Velferðarráð - Fundur nr. 190

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2012, fimmtudaginn 21. júní var haldinn 190. fundur s og hófst hann kl. 13.00 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Diljá Ámundadóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Birna Sigurðardóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram tillaga samráðshóps um forvarnir um styrkúthlutun úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur. Ennfremur lagðar fram til kynningar afgreiðslur hverfisráða Vesturgarðs, Hlíða, Laugardals, Háaleitis-Bústaða, Árbæjar og Grafarvogs á styrkumsóknum úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur.
Stefanía Sörheller, verkefnastjóri, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

Lögð fram eftirfarandi breytingartillaga fulltrúa Vinstri grænna:

Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að í stað þess að styrkja sumarbúðir KFUM um 300.000 kr. verði verkefni SÁÁ, „Fullorðin börn alkóhólista“ styrkt um sömu upphæð. Einnig er lagt til að verkefnið Alþjóðlegur Kvennakór verði styrkt um 200.000. kr.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Aðaltillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans geta ekki orðið við þessari breytingartillögu þar sem við fylgjum tillögu forvarnarnefndar sem byggir starf sitt á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar sem er fyrir aldurshópinn 0-20 ára.

2. Lögð fram að nýju niðurstaða innkauparáðs vegna Gistiskýlis.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúum Samfylkingarinnar og Besta flokksins í velferðarráði þykir miður að Velferðarsvið hafi ekki fylgt innkaupareglum Reykjavíkurborgar við gerð samnings um rekstur Gistiskýlisins í Þingholtsstræti. Því er hins vegar hafnað að um spillingu hafi verið að ræða og/ eða meðvitaða ákvörðun að fara á svig við reglur. Það er ekki vilji Velferðarsviðs að gera mistök í innkaupaferli, heldur semja á grundvelli innkaupareglna borgarinnar. Innkauparáð borgarinnar telur þessa framkvæmd ámælisverða eins og fram kemur í bókun ráðsins en taldi ekki ástæðu til íhlutunar. Undir það taka fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins, enda hefur Velferðarsvið gert grein fyrir þeim viðhorfum sem lágu að baki því að ekki var auglýst eftir áhugasömum um rekstur Gistiskýlisins í svari við fyrirspurn Vinstri grænna sem lagt var fram í ráðinu 26. apríl sl. Hins vegar er afar mikilvægt að innkaupareglum verði fylgt í hvívetna í framtíðinni og verður Velferðarsvið í náinni samvinnu við Innkaupaskrifstofu til að tryggja það.

3. Notendastýrð persónuleg aðstoð; Lögð fram tillaga um fyrstu skref vegna tilraunaverkefnisins NPA.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Það er ánægjuefni að sjá nú fram á fyrstu skrefin í tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð, sem margir notendur bíða spenntir eftir. Í sumar verður auglýst eftir þátttakendum í verkefnið og vonandi verða reglur borgarinnar um þetta tilraunaverkefni samþykktar í ágúst en þær munu byggja á handbók um NPA og leiðbeinandi reglum um NPA sem nú eru í lokavinnslu á vegum velferðarráðuneytisins. Þjónustumiðstöðvar borgarinnar eru nú að setja sig í startholurnar við að veita leiðbeiningar um NPA og verið er að skipa sérfræðihóp sem hefur umsjón með framkvæmd verkefnisins.
Velferðarráð telur afar mikilvægt að nú þegar verði útfært notendasamráð um NPA. Samráðið taki bæði til þeirra sem taka þátt í verkefninu og eins hinna sem ekki sjá sér fært að taka þátt í tilrauninni en þurfa umtalsverða persónulega aðstoð. Þá er samráð við hagsmunasamtök notenda mikilvægt á meðan þjónustan er þróuð og metin á tilraunatímabilinu þannig að reynslan skili sér til framtíðar bæði til notenda, hagsmunasamtaka þeirra sem og framkvæmdaraðila.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um það hverjir koma til með að sitja í umræddum sérfræðihópi og hvort það verði tryggt að þeir sérhæfi sig í hugmyndafræði notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og úrlausnum hennar.

4. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 7. júní sl. varðandi notendastýrða persónulega aðstoð.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna þakkar svörin en leggur áherslu á að samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna má ekki mismuna fólki eftir búsetu.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 8.júní sl. þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs um tillögur vinnuhóps SSH um sameiginlegt útboð sveitarfélaganna á akstri vegna ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi drög að umsögn velferðarráðs:

Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur verið tilbúið að skoða útboð í ferðaþjónustu fatlaðra ef það leiðir til betri þjónustu fyrir notendur þjónustunnar þannig að hægt sé að efla vald fatlaðs fólks yfir aðstæðum sínum og lífi eins og markmiðið er og að það sé hagkvæmara fyrir borgina. Nú leggur starfshópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að farið verði í sameiginlegt en svæðisbundið útboð, að eitt þjónustuver sinni öllu höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögin samræmi reglur sínar fyrir 2014. Þessar tillögur byggja á þeirri niðurstöðu að möguleiki sé til hagræðingar sem skapi tækifæri til að bæta þjónustuna.
Nýjar leiðbeinandi reglur velferðarráðuneytisins um ferðaþjónustu fatlaðs fólks er ætlað að stuðla að samræmingu reglna milli sveitarfélaga og þjónustusvæða. Það er því eðlilegt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samræmi reglur sínar fyrir 1. feb. 2014 eins og lagt er til. Velferðarráð er enn þeirrar skoðunar að bjóða megi út þjónustuna sé það tryggt að hún verði a.m.k. jafn góð og hún er í dag og það fé sem næst fram með hagræðingu verði nýtt til að bæta þjónustuna. Skoða má hvort bjóða megi upp á mismunandi þjónustustig þannig að fólk geti valið þjónustu og um leið kostnaðarþátttöku sína. Þá bendir velferðarráð á að utanumhald þjónustunnar geti verið á hendi hagsmunaaðila eins og góð reynsla er af í Ferðaþjónustu blindra.
Mikilvægt er að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinni málið þannig að sátt sé um ferðaþjónustuna við notendur og hagsmunasamtök þeirra.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi drög að umsögn velferðarráðs:

Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur að ferðaþjónusta fatlaðra eigi að tilheyra almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins og flokkast sem jafn sjálfsagður kostur og almenningssamgöngur fyrir aðra. Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna verður aðeins þannig unnið gegn samfélagi aðskilnaðar .
Það er jafnframt óyggjandi að sinni almannafyrirtækið Strætó bs. þessari þjónustu skapa samlegðaráhrif mestu mögulegu hagræðingarmöguleika þar sem um stærsta almenningsvagnafyrirtæki landsins er að ræða.
Því má ekki gleyma að Strætó bs. er sameign íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það ber einnig að hafa í huga að sinni Strætó bs. þjónustu við fatlaða sem aðra mun hvatinn til að gera vagnana aðgengilega verða mun meiri en ella.

Málinu er frestað til næsta fundar.

6. Lagður fram tölvupóstur frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. júní sl. þar sem óskað er eftir umsögn velferðarráðs um skýrslu starfshóps frá 29. maí sl. um skilgreiningu mannréttinda utangarðsfólks.
Velferðarráð samþykkti að óska eftir umsögn Velferðarsviðs um málið.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu að umsögn velferðarráðs:

Velferðarráð fagnar því að mótaður hafi verið rammi sem verður leiðarljós í allri þjónustu borgarinnar við utangarðsfólk og mælir með því að borgarráð samþykki hann. Velferðarráð vekur þó athygli borgarráðs á því að ekki er reiknað með auknum kostnaði vegna þessa í fjárhagsáætlun ráðsins.

Málinu er frestað til næsta fundar.

7. Lagt fram til kynningar minnisblað um Atvinnutorg, samstarfsverkefni Velferðarsviðs, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:

Velferðarráð er ánægt með árangur af Atvinnutorgi af fyrstu mánuðum starfseminnar. Nú eru 55 einstaklingar af 92 notendum sem vísað hefur við til Atvinnutorgs og metnir vinnufærir komnir í vinnu. Hins vegar er afar mikilvægt að velferðarráðuneytið standi við skuldbindingar sínar um að árangursmeta Atvinnutorgið þannig að tryggt verði áframhald verkefnisins.

8. Lagt fram til kynningar minnisblað um Virkniverkefni Velferðarsviðs.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
9. Kynnt bókhaldsstaða janúar til apríl 2012.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

10. Lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs og Ásgarðs-handverkstæðis um dagþjónustu og verndaða vinnu í Ásgarði, handverkstæði fyrir þjónustunotendur á þjónustusvæði Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar.

11. Lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs og Skóla- og frístundasviðs um atvinnutengt nám fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík.

12. Betri Reykjavík; Lögð fram efsta hugmynd þann 31. maí 2012 Betri aðbúnað fyrir útigangsfólk á nóttu sem á degi.

Velferðarráð samþykkt eftirfarandi bókunin með sex samhljóða atkvæðum.

Velferðarráð hefur skoðað hugmyndina um betri aðbúnað fyrir útigangsfólk á nóttu sem á degi og þakkar fyrir hana. Verið er að veita margháttaða þjónustu við utangarðsfólk á nóttu sem degi. Sjá nánar meðfylgjandi yfirlit yfir þjónustu sviðsins í þessum málaflokki. Velferðarráð bendir á að Velferðarsvið er að vinna rannsókn á fjölda og högum utangarðsfólks og samkvæmt starfsáætlun Velferðarsviðs verður unnið að gerð stefnu í málefnum utangarðsfólks á árinu 2012 þar sem m.a. verður gert mat á forgangsröðun verkefna í þágu utangarðsfólks. Stefnan verður unnin í samvinnu við fagaðila og notendur.

Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna og lagði fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúi Vinstri grænna fagnar almennri vitundarvakningu um vanda utangarðsfólks og styður eindregið allar tillögur sem stuðla að mannsæmandi aðbúnaði þess.

13. Lögð fram umsögn Velferðarsviðs um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá fundi velferðarráðs 7. júní varðandi úttekt á kostnaði sem Reykjavíkurborg ber vegna velferðarmála.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

14. Bjarna Karlsson og Geir Sveinsson er kvaddir með eftirfarandi bókun:

Eftir þennan góða fund velferðarráðs munu Bjarni Karlsson og Geir Sveinsson hætta störfum í ráðinu vegna annarra starfa sinna. Við sem eftir sitjum þökkum þeim fyrir einkar ánægjulegt samstarf og við munum sakna þessara góðu, afgerandi félaga og orðræðunnar sem þeim fylgir. Takk fyrir okkur.
Fundi slitið kl. 16.05

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Bjarni Karlsson
Diljá Ámundadóttir Jórunn Frímannsdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson