Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2012, miðvikudaginn 30. maí var haldinn 188. fundur s og hófst hann kl. 8.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Lóa Birna Birgisdóttir, Birna Sigurðardóttir, Sólveig Reynisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Betri Reykjavík: Lögð fram efsta hugmynd af Betri Reykjavík frá 30. apríl um heimili og stuðning við unga utangarðsmenn.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hefur skoðað hugmyndina um heimili og stuðning fyrir unga útigangsmenn og þakkar fyrir hana. Velferðarsvið er að vinna rannsókn á fjölda og högum utangarðsfólks og samkvæmt starfsáætlun Velferðarsviðs verður unnið að gerð stefnu í málefnum utangarðsfólks á árinu 2012 þar sem m.a. verður gert mat á forgangsröðun verkefna í þágu utangarðsfólks. Málefni ungs fólks verða að sjálfsögðu tekin til umfjöllunar þar með áherslu á að grípa inn og styðja ungt fólk sem á við þennan vanda að stríða. Stefnan verður unnin í samvinnu við fagaðila og notendur.
2. Kynnt árshlutauppgjör janúar til mars 2012.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Nú þegar væntingar hvað varðar útsvar standast ekki er bent á þær hættur sem skapast af því að semja við ríkið um yfirfærslu verkefna og tengja kostnað vegna þeirra við ákveðna prósentu að útsvari. Hættan fyrir sveitarfélögin er enn meiri þegar samningar eru ekki endurskoðaðir nema á 4 ára fresti. Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna þarf að hafa þetta í huga þegar samið verður við ríkið um meiri verkefnaflutninga og best færi á því að samið yrði um raunkostnað (fasta upphæð) og endurskoðun fari fram árlega.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur árshlutasuppgjör Velferðarsviðs. Ýmsar blikur eru á lofti. Ljóst er að launakostnaður fer verulega fram úr áætlunum enda hækkuðu laun vegna nýrra kjarasamninga verulega og þessi liður var vanáætlaður í áætlunum hjá borginni allri.
Fólki á fjárhagsaðstoð fjölgar og þrátt fyrir að tölurnar séu innan ramma virðist það vegna þess að ekki varð af því að sveitarfélagið þyrfti að greiða fjárhagsaðstoð atvinnulausra á biðtíma. Mjög mikilvægt er að taka upp nýja sýn og stjórnun á því hvernig unnið er með fjárhagsaðstoð og tölur hér sýna að ekki næst nógu mikill árangur með sama áframhaldi. Vilji til þess virðist hins vegar ekki vera til staðar. Hér greinir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og meirihlutans á. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað haldið því fram að mjög mikilvægt sé að skilgreina betur hvaða skyldur fylgja þeim réttindum að fá fjárhagsaðstoð. Mikilvægt er að þetta sé gert til að koma í veg fyrir að fólk einangrist, verði óvirkt og taki ekki nægan þátt né sjái tilgang í að gera það. Um leið og ekkert er gert og vinnubrögðum ekki breytt margfaldast líkurnar á að sami hópur muni eiga við erfið félagsleg og sálfræðileg vandamál til langs tíma.
Þá er nauðsynlegt að staldra við það hvernig fjármagn vegna málefna fatlaðra færist frá ríki til borgarinnar en rekstrartekjur til málaflokksins fylgja útsvarstekjum í réttu hlutfalli. Minni útsvarstekjur leiða af sér minna fjármagn og verði áframhald á því næstu mánuði er ljóst að erfitt verður að mæta kostnaði vegna rekstrar. Nauðsynlegt er að taka reksturinn fastari tökum. Útgjöld Reykjavíkurborgar til velferðarmála eru mun hærra en gengur og gerist í sveitarfélögunum í kring. Þá liggur fyrir að samkvæmt ársreikningi síðasta árs var kostnaður við rekstur þjónustu mun hærri á hvern íbúa í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum. Íbúar fá því ekki að njóta hagræðingar vegna stærðar sveitarfélagsins. Ítrekað hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bent á það að nauðsynlegt sé að horfa skýrar til verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga og taka ekki ákvarðanir um að útvíkka velferðarhlutverk borgarinnar á kostnað þeirrar lögbundnu þjónustu sem sveitarfélaginu er skylt að veita.
3. Kynnt fyrstu drög að fjárhagsáætlun næsta árs og fimm ára áætlun. Lagt fram bréf fjármálaskrifstofu dags. 23. maí 2012 varðandi skil á fyrstu drögum að fjárhagsáætlun 2013 til 2017.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar og sviðsstjóri kynntu drög að fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gagnrýna harðlega aðgengi pólitískra fulltrúa að gögnum fyrir fundinn. Áherslum og forgangsröðun Velferðarsviðs ásamt tölulegu efni var dreift á fundi ráðsins án þess að ráðsmenn hefðu getað kynnt sér innihald skjalsins fyrir fundinn. Um leið er verið að hindra ráðsmenn í að kynna sér málin nægilega vel og hreinlega staðið í veg fyrir upplýstri umræðu um málin. Samkvæmt bréfi fjármálaskrifstofu er helst hægt að lesa að þessi vinna komi minnihlutanum ekki við heldur sé á hendi sviðstjóra og formanns ráðsins að kynna þessi gögn fyrir öðrum í ráðinu. Sveitarfélög eru sjálfstæð stjórnvöld, sem stjórnað er af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins segir í frumvarpi nýrra sveitarstjórnarlaga sem nú hafa tekið gildi. Ekki verður séð að þessi vinnubrögð geti með nokkru móti uppfyllt þetta markmið. Hér koma fram sterkar vísbendingar um að rekstur sviðsins sé orðin of flókinn, mjög erfitt sé að sjá í gegnum hluti, of mikinn tíma þurfi til að koma gögnum til lýðræðislega kjörinna fulltrúa sem sitja sem fulltrúar íbúa í ráðunum. Slíkt ástand leiðir af sér að ábyrgð er tekin af þeim sem hana eiga að bera eða kjörnum fulltrúum og verulega athyglisvert ef að ekki er lengur tími til þess að takast á um það sem skiptir öllu máli eða þær pólitísku áherslur sem liggja til grundvallar þjónustu og verkefnum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokks og Samfylkingar telja nauðsynlegt að taka leikreglur að fjárhagsáætlun til frekari skoðunar með það að augum að auka aðkomu kjörinna fulltrúa að vinnunni. Það á ekki að þurfa að taka mikinn tíma á fundum ráða að takast á um hvernig framkvæma eigi vinnuna þegar allir eru sammála um það að vinnan verður betri þegar allir eru vel upplýstir.
4. Lagt fram minnisblað vegna tillögu um breytingar á reglum um stuðningsþjónustu sbr. umræður á fundi velferðarráðs 3. maí s.l., ásamt umsögn ÖBÍ dags. 10. maí s.l. Ennfremur lagt fram að nýju; tillaga að nýjum reglum stuðningsþjónustu ásamt greinargerð, drög að nýjum reglum um stuðningsþjónustu og minnisblað um helstu ábendingar hagsmunaaðila.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir nú breytingar á reglum um stuðningsþjónustu sem er viðbótarþjónusta við almenna grunnþjónustu og felst í persónulegri ráðgjöf, tilsjón, liðveislu, frekari liðveislu og stuðningsfjölskyldum. Ekki er um umfangsmiklar breytingar að ræða en þær eiga að stuðla að samþættari og heildstæðari þjónustu við notendur út frá þörfum þeirra þar sem jafnræðis er gætt í hlutlægu mati á þjónustuþörf.
Drög að þessum breytingum voru kynnt víða s.s. meðal félags- og hagsmunasamtaka og starfsfólks og stjórnenda Velferðarsviðs. Hagsmunasamtök fatlaðra gagnrýndu að hafa ekki fyrr verið kölluð til samráðs um væntanlegar breytingar. Þessi gagnrýni á rétt á sér og er það skýr vilji velferðarráðs og Velferðarsviðs að vera enn betri í samráði við notendur. Þegar reglurnar verða innleiddar er brýnt að meta þær jafnóðum og niðurstöður matsins rýndar með hlutaðeigandi lykilaðilum, hvort sem um ræðir starfsfólk, notendur eða hagsmunasamtök.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir gagnrýni hagsmunasamtaka fatlaðra um skort á samráði við hagsmunaaðila og situr því hjá um málið.
5. Lögð fram umsögn Velferðarsviðs við tillögu fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 2. febrúar s.l. Ennfremur lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 3. maí s.l.
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði til á fundi ráðsins þann 2. febrúar sl. að boðið yrði upp á þjónustu fyrir tvígreindar konur til jafns við þá þjónustu sem tvígreindum körlum er boðin. Í umsögn Velferðarsviðs um tillöguna kemur fram að þrjár til níu konur hafi þörf fyrir umrætt úrræði. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur því til að þegar í stað verði hafinn undirbúningur að búsetuúrræði fyrir tvígreindar konur.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til stefnumótunar í málefnum utangarðsfólks sem framundan er.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Úrræði fyrir tvígreindar konur verður skoðað í haust samhliða vinnu við gerð nýrrar stefnu í málefnum utangarðsfólks. Gera þarf þarfagreiningu m.t.t. kvenna í þessari aðstöðu sem m.a. felur í sér notendasamráð, skoðun á fjölda kvenna sem glíma við vímuefnafíkn og geðfötlun, hverjar eru aðstæður þeirra nú, hvernig er hópurinn samsettur m.t.t. aldurs, fjölskyldustöðu o.fl. auk þess að huga að staðsetningu, tegund og stærð húsnæðis sem hentar. Reykjavíkurborg opnaði nýtt úrræði fyrir utangarðskonur haustið 2010 og þarf að skoða hvernig það úrræði nýtist þessum hópi.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Af upplýsingum nú liggja fyrir frá sérfræðingum Velferðarsviðs og Geðsviði Landspítalans má ráða að þörf er á heimili fyrir konur með geð- og fíknigreiningu líkt og gert var fyrir karla í sama vanda fyrir stuttu. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði þetta formlega til í ráðinu fyrir 4 mánuðum og því hefur gefist nægur tími til þeirrar þarfagreingar sem Velferðarsvið telur sig þurfa. Reyndar fylgdi engin þarfagreining með gögnum þegar velferðarráð samþykkti að þjónustuúrræði að Miklubraut 20 yrði breytt í búsetukjarna fyrir geðfatlaða/framheilaskaðaða tvígreinda karla sem ekki geta haldið sig frá neyslu. Þar eykst rekstrarkostnaður um meira en helming vegna aukinnar og breyttrar þjónustu (þ.m.t. fjölgun starfsmanna og breytinguna á menntunarstigi). Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði telur að stofnun heimilis fyrir tvígreinda karla hafa verið mikið framfaraskref sem auka muni lífslíkur og lífsgæði viðkomandi einstaklinga. Úrræðið er jafnframt staðfesting á ríkri þörf sem ekki getur aðeins átt við um karla. Það er því ekki seinna vænna að stofna samvarandi heimili fyrir tvígreindar konur þar sem lögð verður áhersla á gerð einstaklingsáætlana og –markmiða og að lágmarka þann skaða sem lífshættir geta valdið, heilsufarslega og fjárhagslega.
Bjarni Karlsson vék af fundi kl. 11.58.
6. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 12. apríl s.l. um fjölda virkra mála á hvern barnaverndarstarfsmann í Reykjavík.
7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 3. maí sl. varðandi sérstakar húsaleigubætur og kerfisbreytingu.
8. Lögð fram til kynningar skýrsla vinnuhóps velferðarráðuneytis um húsnæðisbætur, maí 2012.
9. Málefni flóttamanna; Lagt fram til kynningar bréf velferðarráðuneytisins, dags. 14. maí sl. um beiðni um samstarf vegna móttöku flóttamanna. Jafnframt lagt fram bréf borgarráðs, dags. 21. maí sl. um sama efni.
10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Á 164 fundi velferðarráðs þann 16.06.2011 var fyrsta mál þess fundar:
1. Lögð fram skýrsla starfshóps um sjálfbært félagsstarf, valdefling og þátttaka, maí 2011. Ennfremur lagt fram minnisblað sviðsstjóra.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í velferðarráði óska eftir upplýsingum um afgreiðslu skýrslunnar á fyrrnefndum fundi, hvort skýrslan hafi verið send í borgarráð og hver næstu skref voru fyrirhuguð að aflokinni kynningu og umræðum. Sömuleiðis er óskað eftir upplýsingum um stöðu þessa verkefnis, hvernig því miðar og hver reynslan af verkefninu er, ári eftir að fyrrgreind skýrsla var lögð fram í ráðinu.
11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í velferðarráði leggja til að gerð verði greinargóð úttekt á þeim kostnaði sem Reykjavíkurborg ber vegna velferðarmála og sú úttekt borin saman við þann kostnað sem nágrannasveitarfélög borgarinnar leggja til velferðarmála. Útgjöld Reykjavíkurborgar til velferðarmála eru verulega hærri en nágrannasveitarfélaganna og má áætla að kostnaðarhlutfall Reykjavíkurborgar vegna velferðarmála sé í kringum 17#PR af heildarútgjöldum borgarinnar á meðan að kostnaðarhlutfall nágrannasveitarfélaganna er vel innan við 10#PR af heildarútgjöldum sveitarfélaganna. Nauðsynlegt er að skilgreina þennan kostnað og greina þann mikla mun sem er á milli annars vegar Reykjavíkur og hins vegar nágrannasveitarfélaganna svo mögulega verði hægt að ná fram hagræðingu í rekstri velferðarþjónustunnar í Reykjavík sem og bættri þjónustu.
Málinu er frestað.
12. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska eftir upplýsingum um á hvaða forsendum og í hvers umboði ákveðið var að skerða aðgengi kjörinna fulltrúa að gögnum vegna fjárhagsáætlunar sem lögð eru fram á fundum fagráða um þessar mundir en gögnin voru ekki send út fyrir fund eins og venja er. Í nýjum sveitarstjórnarlögum er kveðið á um markmið laganna og forsendur í 3. grein. Þar er meðal annars kveðið á um að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld sem er stjórnað af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnum í umboði íbúa sveitarfélagsins. Forsendur séu í samræmi við 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að með því að skerða aðgengi að gögnum er verið að takmarka upplýsingaflæði og þar með draga úr stjórnunargetu þeirra sem í ráðunum sitja og koma í veg fyrir nauðsynlega og lýðræðislega umræðu.
Samþykkt var að vísa fyrirspurninni til borgarráðs.
Fundi slitið kl. 12.15
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Diljá Ámundadóttir
Áslaug María Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson