein fyrir verkefnum hópsins. Þar er ekki getið um skilgreiningu á mannréttindum utangarðsfólks sem mannréttindaráð samþykkti 29. maí sl. Fulltrúi Vinstri grænna leggur því til að henni verði vísað til vinnu hópsins.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
9. Lagður fram tölvupóstur frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. júní sl. þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs um skýrslu starfshóps frá 29. maí sl. um skilgreiningu á mannréttindum utangarðsfólks. Ennfremur lögð fram umsögn Velferðarsviðs sbr. bókun velferðarráðs frá 21. júní sl.
Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Vinstri grænna að umsögn frá 21. júní sl og hún borin upp til atkvæða.
Velferðarráð fagnar því að mótaður hafi verið rammi sem verður leiðarljós í allri þjónustu borgarinnar við utangarðsfólk og mælir með því að borgarráð samþykki hann. Velferðarráð vekur þó athygli borgarráðs á því að ekki er reiknað með auknum kostnaði vegna þessa í fjárhagsáætlun ráðsins
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.
Umsögn fulltrúa Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins var borin upp til atkvæða.
Velferðarráð fagnar því að mótaður hafi verið rammi sem verður leiðarljós í allri þjónustu borgarinnar við utangarðsfólk. Velferðarráð vekur þó athygli borgarráðs á því að ekki er reiknað með auknum kostnaði vegna þessa í fjárhagsáætlun ráðsins til að mæta auknu samráði, samvinnu þjónustumiðstöðva og eftirliti 3ja aðila. Stefnumótun sem nú er að fara fram mun taka á þessum atriðum og verður leitað fjármags í samræmi við það.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Mannréttindaráð skipaði í vetur, starfshóp fulltrúa úr öllum flokkum til að skilgreina mannréttindi utangarðsfólks. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði sem átti sæti í hópnum getur vottað vandaða og faglega vinnu hópsins enda var niðurstaðan einróma og engar sérbókanir voru lagðar fram. Það sama átti við um mannréttindaráð sem allt samþykkti skýrsluna 29. maí sl. og vísaði henni síðan til borgarráðs til samþykktar. Tillagan hefur ekki enn verið lögð fyrir borgarráð heldur vísaði skrifstofa borgarstjórnar henni til umsagnar velferðarráðs þann 12. júní sl.
Þann 21. júní sl. var erindið tekið fyrir í ráðinu. Þar var samþykkt tillaga meirihlutans um að óska eftir umsögn Velferðarsviðs um málið en fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn velferðarráðs: „Velferðarráð fagnar því að mótaður hafi verið rammi sem verður leiðarljós í allri þjónustu borgarinnar við utangarðsfólk. Velferðarráð vekur þó athygli borgarráðs á því að ekki er reiknað með auknum kostnaði vegna þessa í fjárhagsáætlun ráðsins.#GL
Nú, 6. september, tæpum þremur mánuðum eftir að skrifstofa borgarstjórnar vísaði erindinu til velferðarráðs er það tekið til afgreiðslu í ráðinu og tillögu Vinstri grænna hafnað. Meirihluti velferðaráðs bókar óljóst og byggir væntanlega afstöðu sína á umsögn sviðsins sem andsnúið er kvöðum um óháð eftirliti með þjónustu við utangarðsfólk og andmælir kvöðum um aukið samstarf við það.
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna hvetur borgarráð til að hafa umsögn Velferðarsviðs að engu heldur samþykkja vandaða skilgreiningu mannréttindaráðs á mannréttindum utangarðsfólks. Þessu til stuðnings eru sett fram eftirfarandi andmæli gegn umsögn Velferðasviðs:
1. Andmæli Velferðarsviðs varðandi eftirlit þriðja aðila og gagnrýni þess efnis að ekki komi „fram í tillögunni hvernig sú fjármögnun skuli vera#GL er ósanngjörn. Ekki hefur tíðkast við samþykkt mannréttinda að greina öll hugsanleg verkefni sem upp koma með tilliti til kostnaðar og minnt er á að mannréttindastefna borgarinnar sem samþykkt var árið 2006 var ekki kostnaðarmetin, né heldur samþykkt um umboðsmann borgargbúa.
2. Tilvitnun Velferðarsviðs í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir að „allir borgarbúar njóti jafns réttar.#GL og fullyrðing sviðsins um að „ekki verður séð að forsendur séu til að hafa það eftirlit með öðrum hætti gagnvart þessum hópi en öðrum#GL er ómálefnaleg. Ýmsir minnihlutahópar eru varðir með lögum og reglum sem kalla á óháð eftirlit og má þar nefna jafnréttislög, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og lög um réttindi fatlaðra.
3. Þeirri fullyrðingu Velferðarsviðs að af hálfu starfshóps mannréttindaráðs hafi ekki verið „færð fram sérstök rök fyrir því að hafa eftirlitið með þessum hætti gagnvart þessum hóp#GL er vísað til föðurhúsanna. Í fyrstu málsgrein tillagna hópsins segir „bág mannréttindastaða utangarðsfólks skapast af fjölþættum heilbrigðisvanda sem hefur í för með sér alvarlegar félagslegar afleiðingar.#GL Þessi staða hópsins endurspeglast í allri skýrslunni. Þess utan er það undarlegt að fagfólk sem unnið hefur með umræddum einstaklingum þurfi að fá nákvæma útlistun á nauðsyn þess að fólk sem er alvarlega veikt, flest með fíknisjúkdóma á háu stigi og margt haldið öðrum geðrænum sjúkdómum, á sér fáa talsmenn og getur varla sjálft borið hönd yfir höfuð sér þurfi á sérstakri vernd að halda. Einnig er minnt á skýrslur sem sýna vonda meðferð á viðkomandi einstaklingum.
4. Andstaða sviðsins við að kveðið sé á um aukið samstarf við utangarðsfólk er með ólíkindum. Á öllum sviðum stjórnsýslunar er verið að vinna að auknu notendasamráði og síðast á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn var samþykkt að stofna Öldungaráð. Skemmst er að minnast nýrra sveitarstjórnarlaga þar sem kveðið er á um stóraukið íbúalýðræði. Getur verið að Velferðarsvið telji utangarðsfólk ekki til íbúa?
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Túlkun fulltrúa Vinstri grænna um umsögn Velferðarsviðs og þá sérstaklega ábending hans um að sviðið hafi gert lítið úr samvinnu og notendasamráði við utangarðsfólk er furðuleg, enda snýst ábending sviðsins ekki um annað en að benda á að velferðarráð forgangsraðar þjónustu við utangarðsfólk í sérstakri stefnumótun. Einnig telja fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar furðulegt að túlka ábyrgar og gagnsæjar ábendingar sviðsins um fyrirhugaðan kostnaðarauka sem felast í sjálfsagðri og réttmætri stefnu mannréttindaráðs sem kvaðir sem sviðið er andsnúið. Það er einfaldlega ekki þannig og snýst bara um rangtúlkun fulltrúa Vinstri grænna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna gerði ekki annað en að vitna í umsögn Velferðarsviðs og tilvitnanir eru orðréttar. Best væri að umsögnin yrði birt í heild sinni í fundargerð ráðsins lesendum til glöggvunar. Fulltrúi Vinstri grænna bendir á að um er að ræða opinbert gagn sem á að vera aðgengilegt þeim sem um biðja. Í þessari umræðu er það hins vegar aðalatriðið að skrifstofa borgarstjórnar bað velferðarráð um umsögn vegna skilgreiningar mannréttindaráðs. Má túlka bókun meirihlutans svo að hann leggi til að borgaráð samþykki skilgreininguna eins og hún var lögð fram af mannréttindaráðinu án fyrirvara?
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Starfsfólk Velferðarsviðs leggur metnað sinn í að þróa og bæta þjónustu við utangarðsfólk eins og hefur sannast á undanförnum áratug með stórauknum úrræðum til þessa notendahóps. Það hefur verið leiðarljós sviðsins að hafa samráð við utangarðsfólk um þróun þjónustunnar þannig að hún sé í samræmi við þarfir notenda hverju sinni. Samvinna við mannréttindaráð og Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar er mikilvæg og sjálfsögð, en jafn sjálfsagt er að Velferðarsvið bendi á að hvorki sé komið fjármagn né hafi velferðarráð forgangsraðað þjónustu við utangarðsfólk með þeim hætti sem gerð er í skýrslunni um skilgreiningu á mannréttindum utangarðsfólks. Ekki er ástæða til að bóka frekar um rangtúlkanir fulltrúa Vinstri grænna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri óskaði eftir því að fá að birta umsögn sviðsins í bókun en því var hafnað. Það er hinsvegar svo að ekki er um að ræða rangtúlkanir og ekki hafa verið bornar brigður á að tilvitnanir í umsögn sviðsins séu réttar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að velferðarráð fái rými til að endurskoða stefnumótun um málefni utangarðsfólks eins og til stendur og skoða þar betur hvernig hægt er að taka tillit til þeirra þátta sem í skýrslunni eru. Eins og fram kemur þar er það staðreynd að fyrst og fremst er um heilbrigðisvanda að ræða. Heilbrigðismál eru málefni ríkisins en ekki sveitarfélaganna, kostnaður vegna þessa vandamáls ætti því að koma úr ríkissjóði fyrst og fremst. Ítrekað hafa sjálfstæðismenn bent á mikilvægi þess að Reykjavíkurborg taki ekki að sér verkefni ríkisins, eins og tilhneiging hefur verið til, nema búið sé að semja þar um áður.
10. Lögð fram drög að samningi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Hjúkrunarheimilisins Eirar um þjónustu í Eirborgum og leigu á íbúðum.
Drögin voru samþykkt samhljóða. Vísað til borgarráðs.
11. Lögð fram drög að samningi Velferðarsviðs og Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúkra (FAAS) um dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun.
Drögin voru samþykkt samhljóða. Vísað til borgarráðs.
12. Lögð fram að nýju drög að samningi Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Ásgarðs handverksstæðis um dagþjónustu og verndaða vinnu í Ásgarði.
Drögin voru samþykkt samhljóða. Vísað til borgarráðs.
13. Lagt fram bréf frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags. 2. júlí sl. þar sem tillögu frá samráðsvefnum Betri Reykjavík um „Léttskipulagt flóttamannaþorp fyrir útigangsfólk“ er vísað til velferðarráðs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hefur skoðað hugmyndina um léttskipulagt #GLflóttamannaþorp#GL fyrir #GLútigangsfólk#GL og þakkar fyrir hana. Verið er að veita margháttaða þjónustu við utangarðsfólk á nóttu sem degi. Velferðarráð bendir á að Velferðarsvið er að ljúka rannsókn á fjölda og högum utangarðsfólks og samkvæmt starfsáætlun Velferðarsviðs verður unnið að gerð stefnu í málefnum utangarðsfólks á árinu 2012 þar sem m.a. verður gert mat á forgangsröðun verkefna í þágu utangarðsfólks. Stefnan verður unnin í samvinnu við fagaðila og notendur. Þessi hugmynd er vel þegin inn í þá vinnu og mun vera metin ítarlega þar.
14. Lögð fram tillaga frá samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 31. júlí 2012 um Sprautunálabakka inn í hverfin“.
Málinu er frestað.
15. Lagt fram til kynningar framlengt samkomulag Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Áss- styrktarfélags, dags. 26. júní 2012, um þjónustu við fatlað fólk í Reykjavík.
16. Lagður fram til kynningar samningur Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands um hjúkrun í heimahúsum.
17. Lagt fram til kynningar framlengt samkomulag Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytiisins og SÁÁ um rekstur á búsetuúrræðinu Vin dags. 4. júlí 2012.
18. Lagt fram til kynningar bréf velferðarráðuneytisins dags. 18. júní sl. um frestun gildistöku laga um tilfærslu á stofnunum fyrir börn frá sveitarfélögum til ríkis. Ennfremur lagt fram bréf Velferðarsviðs dags. 14. maí 2012 um rekstur stofnana fyrir börn á vegum Reykjavíkurborgar og minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 16. maí sl. um tillögu að frestun á gildistöku tiltekinna ákvæða barnaverndarlaga.
Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 15.25.
19. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Nýtt verklag var innleitt varðandi framkvæmd á 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar sumarið 2011 en 3. gr. er tæki Reykjavíkurborgar til að lækka grunnfjárhæð hafi umsækjandi hafnað atvinnu og eða hafnað þátttöku í átaksverkefni.
Í breyttu verklagi fólst að bjóða skuli umsækjendum um fjárhagsaðstoð úrræði (átaksverkefni, starfsþjálfun, námskeið) sem standa að lágmarki yfir í 3-4 vikur og talin eru vera viðkomandi til hagsbóta, s.s. úrræði á vegum VMST eða Virknisjóðs borgarinnar. Mat á starfsgetu einstaklingsins þarf að liggja fyrir áður en ákveðið er að fara þessa leið og þá ber að líta til atriða eins og vinnusögu viðkomandi, líkamlegs og andlegs heilsufars og félagslegrar sögu. .
Spurt er:
1. Hver er árangurinn af nýju verklagi?
a. Hefur fjölgað þeim tilfellum þar sem 3. gr. er beitt
b. Hafa aðstæður þeirra sem ákvæðinu er beint að, breyst til hins betra eða verra?
2. Hverjar eru fyrstu niðurstöður nýs matstækis þar sem notendur meta eigin starfsgetu?
20. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um biðlista vegna búsetuúrræða fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Æskilegt væri að listinn verði flokkaður eftir mati á því hversu mikil neyð er til staðar.
Fundi slitið kl. 15.53
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Sverrir Bollason
Páll Hjalti Hjaltason Áslaug María Friðriksdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson